2.6.2020 | 14:39
Berfætlingarnir! Zaharia Stancu
Oftast vel ég bækur af kostgæfni. Ég þekki til þeirra og hef fyrirfram hugmyndir um hverju þær muni skila mér. Það stenst þó misjafnlega. Í þetta skipti varð fyrir valinu bók sem ég rakst á fyrir tilviljun, eftir höfund, sem ég hef aldrei heyrt nefndan. Ég sá að hún var löng, tvö bindi. Þetta er einmitt bók fyrir mig núna, hugsa ég í miðju kóvítinu. Mig langar til að fara í langt ferðalag innanhúss.
Bókin gerist í Rúmeníu við upphaf síðustu aldar. Hún kom út í Rúmeníu 1948 en hér om hún út 1958 í þýðingu Halldórs Stefánssonar.
Sagan lýsir lífi örsnauðs bændafólks sem nær ekki að hafa í sig og á, þrátt fyrir að strita myrkranna á milli. Akrarnir sem það yrkir eru nefnilega ekki þeirra, heldur ríkra landeigenda.Óréttlætið er himinhrópandi.
Þetta er breið frásögn, sem lýsir lífinu í sveitaþorpi. Í forgrunni er ein fjölskylda, sjónarhornið er ungs drengs, sem ég ímynda mér að sé fulltrúi höfundar, jafnvel hann sjálfur.Þýðandinn segir frá því í formála að höfundur sé að hluta til að segja eigin sögu en Zaharia Stancu (fæddur 1902 dáinn 1974) var fátækur sveitadrengur sem braust til mennta með fádæma dugnaði Hann nam bókmenntafræði við háskólann í Búkarest.
En til baka til sjálfrar sögunnar.
Bókin fjallar um sveitalíf í Rúmeníu.Efnistökin minna stundum á Dalalíf.Þó er í þessari sögu frásögnin krydduð með þjóðsögum og jafnvel kveðskap. Við Íslendingar erum vön umræðu um fátæktina áður fyrr. Í okkar harðbýla landisegja menn. En þegar maður ber saman kjör sveitafólksins hér heima og í Rúmeníu við upphaf síðustu aldar, þakka ég mínum sæla fyrir að vera úr íslenskri sveit. Munurinn liggur í eignarhaldi á jörðum. Allt land var
í eigu stórbænda og smábændur voru nánast réttlausir. Lýsingin á högum fólksins minnir á sögur af þrælahaldi á plantekrum í Suðurríkjum Bandaríkjanna.
Þarna er sem sagt lýst ójöfnum kjörum. Annars vegar fáeinir auðmenn og hins vegar snauð alþýða. Íslenska fátæktin átti sér það til ágætis að hún var nokkuð jöfn, þá svíður minna.
Í þessari sögu er sveitafólkið ekki bara kúgað af landeigendum, þar sem það er keyrt áfram með svipum, það eru ekki síður mikil innbyrðis átök á milli fátæklinganna sjálfra sem bítast um brauðið. Það er einnig víða lýst sundurþykkju og hörku í samskiptum fátæklinganna sjálfra. Þetta örsnauða fólk er beinlíns vont hvert við annað. Ég er sjálf fædd og uppalin í sveit. Þar hjálpaðist fólk að og var notalegt hvert við annað. Þar var heldur enginn moldríkur.
Rúmenar gerðu tilraun til að bylta samfélaginu 1907 en sú tilraun mistókst enda illa undirbúin og var barin niður af mikilli grimmd. Það eru margar lýsingar á ofbeldi í þessari bók og sumar eru svo voðalegar að það var erfitt að lesa um þær.
Sagan um fátæklingana í Rúmeníu, sem áttu ekki einu sinni skó á fæturna, heldur manni föngnum, rígföstum. Það er eitthvað heillandi við frásagnarmátann sem ég kann ekki að skilgreina. Setningarnar eru oft stuttar og hnitmiðaðar, svo það er eins og það sé mikill hraði þrátt fyrir að verið sé að lýsa stöðnuðu þjóðfélagi.
Ég mæli með þessari bók, hún er löng og það tekur á mann að lesa hana. Hún er fræðandi og hún skilir líka eftir margar spurningar.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.4.): 6
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 189917
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Í mínu bókasafni er Meðan eldarnir brenna eftir Zaharia Stancu og ég mæli með henni.
Þorsteinn Briem, 2.6.2020 kl. 15:49
Takk fyrir ábendinguna
Bergþóra Gísladóttur (IP-tala skráð) 2.6.2020 kl. 22:42
Merkilegt að vera að uppgötva þessar bækur fyrst núna. Ég hef átt þær í hartnær hálfa öld og þær eru alltaf uppi við enda lesnar reglulega. Rithöfundurinn varð mjög vel þekktur og jafnvel orðaður við bókmenntaverðlaun Nóbels. En það verður enginn svikinn af þessari "sjálfævisögu" hans Darí.
sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 3.6.2020 kl. 08:06
Hef lesið og á Bókina, Meðan eldarnir brenna. Hún er meiri háttar. Fyrir löngu síðan, held að Júgóslavia hafi verið óskipt, þá kom þaðan lag í Júróvíson sem hém Selja Moja, það var söngkona sem flutti, Doris Drakovis. Þegar ég heyrði lagið þá rann þessi frásögn í bókinni einhvern veginn með laginu. Veit ekkert um text.ann
Haukur Árnason, 3.6.2020 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.