Nýverið las ég tvær bækur eftir Kamillu, Kópavogskróníkuna og Tilfinningar eru fyrir aumingja. Að vísu las ég þær í öfugri röð, þ.e. ég las bókina um tilfinningarnar fyrst. Í þessum pistli ætla ég að tala fyrst um Kópavogskróníkuna. Ég þekkti bókina af afspurn svo hún kom mér ekki alveg á óvart.
Kópavogskróníkan kom út 2018 og var fyrsta bók höfundar. Hún er að formi til bréf frá móður til dóttur, þar sem hún segir frá sjálfri sér og sér í lagi kynlífi sínu og væntingum sínum til karlmanna. Inn á milli ávarpar hún Kópavog og vandar honum ekki kveðjurnar. Ég hafði samúð með stúlkunni, ungu konunni sem bókin fjallar um. Hún er á villigötum. Hana vantar sjálfstraust og virðist trúa því að hún efli það með því að stunda kynlífsathafnir með karlmönnum. Já og stundum kvenmönnum, ég gleymdi því.
Það sem mestu ræður í þessari bók er samt stíllinn, frásagnarmátinn. Kamilla er bæði orðheppin og frumleg í framsetningu sinni, þar sem hún lýsir lífi þessarar óhamingjusömu konu. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um hispurslausar frásagnir hennar af kynlífinu. Þær minntu mig meira á samtöl um tilhleypingar en samskipti fólks. En í æsku hlustaði ég á árviss samtöl karlmanna um þennan hluta vinnunnar við gegningar. Jafnvel í sveitasímanum. Í raun leiðist mér slík umræða en ef til vill má líta á þetta sem það hefur aunnist kynfræðslu.
Tilfinningar eru fyrir aumingja er rökrétt framhald af Kópavogskróníkunni. Nema að Kópavogur kemur þar minna við sögu. Nú snýst umræðan ekki lengur um eina persónu heldur um hóp, ungs fólks, sem hefur kynnst í Menntaskólanum við Ármúla. Þau hneigjast til lista og hafa stofnað hljómsveit og ætla jafnvel að þiggja það að vera boðin í þáttinn hjá Gísla Marteini. Þau plana mikið en minna verður af hljóðfæraleiknum. Þessi saga er ekki alveg í fríi frá kynlífsorðræðu. Þó ber hærra afar góð lýsing á ofbeldissambandi. Kannski ekki svo mikið um barsmíðarnar heldur meira um lítilsvirðandi umræðu.
Ég veit vel að ég 80 ára gömul konan tilheyri ekki markhópi þessara bókar og hugsa, já svona er þetta hjá unga fólkinu núna. Um leið finnst mér að þessi samskipti hafi kannski lítið breyst. Nema að fólk er flinkara að orða hlutina.
Það er alla vega liðin sú tíð að aðalfrétt Hvítasunnunnar sé um hóp ungmenna sem flýr bæinn til að tjalda, drekka og gera hitt. Ég fór aldrei á slíka hátíð en mikið held ég að krakkagreyjunum hafi oft verið kalt.
Myndin er af riddaraspora. Í bók Kamillu kom Riddarinn nokkuð við sögu, þess vegna mátti ég til með að taka þessa mynd, þegar eg gekk fram hja honum í gær.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189865
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 45
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.