20.10.2020 | 11:57
Sendiboðinn: Yoko Tawada
Bókin, sem ég var að lesa/hlusta á heitir Sendiboðinn og er eftir Yoko Tawada (fædd í Japan 1960)
Ég hef aðeins velt því fyrir mér að létta mér lund, á erfiðum tímum og lesa léttar og ljúfar bækur. Engu að síður hef ég sjaldan eða aldrei lesið jafn margar bækur sem fjalla um erfiðleika og vonleysi. Já og bækur sem þarf virkilega að hafa fyrir til að geta skilið þær. En ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með neina þeirra því mikið fæst ekki fyrir lítið þegar kemur að bóklestri.
Ástæðan fyrir því að ég valdi Sendiboðann eftir Yoko Tawada, var fyrst og fremst sú að hún er gefin út af Angústúru. Bækur frá Angústúru þarf maður að lesa, því þær eiga við mann erindi . Ég hafði ekki kynnt mér efni hennar og þekkti ekki höfundinn. En eftir að ég var komin dálítið inn í efnið, sá ég að hér er á ferðinni saga sem gerist í náinni framtíð. Aðstæður í heiminum hafa breyst.
Gamall maður Yoshiro annast langafabarn sitt, drenginn Mumei. Sagan gerist í Japan og landið er einangrað og fjölmargt sem við höfum litið á sem sjálfsögð þægindi er ekki lengur til staðar. Sími og sjónvarp eru ekki lengur í boði. Sama á við um öll heimilistæki
nema ísskápa. Þeir eru snúrulausir og knúnir sólarorku.Dýrin eru líka flest horfin. Það er reyndar hægt að leigja sér hund til að fara með í göngutúr. Sömuleiðis hefur gróður jarðar tekið miklum breytingum. Gamli maðurinn, Yoshiro, sem annast Mumei, er fullur sektarkenndar,
hann telur að umhverfisbreytingar séu hans kynslóð að kenna. Yngsta kynslóðin þekkir ekkert annað líf. En þau eru líkamlega fötluð og veik og þroskast ekki eðlilega. Ég las þessa bók til enda og fannst ástandið eðlileg afleiðing af því lífi sem við lifum. Auðvitað hrynur lífríkið, ef við höldum áfram að menga jörðina jafn mikið og við gerum í dag, hugsaaði ég. Og ég get ekki séð að neitt sé að breytast til batnaðar, hugsa ég áfram. Sakbitin eins og langafinn Yoshiro.
Í lok bókarinnar er eftirmáli sem segir frá höfundi og tilurð bókarinnar. Þar kemur fram að efni hennar vísar sérstaklega til þess sem hefur verið að gerast í Japan. Og þó fyrst og fremst til kjarnorkuslyssins sem varð 11. mars 2011 í Fukushima. Mér fannst fróðlegt að lesa eftirmálann. Auðvitað er gott að skilja bækur réttum skilningi.
En mér fannst engu að síður gott að fá þessar útskýringar ekki fyrr en í bókarlok, því það varð til þessa að tók efnið meira til mín. Bókin fékk breiðari skírskotun. Allt lífríki jarðarinnar er í hættu.
Lokaorð
Það var gaman að lesa þessa bók, þrátt fyrir ónotalegan boðskap hennar. Ég naut þess að lesa hana, fann ekki til kvíða þrátt fyrir hroðalega framtíðarsýn. Vesalings jörðin. Ég held að ástæðan sé að bókin er svo skemmtilega skrifuð, höfundur leikur sér með merkingu orða og með hugmyndir. Það er ekki síður ánægjulegt að samskipti fólksins í sögunni eru jákvæð. Langafinn er elskulegur kall, drengurinn Mumei er sömuleiðis vænn drengur. Það er hægt að tárast yfir hlutskipti hans.
Tvennt í viðbót.
Það er Sólveig Hauksdóttir sem les bókina og hún skilar því verkefni vel. Það er vandaverk, því þrátt fyrir allar áhyggjurnar af framtíð heimsins, sem bókin vekur, er hún fyndin.
Hitt sem ég ætlaði að minnast á er að þýðingin hlýtur að vera góð, það er svo mikil kúnst að koma orðaleikjum til skila af einu tungumáli yfir á annað.
Það hefur ein bók komið út áður eftir þennan höfund. Hún heitir Etýður í snjó og kom út 2018 í þýðingu Elísu Bjargar. Mig vantar svo sannarlega ekki lesefni.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189865
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 45
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.