17.8.2021 | 14:42
Glæpabærinn Akranes!!!
Ég hef ásett mér að lesa íslenskar sakamálasögur. Fylgjast með því sem er að gerast í okkar litla landi. Góður ásetningur er ekki alltaf nóg, stundum safnast upp ólesnar bækur og það dúkka upp höfundar sem ég hef ekki tekið eftir eða heyrt um.
Þetta gerðist með Evu Björgu Ægisdóttur. Ég vissi af henni en allt í einu eru komnar þrjár ólesnar bækur.
Marrið í stiganum 2018,
Stelpur sem ljúga 2019,
Næturskuggar 2020.
Ég ákvað að lesa þær í réttri röð. Mín fyrsta hugsun var, þessi kona er góð að finna titla á bækur sínar.
Eva Björg var fyrst höfunda til að hreppa glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn, fyrir bókina, Marrið í stiganum.
Allar bækurnar gerast á Akranesi.
Marrið í stiganum
Lögreglukonan Elma hefur hafið störf á Akranesi. En hún er ekki ókunnug þar, því hún ólst þar upp og fólkið hennar býr þar. Lögregluteymið á Akranesi vinnur vel saman. Í þessari bók skiptast á sögur úr lífi ýmissa Akurnesinga og sögur frá vinnu teymisins sem vinnur að því að upplýsa morð á ungri konu sem fannst í fjörunni við gamla vitann.
Þetta er saga um stéttaskiptingu, fátækt og umkomuleysi . Lítil stúlka verður fórnarlamb, því enginn gætir hennar.
Næsta bók, Stelpur sem ljúga, fjallar um hvernig erfið æska getur dregið dilk á eftir sér. Sagan hefst á að lýsa tilfinningum konu sem er engan veginn tilbúin að annast nýfætt barn sitt. Einstaklega vel lýst sálarástandi konu sem er haldin fæðingarþunglyndi, hugsa ég. Lögregluteymið á Akranesi fær upphringingu vegna líkfundar í Grábrókarhrauni. Lögreglan á Vesturlandi vinnur saman að lausn stærri mála. Þess vegna er teymið Akranesi kallað út.Líkið reyndist vera af konu sem hvarf frá heimili sínu fyrir sjö mánuðum og lögreglan hafði gert ráð fyrir að hefði fyrirfarið sér. Annað kom í ljós.
Þriðja bókin Næturskuggar fjallar um ungt fólk á Akranesi. Foreldrarnir koma einnig við sögu. Að sjálfsögðu. Þetta er saga úr nútímanum og ungt fólk býr lengur heima en fyrr á tímum. Enn vinna Elma og félagar að því að upplýsa morðmál. Það hefur orðið húsbruni við friðsæla götu. Og það kemur í ljós að pilturinn sem finnst látinn, hefur dáið áður en bruninn varð. Sími óperstúlku finnst á vettvangi en stúlkan er horfin. Það kemur síðan í ljós að þessi mál tengjast.
Ekki meira um þetta hér, ég vil ekki skaða upplifun væntanlegra lesenda ef einhver á eftir að lesa bækurnar.
Lokaorð
Eva Björg Ægisdóttir kann að skrifa. Og hún er ekki bara góð í að skapa trúverðugar persónur og draga upp ljóslifandi mynd af vettvangi hún er leikin við að laga blæbrigði textans. Ýmist til að ná fram dýpt frásagnarinnar eða hraða. Allt eftir því sem við á.
Það var gaman að lesa þessar bækur. Ekki síst textans vegna.
Ég átti því miður ekki mynd frá Akranesi. Myndin sem fylgir er af vitanum við Sæbraut í Reykjavík.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.