21.9.2018 | 18:48
Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja, þrenna eftir Jon Fosse
Þeir sem hafa lesið pistlana mína, vita að að í hálft ár hef ég legið í rússneskum bókum um stríð. Þessar bækur eiga það sameiginlegt að lýsa umhverfi, atburðarás og fólki svo vel og ítarlega að það er eins og maður sé þátttakandi.
Til upprifjunar nefni ég þær: Sívagó læknir eftir Pasternak, Lygn streymir Don eftir Sjolokhov og Stríð og friður eftir Tolstoj. Auk þess las ég bókina Dagur í lífi Ivans Denisovitch eftir Solsenitsyn sem segir frá einum degi í fangelsi.
Eftir þessa Bjarmalandsdvöl voru það viðbrigði að lesa bækur norðmannsins Jon Fosse (f. 1959). Ég var ekki undir það búin. Textinn er knappur. Meðan rússnesku bækurnar flæða fram eins og breitt fljót, minna bækur Fosse meira á nið lækjarsytru. Bækurnar heita Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja. Þær mynda eina heild, og segja sögu norsks alþýðufólks frá fyrri tímum. Bækurnar eru stuttar og ljóðrænar. Frásögnin er svo knöpp að það jaðrar við naumhyggju.
Þær komu út í Noregi á árunum 2007, 2012 og 2014. Og 2015 voru höfundi veit Norrænu bókmenntaverðlaunin fyrir verkið í heild. Á Íslandi komu þær út 2016 en voru lesnar inn fyrir Hljóðbókasafnið 2018.
Hjalti Rögnvaldsson hefur þýtt bækurnar. Hjalti er leikari og hefur lesið inn fjölda bóka fyrir Hljóðbókasafn Íslands og er hann einn af mínum uppáhaldslesurum. En það er ekki hann sem les í þetta skipti, heldur Stefán Jónsson sem gerir það listavel. Lesturinn skiptir enn meira máli þegar textinn er ljóðrænn, finnst mér. Ljóð eiga svo greiðan aðgang að hjartanu.
Ég hef ekki lesið Fosse fyrr, en heyrt af honum, hann er jú margverðlaunaður fyrir bækur sínar og leikverk. Loks þegar ég las, Min kamp eftir Knausgård, ákvað ég endanlega að ég yrði að lesa þennan höfund. Knausgård talar oft um hann og af mikilli virðingu. Þess vegna gladdist ég þegar ég sá að búið var að lesa þær inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Ég fylltist þakklæti. Þannig líður sjónskertri bókamanneskju þegar hún fær nammið sitt.
Mér finnst mikill fengur í að fá þessar bækur á íslensku, þær eru fallegar, bæði hvað varðar útlit og allan frágang.
Nú veit ég að það finnast fleiri bækur eftir Fosse á því góða safni. En best væri auðvitað að verða sér út um bækurnar á norsku úr því ég er svo heppin að skilja það fallega mál.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.5.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 56
- Frá upphafi: 190024
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 45
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
LAS ÞETTA ALLT -- ÁRHRIFARIKT.
Erla Magna Alexandersdóttir, 21.9.2018 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.