Brautryðjandinn Torfhildur Hólm

9834E4E7-B718-456E-A751-5FA7ABD5D00B

Stundum er erfitt að segja skilið við bók. Persónur sækja að þér, þráður sögunnar slitnar ekki og spinnst áfram þótt höfundurinn hafi lokið sögunni. Sett punkt. Stundum stíga  persónurnar fram  eins og þær vilji þér eitthvað, jafnvel til að leiðrétta  höfundinn. Eins og meinlausir draugar.

Í þetta skipti er það höfundurinn sjálfur sem rígheldur í mig. Vill ekki fara.

Ég hef verið að lesa Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm og hef nú lokið við allt það efni sem ég ræð við,  get nýtt mér . Það er að segja innlesið efni. Auk þess hefur maðurinn minn lesið fyrir mig formála Vilhjálms Þ. Gíslasonar við bók Torfhildar um Brynjólf Sveinsson biskup.

Spurningin sem sækir á mig er,  hvernig gat Torfhildur farið fram hjá mér, bókelskri konunni? Af hverju barst hún ekki í tal á mínu bókelska heimili, eða tók ég bara svona illa eftir? En eitt er víst að í námi mínu í menntaskóla heyrði ég aldrei á hana minnst og það fannst ekki stafur um hana í yfirlitsbókum um bókmenntir.

 

Torfhildur er, ætti að vera,  eitt af stóru nöfnunum í íslenskri bókmenntasögu.

Hún er fædd 1845 á Kálfafellsstað í Austur Skaftafellssýslu og dó 1918 í spænsku veikinni. Hún var líklega fyrst Íslendinga til að vinna  fyrir sér með ritstörfum.

Nú hef ég hlustað á:

Jón biskup Arason,Brynjólf Sveinsson biskup,

Týndu hringarnir,

Seint fyrnast fornar ástir.

Bækurnar  um biskupana eru sögulegar skáldsögur, hinar tvær eru smásögur. Týndu hringarnir komu út í bókinni Draumur um veruleika frá 1977, sem er safn af smásögum eftir konur, ritstýrt af Helgu Kress. Helga hefur einnig skrifað formála og inngang bókarinnar. Allt mjög gefandi. Þessa bók var ég að lesa fyrst núna.    Ég  var hissa á að bókin hefði farið fram hjá mér.  En sé að athuguðu máli,  að þá bjó ég erlendis . Seint er betra en aldrei. Bækurnar Seint fyrnist forn ást og Brynjólfur Sveinsson biskup  voru lesnar í útvarp í kringum 1980. Gerður Steinþórsdóttur  gerði formála að báðum sögunum.

Vilhjálmur segir í formála sínum  að bók Torhildar um Brynjólf Sveinsson  sé hennar langbesta bók. Ég er ekki viss um að svo sé, bækurnar um biskupana eru  ólíkar, Bókin um Jón Arason ber þess vott að bókin kom út sem framhaldssaga í tímariti og er í raun margir sjálfstæðir þættir. Bókin um Brynjólf er heildstæðari en ekki þar með sagt að hún sé betri. Allar eru bækur hennar að sjálfsögðu börn síns tíma. Hvað sem má um það segja er það víst að Torfhildur er brautryðjandi í íslenskum bókmenntum og það hafa margir farið í sporin hennar.

Hér lýkur tilraun minni við að kveðja Torfhildi í bili en vona innst inni að ég eigi eftir að öðlast aðgang að fleiri verkum eftir þessa vænu konu.

Myndin er af blásól


Torfhildur Þ. Hólm: Jón biskup Arason

E67D4025-92BF-4EC0-8E01-9985B892FEB0
Torfhildur Hólm

Stundum líður mér þannig að mig langar bara til að lesa langar bækur. Það var því næstum eins og himnasending þegar tilkynning um bók Torfhildar Hólm; Jón biskup Arason birtist  á Hljóðbókasafninu. Bókin er í tveimur bindum og tekur í heild rúmlega 23  klukkustundir í hlustun.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég tekst á við bók eftir Torfhildi. Ég reyndi að lesa þessa sömu bók fyrir margt löngu og gafst upp. Það var fyrir þann tíma sem ég setti mér þá lífsreglu að ljúka hverri bók sem ég hæfi lestur á.

Torfhildur Hólm er fædd 1845 og deyr 1918 í spænsku veikinni. Hún er þekktust fyrir sínar sögulegar skáldsögur en hún skrifaði einnig smásögur og ritstýrði tímaritum. Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Torfhildi og ég vildi að ég hefði kynnst verkum hennar fyrr, meðan ég hafði augu til að sjá með. Gat grúskað.

En ég ætla því fyrst og fremst að ræða um bókina sem ber titilinn Jón biskup Arason, þótt hún sé ekki bara um hann. Þetta er breið þjóðfélagslýsing sem segir frá lífinu á tímum Jóns Arasonar og segir sögu fjölmargra samtímamanna hans. Þetta er  undarlegur heimur, allir sem koma við sögu, eru að  ota sínum tota og braska með jarðir, hjónabönd og stöðuveitingar. Og Jón karlinn er ekki  barnanna bestur. En höfundur reynir að standa með sínum manni.

Mér fannst umfjöllun Torfhildar um trúmál grunn. Enda vart við því að búast að  Torfhildur sé fær um hlutlausa umfjöllun um katólska trú. Hún er  prestsdóttir og vafalaust  alin upp í anda „siðbótar“ Lúthers.

Og þótt ég segði hér á undan að sagan væri breið frásaga, samfélagslýsing  frá tímum Jóns Arasonar, er það ekki alls kostar rétt. Bókin fjallar um íslenska yfirstétt þess tíma. Fátæklingana vantar.   

Það liggur mikil vinna í þessari bók og líklega mótast frásögnin talsvert af heimildunum sem  Torfhildur hafði aðgang að. Það sem var skrifað og skrásett á þessum  tíma tengist gjarnan jarðakaupum og dómum og svo voru náttúrlega annálar og árbækur Espólíns.

En Torfhildur kann að segja sögu, hún sviðsetur og dregur upp myndir. Lýsingar hennar á himninum, blæbrigðum ljóss og skugga eru svo kröftugar að þær minna á  kvikmynd.

Allir kaflar bókarinnar hefjast á vísu eða máltæki sem vísar  inn í frásöguna sem á eftir  kemur. Mér fannst þessi háttur hennar á að ávarpa eigin texta skemmtilegur. Torfhildur var menntuð kona, lærði m.a. ensku hjá einkakennara. Auk þess var hún sigld, hafði dvalið í Danmörku og 13 ár í Ameríku.   Hún hefur eflaust lesið enska og danska   19. aldar  rómana þótt hún velji sér síðan að skrifa sögulegar skáldsögur.

Það sem er í senn kostur og ókostur þessarar bókar, er að það  koma margir við sögu, mörg nöfn að muna, svo ég tali nú ekki um mægðir, ættir og tengingar. Hún er því svolítið í ætt við Sturlungu. Það er hægt að lesa hana oft.

 

 


Berfætlingarnir! Zaharia Stancu

3E02AEDC-EF9E-4379-9107-2C491CBEDD50

Oftast vel ég bækur af kostgæfni. Ég þekki til þeirra og hef fyrirfram  hugmyndir um hverju þær muni skila mér. Það stenst þó misjafnlega. Í þetta skipti varð fyrir valinu bók sem ég rakst á fyrir tilviljun, eftir höfund, sem ég hef aldrei heyrt nefndan. Ég sá að hún var löng, tvö bindi. Þetta er einmitt bók fyrir mig núna, hugsa ég í miðju kóvítinu. Mig langar til að fara í langt ferðalag innanhúss. 
Bókin gerist í Rúmeníu við upphaf síðustu aldar. Hún kom út í Rúmeníu 1948 en hér om hún út 1958 í þýðingu Halldórs Stefánssonar. 
Sagan lýsir lífi örsnauðs bændafólks sem nær ekki að hafa í sig og á, þrátt fyrir að strita myrkranna á milli. Akrarnir sem það yrkir eru nefnilega ekki þeirra, heldur ríkra landeigenda.Óréttlætið er himinhrópandi. 
Þetta er breið frásögn, sem lýsir lífinu í sveitaþorpi. Í forgrunni er ein fjölskylda, sjónarhornið er ungs drengs, sem ég ímynda mér að sé fulltrúi höfundar, jafnvel hann sjálfur.Þýðandinn segir frá því í formála að höfundur sé að hluta til að     segja eigin sögu en Zaharia Stancu (fæddur 1902 dáinn 1974) var fátækur sveitadrengur sem braust til mennta með fádæma dugnaði Hann nam bókmenntafræði við háskólann í Búkarest.

En til baka til sjálfrar sögunnar.

Bókin fjallar um sveitalíf í Rúmeníu.Efnistökin minna stundum  á Dalalíf.Þó er í þessari sögu frásögnin krydduð með þjóðsögum og jafnvel kveðskap. Við Íslendingar erum vön umræðu  um fátæktina áður fyrr. „Í  okkar harðbýla landi“segja menn. En þegar maður ber saman kjör   sveitafólksins hér heima og í Rúmeníu við upphaf síðustu aldar, þakka ég mínum sæla fyrir að vera úr íslenskri sveit.   Munurinn liggur í eignarhaldi á jörðum. Allt land var

 í eigu stórbænda og smábændur voru nánast réttlausir. Lýsingin á högum fólksins minnir á sögur  af þrælahaldi á plantekrum í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Þarna er sem sagt lýst ójöfnum kjörum. Annars vegar fáeinir auðmenn og hins vegar snauð alþýða. Íslenska fátæktin átti sér það til ágætis að hún var nokkuð jöfn, þá svíður minna.

Í þessari sögu er sveitafólkið ekki bara kúgað af landeigendum, þar sem það   er keyrt áfram með svipum, það eru ekki síður mikil innbyrðis átök á milli fátæklinganna sjálfra  sem bítast um brauðið. Það er einnig víða lýst sundurþykkju og hörku í samskiptum fátæklinganna sjálfra. Þetta örsnauða fólk er beinlíns vont hvert við annað.  Ég er sjálf fædd og uppalin í sveit. Þar hjálpaðist fólk að og var notalegt hvert við annað. Þar var heldur enginn moldríkur.

Rúmenar gerðu tilraun til að bylta samfélaginu 1907 en sú tilraun mistókst enda illa undirbúin og    var barin niður af mikilli grimmd. Það eru margar lýsingar á ofbeldi í þessari bók og sumar eru svo voðalegar að það var erfitt að lesa um  þær.

Sagan um fátæklingana í Rúmeníu, sem áttu ekki einu sinni  skó á fæturna, heldur manni föngnum, rígföstum. Það er eitthvað heillandi við frásagnarmátann sem  ég kann ekki að skilgreina. Setningarnar eru oft stuttar og hnitmiðaðar, svo það er eins og það sé mikill hraði þrátt fyrir að verið sé að lýsa stöðnuðu þjóðfélagi.

Ég mæli með þessari bók, hún er löng og það tekur á mann að lesa hana. Hún er fræðandi og hún skilir líka eftir margar spurningar.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júní 2020
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 190987

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband