30.5.2022 | 18:57
Kjörbúðarkonan: Sayata Nurata
Kjörbúðarkonan
Það er nær pottþétt að velja sér Angústúru bók, ef maður er að velja sér bók að lesa. Þær opna oftast fyrir þér nýjan heim. Samt kom Kjörbúðarkonan eftir Sayata Nurata mér á óvart. Hún heillaði mig.
Hún segir frá ungu stúlkunni Keiko Furukura sem er enn í menntaskóla. Á leið sinni heim úr skólanum villist hún inn í hverfi sem hún þekkir ekki og þar sér hún að það er auglýst eftir afgreiðslustúlku. Hún slær til og sækir um.
Handbók kjörbúðarinnar
Keiko hefur átt í erfiðleikum með að læra á heiminn, hún skilur ekki til hvers er ætlast af henni og hefur því valið þann kost að vera sem mest ein. Þegar hún kemur til starfa (hún er í hlutastarfi) þarf hún að vera á námskeiði. Henni er fengin í hendur bók, handbók verslunarinnar, þar sem nákvæmlega er sagt frá því hvað hún á að gera, hvernig hún á að haga sér. Það sem stendur í handbókinni verður henni opinberun. Nú veit hún hvernig henni ber að vera. Og ef hún er í vafa um eitthvað , getur hún flett því upp. Loksins líður henni vel.
Lífið er ekki bara kjörbúð
Þegar hún er búin í skólanum heldur hún áfram að vinna í búðinni. Hún flytur að heiman og fær sér íbúð. Þegar hún er búin að vinna 16 ár í kjörbúðinni skynjar hún að fólki finnst að það sé engan veginn eðlilegt fyrir konu á hennar aldri að vinna endalaust í kjörbúð. Hún þarf að gifta sig og eiga börn eða fá sér starf sem er hærra metið. Allir virðast vera sammála um þetta. Ekki bara vinkonurnar og foreldrar hennar, heldur líka yngri systir hennar sem skilur hana og hefur oft leiðbeint henni.
Ekki bara í Japan
Ég játa að framan af lestrinum hugsaði ég svona er þetta í Japan, Ísland er öðru vísi. Eða ég hugsaði, Þessi stúlka er greinilega á einhverfurófinu. Líklega Azberger. Samt sem áður læddist að mér sú hugsun að Nurata væri ekki bara að skrifa um lífið í kjörbúðum. Að kjörbúðin stæði fyrir eitthvað annað og meira. Og mér leið ónotalega.
Vantar okkur handbók?
Auðvitað þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur af mér og minni aðlögum, ég hef fyrir löngu lært það sem ég kem til með að læra í samfélagi sem var allt öðru vísi þá en nú. Komin á grafarbakkann. Kannski hef ég aldrei lært að haga mér. Heimurinn í dag er þó miklu flóknari og það er meira frelsi. Og því meira frelsi því meira þarftu að kunna.
Lokaorð
Mér fannst þetta merkileg bók. Hún vekur áleitnar spurningar. Eins og:
Hvernig lærir maður að laga sig sem best að samfélaginu sem maður býr í ?
Og
eigum við að laga okkur að því?
Eða
Þá hverju?
Myndin er af hófsóleyjum á árbakka og kemur ekki efninu við: Einungis til að gleðja augað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2022 | 21:42
Markús: Á flótta í 40 ár: Jón Hjaltason
Markús: Á flótta í 40 ár
Sagnfræðingurinn, Jón Hjaltason segir, að hann hafi einhvern tíma látið það út úr sér, að besta Íslandssagan, og sú sem fólk væri líklegt til að lesa, væri ævisagan. En þá þyrfti skrifa ævisögur þriggja einstaklinga af ólíkum stigum. Á þennan hátt mætti fanga ríkjandi hugarfar, stjórnarfar og efnahag. Auðvitað sagði hann þetta ekki svona, þetta er túlkun mín á hans texta. Eftir að hafa sagt þetta tók hann til við að safna gögnum. Síðan tóku önnur verkefni við.
Og nú tekur Jón Hjaltason sjálfan sig á orðinu og skrifar þá fyrstu bokina. Hún segir okkur sitt hvað um 19. öldina sem er forvitnileg, því hún liggur svo nærri okkur í tíma. Afar mínir og ömmur voru fædd á þessari öld. Þau sögðu mér ýmislegt beint, annað höfðu foreldrar mínir eftir þeim. Mest lærði ég þó af föðurömmu minni, sem bjó á heimilinu.
Markús Ívarsson
Jón velur sér Markús Ívarsson sem viðfangsefni. Hann segist hafa rekist á hann þegar hann var að skrifa sögu Akureyrar. Markús er fæddur árið 1833 að Torfum í Eyjafirði. Jón telur að uppeldi hans hafi ekki verið verið frábrugðið því sem þá tíðkaðist.
Hann var sonur efnalítlla foreldra sem flosna síðan upp. Frá 8 ára aldri er Markús hjá vandalausum og verður loks vinnumaður. Hann er vel að manni og virðist hafa haft mikla kvenhylli. Hann eignaðist 15 börn með 8 konum. Það var þó ekki þess vegna sem hann komst í kast við lög, heldur hitt að hann var uppvís að því að stela kindum. Hann var dæmdur í tvígang. Í annað skipti í fangelsi í Kaupmannahöfn og í hitt skipti flúði hann úr fangelsi áður en dómur var upp kveðinn. Þá hvarf hann í 40 ár.
Dæmisaga
Í bókinni rekur höfundur sögu Markúsar og gerir grein fyrir samferðafólki hans. En af og til rýfur hann frásögnina með því sem hann kallar millikafla þar sem hann segir frá kerfinu sem þá gilti og skýrir orð sem koma fyrir í textanum.
Heimildavinna
Öll sagan er rakin samkvæmt heimildum. Hann segir frá heilmildum sínum jafnóðum. Þetta gerði að ég sem lesandi fannst ég vera á vissan hátt þátttakandi í þessari rannsóknarvinnu. Að sjálfsögðu vísar hann
til annarra fræðimanna og oft sendir hann þeim pillu um að þeir hafi fullyrt of mikið, alhæft á grundvelli of lítilla rannsókna.
Mín upplifun
Mér fannst þetta skemmtileg lesning og fannst oft á tíðum að bókin hefði mátt vera lengri. Að vísu fannst mér stundum erfitt að átta mig á landafræðinni í Eyjafirði, hefði viljað sjá þetta á korti. Kannski eru kort í bókinni en ég meðtók söguna sem hljóðbók. En þegar frásagan færðist vestur á Snæfellsnes, en þangað fór Markús, var ég ekki í neinum vandræðum með að átta mig á staðháttum.
Þarf 3 ævisögur
Ég er sammála höfundi að ævisagan sé góð nálgun þegar kemur að því að rannsaka söguna. En þurfum við þrjár? Er ekki búið að skrifa nægilega mikið af sögum ríkra og frægra? Kannski vantar okkur nú bara sögu alþýðukonunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2022 | 21:02
Utangarðs? Bækur eftir Auði Jónsdóttur og Steinunni Sigurðardóttur
Utangarðs
Ég var að ljúka við að lesa tvær bækur, Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur og Allir fuglar fljúga í ljósið eftir Auði Jónsdóttur. Báðar þessar bækur fjalla um konur sem virðast hafa kosið að lifa utan við samfélagið. Eða að minnsta kosti til hliðar við það.
Allir fuglar fljúga í ljósið
Ég las Auðar bók fyrst.
Aðalpersóna bókarinnar, Björt, virðist hafa bugast þegar maðurinn sem hún elskar segir henni upp. Hún hefur áður verið gift manni sem var ríkur og þekktur. Þau lifðu hátt og voru á forsíðum slúðurblaðanna. Hún átti líka góða vinkonu, Veru. Þær tengdust báðar tískubransanum, voru fyrirsætur. Nú leigir Björt herbergi í húsi sem er leigt út til fólks sem er í svipaðri stöðu og hún. Björt skilgreinir sjálfa sig sem ráfara. Hún ráfar um og fylgist með fólki. Stundum dregur hún upp minnisbók og skrifar hjá sér athuganir sínar.
Systu megin
Systa sér fyrir sér með því að safna dósum. Hún býr í kjallarakompu, hefur ekki aðgang að baðherbergi. Hún notar kemískt klósett og fer reglulega í Sundhöllina að baða sig. Hún nýtur þess að setjast inn á bókasöfn, vera þar í hlýjunni og lesa. Þarna hefur hún líka að sjálfsögðu aðgang að vatnsklósetti. Systa á líka vinkonu, Lóló. Hún er enn verr sett en hún, einfætt drykkjukona. Ástæðuna fyrir því að svona komið fyrir Systu er móðir hennar. Hún er vond við börnin sín, Systu og Brósa. En faðir þeirra var góður við þau og þegar hann deyr flytur Systa að heiman og tekur upp þennan lífsmáta. Bróðir hennar flýr líka heimilið en segir sig ekki úr lögum við það sem telst vera eðlilegt líf. Móðir þeirra situr eftir í fínu húsi á Fjólugötunni og er virðuleg kona sem sinnir mannúðarmálum.
Líkt og ólíkt
Það sem er sameiginlegt með þessum konum er að þær eru báðar afskaplega skipulagðar. Þær skipuleggja tímann sinn og vita nákvæmlega hverju þær hafa efni á og hverju ekki. Þær vilja vera sjálfstæðar, ekki þiggja neitt, vera frjálsar. Eða hvað?
Þessar sögur eiga enn eitt sameiginlegt; það er að ég skil þær ekki almennilega. Tengi ekki við persónurnar.
Mig langar að sjá hvernig fer fyrir þessum konum, sitja þær fastar í sama farinu?
Veislan
Auður líkur sinni sögu með því að láta Björtu bjóða samleigjendum sínum í mat. Hún gerir dýrindis nautakjötspottrétt, Buff Stroganoff, handa þeim, hellir rauðvíni í glös. Það er skálað. Heimur Bjartar byrjar að breytast strax og hún tekur ákvörðun um að bjóða til veislu. Fásagan af matreiðslunni er stórkostleg. Er til nokkuð félagslegra en að borða saman. Líf Bjartar hefur öðlast tilgang.
Undirskriftin
Síðasti hluti í bókar Steinunnar er torræðari. Frásagnarhátturinn breytist, verður allt að því absúrd. Stundum er frásögnin runur af samhengislausum orðum. Minnti mig á þegar ég hlustaði á leiklestur á Sköllóttu söngkonunni eftir Eugene Ionessco fyrir margt löngu.
Það kemur nýtt fólk til sögunnar. Meðal annars Ketill, maður með austrænt útlit sem talar lýtalausa íslensku. Hann er forstöðumaður fyrirtækis eða safnaðar sem heitir Kvennabrekka. Systu stendur til boða að vinna hjá honum og fær þá mat og húsnæði ævilangt. Þegar kemur að því að skrifa undir samning sér hún að samningurinn er á tælensku. Ketill er ekki tilbúinn að þýða hann á íslensku. Ber því við að það sé of tafsamt. Systa minnist þá ráðgjafar móður sinnar um að skrifa aldrei undir eitthvað sem þú skilur ekki. Hún hættir við að ráða sig þótt hún sé búin að segja upp húsnæðinu. Hún hefur ekki í neitt hús að venda. Það er frost og hríð. Eins og af tilviljun finnur hún Lóló vinkonu sína gegnumkalda.
Ég lesandinn, veit ekki hvað er framundan. Hún druslar vinkonu sinni upp á vagninn hjá sér og stefnir til sjávar. Ætlar hún að ganga í sjóinn?
Er engin von?
Utangarðs
Það var tilviljun að ég las þessar bækur hvora á eftir annarri og fór að bera þær saman. Utangarðskonurnar sem lýst er, eru ekki líkar, það eru kringumstæðurnar sem tengja þær. Sjálfsagt er því einnig þannig varið með annað utangarðsfólk. Það er jafn ólíkt og það er margt.
Í mínum huga felur orðið utangarðs í sér útilokun frá samneyti við annað fólk og það nær út fyrir gröf og dauða. Það er svo sannarlega ástæða til að kryfja af hverju þetta stafar. Þýðir utangarðs e.t.v. það sama og útskúfun?
Lokaorð
Báðir þessir höfundar, Auður og Steinun skrifa leikandi létt, eru stílistar. En það breytir ekki því að mér finnst að ég viti ekki almennilega hvað þær eru að meina með sögum sínum. Og mér er ekki sama.
Myndin er af verki eftir Sölva Helgason
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2022 | 13:45
Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu: Olga Tokarczuk
Í bókinni, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk, fær lesandinn að kynnast aldraðri og veikri konu, Janinu sem býr í afskekktu sumarhúsaþorpi í Póllandi. Hún lítur eftir húsum nokkurra kunningja sinna sem eiga þarna hús líka. Reyndar finnst mér dálítið erfitt að átta mig á henni. Ég veit ekki einu sinni hversu gömul hún er. En skiptir það máli? Auk þess að líta eftir húsunum, vinnur hún að því í samvinnu við vin sinn og fyrrum nemanda að þýða verk Williams Blake á pólsku.
Árátta eða tæki til að skilja heiminn?
Þetta er sérstök kona. Hún trúir á stjörnuspár. Líf mannanna í heiminum stýrist af gangi himintunglanna. Já, ekki bara líf mannanna, heldur allt það sem gerist í heiminum. Og Janina kann að gera stjörnuspár, með því að draga upp kort af gangi stjarnanna. Hún veit hvenær hún á að deyja. En það er ekki bara þetta sem er sérstakt við hana, hún hefur mikla ást á dýrum. Öllum dýrum. Og hún trúir því að öll líf, líf manna og dýra, séu jafn verðmæt.
Á gönguferðum sínum hefur hún fylgst með dýrunum í nágrenni þorpsins og hún veit að það eru stundaðar ólögmætar veiðar á villtum dýrum. Hún hefur sent inn kærur til yfirvalda þar að lútandi. Tíkurnar hennar, sem hún kallar stelpurnar sínar, hafa horfið.
Að vetrarlagi er bara búið í þremur húsum í þessu þorpi. Þegar nágranni hennar bakar uppá hjá henni að næturlagi og segir henni að nágranni þeirra sé dáinn má segja að þá hefjist nýr kafli í þessari sögu. Það týnast fleiri menn. Sagan breytist að einhverju leyti í glæpasögu.
Gamla konan, aðalpersóna sögunnar, er reyndar ekki svo upptekin af þessum mannslátum. Hún sér engan mun á því að einn og einn maður hverfi og á því að það fækki í rádýrahjörðinni sem kom frá Slóvakíu. Og svo stendur þetta allt saman skrifað í stjörnurnar.
Er þetta ekki bara klikkuð kerling?
Hvað er það þá sem er svo merkilegt við þessa kerlingu? Er hún ekki bara klikkuð eins og yfir völd segja um hana, ekki við hana, þegar hún skrifar þeim kvörtunarbréf. Kannski er hún það en málefnin sem hún trúir á og vill fá umfjöllun um eru merkileg og hennar tími og okkar tími kallar á umfjöllun um þau. Hvað er brýnna í nútímanum en að fjalla um og skilja náttúruna allt í kringum okkur. Og þá sér í lagi að skilja samskipti manns og náttúru?
Og hitt málefnið, sem hún er svo upptekin af, trúir á, þ.e.a.s. að allt sé fyrirfram ákveðið og hægt sé að lesa það út frá gangi himintunglanna. Er þarna ekki bara verið að varpa fram spurningu um frelsi mannsins. Er maðurinn frjáls og kann hann að nýta það?
En hvað þá með Blake gamla? Hvað stendur hann fyrir? Er hún ekki bara að benda á líkn listarinnar fyrir manninn á þessum óvissutímum sem hann valdi sjálfur með því að borða af skilningstré góðs og ills?
Mér fannst gaman að lesa þessa bók, af því að hún þvingaði mig til að hugsa um það sem er mikilvægt, vegna þess að við þurfum að geta svarað spurningum sem ef til vill er ekkert svar við.
Glæpasagan í sögunni spillti ekki, en í raun var hún bara eðlilegur hluti sögunnar.
Það var Árni Óskarsson sem þýddi og mikið var ég fegin að fá hana á íslensku, tungumálinu sem ég hugsa á, tungumáli drauma minna. Ég hef áður hlustað á Jakobsböckerna eftir samka höfund á sænsku, stórkostleg bók en það hefði berið enn betra að hlusta á hana á íslensku.
Örstutt um höfundinn
Olga Tokarczuk pólskur rithöfundur, fædd 1962. Hún er menntuð sem sálfræðingur og hefur unnið sem slík. Jafnframt því að vinna að list sinni, hefur hún verið virk í jafnréttis- og lýðræðisbaráttu í heimalandi sínu. Hún fékk Nóbelsverðlaunin 2018.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 12
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 61
- Frá upphafi: 190427
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar