15.5.2022 | 21:02
Utangarðs? Bækur eftir Auði Jónsdóttur og Steinunni Sigurðardóttur
Utangarðs
Ég var að ljúka við að lesa tvær bækur, Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur og Allir fuglar fljúga í ljósið eftir Auði Jónsdóttur. Báðar þessar bækur fjalla um konur sem virðast hafa kosið að lifa utan við samfélagið. Eða að minnsta kosti til hliðar við það.
Allir fuglar fljúga í ljósið
Ég las Auðar bók fyrst.
Aðalpersóna bókarinnar, Björt, virðist hafa bugast þegar maðurinn sem hún elskar segir henni upp. Hún hefur áður verið gift manni sem var ríkur og þekktur. Þau lifðu hátt og voru á forsíðum slúðurblaðanna. Hún átti líka góða vinkonu, Veru. Þær tengdust báðar tískubransanum, voru fyrirsætur. Nú leigir Björt herbergi í húsi sem er leigt út til fólks sem er í svipaðri stöðu og hún. Björt skilgreinir sjálfa sig sem ráfara. Hún ráfar um og fylgist með fólki. Stundum dregur hún upp minnisbók og skrifar hjá sér athuganir sínar.
Systu megin
Systa sér fyrir sér með því að safna dósum. Hún býr í kjallarakompu, hefur ekki aðgang að baðherbergi. Hún notar kemískt klósett og fer reglulega í Sundhöllina að baða sig. Hún nýtur þess að setjast inn á bókasöfn, vera þar í hlýjunni og lesa. Þarna hefur hún líka að sjálfsögðu aðgang að vatnsklósetti. Systa á líka vinkonu, Lóló. Hún er enn verr sett en hún, einfætt drykkjukona. Ástæðuna fyrir því að svona komið fyrir Systu er móðir hennar. Hún er vond við börnin sín, Systu og Brósa. En faðir þeirra var góður við þau og þegar hann deyr flytur Systa að heiman og tekur upp þennan lífsmáta. Bróðir hennar flýr líka heimilið en segir sig ekki úr lögum við það sem telst vera eðlilegt líf. Móðir þeirra situr eftir í fínu húsi á Fjólugötunni og er virðuleg kona sem sinnir mannúðarmálum.
Líkt og ólíkt
Það sem er sameiginlegt með þessum konum er að þær eru báðar afskaplega skipulagðar. Þær skipuleggja tímann sinn og vita nákvæmlega hverju þær hafa efni á og hverju ekki. Þær vilja vera sjálfstæðar, ekki þiggja neitt, vera frjálsar. Eða hvað?
Þessar sögur eiga enn eitt sameiginlegt; það er að ég skil þær ekki almennilega. Tengi ekki við persónurnar.
Mig langar að sjá hvernig fer fyrir þessum konum, sitja þær fastar í sama farinu?
Veislan
Auður líkur sinni sögu með því að láta Björtu bjóða samleigjendum sínum í mat. Hún gerir dýrindis nautakjötspottrétt, Buff Stroganoff, handa þeim, hellir rauðvíni í glös. Það er skálað. Heimur Bjartar byrjar að breytast strax og hún tekur ákvörðun um að bjóða til veislu. Fásagan af matreiðslunni er stórkostleg. Er til nokkuð félagslegra en að borða saman. Líf Bjartar hefur öðlast tilgang.
Undirskriftin
Síðasti hluti í bókar Steinunnar er torræðari. Frásagnarhátturinn breytist, verður allt að því absúrd. Stundum er frásögnin runur af samhengislausum orðum. Minnti mig á þegar ég hlustaði á leiklestur á Sköllóttu söngkonunni eftir Eugene Ionessco fyrir margt löngu.
Það kemur nýtt fólk til sögunnar. Meðal annars Ketill, maður með austrænt útlit sem talar lýtalausa íslensku. Hann er forstöðumaður fyrirtækis eða safnaðar sem heitir Kvennabrekka. Systu stendur til boða að vinna hjá honum og fær þá mat og húsnæði ævilangt. Þegar kemur að því að skrifa undir samning sér hún að samningurinn er á tælensku. Ketill er ekki tilbúinn að þýða hann á íslensku. Ber því við að það sé of tafsamt. Systa minnist þá ráðgjafar móður sinnar um að skrifa aldrei undir eitthvað sem þú skilur ekki. Hún hættir við að ráða sig þótt hún sé búin að segja upp húsnæðinu. Hún hefur ekki í neitt hús að venda. Það er frost og hríð. Eins og af tilviljun finnur hún Lóló vinkonu sína gegnumkalda.
Ég lesandinn, veit ekki hvað er framundan. Hún druslar vinkonu sinni upp á vagninn hjá sér og stefnir til sjávar. Ætlar hún að ganga í sjóinn?
Er engin von?
Utangarðs
Það var tilviljun að ég las þessar bækur hvora á eftir annarri og fór að bera þær saman. Utangarðskonurnar sem lýst er, eru ekki líkar, það eru kringumstæðurnar sem tengja þær. Sjálfsagt er því einnig þannig varið með annað utangarðsfólk. Það er jafn ólíkt og það er margt.
Í mínum huga felur orðið utangarðs í sér útilokun frá samneyti við annað fólk og það nær út fyrir gröf og dauða. Það er svo sannarlega ástæða til að kryfja af hverju þetta stafar. Þýðir utangarðs e.t.v. það sama og útskúfun?
Lokaorð
Báðir þessir höfundar, Auður og Steinun skrifa leikandi létt, eru stílistar. En það breytir ekki því að mér finnst að ég viti ekki almennilega hvað þær eru að meina með sögum sínum. Og mér er ekki sama.
Myndin er af verki eftir Sölva Helgason
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189865
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 45
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.