Færsluflokkur: Bloggar

Álabókin:Patrik Svensson

IMG_0953
Álabókin

Eftir að hafa hlustað á umfjöllun um Álabókina í Kiljunni, var ég ákveðin í að  þessa bók skyldi ég lesa.  Ég hef kynnst álum og fannst þeir vera dularfullar skepnur. Meira um það seinna.

Hugmyndasaga

Álabókin, saga um heimsins  furðulegasta fisk, er eftir Svíann Patrik Svensson (fædddur 1972). Þetta er fyrsta bók höfundar, sem kom út í heimalandinu  2019 og  sló algjörlega í gegn. Hún fékk Augustpriset (helstu bókmenntaverðlaun Svía) og nú er búið að selja þýðingarrétt á bókinni á 33 tungumál.

Bókin er á vissan hátt ævisöguleg, höfundur fléttar frásögnina um álinn saman við eigið líf.  Hann segir  frá veiðiferðum  sem hann fór í með föður sínum sem lítill drengur. Um leið og hann rifjar upp samveru þeirra feðga, ræðir hann um breytingarnar sem hafa orðið á lífi fólksins. Já og álsins. Rauði þráðurinn sem hlykkjast í gegnum þessa bók er állinn. Állinn kemur víða við  sögu og hugmyndir um þessa skepnu hafa tekið breytingum í tímans  rás.

Bókin er í senn hugmyndasaga og  saga um þekkingarleit mannsins . Allt var þetta vegna þess að lengi vel vissi enginn hvernig álar juku kyn sitt. Þetta er lágstemmd bók um  virðingu fyrir lífríkinu og og um aðdáun og væntumþykju.

Höfundur rekur sögu álsins allt aftur til Egypta til forna og til   Aristótelesar.  Hann hélt því  fram að líf álsins kviknaði í botnleðju. Sigmund Freud fékk  sem ungur  vísindamaður að kryfja ála, til að finna eistu þeirra. Hann fann þau ekki. Eftir það hætti hann við náttúruvísindin og sneri sér að læknisfræði. Það var danskur maður, Johannes Schmidt( f. 1877 dáinn 1933) náttúrufræðingur á vegum rannsóknarstofu Carlsberg sem að lokum setti fram kenningu sem svaraði spurningunni um hvernig állinn fjölgar sér. Þá hafði hann rannsakað hegðun álsins í meira en 20 ár.    

Bókin heitir Ålevangeliet á sænsku sem sem myndi útleggjast Áláaguðspjallið á íslensku. Þessi titill segir mér að höfundur vill undirstrika að bókinni er ætlað að flytja okkur boðskap. Ég er hissa á að titillinn skuli ekki vera þýddur beint, en það á sér sjálfsagt skýringar sem ég þekki ekki.

Kynni mín af álnum

Sumarið 1965 eða 66 bjó ég sumarlangt á Djúpavogi hjá systur minni og mági . Hann hafði sótt um að taka þátt í verkefni sem var stýrt að sunnan. Hugmyndin á bak við verkefnið var að nýta betur þær auðlindir sem landið gaf. T.d. veiða ál og koma honum á markað. Mágur minn Sigurður V. Kristinsson, hafði fengið

álagildrur að láni frá þeim sem sá um verkefnið. Hans hlutverk  var að koma þeim fyrir þar sem líklegt væri að állinn héldi sig. Þetta var seinnipart sumars og við fórum oft öll fjölskyldan saman til að skoða í gildrurnar. Veiðin var góð og næstum daglega bættust álar við í tunnuna sem állinn var geymdur í þar til nóg væri komið í sendinguna suður. Við höfðum meira að segja  tekið einn vænan ál frá til að borða sjálf. Matreiðslan kom í hlut systur minnar, hún dró fram matreiðslubók og sauð álinn í kryddlegi. Það tókst vel en henni fannst állinn  viðbjóðslegur  viðkomu og það voru aldrei prófaðar fleiri uppskriftir. Einhvern tíma í lok álavertíðarinnar gekk í mikla rigningu. Hellirigningu eins og hellt væri úr fötu. Þegar mágur minn gáði í tunnuna til að vita hvernig álunum leið, var engan ál að sjá.

Vatnsborðið í tunnunni hafði hækkað í rigningunni nægilega mikið til að álarnir gátu flúið. Þeir höfðu greinilega líka fundið sér leið  burt, því hvergi var ál að sjá. Væntanlega hafa þeir ratað á sínar heimaslóðir fleiri kílómetra leið.

Nú er állinn flokkaður sem dýr í útrýmingarhættu og allar veiðar bannaðar.  


Uppreisn Jóns Arasonar: Ásgeir Jónsson

DB6044EB-A899-4979-9F4F-CC0CE67036BE
Uppreisn Jóns Arasonar

Það vakti forvitni mína þegar ég frétti að Ásgeir Jónsson Seðlabankastjórinn okkar hefði skrifað bók um Jón Arason biskup. Og ég gladdist þegar ég sá að búið var að lesa hann inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Nú hef ég lokið henni og varð ekki fyrir vonbrigðum. Áður hef ég lesið þrjár bækur um þennan sögufræga mann. Þær eru eftir Torfhildi Hólm, Gunnar Gunnarsson og Ólaf Gunnarsson. Bók Ásgeirs fjallar um síðustu ár Jóns, þ. e. árin sem hann er í uppreisn gegn yfirvöldunum.Hann hafði tekið Martein Einarsson Skálholtsbiskup til fanga og taldi að þar með væri hann biskup allra landsmanna. En átökin um siðskiptin voru ekki bara um trúmál, þeim tengdust átök um verslun og jarðakaup. Ásgeir Jónsson hefur frásögn sína á að segja frá  áhlaupi Daða Guðmundssonar á Jón og menn hans í kirkjugarðinum á Sauðafelli. Jón hafði bannfært Daða fyrir hórdóm og Ari sonur hans deildi við Daða um eignarhald á jörðinni Sauðafell. Daði tók þá feðga Jón, Ara og Björn fangna   og afhenti þá síðan Kristjáni skrifara umboðsmanni Danakonungs.

Stór áform

En það var annað og meira sem vakti fyrir Jóni Arasyni. Hér á Íslandi ríkti stríðsástand, það var tekist á um verslun. Danir vildu ná versluninni af Þjóðverjum sem voru stórtækir  í verslun. Ásger færir lýkur að því að hann hefði haft uppi áform um að styðja verslun Þjóðverja  og fá um leið stuðning  við að halda landinu kaþólsku.

Heimsmynd  Jóns Arasonar

En Ásgeir fræðir lesundur ekki bara um átök á tímum trúarbragðastyrjalda, hann veltir fyrir sér heimsmynd  Jóns í ljósi kvæða hans og nefnir til sögunnar heimspekinginn Boethíus (477 -524) og skrif hans um vilja Guðs, frjálsan vilja mannsins og tilviljanir sem hann ræður engu um.  Hann tekur dæmi af veraldarhjólinu sem gyðjan Fortuna  snýr og Guð veit um, en skiptir  sér ekki af.

Lokaorð

Það var gaman að lesa þessa bók, ekki síst viðaukann um veraldlegan kveðskap Jóns Arasonar. En þetta er fræðileg bók, full af tilvitnunum  og það er vandi að koma slíku efni til skila í upplestri svo vel sé. Ég hefði kosið að sleppa  við að hlusta á tilvitnanir  inni í texta og fá í staðinn greinargerð um helstu heimildir.

Eftirþanki

Það er góð tilfinning að vita að Seðlabankinn skuli vera í höndum manns sem þekkir vel til sögu lands og þjóðar.


Smásögur heimsins: Evrópa

6B2482A7-29DE-47C9-8B3E-03F7C30A07A7
Smásögur heimsins,Evrópa.

Bókakonan, ég, fylgist með útkomu nýrra bóka og bíð í ofvæni eftir því að þær verði lesnar inn og komi út sem hljóðbók. Ég reyni að vera þolinmóð.

Smásögur heimsins, Evrópa, er síðasta bókin af fimm, sem koma út í ritröðinni smásögur heimsins. Mér finnst þessi útgáfa afar merkileg fyrir margra hluta sakir. Sögunum er ætlað að spegla hundrað ára tímabil. Val höfunda miðast við að fá fram fjölbreytileika. Í bókinni eru þekktir og minna þekktir höfundar, konur og karlar.

Núna  þegar ég hef lesið  allar þessar bækur líður mér eins og ég hafi verið á góðum kúrsi í bókmenntafræðum. Hverri bók  fylgir   stuttur inngangur um eðli og tilurð smásögunnar og hverri sögu fylgir stutt greinargerð um höfundinn.

Lækning

En það gleðilegasta fyrir mig er að viðhorf mitt til smásögunnar sem bókmenntaforms hefur breyst. Áður en ég tók til við þetta „námskeið“ sneyddi ég hjá smásögum. Mér fannst þær oft skilja eftir ónotalegan eftirkeim, koma við ný og gömul kaun, gera mig dapra og leiða. Þetta viðhorf mitt hefur sem sagt gufað upp en auðvitað eru smásögurnar enn vægðarlausar  og stinga á kýlum.

Smásögur heimsins Evrópa

Þegar maður er búinn að lesa smásögur frá framandi álfum er svolítið eins og að vera komin heim að lesa/hlusta á evrópskar smásögur. Ég þekki 9 höfunda af 20.

Það væri allt of langt að skrifa um 20 sögur,það eina sem þær eiga sameiginlegt er að þær eru hver annarri betri. Það hvarflaði að mér að velja nokkrar til að skrifa um en fann þá að það er eins með bækur og börnin mín, það er bannað að gera upp á milli. Hver og ein saga verðskuldar að vera metin á sínum forsendum.

Hljóðbókin

Þar sem ég er sjónskert, hlusta ég á bækur í stað þess að lesa. Þótt ég sé þakklát fyrir að geta hlustað, sakna ég bókarinnar. Ég sakna hennar mikið. Það er ekkert sem kemur í stað þess að handleika bók. Blaða í henni. Þess vegna kaupi ég enn bækur eða fæ þær að láni í bókasafninu. Þessi bókaflokkur, Smásögur heimsins er fallegur og fer vel í hendi.

Sögurnar eru líka vel lesnar af úrvalslesurum. Það eina sem ég hef út á lesturinn er, að upplesarinn skuli ekki vera kynntur við hverja sögu.

Lokaorð

Eins og alltaf þegar ég kveð voldugar bækur sem hafa tekið hug minn allan finn ég til aðskilnaðarkvíða. Hvað næst? Nægar eru bækurnar.   


Eins og langt ferðalag: Jóhann Kristófer: Romain Rolland


IMG_1039Eins og að fara í langt ferðalag

Ég hóf lestur/hlustun minn á bókum Romain Rolland um miðjan janúar og nú er ég búin. Þetta er eins og hafa verið í löngu ferðalagi, með ákaflega erfiðri en þó hrífandi persónu. Af því að bókin er löng 77, 39 klst. í hlustun, ákvað ég að lesa/hlusta einungis hálf tíma á dag.  Það gerði ég til að ég gæti líka lesið nýjar bækur. Það bíða svo margar og spennandi bækur eftir að verða lesnar. En þótt ég hefði gert þetta hálftíma samkomulag við sjálfa mig, sveik ég það stundum, las meira þegar sagan var spennandi. Gat ekki á mér setið.

Romain Rolland er franskur rithöfundur  fæddur 1866 og dó 1944. Þetta er sagnabálkur sem kom út í 10 hlutum frá 1904 til 1912 .

Sagan fjallar um Jóhann Kristófer sem er fæddur í lítilli borg í Þýskalandi . Hann á síðan eftir að dveljast bæði í Frakklandi, Sviss og Vín. Hér á Íslandi kom hún út í 5 bókum á tímabilinu 1947 til 1967. Fyrstu tvö bindin voru í Þýðingu Þórarins Björnssonar skólameistara á Akureyri og þrjú síðari voru þýdd af Sigfúsi Daðasyni. Romain fékk Nóbelsverðlaunin 1915.

Bók um listamann

Bókin fjallar um drenginn Jóhann Kristófer sem elst upp hjá ofbeldisfullum föður og valdlausri móður, hún var af lágum ættum. Jóhann Kristófer er svo dæmalaust næmur og forvitinn um hvaðeina. Hann er barinn til tónlistar, það má græða á honum.

Ég hef ekki lesið þessa bók fyrr, vissi ekki af henni. Þegar ég tala um bókina við fólk sem ég hitti, segja flestir, já ertu að lesa  bókina um Beethoven. En þessi bók er ekki um Beethoven, heldur um einhvers konar erkitýpu, gerða úr mörgum listamönnum. Og svo inniheldur hún líka mikið um aldarhátt þessara tíma. Þetta er saga hugmynda og kenninga. Aftur á móti hefur Rolland samið bók um Beethoven. Hún hefur líka komið út hér í þýðingu Símonar Jóhanns Ágústssonar 1940.

Lokaorð

Mér fannst gaman og gefandi að lesa þessa löngu bók, sérstaklega fannst mér gaman að fyrstu tveimur bindum sögunnar. Bækur eldast misvel. Í seinni bókunum er Jóhann Kristófer orðinn eldri  og þroskaðri þarf hann að takast á við hugmyndir síns tíma og þá getur verið erfitt að fylgja honum. Auðvitað er það höfundurinn sem talar. Rolland var hugsjónamaður, sem beitti sér fyrir  jafnrétti og friðarmálum  Hann var líka að velta fyrir sér hlutverki listarinnar í heiminum.

Það reynir á þolgæði og þolinmæði við að lesa bókina um Jóhann Kristófer. Þetta var langt ferðalag sem skilur mikið eftir. Takk

Að lokum

Bækur eru ekki til að lesa þær einu sinni . Ég hef ákveðið að lesa þessa bók aftur að ári. Nú veit ég meira hvað hún er um og get einbeitt mér betur.

Og til að fyrirbyggja misskilning þá hlustaði ég á bókina, las ekki. Það var Hjalti Rögnvaldsson sem las hana fyrir mig og hann gerði það vel eins og honum er lagið.


Fjörutíu ný og gömul ráð: Óskar Árni Óskarsson

217A2B66-44AE-48AA-8832-BA2BA15CDC44
Fjörutíu ný og gömul ráð

Nýjasta bókin í bókasafninu mínu, Hljóðbókasafni Íslands, heitir þessu langa nafni :Fjörutíu ný og gömul ráð  við hverdagslegum uppákomum.

Þetta er bók fyrir mig, hugsa ég, og tek hana þegar til láns  og byrja að hlusta.

Bókin með langa nafninu er stysta bók sem ég hef tekið þar að láni.Það er Hafþór Ragnarsson sem les. Hún tekur 7 mínútur í lestri. Bókin mun hafa komið út 2015 og er verk s Árna Óskarssonar.

Ráðin

Ráðunum er best lýst með dæmum. Hér koma þrjú:Stundum kemur móða á gleraugun. Þá er ráð að hella upp á kúmenkaffi og minnast Heklugöngu Eggerts og Bjarna.

Stundum fær maður óstöðvandi hnerra. Þá er ráð að kaupa sér vandaða flókainniskó hjá Guðsteini á Laugarveginum. Stundum fer maður dagavillt. Þá er ráð að endurraða bókum í ljóðabókarhillunni.

Þessi dæmi voru valin af handahófi.

Mér fannst gaman af þessari bók, meira að segja svo gagnleg að ég rétti heyrnartækin yfir til mannsins míns. En það má ég auðvitað ekki því ég hef undirritað skilmála um að ég skuli ein nota efni bókasafnsins.  Gat ekki stillt mig.

Það var gaman að hlusta á ráð Óskars Árna en ég held að hver og einn þurfi að semja sína eigin ráðagóðu bók. Reyndar held ég að þessa bók þurfi stöðugt að uppfæra. T.d. var eitt gott ráð sem ég nýtti mér meðan ég ók bíl. Það hljóðaði svo: Alltaf að hafa með þér ljóðabók, sem hægt er að lesa í ef þú lendir í umferðatöfum.

Þetta ráð nýtist mér ekki lengur því ég er hætt að keyra og get ekki lengur lesið. Sem fyrr segir kom þessi bók út  2015, af hverju fékk ég hana ekki fyrr?


Dauði skógar: Jónas Reynir Gunnarsson

734063D5-7998-47C7-B061-EDD67FCCB26E
Meðan ég  var að lesa bókina  Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson,  hugsaði ég hvað eftir annað með sjálfri mér, „þetta verð ég að muna“. Og auðvitað mundi ég það ekki, svo ég renndi aftur í gegn um bókina. Hún er ekki löng, tekur 4 klukkustundir í upplestri.   Það er Stefán Hallur Stefánsson sem les. Hann gerir það vel, verður eins og sögumaður að segja sögu. Þetta er lágstemmd bók, sem talar í senn til hjartans og skynseminnar.

Forsagan

Sagan hefst á  að miðaldra karlamaður sem liggur andvaka á hótelherbergi á Spáni hugsar um líf sott. Hann er á flótta. Aðallega frá sjálfum sér.   

Sagan

Þetta er vel stæð fjölskylda og ég staðset hana á Egilsstöðum, þótt það sé hvergi sagt beinlínis. Ég veit að höfundurinn er úr Fellabæ. Aðalpersónan, Magnús, sem et sögumaður er mikill gruflari. Hann veltir  

fyrir sér eðli lífsins og náttúrunnar. Hann missti móður sína ungur og ólst upp hjá föður sínum. Faðir er nú komin á hjúkrunarheimili.  Hann hafði plantað skóg, lerki, i á jarðarparti sem hann fékk eftir foreldra sína. Þeir feðgar eru nánir. En þótt hugarheimur gruflarans Magnísar sé bæði frjór og skapandi, er hann ekki að sama skapi  duglegur að tjá sig. Hildur kona hans hefur orð á því að hann taki ekki þátt í uppeldi barnamma , því hann tali ekki um það sem þarf að gera, t.d. vandamála sem koma upp varðandi eldra barnið, soninn Alla. Mér sem lesanda finnst að Magnús geri heilmikið og sé umhyggjusamur fjölskyldufaðir enda sé ég alla hluti út frá hans sjónarhorni. Hann er einn til frásagna.

Það er erfitt að lýsa þessari bók gæði hennar liggja svo mikið í textanum og því sem gerist í hugarheimi sögumannsins sjálfs. söguþráðurinn  skiptir minna máli. Bókin kom mér mikið á  óvart. Mér fannst ég aldrei hafa lesið íslenska bók sem líktist henni. Eitthvað fékk mig til að hugsa um Salinger og bók hans Bjargvætturinn í grasinu sem las fyrir margt löngu. Og ég hafði ekki fyrr hugsað til Salingers en að ég rek augun í að það er nú búið að lesa inn fyrrnefnda bók. Og nú veit ég hvað ég les næst. Mig langar að sannreyna hvort minning mín um hana sé rétt.

Meðan ég  var að lesa bókina  Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson,  hugsaði ég hvað eftir annað „þetta verð ég að muna“. Og auðvitað mundi ég það ekki, svo ég renndi aftur í gegnum bókina. Hún er ekki löng, tekur 4 klukkustundir í upplestri. Og  það er Stefán Hallur Stefánsson sem les. Hann gerir það vel, verður eins og sögumaður að segja sögu.Þetta er lágstemmd bók, sem talar í senn til hjartans og skynseminnar. Auk þess er bókin í senn fyndin og harmræn. Það er slegið  á marga strengi skáldhörpunnar.  

Sagan

Sá sem segir söguna er  miðaldra karlmaður staddur á Spáni. Hann er á flótta. Aðallega frá sjálfum sér. Sagan rekur hvers vegna.

Sagan

Þetta er vel stæð fjölskylda og ég staðset hana á Egilsstöðum, þótt það sé hvergi sagt beinlínis. Ég veit að höfundurinn er úr Fellabæ. Aðalpersónan, Magnús, sem er sögumaður er mikill gruflari. Hann veltir  

fyrir sér eðli lífsins og náttúrunnar. Hann missti móður sína ungur og ólst upp hjá föður sínum. Faðirinn er nú kominn á hjúkrunarheimili.  Hann hafði plantað skóg, lerki,  á jarðarparti sem hann fékk eftir foreldra sína. Þeir feðgar eru nánir. En þótt hugarheimur gruflarans, Magnúsar, sé bæði frjór og skapandi, er hann ekki að sama skapi  duglegur að tjá sig. Hildur kona hans hefur orð á því að hann taki ekki þátt í uppeldi barnanna , því hann tali ekki um það sem þarf að gera, t.d. vandamál sem koma upp varðandi eldra barnið, soninn Alla. Mér sem lesanda finnst að Magnús geri heilmikið og sé umhyggjusamur fjölskyldufaðir, enda sé ég alla hluti út frá hans sjónarhorni. Hann er einn til frásagnar.

Það er erfitt að lýsa þessari bók, gæði hennar liggja svo mikið í textanum og því sem gerist í hugarheimi sögumannsins sjálfs. Söguþráðurinn  skiptir minna máli. Bókin kom mér mikið á  óvart. Mér fannst ég aldrei hafa lesið íslenska bók sem líktist henni. Eitthvað fékk mig til að hugsa um Salinger og bók hans Bjargvætturinn í grasinu sem ég las fyrir margt löngu. Og ég hafði ekki fyrr hugsað til Salingers en að ég rek augun í að það er nú búið að lesa inn fyrrnefnda bók. Og nú veit ég hvað ég les næst. Mig langar að sannreyna hvort minning mín um hana sé rétt eða röng.

Niðurstaða

Bókin Dauði skógar er ein besta bók sem ég hef lesið lengi. Þó hef ég lesið marga góða bók.

 

Eftirþankar

Þetta er þriðja saga höfundar. Kannski les/hlusta ég á fyrri skáldsögur höfundar; Millilending og Krossfiskar   áður en ég skelli mér í að lesa Salinger.


Örvænting: Vladimir Nabokov

6DADB3A8-C8DD-4EAD-9C6E-245402B38079
Örvænting

Auðvitað veit maður  þegar maður les sögu að hún er ekki sönn í bókastaflegri merkingu. Ég hef meira að segja búið mér til það viðmið, að bók sé góð, ef ég trúi henni. Þannig vil ég hafa sögur. Í bókinni Örvænting kemur Vladimir Nabokov mér í nokkurn vanda. Hann er stöðugt að minna lesanda sinn á að sagan sé skáldskapur. Hvað eftir annað rýfur hann spennandi atburðarás með því að ávarpa lesanda sinn og velta efnistökum bókarinnar fyrir sér. En allt kemur fyrir ekki, bókin tekur hug manns allan, ég held þræðinum og reyni að umbera innskot rithöfundarins í eigin texta. Satt best að segja minnir hann mig á ömmu mína, sem var frábær sögukona, hún átti þetta til að hlaupa út undan sér í miðri frásögn og þá þurftum við að dekstra  hana til að halda áfram.

Sagan

Sagan fjallar um smásúkkulaðiframleiðanda í Berlín sem reynir að auka viðskipti sín með því að falbjóða vöru sína einnig í Prag. Þar rekst hann á fátækling/beiningamann sem honum finnst svo bráðlíkur sjálfum sér, næstum tvífari sinn, að hann ákveður að koma honum fyrir kattarnef. Áður hafði  hann fallið eiginkonu sinni  að leysa út líftryggingu sína og síðan gætu þau lifað náðugu lífi það sem eftir er.

Vonbrigði

Klækurinn heppnaðist ekki. Maðurinn sem hann drap var ekki baun líkur honum og málið lá ljóst fyrir  þegar konan ætlaði að leysa út líftrygginguna. Í stað þess að njóta þess að hafa framið fullkominn glæp sat hann uppi með að verða úthrópaður sem ómerkilegur  þorpari og samviskulaus níðingur, sem níddist á minni máttar. Það merkilegasta við þessar hrakfarir súkkulaðimannsins er að það sem fær mest á hann er ekki peningarnir eða það að eiga dóm yfir höfði sér. Nei, hann er sárastur fyrir að gjörningurinn, þessi frábæra hugmynd, er ekki metin að

verðleikum.

Galdur

Það merkilega  við  þessa bók er að vera á einhvern hátt þvinguð til að setja sig í spor þessarar óviðkunnanlegu persónu. Hann líkist engum sem ég þekki og ég vona að kynnist aldrei neinum slíkum.

Þessi saga var skrifuð á rússnesku og kom út í  Berlín 1926 og seinna umskrifuð á ensku  1935 af höfundi. Hún var ekki til á íslensku fyrr en 2021 í þýðingu Árna Óskarssonar. Ég meðtók hana í eyrað. Það var Guðmundur S. Brynjólfsson sem las hana fyrir Hljóðbókasafnið. Hann las hana með tilþrifum. Nánast leiklas.Höfundur sögunnar var fæddur í Pétursborg 1899. Fjölskylda hans flúði land 1919 eftir  byltinguna. Hann átti eftir að búa í mörgum löndum og fékk meira að segja ríkisborgararétt í Bandaríkjunum þar sem hann bjó um hríð. Hann og lést 1977 í Sviss.


Eldarnir: Sigríður Hagalín Björnsdóttir

CA3D6FC1-C37B-4EBF-9037-D378F070D5C1
Eldarnir

Ég veit ekki hvernig eldgosið sem kennt er við Geldingadali endar, hinsvegar veit ég hvernig bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur um eldana lýkur. En vegna  þeirra sem enn hafa  ekki lesið þá bók, ætla ég ekki að ljóstra því upp hér.

Eru spennubækur hættulegar

Það er stundum haft á orði, ef bók er spennandi, að lesandi geti naumast lagt hana frá sér. Þetta á við mig og  lestur/hlustun  mína á Eldunum. Ég get ekki vanið mig af því að tala um lestur, þótt ég geti nú orðið ekki lengur lesið. En það er lán í óláni að hafa aðgang að Hljóðbókasafni Íslands. Það var Sunna Björk Þórarinsdóttir sem las bókina.    Hún gerði þaðð afbragðsvel. Takk Sunna. Þetta er fyrsta bókin sem ég hef raunverulega lesið/hlustað á í einni lotu. Hún tekur um það bil 9 klukkustundir í hlustun. Ég lauk henni klukkan 5 að morgni. Gosið hófst sama dag.

Ég var byrjuð að horfa á séra Bown í sjónvarpinu, en enn með hugann við bókina.   Þegar tilkynningin kom  um gos kom á skjáinn, var ég nokkra stund að átta mig á því, að þetta gos var í raunheimi.  Nú hafa liðið nokkrir dagar og enn er bókin jafn ofarlega í huga mér og gosið.

Allt er svo líkt. Meira að segja Milan yfirlögregluþjónn er næstum eins og Víðir.

Náttúruöflin

Þessi saga fjallar um náttúruöflin sem við búum við og  

 þau sem búa í okkur.   

Aðalpersóna sögunnar er Anna Arnardóttir.  Hún hefur klifið alla þá tinda sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er prófessor í eldfjallafræðum og forstöðumaður Jarðvísindastofnunar. Hún á gæflyndan mann og elskuleg börn. Og fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í stóru einbýlishúsi og heimaskrifstofan er dásamleg.

Fortíð

Anna á sér óvenjulega fortíð. Hún er alin upp af föður sínum, sem hún dáir. Móðir hennar sem er bókmenntakona, hafnaði henni.  Líklega er réttara að orða það sem svo, að hún réði ekki við móðurhlutverkið. Anna tekur áhuga á jarðvísindum og eldgosum í arf eftir föður sinn.

Gos undan Reykjanesi

Eldgosið í þessari sögu hófst í sjó út af Reykjanesi. Það orsakar mikla ösku og flugvöllurinn er lokaður. Vegagerðin lætur veghefla hreinsa ösku af vegum. Nú fer tveimur sögum fram samtímis (þessi setning er fengin að láni úr Heimskringlu). Anna sinnir starfi sínu sem vísindakona og hlutverki sínu sem eiginkona og móðir. En það virðist vera einhver glufa í hjónabandinu og þar ryðst ástin inn. Anna reynir að takast á við ástina innra með sér með sinni aðferð. Skoða hana vísindalega. En hún ræður ekki við hana frekar en jarðeldana.

Ég verð að játa að ég hafði meira gaman af fræðilega hluta þessarar bókar, þ.e. þeim sem fjallar um jarðvísindi. Hann er snilldarlega vel skrifaður. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki upplagt að nota hann sem kennsluefni. Ég hafði lúmskt gaman af kerfislega hluta frásagnarinnar. Fannst engu líkara en þarna væri sönn saga á ferðinni,saga um smá núning  milli vísinda- og valdamanna. Vísindakonan Anna undrast afstöðu okkar Íslendinga til eldfjalla. Í útlömdum óttast menn eldfjöll og hata þau. Á Íslandi er fólk stolt af  eldfjöllum okkar og skírir börnin sín eftir þeim.

Persónulýsingar Sigríðar eru knappar, eins og mynd sem dregin er í fáum dráttum. Mér finnst samt eins og ég gæti þekkt persónur hennar á götu eða á sjónvarpsskjánum. (Ég veit t.d. alveg hver forsætisráðherrann úr Eyland er)

Það er vandi að lýsa góðri bók. En ég reyni þó. Í þessari bók fer allt saman, tónninn sem er sleginn er nýr  og ferskur, stíllinn fær mann til að elska íslenskuna enn meir. Auk þessa er bókin bæði fyndin og fræðandi.      


Azar Shokoofeh: Uppljómun í eðalplómutrénu

8FDB015D-695E-4DE4-B7E1-B76D3B9AB364
Enn og aftur stækkar Angústúra  heim minn með því að gefa út bók frá menningarheimi sem ég hef litla þekkingu á. Í bókinni Uppljómun í eðalplómutrénu fjallar Azar Shokoofeh um líf fjölskyldu í Íran á tímum byltingarinnar 1979  og það sem gerðist í kjölfar byltingarinnar.

Sagt er frá lífi fimm manna  fjölskyldu sem flytur frá Teheran í afskekkt þorp.Þannig hyggja þau  sleppa við ástand sem hafði skapast í höfuðborginni eftir byltinguna . En armur harðstjórans er langur og teygir sig líka til þessa litla þorps. Fjölskyldufaðirinn er menntamaður og listamaður. Hann hefur sérstaklega lagt sig eftir að sanka að sér og rannsaka forna menningu þjóðar sinnar.  Húsið er fullt af bókum hljóðfærum og listaverkum.Það er e.t.v. ekki alls kostar rétt að tala um fimm manna fjölskyldu, önnur dóttirin fórst í bruna fyrir flutninginn. En hún fylgir þeim sem andi og það er hún sem er sögumaður í þessari sögu.Í þessari sögu er heimurinn stærri, víðari og dýpri en sá raunheimur sem við höfum lært að sé sannur og réttur. Því þar koma við sögu margvíslegir huldar vættir svo sem dísir, náttúruvættir og afturgöngur. Mér þykir líklegt að höfundurinn grípi til þessa sagnamáta til að lýsa heimi sem er of hræðilegur til þess að raunsæ frásögn nái að lýsa honum. Þetta voru afdrifarík ár. Það var ekki nóg með að gerð væri bæði trúarleg og veraldleg bylting, það stóð yfir langvarandi stríð við Írak. Í bókinni er m.a. lýst hvernig kornungir menn voru tældir á vígvöllinn til að verða píslarvottar.

Uppljómun í eðalplómutrénu

Heiti bókarinnar vísar til þess þegar móðirin í fjölskyldunni klifrar upp í tré og uppljómast nákvæmlega á sama tíma og sonur hennar var tekinn af lífi.Hún á síðan eftir að sitja uppi í hæsta trénu í skóginum í þrjá daga, þrátt fyrir mótmæli fjölskyldu sinnar. Mér finnst merkilegt hvað ég upplifði mikla samsvörun með því yfirnáttúrulega sem hér er lýst og íslenskra sagna um álfa og huldar vættir og dvöl móðurinnar í trénu fær mig til að hugsa til Óðins og hins helga trés, Yggdrasils.

Þetta er mögnuð saga. Frásagan af bókabrennunni er stórkostleg. Það er ekki nóg með að úrvalsbókum sé brennt, karakterar bókanna lifna við í brunanum og kveina og biðjast vægðar.

Um höfundinn

Mig vantar orð til að lýsa þessari áhrifaríku bók og ætla að ljúka þessum pistli með því að segja frá höfundinum.Azar Shokoofeh er fædd 1972. Hún nemur bókmenntir í Teheran og vann um árabil sem blaðamaður. Hennar sérsvið var að fjalla um mannréttindi. Hún sat oftar en einu sinni í fangelsi vegna skrifa sinna og ákvað loks að flýja land 2011 og býr nú í Ástralíu. Þetta er fyrsta bókin hennar. Hún er skrifuð á Farsi og kom út í enskri þýðingu árið 2017.

Bókin kom út á íslensku árið 2020. Þýðandi bókarinnar   er  Elísa Björg Þorsteinsdóttir. Sólveig Hauksdóttir les bókina fyrir Hljóðbókasafn Íslands. Sólveig er góður lesari.  Auðvitað get ég ekki dæmt um þýðingu bókarinnar er þó sannfærð um að hún er til fyrirmyndar, því bókin er á blæbrigðaríkri íslensku og afar áheyrileg.  


Jóhann Kristófer og Egill Skallagrímsson


Egill Skallagrímsson og Jóhann Kristófer

Ég er hugfangin af bók90AAD199-A675-4BCC-9410-1328DF72880C Romain  Rollands um Jóhann Kristófer. Þegar ég gerði mér grein fyrir hversu löng hún er, þetta eru 5 bækur og þær taka samtals 77,23 klst. í upplestri, ákvað ég að gera bókina að framhaldssögu og lesa einungis 30 mínútur á dag. Það hentar vel því það er betra að vera með athyglina í lagi meðan maður meðtekur Jóhann Kristófer. Um svipað leyti og ég hóf þennan lestur var hafinn lestur á Egilssögu Skallagrímssonar. Það var Torfi Túliníus, sem las. Kvöld mín skiptust því oftast á milli Egils og Jóhanns Kristófers. Það fór ekki hjá því að ég bæri þessa kappa saman í huganum. Það er reyndar frekar öfugsnúið, því frásagnarmátinnn er ólíkur.  Jóhann Kristófer háir sínar orrustur í eigin hugarheimi, þar vinnur hann sína sigra og ósigra, en Egill lætur verkin tala. Kannski væri réttara að segja illvirkin. Nú hefur Grettissaga tekið við af Egilssögu sem kvöldsaga Rúv.  Hún er lesin af Óskari Halldórssyni (1921 - 1983). Ég kem að Grettlu síðar. Nú og hér ætla ég að halda mig við Egil. Þetta eru ekki fyrstu kynni mín af Egilssögu, ég las hana í menntaskóla (MA) undir  leiðsögn Árna Kristjánssonar, sem var frábær kennari. Árni kenndi okkur að skilja líkingamál kvæðanna, sem  mér fannst skemmtilegt eftir að mér lærðist að skoða þau eins og myndverk. Ég hafði ekki lært um abstrakt list þá, hvað þá súrrealisma.  Þegar ég skoða slíkar myndir nú verður mér hugsað til líkingamáls okkar gömlu skálda.

Í hvert skipti sem ég les/hlusta á Egilssögu uppgötva ég eitthvað  nýtt. Í þetta skipti skildi ég loksins í hverju í  „hetjuskapur“ Egils var fólginn. Hann var einn til frásagnar. Mér finnst ekki ólíklegt að hann hafi verið að spinna upp þessar raupsögur í  ellinni og   Þórdís  stjúpdóttir hans hafi  varðveitt þær í huga sér  og síðan sagt öðrum. Þetta er tilgáta mín um munnlega geymd sögunnar.   Frumsagan er Þórdísar, jafnvel Þorgerðar. Sú saga er síðar  færð í letur  af höfundi ef til vill Snorra.

Hver er Jóhann Kristófer?

Ég heyri út undan mér að margir slá því föstu að Jóhann Kristófer sé Ludwig van Beethoven, sem er skrýtið því, Beethoven kemur oft við sögu þegar verið er að fjalla um tónlist og þá sem einn af tónlistarmönnum liðins tíma. Ég held að Jóhann Kristófer sé hlutgervingur snilligáfunnar og um leið samsafn margra snillinga. Hann er ofurnæmur og glöggur á alla hluti en klaufi í mannlegum samskiptum. Það er hrein unun  að kynnast þessum manni og fá að fylgjast með hugarleiftrum hans. Þessar 30 mínútur með Jóhanni Kristófer er tilhlökkunarefni dagsins.

Ég held að Jóhann Kristófer sé fyrst og fremst hann sjálfur. Lifandi manneskja, Og snillingur.         


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband