Þess vegna hleyp ég

 Í hvert skipti sem ég fer út að skokka lofa ég sjálfri mér að pína mig ekki, taka þetta rólega, vera góð við sjálfa mig. Og í hvert einasta skipti (næstum) svík ég sjálfa mig. Metnaðurinn tekur ráðin af mér en ég tek ekki eftir því, hugurinn er annars staðar og ekki alltaf þar sem ég vil að hann sé. Mér hættir til að detta inn í gagnlausar vanahugsanir. Þær eru gjarnan bundnar við staði, ekki meira um þetta í bili.

En í dag var gaman. Eftir u.þ.b. sex kílómmetra (af átta) vissi ég allt í einu af hverju ég hleyp. Það er vegna þess að stundum, þegar vel gengur, rekst ég á stelpurnar sem ég einu sinni var, sem ég týndi síðan. 

Nú skil ég betur af hverju karlmennirnir horfa á fótbolta.  

 

 


Ýmislegt um risafurur og tímann:

Sumarið hefur verið ódrjúgt til bóklestrar, ég veit ekki hversvegna en bækur hafa ekki kallað á mig. Þær hafa a.m.k. ekki verið háværar. Hef verið að takast á við að lesa Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl. Sú bók er ekki beinlínis góð koddalesning (rúmt kíló) og svo er efnið heldur engin léttavara. Auk þess ól ég á efasemdum um efnistök bókarinnar. Meira um það seinna því ég gerði hlé á lestrinum til að undirbúa mig fyrir fyrsta bókakvöld ,,lestrarfélagsins"  sem verður á morgun.

Við höfðum ákveðið að lesa tvær bækur eftir Jón Kalmann, Ýmislegt um risafurur og tímann og Snarkið í stjörnunum. Þá síðari hafði ég lesið og þarf bara að rifja upp. Bókina um Risafurur og tímann, hafði farið ólesin upp í hillu. Ég veit ekki hvers vegna.

Það var svo sannarlega léttir að skipta Illsku út fyrir Risafururnar, hún er léttari í hendi og frásögnin bókstaflega svífur.  Þetta er saga frá hugarheimi 10 ára drengs sem fer í heimsókn til afa síns og ömmu í Stavanger en þræðir í frásögninni liggja bæði inn í framtíð og fortíð. Stundum er hægt að lesa textann eins og ljóð. Þótt frásögnin hoppi eins og síkvikur hugur, myndar hún heild og segir sögu. Þetta er saga um fólk, örlög. En það er þannig með þetta fólk, eins og fólkið í lífinu, að maður fær aldrei að vita allt um það og það kannski eins gott að gera sér grein fyrir því. 

Drengurinn í þessari bók lifir í frjóum hugarheimi sem hann skapar jafnóðum. Þar dvelja með honum ýmsar persónur sem hann velur sér og sumar eru ekki af þessum heimi heldur úr bókum. Bítlarnir gera innrás og svo eru persónurnar sem hann kynnist á mörkum þess mannlega og ævintýralega. 

 Þessi bók kom út 2001 og kannski hefði verið öðru vísi að lesa hana þá, það er svo mikill hraði á öllu og mér finnst vera einhver krafa á mig að lesa bækur jafnóðum og þær koma út. Þess vegna fresta ég því oftast. Bókin minnti mig á aðra bók sem ég las um leið og hún kom út. Populär musik i Vittula eftir Mikael Niemi. Það er einhvers konar klökkvi sem einkennir þessar bækur, maður uppgötvar að tíminn stendur ekki kyrr og maður syrgir. 

Ég man eftir þessari hugsun frá sjálfri mér þegar ég var barn en ég var reyndar mun jarðbundnari en drengirnir sem Jón Kalmann og Mikael Niemi lýsa. Líklega hef ég verið líkara Hjalta litla í bókum Stefáns Jónssonar. Af hverju voru bækur Stefáns flokkaðar sem barnabækur? Eiginlega er Ýmislegt um risafurur og tímann barnabók.

 

 

 


Hér er fækkað hófaljóni: Minningagrein um hest

Ég er ein af þeim sem hef aldrei verið fullkomlega sátt við frasann, að maður eigi ekki að bindast hlutum. Að hluta til er þetta til komið vegna þess að mér fellur vel við að hafa gamalt dót í kringum mig, því fylgja hlýjar  minningar og að hluta til ber ég umhyggju fyrir því að nýta, í stað þess að sóa.

Þessi tilfinningasemi mín á þó alveg sérstaklega við um bíla. Ég hef alltaf hugsað um bíla eins og hesta. Þar sem ég var alin upp við hestöfl en ekki vélarkraft er mér eiginlegt að um leið og ég sest undir stýri á bíl, huga að eiginleikum hans út frá sömu forsendum og maður gerði í gamla daga og læt eðli bílsins ráða aksturslaginu. Þetta hefur gefist vel og ég er búin að eiga bæði jálka og gæðinga. En lokins er ég komin að efninu.

Í dag kvaddi ég einn af mínum bestu bílum, hann var ekki bara traustur og vakur, hann var sannur gæðingur. Ég hafði ætlað mér að láta þetta verða minn síðasta bíl, hann hafði alla burði til þess, en þá varð óhapp og það var ekki mér að kenna. Sem betur fer urðu engin meiðsli á fólki.

Nú veit ég ekki hvort ljóðið um Vakra Skjóna eða Eldri Rauð á betur við, en ég er alveg viss um að Gamli Sorrý Gráni passar engan veginn því það var vel hugsað um þennan bíl og hann var alls ekkert gamall og lúinn. En mat tryggingafélagsins hljóðaði upp á að verð bílsins stæði ekki undir viðgerðarkostnaði og það tekur að sér að sjá um útförina. Án undirleiks.

En mikið á mín kynslóð gott sem ólst upp við að læra ljóð. Ég er búin að fara með kvæðið um Vakra Skjóna mér til hugarhægðar og ég ætla að láta vísuna um Eldri Rauð fylgja þessari minningagrein:

Einu sinni átti ég hest

ofurlítið skjóttan

það var sem mer þótti verst

þegar að Dauðinn sótt'ann 


Mýsnar héldu áfram að vera daprar

Í gær las ég grein í Fréttablaðeiðinu eftir Teit Guðmundsson lækni. Hún fjallaði um þunglyndi og að nú hefðu komið fram kenningar í Bandaríkjunum sem virtust kollvarpa þeim hugmyndum sem hefðbundið meðferðarmódel byggir á. Þessi kenning gerir ráð fyrir að skortur á boðefninu seratoni valdi depurð. Reyndar kom fram síðar í greininni að rannsóknin sem byggt er á hefur einungis verið reynd í músum. Ég hafði af þessu allmiklar áhyggjur því ég veit hversu alvarlegur sjúkdómurin er og það væri hörmulegt ef allt það fólk sem nú reiðir sig á þá líkn sem meðöl þó veita þeim, stæði á köldum klaka  Satt að segja létti mér við að heyra um mýsnar. Því ég þykist þess fullviss að læknar eigi eftir að spyrja sjúklinga sína um álit þeirra sjálfra á eigin líðan.

Við lestur greinarinnar rifjaðist upp saga frá námsárum mínum í Uppsölum. Ég nam þar uppeldisfræði en þar sem uppeldisfræði og sálarfræði  tengjast voru ýmsir fyrirlestrar sameiginlegir. Eitt sinn sátum við fyrirlestur hjá sálfræðingi sem fjallaði um kenningagrunn sálfræðinnar út frá atferliskenningum.  Hann sagði að þar sem atferli mannsins væri svo flókið væri stundum erfitt að stilla upp rannsókn sem væri fullkomlega vísindaleg. Því væri oft farin sú leið að brjóta atferlið niður í smáar einingar eða gera tilraunir á dýrum. 

 Og svo kom það sem mér fannst svo skemmtilegt að ég man enn einmitt þennan fyrirlestur.

Hann sagði:Lengst var seilst í þessa veru í sálfræðideildinni í Uppsölum, þegar tveir sálfræðingar skrifuðu  lokaritgerðir um viðbrögð ánamaðka við ljósi. 

En burt séð frá þessum útúrdúr vona ég að Teitur eigi eftir að segja okkur meira um meðferð  þeirra sem þjást af þunglyndi. Pistlarnir hans eru góðir. 


Enginn kunni að lesa bækurnar

Þegar ég bjó á Blönduósi, leit ég oft við á bókasafninu í lok vinnudags. Eftir að hafa kynnst bókaverðinum, Þorvaldi, var mér stundum boðið í kaffi og ég fékk jafnvel að gramsa í gömlum bókum sem ekki voru skráðar. Eitt af því sem vakti sérstaka athygli mína var stór og mikill bókahaugur, þessar bækur voru öðru vísi en aðrar bækur á safninu. Þær voru í fallegu bandi og prentunin líka ólík. Þegar ég spurði Þorvald út í þetta, benti hann mér á að skoða hvar þær væru prentaðar. Þá kom í ljós að bækurnar voru allar prentaðar í Winnipeg.

Í framhaldi af athugun minni, spurði ég Þorvald, hvernig stæði á því að þessar bækur væru komnar til hans. Hann svaraði einfaldlega. ,,Það var enginn eftir til að lesa þær". Þessar bækur voru sem sagt gjöf að vestan frá elliheimilinu á Gimli.

Oft síðan hefur mér orðið hugsað til bókahaugsins frá Gimli. Skyldi einhvern tíma fara eins með bækurnar sem eru á okkar söfnum núna?k 

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2014
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 187198

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband