Kapítóla: Villta vestrið í kvenlegum búningi

EDEN_Southworth_c1860-crop

Kapítóla: Villta vestrið í kvenlegum búningi

Það eru um það bil sextíu ár síðan að ég var fengin að lesa fyrir gamla konu, Guðlaugu Helgu Þorgrímsdóttur. Hún var lasin og sonur hennar, kennari minn, bað mig um þetta. Bókin sem hún valdi var Kapítóla. Ég náði engu sambandi við bókina, líklega vegna þess að ég hafði þá komið mér upp bókasmekk (fordómum) að ég hefði ekki gaman af ástarsögum. Ég var 14 ára.

Ég fékk reyndar ekkert samhengi í söguna því við vorum fleiri sem skiptumst á að lesa.

Þegar ég sá að búið var að  lesa Kapítólu inn hjá Hljóðbókasafninu ákvað ég að sannreyna hverslags bók Kapítóla væri. Bókin er lesin af Silju Aðalsteinsdóttur, listavel.

Ég þurfti ekki að hlusta lengi, til að komast að því, hve rangt ég hafði haft fyrir mér. Þetta er ævintýraleg prakkarasaga þar sem aðalhlutverkið er í höndum hinnar strákslegu Kapítólu. Sögusviði er Villta Vestrið, nánar til tekið afskekkt stórbýli í hrikalegu fjallahéraði í Virgíníu.

Hinn uppstökki og orðljóti stórbóndi og fyrrverandi major, Fellibylur, er kallaður út um miðja nótt, til deyjandi konu. Óveðrið  hvín í fjallaskörðunum. Hún trúir honum fyrir leyndarmáli og miklu óréttlæti. Fellibylur sækir götubarnið Kapítólu til New York, þar sem hún hefur dulbúið sig sem strák. Það er auðveldar að vera strákur en stelpa þegar maður þarf að bjarga sér.

Þessi saga er ævintýraleg frásögn, þar sem við sögu koma ræningjar, misindismenn og skúrkar annars vegar en hins vegar fátækar einstæðar mæður og höfðinglegir og ríkir stórbændur.

Í þessari sögu er fólk annaðhvort fallegt og gott eða ljótt og vont. Nema svarti Donald sem er í raun góður maður á villigötum.

Sagan er æsispennandi og ekki spillir að öllum aðstæðum er lýst á þann veg að maður verður forvitin um þetta framandi umhverfi. Svarta þjónustufólkið (þrælarnir) sefur á dýnu á gólfinu inni hjá húsbændum sínum  til  að geta þjónað þeim sem best.

 

Ég las mér til um höfundinn. Bókin er eftir konu, E.D.E.N. Southworth sem er fædd 1819. Sagan kom fyrst sem framhaldssaga í blaðinu New York Ledger 1859. Og síðan 1868 og loks 1883. Hún kom loks út sem bók 1888 og sló í gegn. Þessi útgáfusaga er eins og fjölmargra annarra bóka frá frá þessum tíma.

E.D.E. N. Southworth var menntuð róttæk kona sem skrifaði til að drýgja tekjurnar eftir að maðurinn stakk af frá henni og tveimur börnum (til að leita að gulli). Hún þarf því ekki langt að leita eftir fyrirmynd að frómum sívinnandi einstæðum mæðrum.

Þetta er á tímum íslensku vesturfaranna og að einhverju leyti sá veruleiki sem mætir þeim. Það var líka þannig sem þessi bók rataði til okkar. Mér hefur ekki tekist að púsla saman  útgáfusögu þessarar bókar á íslensku en sýnist að hún hafi fyrst komið út sem framhaldssaga í Heimskringlu (Winnipeg) 1897, Kapitola: Upp komast svik um síðir. Ekki er getið þýðanda bókarinnar sem ég hef undir höndum en í bók frá  1905 (varðveitt á Borgarbókasafni , aðalbókasafn) er Eggert Jóhannsson skráður sem þýðandi og Jóhann Jóhannesson sem útgefandi og kostnaðarmaður.   Sú bók átti eftir að fá á sig gagnrýni frá Jónasi frá Hriflu, sem er vafasöm.

Eins sjá má tapaði ég mér alveg í að skoða mannlífið sem þessi bók hafnaði í, allt vegna þess að mig langaði til að skilja heim Guðlaugar H. Þorgrímsdóttur en hún var á aldur við ömmur mínar sem voru fæddar 1884. Þetta hafa þær verið að lesa. Ævintýralega spennusögu með ástarívafi, þar sem söguhetjan er  grallaralegur stelpukrakki. Mest hafði ég þó gaman að því að sjá  hvernig kvenréttindakonan E.D.E. N. Southworth laumar inn gagnlegum fróðleik eins og t.d. að það ætti engin stúlka að gifta sig fyrir 20 ára aldur, því barneignir á ungaaldri og þrældómur sem því fylgdi gæti verið dæmalaust heilsuspillandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk fyrir þennan fróðlega pistil Bergþóra. Mig langar að segja hér frá skoðun minni á núverandi dómsmálaráðherra Íslands. Mér finnst hingað til, sú persóna (sem er kona), alveg ágætis persóna. En það er eins og hanstél karlaveldisins geti með engu móti gefið þessari ágætis konu einhvern jákvæðan möguleika?

Ég held að þessi ágæta Sigríður Andersen sé verðug verkefnisins sem hún hefur fengið í sitt fang. En það er eins og einhverjir baktjalda-laumukarlar ætli alls ekki að aðstoða hana eitt eða neitt á réttlætanlegan hátt? Karlaveldis-kóngarnir ætla bara kannski að kenna þessari konu um allt sem misjafnt er og hefur verið, á dómstólabraut lögmanna-karlaveldisins vegferð Íslands?

Takk fyrir að ómenntaða og ómerkilega ég, fái að birta mína takmörkuðu og vafasömu lífreynslu-verðmetnu skoðun hér á þinni netsíðu :)

M.b.kv. Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.7.2017 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband