Piparkökuhúsið: Carin Gerhardsen

 

Oft les ég bækur sem vinir mínir rétta að mér og segja ,,þú verður að lesa þetta". Í þetta skiptið var mér. ,,Þetta væri spennandi glæpasaga í anda Agöthu Christie. Ekki þessir drykkfelldu, geðstirðu lögreglumenn og bara lýsingar á venjulegu fólki", sagði vinkona mín.

Þetta er vissulega rétt hvað lögregluna varðar. Lögregluforinginn var  fjölskyldumaður um helgar og lét  sér annt um konu og börn. En fólkið í forgrunni glæpsins er ólíkt persónunum hennar Agötu, þetta er ruslaralýður. 

En það var ekki það versta við bókina heldur hitt að persónurnar og þar með mótífið var ótrúverðugt. Á móti kom að bókin var spennandi. 

 Það var mikil illska í þessari bók og lítið um notalegheit. Þá vil ég frekar lesa bækur þar sem þjónustu stúlkan kemur inn með morgunverðarbakkann og dregur frá gluggatjöldin í herberginu ,,mínu". 

Æ, þessir fátæklingar. 

Hér eftir mun ég bara lesa góðar bækur um sæmilega stætt fólk. 

 

 


Ég hefði betur sleppt því

Ég hef vanrækt stokkið upp á síðkastið og ég er ekki frá því að umræðan um hreyfingu sem vörn gegn þunglyndi hafi ýtt við mér. Allur er varinn góður og veðrið var dásamlegt. Hluti leiðarinnar sem ég hleyp oftast liggur meðfram Sæbrautinni. Útsýnið gleður augað og það gera líka mörg listaverk sem hefur verið komið fyrir á þessari leið. Satt best að segja læt ég oftast útsýnið nægja og vanræki listaverkin, ég er svo áköf í áreynslunni að ég gef mér ekki tíma, þótt ég sé þegar öðru vísi stendur á áhugakona um listir og menningu. Þó þekki ég öll þessi listaverk og veit hver hefur gert þau öll, nema eitt. Í dag í góða veðrinu ákvað ég með sjálfri mér að gera á þessu bragarbót, stoppa við þetta ver, gaumgæfa það og lesa áletrunina sem er á stöplinum. Allt frá Langholtsvegi niður að Snorrabraut gældi ég við þessa hugmynd og hlakkaði til þess að njóta hvíldarinnar og listarinnar samtímis. Það yrði mikil sæla.

Reyndar hélt ég að ég skildi þetta verk, hefði með tekið anda þess. Mér fannst það væri stílfærð mynd af penna og gekk út frá því að það væri reist ritlistinni til heiðurs, einhverjum skáldum og andans mönnum enda stendur það ekki fjarri Höfða, húsi skáldsins. 

En ég hefði betur ekki gert það. Því þegar ég las umsögnina á stöplinum komst ég að raun um að þetta er ekki penni, heldur líklega skutull og það er ekki til að heiðra skáld. Það er reist til að minnast farsæls og og árangursríks samstarfs BNA og Íslands, gefið hingað af hjónunum Cobb en hann var sendiherra á 50 ára afmæli hins formleg samstarfs (1941 - 1991).

Ég vildi að ég hefi ekki stoppað við minnismerkið. Það var fallegra eins og ég túlkaði það. Það var meira gaman að hugsa um skáldin í Reykjavík, ung og gömul og hugsa um Einar Benediktsson en hugsa um þessi oft óheillyndu samskipti. Það var skemmtilegra um skáldskap, heldur en að hugsa um hvernig þessi samskipti fólu í sér fyrstu svik stjórnvalda við eigin þjóð. Í mínum huga hefur þetta verið samstarf litað af spillingu, græðgi, blekkingum og valdníðslu. 

Í næsta skokki ætla ég að hvílast  við steinana hans Sigurðar Guðmundssonar. Þeir svíkja mig ekki.


Heiður: Elif Shafak. Að fræðast og nærast

Bækur eru búnar a.m.k. tvenns konar eiginleikum. Þær fræða mig um mig eða þær fræða mig um heiminn. Bókin sem ég var að ljúka við að lesa fræddi mig mikið um heim sem er mér framandi en mér fannst hún því miður ekki ná því að dýpka skilning minn á sjálfri mér. Kannski tala ég ekki nógu skýrt, en þegar ég get samsamað mig persónunum, finnst mér ég læra eitthvað um mig sjálfa. Oft fer þetta, að fræða og næra, saman. 

Bókin Heiður segir sögu fjölskyldu. Sögusviðið er fyrst afskekkt kúrdískt þorp, síðan Istanbúl og loks London. Pembe, sem er Kúrdi flyst með manni sínum og börnum til London. Börnin, tveir drengir og ein stúlka, ganga í enskan skóla og maðurinn fær vinnu. En maðurinn eyðir peningum sem hann vinnur sér inn í fjárhættuspil, hann verður ástfanginn af vafasömum kvenmanni og flyst að heiman. Konan fær vinnu á hárgreiðslustofu og kynnist vænum manni. En hlutirnir ganga ekki fyrir sér eins og hjá hverjum og einum Lundúnabúum. Fjölskyldan er fjötruð af siðum heimalandsins og það er ólíðandi að gift kona vinni utan heimilis og umgangist karlmann. Það varðar heiður fjölskyldunnar og fyrir það skal henni refsað. Í þessu tilviki tekur eldri sonurinn að sér hlutverk ,,böðulsins".

Höfundurinn, Elif Shafak, er mikill sögumaður, hún minnir mig helst á Einar Kárason. Saga er full af litlum sögum og hver og ein þeirra er full af smáatriðum sem skipta máli og í hún er held spennandi. Þrátt fyrir það var hún fyrst og fremst fræðandi, ég fann mig ekki í fólkinu í þessari bók. Það er ekki vegna þess að það lifir í framandi heimi, ég fann til með Önnu Kareninu og ég fann til með öllum Karamasóvbræðrunum. Ég fann meira að segja til með karlgaurnum, pabba þeirra en hann var óféti. Þetta fólk er þó allt fjarlægt mér í tíma og rúmi svo ég tali ekki um menningarlega.

Hvað um það, ég er ánægð með að hafa lesið þessa bók, hún er lipurlega skrifuð og fræðandi og það var gaman að ræða hana við stöllur mínar í bókaklúbbnum. Þær voru allar mjög ánægðar með hana.  En ég skil bækur með mínu hjarta en ekki annarra.

En til þess að enginn misskilningur verði af þessum skrifum mínum vil ég taka fram, úr því að ég dró Einar Kárason í þetta, þá vil ég upplýsa að ég hef oft fengið kökk í hálsinn þegar ég les bækurnar hans og fellt tár.


Karitas:Leikritið var betra en bókin

Sá Karitas í Þjóðleikhúsinu í s.l laugardag og var svolítið kvíðin. Og nú ætla ég að útskýra hvers vegna.

Ég held að það sé hægt að segja að bókin Karitas án titils, sé kvennasaga. Hún fjallar um konur á 20. öld í sögulegu ljósi. Fátæk ekkja tekur sig upp með börnin sín fimm, hún vill finna stað þar sem henni gefst færi á að ala þau upp og koma þeim til mennta. Það tekst, þau menntast öll til hefðbundinna karla- og kvennastarfa. Öll nema Karitas, dóttirin sem er miðdepill sögunnar er. Hún er sérstök. Hugur hennar stendur til lista og með hjálp efnaðrar velgjörðarkonu tekst henni að menntast líka. Hún lærir dráttlist og ætlar að helga sig listinni. En þá kynnist hún ástinni. 

Þegar ég las  Karitas á sínum tíma, féll mér ekki bókin. Ég veit hver ástæðan var, mér fannst söguþráðurinn ósannfærandi og fólkið lifnaði ekki við. Mér þótti þetta miður því bókin fjallaði um efni sem mér var hugleikið, auk þess hrifust flestir vinir mínir af bókinni og mér leið hálfpartinn eins og svikara.

Því kom mér það mér þægilega á óvart í gær þegar ég sá leikgerð sögunnar að nú gekk allt upp. Persónurnar lifnuðu við og söguþráðurinn sem mér fannst áður ósannfærandi var eins og lífið sjálft. Þetta var frábær sýning, allt var hrífandi. Sviðið var listaverk, það var eins og ég tæki andköf þegar tjaldið var dregið frá, búningarnir voru fallegir og framsögn leikaranna á texta til fyrirmyndar. Það er langt síðan ég hef  farið í leikhús þar sem ég hef skilið hvert einasta orð. Leikhópurinn í heild var skemmtilega samstæður og skilaði vel sínu. Ég vil þó sérstaklega nefna leik Brynhildar Guðjónsdóttur sem bar upp sýninguna. Aðrir leikarar skiluðu vel sínu og vil ég þar nefna Ólafíu Hrönn sem lék hina traustu frænku í Öræfunum. Hún var eins og klettur en hún var um leið andinn sem lét allt blómstra.  Og svo var auðvitað gaman að horfa á ,,fallega manninn" Björn Hlyn Haraldsson, þó ég skildi hann ekki, skildi ég vel að listakonan yrði ástfangin af honum.

Þetta er góð sýning. Takk Harpa Arnardóttir leikstjóri og þið öll. 


Hjarta kennarans

Eftir að hafa lifað og hrærst í menntamálum í yfir 40 ár bar ég nokkurn ugg í brjósti hvernig gengi að kveðja þennan vettvang, fylgjast sátt við af hliðarlínunni og hefja nýtt líf. Eða þannig. Það kom mér meira að segja á óvart hvað þetta varð mér í reynd auðvelt og hvað ,,nýja lífið" er áhugavert og gefandi.

Einstaka sinnum fæ ég þó í mig viss ónot, ég fæ verk fyrir brjóstsmalirnar, mitt gamla kennarahjarta  fer að slá óreglulega. Þá veit ég að mér finnst eitthvað verulega mikið að inni á vellinum.

Nú er það glæfraskapurinn með framhaldsskólann sem fer fyrir brjóstið á mér. Hér er rétt að stinga því inn að vinna mín að skólamálum, varðaði oftast nemendur sem af ýmsum ástæðum áttu erfitt uppdráttar í skólakerfinu. Það var starf mitt.  Ég kom að vinnu með fjölmörgu öðru fólki, sem leituðu lausna fyrir þennan hóp. Ég er ekki viss um að allir geri sér almennt grein fyrir hvað þessi hópur er fjölbreytilegur. En það sem gerði starfið svo oft gefandi var að oft fundust leiðir þegar öll sund virtust lokuð og oft varð ég vitni að miklum framförum og persónulegum sigrum einstaklinga. 

 Eitt af stöðugu áhyggjuefnum þeirra sem vinna með nemendur sem þurfa stuðning eða sérstakar lausnir, er hvað taki við að loknum grunnskóla. Hvað passar mér hugsa nemendurnir, hvað passar mínu barni hugsa foreldrar. Framhaldsskólarnir hafa nú á síðari árum margir hverjir lagt sig fram um að mæta þessari þörf en öll þróunarvinna tekur tíma.

En oft tefjast þessir nemendur á leið sinni í gegnum menntakerfið og eðli málsins samkvæmt þurfa þeir lengri tíma. Þess vegna finnst mér nú þyngra en tárum taki að fylgjast með yfirlýsingum menntamálaráðherra og að hvergi virðast örla á skilningi á því að það er verið að skerða eitt af ekki of mörgum bjargráðum sem voru til staðar í framhaldsskólakerfinu, það er verið að þrengja tímatakmörk. Það við blasir að stóra vandamál framhaldsskólanna hjá okkur er, of mikið brottfall og að allt of nemendur útskrifast og ráðherra leggur það eitt til að stytta námið. 

Það er í raun rangt að líta á vandamál framhaldsskólanna, vandamálið er okkar allra. Við erum að tala um kynslóðina sem tekur við, sem erfir landið. Það þarf að vinna að úrbótum í samvinnu við skólafólk, þá sem þekkja best til. 

 Hann orðaði það vel skólamaðurinn sem rætt var við í sjónvarpinu í gær sem sagði að raunveruleikinn á bak við hvert og eitt brottfall væri oft flóknari en menn gerðu sér grein fyrir. Þetta kannaðist ég vel við, það var eins og ég væri komin aftur í vinnuna. Mitt gamla kennarahjarta tók aukaslag.

 

 

 


Gagnrýni um gagnrrýni

Ég horfi alltaf á Kiljuna. Ef ég missi af henni horfi ég á hana á seinkun. Og ég er afskaplega þakklát fyrir þennan þátt sem er fjölbreyttur og því við allra hæfi. 

Samt var það eitthvað sem pirraði mig í gær, ég var ósátt. Ég var ekki alveg viss hversvegna og ákvað að sofa á því. Nú veit ég hvers vegna.

Umfjöllunin í upphafi þáttarins um nýjar bækur var ekki boðleg. Gagnrýnendurnir og þáttastjórnandi töluðu niður til höfundanna og ég sat eftir með tilfinninguna að þeim hefði leiðst lesturinn. Það hvarflaði jafnvel að mér að þeim leiddist oft að lesa bækur, því nú er orðinn til frasinn, að frásögnin þurfi að vera á þann hátt að lesandinn nenni að fletta. Þáttastjórnandi greip allt of oft inn í tal viðmælenda sinna, það var eins og allir væru í tímaþröng.

Þátturinn lyftist þó  allur þegar fjallað var um Þórarin Eldjárn. Þakka skyldi. Þórarinn stendur alltaf fyrir sínu. Hann hefur skrifað í 40 ár og lagt sitt að mörkum til íslenskrar menningar. Flest skólabörn þekkja Þórarin Eldjárn og kunna að meta hann. Það var gaman að hlusta á hann tala um líf sitt og skáldskap. Það var líka gaman að hlusta á samferðafólk hans. En ég saknaði þess að ekki var minnst á hlutverk hans sem þýðanda. Gleymdist það eða á að fjalla um það síðar? 

Samtalið við Steinar Braga var afar vel heppnað. Steinar Bragi var hreinskilinn og stendur vel með sjálfum sér og sínum bókum. 

Niðurstaða: Þessi umfjöllun un nýgræðingana var þó að því leyti góð að ég mun strax á morgun panta þessar tvær bækur til að sjá hvort ég nenni að fletta. 

Og svo er náttúrlega hitt vandamálið, sem ég þekki betur. Það er þegar bækur verða of spennandi og maður getur ekki stillt mig um að kíkja í endirinn. Þetta kom síðast fyrir mig í fyrradag, þegar ég var að lesa Gunnars sögu Keldugnúpsfífls.  Ég sofnaði ekki fyrr en ég las sögulokin. 

M


Fjárhagsvandi þjóðarinnar- Lausn for ever

 

Allt í einu birtist hún mér lausnin, á fjárhagsvanda þjóðarinnar.

Ég hafði ekkert verið að hugsa neitt um hann. Þvert á móti, fullkomlega afslöppuð. Ég var á leið í matarboð til vinkonu minnar sem býr vestur á Melum. Leiðin lá framhjá holunni þar sem einu sinni átti að rísa hús íslenskrar tungu, Þjóðarbókhlaðan mér á hægri hönd. Þá skyndilega kom lausnin til mín.

Við seljum íslenskuna. Við eigum ekkert dýrmætara, það hlýtur að fást gott verð. Við höfum hvort sem ekki ráð á henni. Og þá munu kaupendur sem við veljum, auðvitað, byggja reisulegt hús í holunni og Melarnir munu blómstra sem aldrei fyrr.

Af hverju hefur engum dottið þetta í hug fyrr. Fjárhagsvandi okkar mun gufa upp því nýir eigendur íslenskunnar munu að sjálfsögðu sjá hag sinn í að reka öflugt ,,Ríkisútvarp" og skólakerfi fyrir þjóð sem talar þetta einstaka, fágæta mál.

 

  


Illska: Eiríkur Örn Norðdahl

Loksins lét ég verða af því að lesa,bókina Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl. Hún kom út 2012 og var keypt hér inn á heimilið sama ár. Hún fékk bæði mikla umfjöllun og mikið lof á sínum tíma. Ég held að það hafi fælt mig frá lestrinum, ég vil vera viss um að feta mína eigin slóð og festast ekki í fari annarra, þegar ég les. Og svo var líka  ríkulega búið að gera grein fyrir því að bókin fjallaði um hræðilega hræðilega atburði og grimmd.

Nú þegar ég er búin, veit ég ekki almennilega hvað mér finnst. Á köflum fannst mér erfitt að lesa þessa bók. Hún er þung í hendi (rúmt kíló) en textinn er ekki tyrfinn í sjálfu sér en ákveðið klúrt tungutak truflaði mig stundum, bæði af því ég er ekki von svona tali en kannski ekki síður vegna þess að mér fannst það ekki segja mér neitt. En hvað um það, ég fann fljótlega að þessum höfundi er mikið niðri fyrir og bókin er útpæld og því lagði ég mig fram um að fylgja honum.  Sagan gerist á tveimur tímaplönum í tveimur löndum. Annars vegar segir frá ungu fólki á Íslandi og hins vegar fólkinu í Litháen sem nær samfellt áralangt styrjaldarástand gerir ýmist að böðlum eða fórnarlömbum.

Unga fólkið Agnes, Ómar og Arnór er menntafólk. Þau eiga sér ólíkan bakgrunn og lesandinn fær að kynnast þeim smám saman eftir því sem sögunni vindur fram. Inn á milli er tölulegur fróðleikur um stríð  og voðaverk. 

Agnes, háskólanemi úr Kópavogi á ættir að rekja til Litháen er að skrifa mastersritgerð. Hún hefur valið sér viðfangsefnið að skoða hvort skyldleiki sé á milli pópúlisma og nýnasisma. Hún kynnist Ómari. Ómar er skilnaðarbarn og hefur alist upp til skiptis hjá foreldrum sínum sem eiga það sameiginlegt að skipta oft um búsetu. Hann er einfari, e.t.v vegna þess að hann verður fyrir erfiðri lífsreynslu. Arnór er barn einstæðrar móður á Ísafirði, ofurgreindur piltur með áráttuhegðun og seinna nýnasisti. Hann verður viðfang Agnesar í rannsókninni og seinna ástmaður. Þessir þrír einstaklingar eru höfuðpersónur, því um þau hverfist frásögnin. Fjórða persóna bókarinnar er Snorri sonur Agnesar og Ómars (eða Arnórs), mér finnst hann nýstárlegasta og best dregna persóna þessarar bókar, hann er enn ómálga en höfundur lætur hann hugsa sitt. Hugsanir barnsins um móður sína og mjólkina eru dásamlegar. 

Þessi bók er samsafn mislangra texta sem lesandinn púslar síðan saman í heildstæða frásögn. Við fáum textabrot um  átök úr einkalífi ungs fólks á Íslandi í nútímanum og helför Gyðinga í litlu þorpi í Litháen. 

Lengi vel hélt ég að ég gæti dregið einhvern lærdóm af því hvernig þessi tvenns konar stríð tengjast en eftir að hafa lesið bókina  finnst mér ég vera jafnnær.  Kannski er ég ekki enn búin að raða púslinu rétt og það er á vissan hátt góð tilfinning að geta haldið áfram að púsla.

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2014
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 187118

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband