25.3.2019 | 14:30
Brennuöldin eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur
Það er göldrum líkast hvernig ein bók kallar á aðra. Stundum finnst mér eins og valdið til að velja sé frá mér tekið.
Þegar ég hafði lokið bók Tapio Koivukari um Galdra-Möngu, brann ég í skinninu að vita meira um þessa undarlegu tíma, þegar fólk trúði því að það gæti breytt gangi lífsins með hjálp afla, sem lágu einhvers staðar á milli náttúruafla og trúarbragða.
Ég vissi af bók Ólínu Þorvarðardóttur, um þetta efni, hún ber nafnið Brennuöldin. Hún kom út árið 2000 og ég hafði eitthvað blaðað í henni á sínum tíma.
Nú vill svo vel til að það er nýbúið að lesa þessa bók inn sem hljóðbók hjá Hljóðbókasafni Íslands. Það er Ólína sjálf sem les og það gerir hún framúrskarandi vel. Bókin byggir á doktorsritgerð höfundar og er því í grunninn fræðileg. Það er því vandaverk að lesa og koma til skila því sem er mikilvægt í slíkum bókum. Þ.e. hvert hún sækir heimildir og hvaða fræði hún leggur til grundvallar. Þetta gerir Ólína lipurlega og það truflar aldrei eðlilegt flæði og framvindu meginmáls bókarinnar.
Þetta er mikil bók, tekur tvo 26 tíma í upplestri og því er mikilvægt að átta sig vel á uppbyggingu hennar frá byrjun.
Ólína rannsakar efnið út frá tvennum ólíkum heimildum. Annarsvegar leggur hún til grundvallar dómabækur alþingis, hins vegar munnmæli og þjóðsögur. Allt þetta skoðar hún í sögulegu ljósi, því fjallar hún um sögu og hugmyndaheim galdra og galdraofsókna í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Sá kafli var afar áhugaverður fyrir mig því þar kom margt fram sem ég vissi ekki áður. Aðalviðfangsefni rannsóknarinnar er þó um það sem gerðist á Íslandi. Mér fannst merkilegt að sjá hvernig hún varpaði ljósi á rannsóknarefnið fá þessum ólíku hliðum, þ. e. því sem stendur eins og stafur á bók í dómsskjölum og því sem lifað hefur í munnmælum og þjóðsögum. Umfjöllun hennar um þjóðsögurnar fannst mér sérstaklega gefandi, því þar fannst mér eins og mér opnaðist nýr þekkingarheimur.
Auðvitað er þetta alltof stórt og margslungið verk til að lýsa í stuttum pistli. Mig langaði bara til að segja þeim sem ekki hafa lesið og hafa áhuga á að kynnast fortíð okkar og skilja hana, að mikið fæst ekki fyrir lítið, en það er þess virði að lesa þessa bók þótt það taki bæði tíma og fyrirhöfn. Með fyrirhöfn meina ég að lesturinn krefst einbeitingar og fullrar nærveru hugans.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.4.): 1
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 189894
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.