6.12.2022 | 21:46
Bækur lýsa upp skammdegismyrkrið
Oft er erfitt að velja sér bók. Það er eins og að margar bækur kalli á mann í einu. Þess vegna þarf maður að velja bækur af kostgæfni. Í mínum veruleika er ekki nóg að bókin komi út, það þarf að lesa hana inn, því ég hlusta í stað þess að lesa. Sá sem les er nokkurs konar milliliður og vald þeirra er mikið.
Munurinn á að hlusta og lesa er mikill. En þetta venst.
Ég sakna þess að geta ekki lesið en um leið er ég þakklát að þetta skuli vera hægt. Ég hef tamið mér að láta mér líka við lesarann og hef mikið dálæti á sumum. En ég sakna bókarinnar.
Til að gera sjónleysið bærilegra, reyni ég því oft að útvega mér bækurnar sem sem ég er að hlusta á, handleika þær, þreifa á þeim. Stundum sting ég þeim undir stækkunartækið sem ég hef að láni og skoða þær rækilega.
Sjónskerðing er aldrei eins. Í raun sé ég heilmikið, en ekki nóg til að geta lesið. Lestur er flókið fyrirbæri. Það veit ég sem fyrrverandi sérkennari. Stundum tortryggði fólk sjónskerta. Hélt að það væri að gera sér upp fötlun til að komast hjá vinnu. Um þetta vitna tvær örsögur sem ég lærði sem barn.
Saga 1
Allir í baðstofunni sátu að tóvinnu, að einum manni undanskildum. Hann sat og leitaði sér lúsa. Þegar hann loks náði einni, virti hann hana fyrir sér og tautaði.Ég sé lítið, ég sé lítið. Ég sé augun í lúsinni.
Saga 2
Annar karl, í annarri baðstofu sat iðjulaus meðan allir aðrir sátu við tóvinnu. Allt í einu segir hann. Mér fannst ég heyra svartan ullarlagð detta.
Þessar tvær sögur voru sagðar til að sýna fram á að það er varhugavert að treysta fólki sem segist vera sjónskert.
Jólabækur Íslendinga
Ég held að hið svo kallaða jólabókarflóð sé einstakt íslenskt fyrirbæri. Þegar Íslendingar hættu að gefa hver öðrum kerti og spil, ákváðu þeir að gefa bækur í staðinn. Þess vegna koma margar bækur út fyrir jól. Allir tala um bækur og maður hefur ekki við að fara í útgáfuhóf. Jólabækur lýsa upp skammdegið ekki síður en jólaljósin.
En mér finnst erfitt að lesa nýju bækurnar meðan á flóðinu stendur, veit ekki alveg hvers vegna. Þess vegna les ég gjarnan ekki nýjar bækur meðan ég bíð þess eftir því að flóðinu ljúki. Les eldri bækur.
Nú hef ég lesið tvær bækur eftir Jónínu Leósdóttur, Launsátur og Varnarlaus. Þetta eru ekki bækur um forvitna og afskiptasama eftirlaunaþegann, með Eddu í aðalhlutverki. Þess í stað eru það fyrrverandi hjónaleysin, sálfræðingurinn Adam og lögreglukonan Soffía sem leysa málin þvert gegn vilja sínum. Eftir að hafa lokið þeim lagðist ég í að lesa Sturlungu. Ekki í fyrsta skiptið og vonandi ekki það síðasta. Sturlungu getur maður lesið aftur og aftur. Mér finnst aðdragandi jóla dásamlegur tími.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 72
- Frá upphafi: 188989
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl Bergþóra Gísladóttir. Eins og þér, finnst mér aðdragandi jóla dásamlegur tími. Þrátt fyrir myrkrið í hinu náttúrulega þá finnum við fyrir ljósinu í hinu andlega. Allar ljósaskreytingarnar inni og úti minna okkur á hið sanna ljós heimsins, Jesú Krist frelsara okkar. Jólin höldum við jú, til að fagna fæðingu Hans í þennan andlega myrka heim, þar sem hinir sjáandi sjá Hann oft ekki né heyra. Ég vona að þrátt fyrir sóndepurð sjáir þú samt jólaljósin sem ljóma allt í kringum okkur og enn frekar að þú sjáir ljósið sem við okkur skin frá barninu í jötunni, manninum á krossinum.
Þú segist geta lesið Sturlungu aftur og aftur og hún er mjög merkileg fyrir okkur Ísendinga, sérstaklega. En það er önnur bók enn eldri og merkari fyrir heiminn allan, sú bók er Heilög ritning. Vonandi er hún einnig uppáhaldsbók hjá þér.
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.12.2022 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.