Ósjálfrátt; Auður Jónsdóttir

Ósjálfrátt er þroskasaga stúlku. Um leið fjallar hún um það hvernig þessi stúlka rígheldur í þá innri sannfæringu sína að hún ætli eða þurfi að skrifa. Það er óttalegur tætingur á henni, hún dettur út úr skóla og yfirgefur heimili sitt og ætlar sér að bjarga miklu eldri manni frá sjálfum sér með því að giftast honum. En hún er lánsöm í öllu lánleysinu og kynnist mörgu góðu fólki sem styður hana og vill henni vel.

Ég veit að höfundur byggir bókina á sínu eigin lífi, ég veit ekki hvort það á að kalla þetta skáldsögu eða ævisögu. Kannski skiptir það ekki máli en ég finn að það hefur áhrif á mig sem lesanda. Það sem mér finnst erfitt er að ég veit nær alltaf hver er hver í bókinni. Og þá fer ég að velta fyrir mér hvernig þeir bregðist nú við. Eina persónu þekkti ég þó ekki, það var skíðadrottningin og ég stóð mig að því að grafast fyrir um hver raunverulega persónan á bak við Rúnu Steingrímsdóttur væri. Á eftir var ég hreint ekki ánægð með sjálfa mig, mér fannst ég vera slúðurkerling.

Mér fannst sagan svolítið stirð í byrjun en eftir að sem á leið lifnaði yfir henni. Það eru margar góðar persónulýsingar í þessari bók, ég held að mér finnist þó myndin sem sögumaður dregur upp af ömmu sinni tilkomumest en hún er í senn óvenjuleg og hrífandi persóna. Þegar maður veit að á bak við hverja persónu er önnur sem tilheyrir okkar hverdagslega heimi utan bókmenntanna er maður enn viðkvæmari fyrir því hvernig þeim er lýst. Auður Jónsdóttir gengur nærri persónum sínum en hún má eiga það að hún fer um þá mjúkum höndum um fólkið sitt og það er mikil hlýja og mikill kærleikur í þessari bók þrátt fyrir umkomuleysið og alla vitleysuna sem oftast umlykur barnið og síðar konuna sem er að þroskast.

Þó Eyja, sem er sögumaður og eiginleg aðalpersóna í þessari bók, er það tvímælalaust önnur persóna sem er í aðalhlutverki, þ.e. Alkóhólismus. Hann er þeim eiginleikum gæddur að hann getur tekið á sér ýmsar myndir og það er ekki alltaf auðvelt að þekkja hann eða er okkur það óljúft? Mér finnst höfundur ef til vill gera honum óþarflega lítil skil miðað við hvað hann leikur stórt hlutverk, er víða örlagavaldur. Ég fór meira að segja að óttast að aðalpersónan Eyja væri ekki til fulls búin að læra að þekkja hann og varast. Reyndur lætur höfundur hana velta fyrir sér samsetningu þessarar persónu, þ.e. hversu mikið af tilvist hans réðist af genum og hversu mikið af aðstæðum. Ég vona fyrir hönd Eyju að hún geri sér grein fyrir  að það er hún sjálf og hún ein sem ræður tilvist hans.

Mér fannst þetta góð bók, hún er í senn einlæg og útpæld og henni er haldið uppi af mikilli frásagnargleði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Auður er einfaldlega frábær rithöfundur, vanmetin vegna ætternisins síns, fordóma og öfundar, en alls ekki síður hæfileikarík en afi sinn. Amma hennar hefur haft vit á að sjá það. Gott að eiga góða að. 

Lesandinn (IP-tala skráð) 3.3.2013 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 186943

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband