2.4.2019 | 21:12
Arisman
Bók Tapio Koivukari, Arisman, kom út 2012 og ég var fyrst að lesa hana núna. Það var bókin um Galdra-Möngu sem kallaði á hana. Ég hef reyndar lengi verið forvitin um þessa sögu: Hvernig gat það gerst að Íslendingar réðust gegn skipbrotsmönnum og dræpu þá? Þetta var svo ólíkt öllu sem öðru sem heyrst hafði. Níðingsverk.
Þetta hefur Tapio Koivukari líka fundist líka og þess vegna kafar hann ofan í bakgrunn þessa máls.
Atburðirnir áttu sér stað 1615. Það voru vestfirskir bændur sem unnu á þeim undir stjórn höfðingja síns, Ara Magnússonar í Ögri.
Ekki ein og ekki tvær, heldur margar hliðar
Höfundurinn leitast við að skoða málið frá ýmsum hliðum. Spánverjarnir höfðu verið hér við hvalveiðar í góðri trú og átt viðskipti við Íslendinga. Samskiptin fara ýmist fram á latínu eða á því sem í sögunni er kallað verslunarmál, margt er óljóst.
Þetta er söguleg skáldsaga.
Tapio Koivukari setur hana á svið og tekst draga upp mynd af persónum sem eru nógu lifandi til að maður trúir því að þær hafi verið til og að þetta hafi allt verið nákvæmlega svona. Sögusviðin eru mörg. Líf bændafólks, þar sem unga stúlkan Kristrún er í forgrunni. Lífið í smábæ í Baskalandi þar sem lífið byggist á sjómennsku. Lesandinn er fylgist með uppvexti drengsins Martin de Villafranca, tilviljun ræður því, að hann velur sjómennskuna, sama gildir um drenginn sem verður aðstoðarbeykir, Gartzia de Aranburu. Maður vonar svo innilega að þeir bjargist.
Lesandinn er rækilega kynntur fyrir veiðunum og lífinu um borð. Og loks erum við kynnt fyrir höfðingjanum Ara og fjölskyldu hans.
Galdurinn
Galdur skáldskapar er að maður trúir sögu höfundar, fær samkennd með persónunum, jafnvel skúrkunum. Mér finnst merkilegt að útlendur maður, geti sett sig svo vel inn í veruleika fortíðarinnar hér á okkar afskekkta landi. Um leið slær það mig að öreigar allra landa eiga margt sameiginlegt. Reyndar má færa þann sannleik einnig upp á valdstéttina og stóreignafólk.
Það er mikið afrek að setja sig inn í og endurskapa þessa veröld, sem er svo ólík okkar. Við sem erum vön að líta á okkur svo sérstök og einstök. Kaflinn um hvalveiðar var skemmtilega ítarlegur og allt í einu vissi ég fjölmargt sem ég hafði ekki hugmynd um fyrir. Lýsingarnar á lífinu í Baskalandi varð til þess að samkennd lesandans með sjómönnunum var enn sterkari. Flestir Íslendingar sem ég þekki, geta auðveldlega tengt sig við sjómenn og sjómennsku og margir Íslendingar á mínum aldri haf misst ástvini í hafið.
Aðförin að Spánverjunum er því óskiljanleg og glæpsamleg. Eftir að hafa lesið Arisman sýnist mér einfaldast að líkja aðförinni að Spánverjunum við stríð. Það er kynnt ófriðarbál. Það er búið til andrúmsloft ótta og tortryggni. Fólki er talin trú um að þarna séu hættulegir óvinir á ferð.
Bækur eru ekki einnota
Það er hefð fyrir því að það er fyrst og fremst fjallað um bækur um leið og þær koma út og mig grunar að þær séu einkum lesnar þá. En bækur eru ekki einnota. Bók er ný í hvert skipti sem hún er lesin, hún endurskapast í hug og hjarta lesanda síns. Þetta skrifa ég af því það eru 7 ár síðan bókin kom út og mig langar til að mæla með henni við þá sem eru svo heppnir að eiga eftir að lesa hana.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 4
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 189891
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 45
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.