16.11.2020 | 17:04
Stúlka : Edna O´Brien
Sannleikurinn á bak við fréttina.
Það fór ekki mikið fyrir fréttinni, þegar sagt var frá ráninu á stúlkunum í heimavist stúlknaskólans í Norðaustur Nígeríu. Það var skæruliðahreyfingin Boko Haram sem nam þær á brott um miðja nótt. Gæti tengst Ísis hugsaði ég, maður veit svo lítið um þetta stóra land, Nígeríu. Það litla sem ég veit hef ég fengið í gegnum bóklestur. Hálf gul sól eftir Chimamanda Ngozi Adichie (íslensk þýðing Ingunn Ásdísardóttir) og Purple Hibiscuseftir sama höfund opnuðu mér sýn. Og var ekki bókin Allt sundrast eftir Chinua Achebeeinmitt þaðan?
Saga úr nútíðinni
Sagan Stúlka er svo sannarlega fræðandi. En sá fróðleikur felur í sér sannleika sem erfitt er að meðtaka. Það er nístandi að hugsa um líðan stúlknanna. En það er enn voðalegra að hugsa um hvernig menn geta unnið slík grimmdarverk. Auðvitað er stríð alltaf voðaverk, þetta verður einhvern veginn enn hræðilegra, þegar menn níðast á börnum augliti til auglitis. Ég er ekki að mæla hernaði bót sem er fjarstýrt án þess að horfast í augu við fórnarlömbin. Ara ýta á takka. Síður en svo.
Ég veit ekki hvað varð til þess að Edna O´Brien ákvað að skrifa bók um þennan atburð og lífsreynslu þessara stúlkna. Ég gæti ímyndað mér að ástæðan væri einfaldlega mannkærleikur.
Til að undir búa sig las allt sem hún komst yfir að lesa, hún heimsækir landið og hún fær að hitta stúlkur sem höfðu komist lifandi úr prísundinni. Síðan ákveður hún að skrifa sögu einnar stúlku á grundvelli þeirra heimilda sem hún hefur aflað sér.
Saga stúlku
Stúlkan Maryam er skálduð persóna.Maryam er ósköp venjuleg stúlka, hún er góður námsmaður, foreldrar hennar hafa ákveðið að kosta hana til náms og hún hefur fengið verðlaun fyrir ritgerð sem hún skrifar. Ritgerðin er um skóg. Hún er trúuð. Þegar Maryam er rænt verður algjört rof í lífi hennar. Hún er þrælkuð, misþyrmingar og nauðganir verða hluti af daglegu lífi hennar. Hún er látin giftast og hún eignast barn. Og er sjálf barn. Þegar henni tekst að flýja, þarf hún að takast á við sult og er að dauða komin þegar velviljaðir hirðingjar bjarga henni. Þessir bjargvættir þora síðan ekki að hafa hana hjá sér af því þeim stendur svo mikil ógn af Boko haram skæruliðunum.
Sagan er sögð í fyrstu persónu. Stúlkan sem segir söguna, romsar henni upp. Það er eins og hún haldi ómanneskjulegri fjarlægð frá efninu svo sagan verður í aðra röndina eins og skýrsla. Hvernig er hægt að lýsa því ólýsanlega?
Ég átti erfitt með að lesa/hlusta á þessa bók. Mér fannst það á vissan hátt óbærilegt. En um leið fannst mér að það hlyti að vera skylda mín að horfa á sannleikann á bak við fréttirnar sem ég hlusta á til að þykjast vera upplýst. Ég tók því bókina í áföngum og passaði upp á að lesa hana ekki undir svefninn.
Hvaðan kemur illskan?
Hvernig á ég sem bara hef kynnst góðu fólki að vita þetta? Ég kann söguna um skilningstré góðs og ills, um Evu sem tældi Adam til að borða eplið. Getur verið að það sé eitthvað til í því að maðurinn sé einfaldlega ekki fær um að stjórna gjörðum sínum? Og þó finnst mér það vera allt of mikil svarsýni að álykta sem svo. Ég vil trúa því að maðurinn sér fær um að gera rétt, taka ábyrgð á gjörðum sínum.
Þessi litla saga, Stúlka¡, er hvatning til okkar allra að láta ekki sem við stöndum utan við það sem er að gerast og berum ekki ábyrgð. Hún er hvatning til okkar að skyggnast um og leita að því litla sem við getum gert til að bæta heiminn. Bókin var gefandi þrátt fyrir að hún væri bæði átakanleg og hræðileg.
Örstutt um höfundinn
Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég áttaði mig á því hver var höfundur bókarinnar Stúlka. Þetta er Edna O´Brien, sem ég kynntist þegar ég var ung. Ég las tvær bækur eftir hana en réði ekki almennilega við það því ég var þá óvön að lesa ensku. Edna er frá Írlandi , fædd 1930. Það er hægt að skoða viðtöl við hana með því að googla nafnið.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.