23.3.2013 | 01:58
Iðrun:Hanne-Vibeke Holst
Fáni Vendelsýslu
Ég ætla ekki að skrifa langt mál um þessa bók en hún olli mér vonbrigðum. Hún var ágætlega auglýst og mér leist vel á efnið. Höfundurinn kom vel fyrir, auk þess þekkti ég til sjónvarpsmynda sem hún var höfundurinn að. Þetta er ættarsaga þar sem höfundurinn byggir að því sagt er á eigin fjölskyldu. Reyndar eru þetta eru tvær samtvinnaðar sögur, önnur í nútíð en hin í þátíð. Frásögnin hefst á því að segja frá prestfjölskyldu í Vendelsysle í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Hin sagan segir frá stjórnsamri nútímakonu sem stýrir óperuhúsi í Þýskalandi, en sú hin sama á í erfiðleikum með samband sitt við dóttur sína. Og þegar dóttirin kynnir fyrir henni kærastann veit hún enn ekki lengur hvað er upp eða niður á lífinu. Framgangsríka óperustýran er barnabarn gömlu presthjónanna og smátt og smátt fær lesandinn að kynnast því hvernig lygin hefur holað innan líf þeirra allra.
Gæti svo sem verið góð saga en það vantaði eitthvað til þess að ég tryði henni, fólkið lifnaði ekki við, það var einhvern veginn óraunverulegt. Tvíburarnir synir presthjónanna voru eins og Jón Oddur og Jón Bjarni í sögu Guðrúnar Helgadóttur þar sem þeir passa reyndar ágætlega og kannski hefur litla heyrnarlausa Karen verið eins og Selma systir þeirra. Efnið um andspyrnuhreyfinguna var eins og samtíningur héðan og þaðan og allt í einu fór mig að langa að endurlesa bæði Frydenholm og Idealister eftir Hans Scherfig.
Bókin er 495 síður svo ég þurfti að beita mig miklum sjálfsaga til að ljúka henni en þar sem hún er skyldulesning fyrir lestrarklúbbinn og ég samviskusöm hélt ég það út.
Lokaorð: Ég er sem sagt ekki hrifin af þessari bók en kannski verður það til að ég dreg fram minn gamla og góða Scherfig og nýt þess að lesa krassandi bók.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2013 | 23:47
LÍTIÐ UNGT STÖFUNARBARN:Stafrófskver frá 1782
Stundum koma bækur bókstaflega til manns. Þegar ég fór á bókamarkaðinn í Perlunni á síðasta degi, hafði ég tekið þá ákvörðun með sjálfri mér að stilla bókakaupum mínum í hóf. Eiginlega vantar mig ekki bækur, miklu frekar tíma til að lesa þær, því nú fer ævina að styttast í annan endann. Ég greip þó nokkrar ljóðabækur, þær eru oftast fljótlesnar. Annað ekki. En allt í einu var eins og ein bókin í hillunni talaði við mig einslega og hún sannfærði mig, áður en ég tók hana upp, að hún væri fyrir mig. Þetta var endurútgáfa af stafrófskveri frá 1782 eftir Gunnar Pálsson í Hjarðarholti (hann var bróðir Bjarna Pálssonar landlæknis). Þetta litla kver er svo endurútgefið 1982 af Iðunni í samvinnu við Landsbókasafn Íslands í 600 eintökum.
Gunnar Sveinsson skrifar formála fyrir að kverinu. Þetta er dásamleg lesning. Hann segir frá höfundi verksins og þessum erfiðu tímum þegar hann lifði. Hann var prestur, mikill lærdómsmaður og skólamaður en þó sér í lagi góður kennari. Gunnar Pálsson var góður að kenna börnum og var stoltur af því. Hann hafði lengi notað sínar aðferðir og búið til eigið efni til að kenna börnum að lesa en að lokum safnaði hann þessu saman og úr varð þetta einkar fallegt kver sem prentað var í Hrappsey. Þetta kver markaði tímamót í lestrarkennslu því þar kemur fram sérstakur skilningur á því sem í dag væru kallað lestrarfræði.
En þótt séra Gunnar Pálsson væri vel menntaður, fræðimaður og góður kennari átti hann í stöðugu basli með eigin fjármál og var að lokum settur af vegna skulda við kirkjuna. Það má ekki gleyma því að þetta voru erfiðir tímar, hörmungartímar.
Það er merkilegt að lesa og handleika þessa gersemi og ég er mest hissa á að hún skuli ekki löngu vera uppseld. Ég keypti hana á síðasta degi bókamarkaðarins án þess á þekkja til hennar. Nú sé ég eftir að hafa ekki keypt öll eintökin.
Endurútgefið Lítið ungt stöfunarbarn er falleg bók og það er gaman að handleika hana
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2013 | 17:33
Óvinurinn: Emmanuel Carrére: Í boði Sigurðar Pálssonar
Nú er ég ekki bara í einum leshópi, heldur tveimur, það er gaman. Það er nóg til af bókum og ég hef mikinn tíma til að lesa og þá er svo gaman að hafa einhverja að ræða við. Fyrsta bókin sem ég les í nýja leshópnum mínum heitir Óvinurinn og er um mann sem lygalaup og morðingja. Það var Sigurður Pálsson sem þýddi þessa bók og ég verð að játa að val mitt á erlendum bókum eftir höfunda sem ég þekki ekki ræðst oft af þýðandanum. Ég þykist þess fullviss að Sigurður Pálsson taki ekki niður fyrir sig þegar hann tekur að sér bók til þýðingar.
Bókin kom út í Frakklandi 2000 og hjá JPV útgáfunni 2002 og hún byggir á raunverulegum atburðum. Hún fjallar um morðmál sem komst í heimsfréttirnar 1993. Jean-Claude Romand myrti konu sína, börn og foreldra. Allir sem þekktu hann höfðu trúað því að hann væri virtur læknir og vísindamaður. En annað kom í ljós. Líf hans var einn lygavefur eða ef til vill er réttara að kalla það flækju.
Rithöfundurinn sem segir söguna greinir frá því að hann hafi fundið sig tilknúinn að ráða gátuna á bak við þetta óhuggulega og sérstaka mál og lagt frá sér annað verkefni sem hann var að sinna. Af hverju gerði maðurinn þetta og af hverju trúðu honum allir? Þar með er rithöfundurinn orðin persóna í eigin sögu, hann segir frá eigin hugleiðingum, hann er kominn í spor fólksins sem þekkir morðingjann og stendur frami fyrir fyrir ráðgátu sem snertir bæði tilfinningar og siðferðiskennd. Hver er sekt þeirra sem sáu ekki í gegnum lygarnar? Hvernig umgengst maður mann sem hefur gert sig sekan um svo hræðilegan hlut?
Auðvitað er það morðinginn sem er aðalpersónan í þessari sögu en hann út af fyrir sig er kannski ekki svo spennandi persóna þar sem hann hefur verið afhjúpaður. Það sem heldur þessari sögu gangandi er spennan í kringum hvernig þetta var hægt og spurningin af hverju allir trúðu honum. Hann kemst ekki bara upp með að segjast vera læknir, vísindamaður og starfsmaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar heldur trúir fólk honum fyrir fjármunum og velur hann sem guðföður barna sinna. Reyndar held ég að fólki sé það áskapað að treysta fólki. Kannski sem betur fer, skárra væri það nú. Mesta samúð hafði ég þó með góðmenninu Luc, vini hans sem stendur algjörlega varnarlaus gagnvart vonsku heimsins.
Rithöfundurinn lýsir því hvernig hann nálgast verkið en fræi efa vantrausts hefur verið sáð og hvers vegna ætti ég að trúa honum? Hann hefur úr miklu efni að moða, fær aðgang að réttarhöldunum, skjölum og talar við fjölda fólks. Skrifast á við fangann og gengur svo langt að heimsækja hann í fangelsið. Þetta er lipurlega skrifuð bók. En ekki get ég þó sagt að rithöfundinum hafi tekist ætlunarverk enda er hann að takast á við verkefni sem margir djúpvitringar hafa reynt að takast á við og oft talið einu lausn þess felast i orðunum VEGIR GUÐS ERU ÓRANNSAKANLEGIR.
Nú bíð ég spennt eftir því hvað stöllur mínar í leshópnum segja um þessa bók
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2013 | 22:29
Einkaparadísin hrundi: Clauia Pineiro: Torsdagsänkorna
Ég fékk þessa bók alveg óvænt upp í hendurnar, hafði aldrei heyrt höfundinn nefndan á nafn en konan sem lánaði mér hana sagði að kannski væri þetta einmitt bók fyrir mig. Bókin er á sænsku en hún er eftir argentínskan höfund. Þegar maður slær nafninu upp á netinu virðis hún vera þó vel þekkt í hinum spænskumælandi heimi.
Nafn bókarinnar vísar til nafngiftar sem lítill hópur kvenna hafði gefið sjálfum sér, vegna þess að þær voru alltaf yfirgefnar af mönnum sínum á fimmtudögum en þá skemmtu þeir sér saman. Þetta var auðvitað í gríni gert, vísaði til nafngiftar sem er notað um konur golfspilara.
Sagan segir frá lífinu í hverfi eða svæði sem er afgirt og varið fyrir óviðkomandi, þangað komast engir nema með leyfi hliðvarða. Þarna býr vel stætt fólk sem er búið að fá nóg af stórborginni, vill búa öruggt og fínt og er tilbúið að borga fyrir það. Allar aðstæður eru sniðnar að þörfum íbúanna, meira að segja náttúran er "lagfærð", það er skipt um grastegund í grasflötunum á vorin til að fá gras með réttum lit. Öll náttúran er tilbúin. Þetta er semsagt frásaga frá sérheimi efnafólks í landi sem ég veit lítið um. Auðvitað notaði ég tækifærið og las mér til á netinu.
Argentína er stórt land, þar búa yfir 41 milljón manneskjur og ólíkt því sem gerist í öðrum löndum Suður Ameríku eru hvítir íbúarnir í miklum meiri hluta. Þetta er í raun ríkt land en 2001 fór að efnahagur landsins í rúst og þar varð hrun ekki ólíkt því sem við þekkjum. Þeir áttu líka sína búsáhaldabyltingu og það eru einmitt þetta efnahagsástand sem er bakgrunnur þessarar sögu þó það sé ekki fjallað um það beint.
Fólkið í Altos de la Casaa var allt svo öruggt að fólkið læsti ekki einu sinni húsinu heima hjá sér. Ef einhver vandamál komu upp hjá börnunum voru þau leyst innan svæðisins. Fólk hjálpaðist að. Og þegar það fór að harðna á dalnum hjá fólki var ekki talað um það heldur látið sem allt væri í stakasta lagi, það kemur ekkert fyrir hjá okkur. En þegar ósköpin dundu yfir og augu Virginíu, sögumanns sögunnar opnuðust, vernduðu ekki vopnaðir verðir og girðingar, paradísin hrundi innan frá.
Í bókarlok eru sumar fimmtudagsekkjurnar orðnar raunverulegar ekkjur. Þetta er nístandi saga um varnarleysi þeirra sem búa við falskt öryggi.
Mikið er ég heppin manneskja að fá þessa bók allt í einu upp í hendurnar og fá að kíkja inn í veröld sem er svo langt í burtu, fá örlitla innsýn í annan menningarheim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2013 | 16:39
Ósjálfrátt; Auður Jónsdóttir
Ósjálfrátt er þroskasaga stúlku. Um leið fjallar hún um það hvernig þessi stúlka rígheldur í þá innri sannfæringu sína að hún ætli eða þurfi að skrifa. Það er óttalegur tætingur á henni, hún dettur út úr skóla og yfirgefur heimili sitt og ætlar sér að bjarga miklu eldri manni frá sjálfum sér með því að giftast honum. En hún er lánsöm í öllu lánleysinu og kynnist mörgu góðu fólki sem styður hana og vill henni vel.
Ég veit að höfundur byggir bókina á sínu eigin lífi, ég veit ekki hvort það á að kalla þetta skáldsögu eða ævisögu. Kannski skiptir það ekki máli en ég finn að það hefur áhrif á mig sem lesanda. Það sem mér finnst erfitt er að ég veit nær alltaf hver er hver í bókinni. Og þá fer ég að velta fyrir mér hvernig þeir bregðist nú við. Eina persónu þekkti ég þó ekki, það var skíðadrottningin og ég stóð mig að því að grafast fyrir um hver raunverulega persónan á bak við Rúnu Steingrímsdóttur væri. Á eftir var ég hreint ekki ánægð með sjálfa mig, mér fannst ég vera slúðurkerling.
Mér fannst sagan svolítið stirð í byrjun en eftir að sem á leið lifnaði yfir henni. Það eru margar góðar persónulýsingar í þessari bók, ég held að mér finnist þó myndin sem sögumaður dregur upp af ömmu sinni tilkomumest en hún er í senn óvenjuleg og hrífandi persóna. Þegar maður veit að á bak við hverja persónu er önnur sem tilheyrir okkar hverdagslega heimi utan bókmenntanna er maður enn viðkvæmari fyrir því hvernig þeim er lýst. Auður Jónsdóttir gengur nærri persónum sínum en hún má eiga það að hún fer um þá mjúkum höndum um fólkið sitt og það er mikil hlýja og mikill kærleikur í þessari bók þrátt fyrir umkomuleysið og alla vitleysuna sem oftast umlykur barnið og síðar konuna sem er að þroskast.
Þó Eyja, sem er sögumaður og eiginleg aðalpersóna í þessari bók, er það tvímælalaust önnur persóna sem er í aðalhlutverki, þ.e. Alkóhólismus. Hann er þeim eiginleikum gæddur að hann getur tekið á sér ýmsar myndir og það er ekki alltaf auðvelt að þekkja hann eða er okkur það óljúft? Mér finnst höfundur ef til vill gera honum óþarflega lítil skil miðað við hvað hann leikur stórt hlutverk, er víða örlagavaldur. Ég fór meira að segja að óttast að aðalpersónan Eyja væri ekki til fulls búin að læra að þekkja hann og varast. Reyndur lætur höfundur hana velta fyrir sér samsetningu þessarar persónu, þ.e. hversu mikið af tilvist hans réðist af genum og hversu mikið af aðstæðum. Ég vona fyrir hönd Eyju að hún geri sér grein fyrir að það er hún sjálf og hún ein sem ræður tilvist hans.
Mér fannst þetta góð bók, hún er í senn einlæg og útpæld og henni er haldið uppi af mikilli frásagnargleði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 4
- Sl. sólarhring: 22
- Sl. viku: 78
- Frá upphafi: 190475
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 50
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar