Óvinurinn: Emmanuel Carrére: Í boði Sigurðar Pálssonar

Nú er ég ekki bara í einum leshópi, heldur tveimur, það er gaman. Það er nóg til af bókum og ég hef mikinn tíma til að lesa og þá er svo gaman að hafa einhverja að ræða við. Fyrsta bókin sem ég les í nýja leshópnum mínum heitir Óvinurinn og er um mann sem lygalaup og morðingja. Það var Sigurður Pálsson sem þýddi þessa bók og ég verð að játa að val mitt á erlendum bókum eftir höfunda sem ég þekki ekki ræðst oft af þýðandanum. Ég þykist þess fullviss að Sigurður Pálsson taki  ekki niður fyrir sig þegar hann tekur að  sér bók til þýðingar.

Bókin kom út í Frakklandi 2000 og hjá JPV útgáfunni 2002 og hún byggir á raunverulegum atburðum. Hún fjallar um morðmál sem komst í heimsfréttirnar 1993. Jean-Claude Romand myrti konu sína, börn og  foreldra.  Allir sem þekktu hann höfðu trúað því að hann væri virtur læknir og vísindamaður.  En annað kom í ljós. Líf hans var einn lygavefur eða ef til vill er réttara að kalla það flækju.

Rithöfundurinn sem segir söguna greinir frá því að hann hafi fundið sig tilknúinn að ráða gátuna á bak við þetta óhuggulega og sérstaka mál og lagt frá sér annað verkefni sem hann var að sinna. Af hverju gerði maðurinn þetta og af hverju trúðu honum allir? Þar með er rithöfundurinn orðin persóna í eigin sögu, hann segir frá eigin hugleiðingum, hann er kominn í spor fólksins sem þekkir morðingjann og stendur frami fyrir fyrir ráðgátu sem snertir bæði tilfinningar og siðferðiskennd. Hver er sekt þeirra sem sáu ekki í gegnum lygarnar? Hvernig umgengst maður mann sem hefur gert sig sekan um svo hræðilegan hlut?

Auðvitað er það morðinginn sem er aðalpersónan í þessari sögu en hann út af fyrir sig er kannski ekki svo spennandi persóna þar sem hann hefur verið afhjúpaður. Það sem heldur þessari sögu gangandi er spennan í kringum hvernig þetta var hægt og spurningin af hverju allir trúðu honum. Hann kemst ekki bara upp með að segjast vera læknir, vísindamaður og starfsmaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar heldur trúir fólk honum fyrir fjármunum og velur hann sem guðföður barna sinna. Reyndar held ég að fólki sé það áskapað að treysta fólki. Kannski sem betur fer, skárra væri það nú. Mesta samúð hafði ég þó með góðmenninu Luc, vini hans sem stendur algjörlega varnarlaus gagnvart vonsku heimsins.

Rithöfundurinn lýsir því hvernig hann nálgast verkið en fræi efa vantrausts hefur verið sáð og hvers vegna ætti ég að trúa honum? Hann hefur úr miklu efni að moða, fær aðgang að réttarhöldunum, skjölum og talar við fjölda fólks. Skrifast á við fangann og gengur svo langt að heimsækja hann í fangelsið. Þetta er lipurlega skrifuð bók. En ekki get ég þó sagt að rithöfundinum hafi tekist ætlunarverk enda er hann að takast á við verkefni sem margir djúpvitringar hafa reynt að takast á við og oft talið einu  lausn þess felast i orðunum VEGIR GUÐS ERU ÓRANNSAKANLEGIR.

Nú bíð ég spennt eftir því hvað stöllur mínar í leshópnum segja um þessa bók


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég las þessa bók á frönsku, stuttu eftir að hún kom út, og ég var hálf ringluð um tíma eftir lesturinn. Það sem situr eftir í mér svona löngu seinna, er óhugnaður, og einhvern veginn finnst mér, að þetta geti komið fyrir, ef til of mikils væri ætlast af einhverri persónu og var ég þá helzt að hugsa um börn, sem foreldrar eiga til að ætlast of mikils af. Er þetta ekki einhver tegund af "mythomanie" ? Ég veit um mann, sem hrjáðist af einhvers konar mythomanie og verð að játa, að það er ekki svo auðvelt að sjá í gegnum lygarnar, sérstaklega þegar maður hefur engin tækifæri til að tékka á staðreyndum, eins og sögupersónan reyndi að passa mjög vel upp á.

Kv. Eia

Eiríksína Ásgrímsdóttir - Frakklandi (IP-tala skráð) 14.3.2013 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 18
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 93
  • Frá upphafi: 187286

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 84
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband