12.5.2019 | 22:11
Egyptinn: Mika Waltari
Hvenær lýkur ferðalagi?
Nú eru liðnir 17 dagar síðan ég kom heim frá Egyptalandi og ég er að nokkru leyti þar enn. Í huganum.
Ég hef verið að lesa Egyptann eftir Mika Waltari (1908 -1979). Ég byrjaði á bókinni áður en ég fór, og lauk við þegar ég kom heim. Ég hef einnig legið á Wikipedíu og lesið mér til, til að geta svarað spurningum sem kviknuðu við lesturinn.
Þetta er um margt merkileg bók, söguleg skáldsaga, kom út 1945 í Finnlandi. Hér kom hún út 1952 í þýðingu Björns O. Björnssonar. Sagan segir að höfundur hafi skrifað hana á þremur mánuðum í skugga stríðsins. Hún stenst vel tímans tönn, þ.e. hún er vel læsileg fyrir nútímafólk. Hún segir frá fólki, atburðum og stríðsátökum á tímum nýja ríkisins (1330 fyrir Krist) í Egyptalandi og nærliggjandi ríkjum. Sagan er lögð í munn læknisins og lærdómsmannsins Sínúhe. En sá maður mun hafa verið til í raunveruleikanum, því það hafa varðveist eftir hann textar og textabrot. Vegna starfa síns sem læknir tengdist Sínúhe fólki á æðstu stöðum, þ.e. fjölskyldu faraós og embættismönnum ríkisins.Við sögu koma m.a. faraóinn Akhenaten (1351 til 1334 f. Kr.) sem frægur er fyrir að hafa fyrstur einvalda reynt að koma á eingyðistrú í ríki sínu. Sá guð var guð friðar og jöfnuðar.
Waltari lætur sögumann sinn Sínúhe vera fróðleiksþyrstan og koma víða við. Kynnast háum sem lágum. Sagan er því í senn saga þessa merkilega ríkis og saga alþýðunnar sem bjó þar.
Hún er bæði spennandi og fræðandi. En þetta er ekki neinn skemmtilestur, því hún er full af frásögum um ofbeldi, misþyrmingum og kúgun. Ég er ekki að bera brigður á að svo hafi verið í raunveruleikanum, miklu frekar undirstrika það, af því ég trúi,að svo hafi verið, finnst mér frásagan fá aukinn kraft.
Að tapa trú á mannkynið
Waltari teflir saman frásögum af hugsjónamanninum og siðbótarmanninum Akhenaten sem vill setja af hina gömlu guði og hikar ekki við að beita til þess valdi og stríðsmanninum Hóremheb sem telur stríð bæði góð og nauðsynleg.
Það hvarflaði að mér að hann væri með Stalín og Hitler í huga, báðir komu að því að móta örlög heimalands hans, Finnlands. Og ef sú tilgáta er rétt, að aðalpersónur Waltari eigi sér fyrirmyndir, er ekki ólíklegt að vinur og fyrrverandi þræll Sínúhe, hinn ráðagóði Kaptah, sé Churchill. Þetta voru getgátur.
Það er mikil bölsýni í þessari bók enda hafði höfundur ekki farið varhluta af stríðsástandi í landi sínu. Mér sýnist boðskapur bókarinnar vera, að manninum sé ekki trúandi fyrir sjálfum sér eða fyrir jörðinni sem nærir hann. Og að honum sé áskapað að læra ekki af reynslunni og geri því ævinlega sömu mistökin.
Getum við eitthvað lært?
Meðan ég hlustaði á þessa sögu, sem er listavel lesin af Sigurði Skúlasyni, var mér ekki bara órótt yfir grimmd fortíðarinnar. Nei, mér var miklu frekar órótt vegna þess sem er að gerast í okkar eigin samtíð fyrir augunum á okkur. Vegna stríðanna sem geisa og jörðinni sem við höfum gengið of nærri.
Hvað eftir annað hugsaði ég, getum við eitthvað lært? En ég er svo lánsöm að ég trúi á það góða í manninum og ég geri ráð fyrir að það mætti skrifa bækur um framfarir og allt það góða sem hefur gerst í heiminum. Við þurfum að hafa augun opin fyrir því góða ekki síður en því sem úrskeiðis fer. En líklega eru bækur um vonsku betri söluvara en bækur um gæsku og kærleika.
Að lokum ætla ég að reyna að svara spurningunni sem ég lagði upp með, hvenær lýkur ferðalagi. Svari mitt er. Gott ferðalag er eins og snjóbolti í hæfilega blautum snjó. Það heldur áfram að hlaða utan á sig og stækka.
Myndin er af pistlahöfundi í Egyptalandi. Ljósmyndari: Erling Ólafsson
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir góð skrif, frú Bergþóra.
Hádegismóri ferðast hins vegar ekki.
Þorsteinn Briem, 12.5.2019 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.