3.1.2022 | 15:01
Yrsa Sigurðardóttir: Lok, lok og læs
Ég var ekki fyrr búin að lesa og skrifa um Ellina (Cicero) en ég varð illa haldin af kvölum í hægri mjöðm. Hækjurnar voru sóttar í geymsluna til að ég gæti staulast um. Næturnar voru verstar. Ég ályktaði að nú riði á ekkert nema að sökkva mér í krassandi lestur. Eitthvað krassandi.
Bók Yrsu Sigurðardóttur, Lok, lok og læs, varð fyrir valinu.
Lok, lok og læs er hrollvekja. Hún byrjar á að segja frá áhyggjum bónda í Hvalfirðinum sem fer heim til nágranna sinna af því hann hefur ekki séð til þeirra í marga daga. Þetta er moldrík fjölskylda sem er nýflutt í sveitina en hafði áður búið um skeið í Ameríku. Aðkoman er vægast sagt hræðileg. Lögreglan á Vesturlandi er kölluð til og síðan morðdeild lögreglunnar í Reykjavík. Mér skemmtilegt að sjá að Lögregluteymi ð á Vesturlandi var fengið að láni úr Akranesglæpasögum Evu Bjargar Ægisdóttur. Góð
samvinna. Í bókinni skiptast á frásagnir um hvað lögreglan er að fást við og frásagnir úr lífi fórnarlambanna meðan allt lék lyndi. Eða þannig. Þetta er allt hið óhuggulegasta, m.a. að Yrsa hikar ekki við að nota börn sem fórnarlömb. Yrsa er reyndar snillingur í að lýsa börnum. Umhverfið þarna í Hvalfirðinum er líka nöturlegt, útigangshross , blóðmerar, híma svangar og kaldar undir húsvegg.
Ástæðan fyrir því að ég kaus að lesa Yrsu í þetta skipti voru liðverkir (slíkir verkir fylgja gjarnan háum aldri). Nú get ég vottað að bóki
n virkaði betur en flestar pillur.
Lónsöræfin að vetrarlagi
Í fyrra vetur las/hlustaði ég á bókina Bráðin. Hún gerist í Lónsöræfum að vetrarlagi. Þessi bók var eiginlega enn hryllilegri. Og síðast liðið sumar lá leiðin austur eins og svo oft áður. Ég ræddi við ferðafélaga mína að það gæti verið forvitnilegt að skoða vettvang sögunnar. Lónsöræfi komu ekki til mála (vorum ekki á fjallabíl) en Stokksnesið var inn á alfaraleið. En þegar þangað var komið reyndist vera hlið sem kostaði 2000 krónur að opna. Ég og ferðafélagar mínir vorum öll á móti veggjöldum og snerum frá. Svo ég á enn eftir að skoða Stokkinn sem Stokksnes er kennt við en hann kemur á örlagafullan hátt við sögu í Bráðinni.
Lokaorð
Ég hef um langt skeið haft gaman af sakamálasögum en lengi framan af setti ég spurningarmerki við hryllingssögur. Mér fannst það öfugsnúið, að ég þessi friðsemdarkona, sem má ekkert aumt sjá, ástundaði slíkan lestur. Þrátt fyrir þessa hugmynd, fordóma, freistaðist ég af og til, til að lesa hrollvekjandi bækur. Og svo eru skilin á milli bókaflokka oft óljós. Það góða við að lesa sakamálasögur og hryllingssögur er að maður veit að þetta er allt í þykjustunni. Erfiðast er að lesa sannar sögur og hlusta á fréttir. Ég er löngu hætt að forðast að lesa um hrylling. Það sem mestu máli skiptir er að bókin sé vel skrifuð. Ég treysti Yrsu óhikað.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 189876
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.