7.9.2022 | 18:05
Er fólk hætt að lesa Pearl S. Buck ?
Stundum langar mig að lesa langar bækur. Langar bækur gera manni kleyft að komast inn í framandi heim og dvelja með áður ókunnugu fólki dögum saman. Í leit minni að slíkri, rakst ég á Pearl S. Buck. Ég hef aldrei lesið bók eftir hana, en þekkti til hennar frá því bók eða bækur eftir hana voru lesnar í útvarpið. Það var á þeim tíma sem ég hafði ekki eða þóttist ekki hafa tíma til að setjast niður og hlusta á bóklestur í útvarpinu.
Hver Var hún?
Pearl S. Buck er bandarískur rithöfundur fædd 1892 og dáin 1973. Hún var fædd í Bandaríkjunum en alin upp í Kína frá því hún var fjögurra mánaða. Foreldrar hennar voru trúboðar. Hún fékk háskólamenntun sína í Bandaríkjunum en fluttist síðan aftur til Kína, þar sem hún vann með manni sínum John Lossing Buck. Þau giftust 1917 en hjónabandið var ekki farsælt og þau skildu 1935 þann sama dag giftist hún útgefanda sínum Richard John Wash. Þetta voru umbrotasamir tímar í Kína sem lauk með byltingu, þ.e. yfirtöku kommúnista 1948. Um allt þetta og meira til skrifar Pearl S. Buck. Hún fékk Pulitzer verðlaunin 1932 og Nóbelsverlaunin 1938.
Ég hef þegar lesið/hlustað á þrjár bækur sem þýddar hafa verið á íslensku: Austan vindar og vestan, Synir trúboðanna og Dætur frú Liang. Og þá eru eftir fyrir mig að lesa: Kvennabúrið; Í huliðsblæ; Í munarheimi; Drekakyn; Gott land og Móðirin. Nú hef ég talið upp þær sögur sem þýddar hafa verið á íslensku, held ég. En kannski eru þær fleiri. En Buck skrifaði óhemjumikið og margt af því er upplesið og aðgengilegt fyrir mig til að hlusta á frummálinu, ensku.
Það er einkum tvennt sem mér finnst merkilegt við stöðu Buck hér á Íslandi.
Í fyrsta lagi undrast ég hversu mörg verka hennar hafa verið þýdd, í öðru lagi undrast ég að nafn hennar virðist vera fallið í gleymsku.
Það virðist sem þessi mikla baráttu- og bókmenntakona sé svo gott sem horfinn úr umræðunni. Pearl S. Buck tók nefnilega afstöðu til margra mála sem enn brenna á fólki. Ég tek sem dæmi baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og að bera virðingu fyrir fólki óháð húðlit og uppruna. Hún taldi að engin menning væri annarri æðri. Það var meðal annars þess vegna sem hún efaðist um hvort trúboð ætti rétt á sér. Með því að efast hjó hún nærri sinni eigin fjölskyldu.
Föðurland?
Hún elskaði Kína og fannst það vera sitt raunverulega föðurland og tók nærri sér að geta ekki heimsótt það eftir byltinguna. Í bók sinni, Dætur frú Liang bregður hún upp mynd af því sem henni fannst að byltingarmenn hefðu gert rangt. Það var að hennar mati ekki það sem sneri að yfirtöku eigna hinna ríku, heldur það að bera ekki virðingu fyrir arfleifð sögunnar. Í bókinni Synir trúboðanna lýsir hún lífi tveggja manna sem, eins og hún,voru uppaldir í Kína og fóru aftur til gamla landsins. Annar setti sér það sem markmið að verða ríkur. Hann réðist í blaðaútgáfu. Gaf út blöð sem einkenndust af góðum ljósmyndum og stórum fyrirsögnum. Það tókst, hann varð moldríkur. Hinn ungi maðurinn setti sér það markmið að finna ráð til koma algjörlega í veg fyrir hungursneyðir. Það fer ekki milli mála hvor þessara manna fellur höfundi betur.
Lokaorð
Ég ætla að búa í heimi Pearl S. Buck enn um sinn. Bækur hennar eru í senn fræðandi og spennandi.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 40
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þetta. Ég uppgötvaði líka Pearl S þegar ég heyrði bók hennar lesna í Ríkisútvarpinu.
Hörður Þórðarson, 7.9.2022 kl. 20:05
Ólafur afi átti eitthvað af bókum eftir Pearl S. Buck sem maður las sem hvert annað ævintýri - enda Kína óralangt í burtu og þetta annar heimur.
En svo hafa líka verið búnar til kvikmyndir eftir bókunum hennar
Man eftir einu atriði þegar uppskerubrestur og hungursneyð ríkti og nágrannarnir ruddust inn til eins bóndans því konan hans var með mallandi pott á hlóðum og þeir töldu að hjónin hefðu stungið undan mat (úr sameigninni) handa sér en konan hans var þá bara að sjóða mold svo börnin fengju eitthvað í magann.
Bóndanum þótti verst að besti vinurinn tók þátt í þessari aðför nágrannanna
Grímur Kjartansson, 7.9.2022 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.