Á nótttinni er allt blóð svart


D19BC4E6-5115-43CB-BB2B-BAC1A3F0ADCDÁ nóttinni er allt blóð svart
eftir David Diop er ein besta bók sem ég hef lengi lesið. En það er ekki áreynslulaust að lesa hana, því hún segir frá svo skelfilegum hlutum að maður vill helst ekki vita að þeir séu til. Á erfitt með að meðtaka þá, því þeir kollvarpa hugmyndum okkar um heiminn. Bókin segir frá stríði. Dags daglega heyrum við talað um stríð eins og einhvers konar keppni, þar sem eðlilegt er að fara eftir leikreglum, dómarinn fylgist með og blæs í flautuna þegar reglur eru brotnar og veifar spjaldi sem allir skilja og eru tilbúnir til að taka mark á. Í rauninni er  ekkert skylt með stríði og íþróttum. Þjóðir hafa að vísu reynt að koma sér upp leikreglum en þær eru þverbrotnar og virtar að vettugi þegar á reynir. Sigurvegari fer oftast með hlutverk dómara.

Sannleikskornið í þessari sögu

Í heimsstyrjöldinni fyrri, vildu Frakkar styrkja stöðu sína með því að fá unga menn  frá Vestur Afríku, Senegal, til liðs við sig. Sagt er að þeim hafi verið ætlað að hræða andstæðinga með útliti sínu og villimannslegri framkomu.  Þeim var fengin sveðja, auk riffils til að berjast með. Sagan segir frá einum þessara ungu manna, Alfa Ndiaye. Þegar hann var tvítugur lét hann skrá sig í herinn ásamt vini sínum og uppeldisbróður.Þannig vildu þeir öðlast frama. Þeirra beið skotgrafahernaður á Vesturvígstöðvunum.  Þegar vinur hans særist alvarlega, var ristur á hol með iðrun úti, situr Alfa hjá honum meðan hann er að deyja. Hann veður vitni að þjáningum hans en treystir sér ekki til að verða við bón hans um að hjálpa honum til að deyja, stytta kvalastríðið hans. En hann hét því að hefna hans. Hann ákveður að gera það með því að láta óvinina kveljast á sama hátt og vinur hans gerði. Í raun brjálast hann.

Erich Maria Remarque hefur lýst skotgrafalífinu á óviðjafnanlegan hátt í bók sinni Ekkert að frétta á Vesturvígstöðvunum og sú bók kemur því upp í hugann við þennan lestur. Sú bók er um bláeygu óvinina, sem þeir félagar voru að berjast við. (þetta var útúrdúr).

Félagar Alfa og og höfuðsmaðurinn, yfirmaður hans, vissu hvað Alfa aðhafðist, hann kom alltaf til baka með afskorna hönd sem sigurtákn. Í fyrstu þrjú skiptin hrósuðu þeir honum fyrir hetjuskap. Eftir það sniðgengu þeir hann. Þegar hann hafði átta sinnum hefnt sín með því að misþyrma  óvinum, var hann sendur á geðsjúkrahús. En bókin er ekki bara um stríð, hún fjallar líka um lífið í Senegal og uppvöxt hans,fólkið hans og vininn sem hann missti og vildi hefna. En fyrst og fremst fjallar þessi bók um geggjun stríðsins

Frásagnarmátinn 

En það er ekki bara efni bókarinnar sem gerir hana sérstaka, heldur frásagnarmátinn. Hann er alveg sérstakur og hrífur mann með sér. Stundum eins og ljóð, sundum eins og romsa eða þula. Og oft miklar endurtekningar. Trúlega er aldrei hægt að segja hvað gerir texta að skáldskap. En það er göldrum líkast.

Um höfundinnn

David Diap (fæddur 1966) höfundur þessarar bókar er  Senegal-Franskur. Hann er fæddur í Frakklandi og uppalinn í Senegal til 18 ára aldurs. Eftir það fer hann til náms í Frakklandi og lærir bókmenntir. Hann býr nú í Pau í Suður-Frakklandi þar sem hann kennir og vinnur að rannsóknum á frönsku og bókmenntum 18. aldar. Þessi bók kom út 2018. Hún hefur fengið fjölda verðlauna.

Þýðingin

Það er mikill fengur að hafa fengið þessa bók þýdda á íslensku. Það er Ásdís R. Magnúsdóttir sem þýðir hana og ég er sannfærð um að þýðingin er góð því hún talar bæði til vitsmuna og hjarta. Árni Blandon les bókina, hann er vanur og traustur lesari.

Angústúra

Það er Angústúra sem gefur bókina út. Þetta forlag á þakkir skilið, því alveg síðan það kom á bókamarkaðinnn, er greinilegt að það vill stækka heiminn. 

Myndin tengist ekki efninu. Hún var tekin á Seyðisfirði fyrir nokkrum árum.  


Bloggfærslur 28. september 2022

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 190413

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband