27.7.2022 | 16:52
3 bækur Åsne Seierstad
Þrjár sögur eftir Åsne Seierstad
Það kann að virðast skrýtið og tilgangslaust að lesa gamlar og löngu útkomnar bækur. En því miður er það ekki svo. Heimurinn hefur lítið breyst. Bækurnar hitta beint í mark. Líka núna. Þetta eru bækur eftir norska blaðamanninn og rithöfundinn Åsne Seierstad (fædd 1970). Þær fjalla allar um áhrif stríðs og ofbeldis á líf fólks. Ég ætla að ræða lítillega um þær allar í þessum pistli í þeirri röð sem ég las þær.
Tvær systur
Bókin kom út í Noregi 2018. Ég hlustaði á bókina á sænsku. Ég hefði frekar viljað hlusta á hana á norsku en það var ekki í boði hjá HBÍ. Því miður. Sagan segir frá fjölskyldu frá Sómalíu. Þau komu til Noregs sem flóttamenn á tímum stríðsins í Sómalíu. Þegar sagan hefst hefur fjölskyldan komið sér vel fyrir í Noregi, í Asker. Börnin ganga í skóla eins og norsk börn. Aðalpersónu sögunnar Ayan gengur vel, svipað má segja um yngri systur hennar Lailu. Ayan er fyrirmyndar námsmaður. Hún er um það bil að verða stúdent og dreymir um að verða diplómat eða vinna hjá Sameinuðu þjóðunum. Skyndilega hverfa þær. Koma ekki í matinn. Fjölskyldan er sem lömuð. Það kemur í ljós að systurnar hafa farið til Tyrklands og þaðan til Sýrlands til að berjast með Isis. Faðir þeirra fer á eftir þeim og ætlar að fá þær til baka. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra hér.
Tilraun til að skilja
Áður en þær fóru höfðu ýmsar breytingar á hegðun komið í ljós, sem bentu á að ekki var allt sem skyldi.
Saga þessarar fjölskyldu er tilraun til að skilja hvað fyrir þeim vakir og ekki síst til að skilja hvað fór úrskeiðis hjá Norðmönnum. Hvað gerðu gerðu þeir rangt. Þeir sem vildu svo gjarnan verða að liði og hjálpa? Seierstad rannsakar málið eins og blaðamaður. Sem hún er. Hún spyr spurninga og leitar svara. Hún svarar þó aldrei neinum spurningum sjálf, heldur leggur málið á borðið handa okkur, það er ekki hennar að svara. Það er okkar lesenda að draga ályktanir út frá því sem leggur fram. Hlutverk blaðamannsins er að rannsaka og upplýsa.
Einn af okkur
Bókin kom út í Noregi .og hér 2016. Það er Sveinn H. Guðmarsson sem þýðir.
Þetta er löng bók 20:21 klukkustundir í upplestri. Það liggur fyrir mikið efni, sem fjalla þarf um til að leitast við að skilja það sem leiddi til fjöldamorðanna í Útey.
Fyrst kynnir hún til sögunnar nokkrar fjölskyldur sem eiga það eitt sameiginlegt að þær eiga bráðgeran ungling sem er með áhuga á þjóðfélagsmálum.
Gerandinn Síðan segir hún frá drengnum Anders Behring Breivik. Fyrst fá æskuárum og síðan frá unglingnum og loks fullorðna Breivik sem er fullur af hatri. Hún segir frá árásinni og hvernig krakkarnir eru skotnir. Frásagan er nákvæm. Þau eru skotin eitt af öðru. Mér finnst næstum eins og hún segi enginn skal undan líta
Ég hef aldrei lesið átakanlegri frásögn.
Hún lýsir líka viðbrögðum lögreglu sem voru til skammar. En fyrst og fremst hörmuleg. Það er merkilegt til þess að hugsa að æðsti maður þjóðarinnar, sem bar með ábyrgð á vanhæfni lögreglunnar, skyldi síðar vera valinn sem framkvæmdastjóri NATO.
Loks rekur höfundur það sem gerðist við réttarhöldin, dóminn og að endingu aðbúnað Breiviks í fangelsinu.
Að endingu segir höfundur frá sorginni. Foreldrar barnanna sem dóu, verða aldrei samir.
Bóksalinn í Kabúl.
Bókin kom út 2002 og var þýdd af Ernu Árnadóttur og kom út á Íslandi 2016. Af einhverjum ástæðum lét ég þessa bók fram hjá mér fara. Þetta er bókin sem geði Seierstad heimsfræga.
Seierstad hafði unnið um skeið sem blaðamaður í Afganistan. Þegar því starfi lauk dvalist hún um skeið í Kabúl þar sem hún kynnist bóksala. Það samdist um með þeim að hún fengi að búa hjá fjölskyldu hans. Hana langaði til að skilja betur líf Múslima og hugmyndaheiminn sem lagður er til grundvallar. Hún fylgdist með og spurði spurninga. Fjölskyldan var stór og allt var samkvæmt gömlum siðvenjum. Allir urðu að lúta vilja húsbóndans. Konurnar máttu ekki einu sinni hugsa. Það var synd að sætta sig ekki við ákvarðanir fjölskylduföðurins, hann sótti vald sitt í sjálfan Kóraninn.
Blaðamaðurinn skráði hjá sér. Spurði og tók viðtöl. Úr öllu þessu varð bókin til. Hún varð metsölubók. En auðvitað varð bóksalinn reiður. Honum sárnaði og hann kærði.Og það urðu réttarhöld og Seierstad var dæmd. Fékk sekt. En bókin lifir.
Lokaorð
Það hafa komið út fleiri bækur eftir Åsne Seierstad og ég brenn í skinninu að fá þær sem hljóðbækur. Helst á norsku.
Ég finn til þakklætis
Ég finn alltaf til þakklætis þegar ég les/hlusta á góðar bækur. Ég er þakklát höfundi fyrir að hafa skrifað þær, þýðanda fyrir að þýða þær og lesara fyrir að lesa. Og auðvitað er ég þakklát fyrir að hafa aðgang að hljóðbókasafni sem gerir mér og öðrum blindum/sjónskertum kleift að njóta bóka. Engu að síður er ég stundum óþolinmóð, finnst erfitt að bíða eftir bók eða það þurfi að lesa inn enn fleiri bækur.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 189263
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.