Hundagerðið: Sofi Oksanen

996ABDA7-22D7-4792-94AB-ABF4F71A0AD9Hundagerðið

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les eftir Sofi Oksanen. Þetta er fimmta bókin sem kemur út eftir hana á íslensku. Ég vissi því á hverju var von. Enginn yndislestur. Oksanen er samfélagsrýnir. Í bókum sínum fjallar hún  gjarnan um hvernig ranglætið verður til, hverjir hagnast á að viðhalda því og hverjir verða fórnarlömb . Hún lætur sér ekki nægja að skoða yfirborðið ,  hún grefur fram það sem er undirliggjandi.   Sjónarhorn þeirra sem  tapa er annað en sigurvegaranna.

 Sagan Hundagerðið hefst í Helsinki 2016. Þar situr kona á bekk og virðir fyrir sér fjölskyldu með smáhund og tvö börn, strák og stelpu. Allt í einu sest önnur kona hjá henni á bekkinn og virðist vera komin til að fylgjast með sömu fjölskyldu. Sú fyrr komna er sögukona bókarinnar, þekkir aðkomukonuna en langar ekki til að hitta hana. Þær eiga ýmislegt  sameiginlegt í fortíðinni. Fortíð sem hún hélt að væri grafin og gleymd öðrum en henni. En nú hefur fortíðin vitjað hennar og sagan hverfur til Úkraníu og árið er 2006.

Aðalpersónan, sú sem segir söguna er nýkomin heim til Austur- Úkraníu eftir að hafa freistað lukkunnar sem fyrirsæta í Frakklandi en þangað fór hún kornung til að sjá fyrir sjálfri sér og styrkja fjölskyldu sína. Gæfan stóð ekki með henni . Í Úkraníu ríkir algjört öngþveiti eftir fall Sovétríkjanna. Fyrri innviðir eru hrundir, það er atvinnuleysi, sérstaklega austurfrá. Hver og einn reynir að bjarga sér og ungum konum býðst að gera út á líkama sinn og frjósemi. Það spretta fram fyrirtæki sem taka að sér að þjónusta barnlaust fólk, aðallega á Vesturlöndum með egg eða staðgöngumæðru, þegar allt um þrýtur. Sögukona okkar kemur sér fyrir á þessum markaði en ákveður um leið að hún ætlar sjálf að vera sú sem græðir. Hún hefur visst forskot eftir að hafa starfað erlendis. En þetta er harður heimur. Sá sem er tilbúinn til að fórna öðrum, fær oft að reyna að verða sjálfur fórnarlamb.

Aðalpersóna okkar hefur gert það gott. Hún hefur unnið sig upp í fyrirtækinu sem hún vinnur fyrir. Fyrirtækið státar sig af því að vera góðgerðarfélag. Það aðstoðar fólk við að eignast börn og er meira að segja öflugur styrktaraðili munaðarleysingjahælis. Það má því næstum segja að það verði í framtíðinni sjálfbært.

Sjónarhorn þessarar sögu er fyrst og fremst aðalpersónunnar. Einstaka sinnum er brugðið upp myndum utanfrá. Tónn frásagnarinnar  er kaldur. Ég lesandinn, vil helst standa með þessari duglegu ungu konu en hrekk ítrekað við, þegar ég tek eftir því, hversu tilbúin hún er að hagræða sannleikanum og fórna öðrum konum.

Fátækt og spilling

Ég var í miðjum klíðum við að lesa þessa bók, þegar fréttirnar fóru að berast af morðinu í Rauðagerði og vangaveltum lögreglu og fjölmiðla um tengsl þess við fjölþjóðlega glæpastarfsemi. Tilfinning mín við lesturinn, magnaðist upp. Ég fór að velta fyrir mér tengslum fátæktar og spillingar. Er það fátæktin sem fæðir af sér spillingu? Eða er þessu öfugt farið? Og auðvitað stoppaði hugurinn ekki við útlönd. Því miður. En ég ætla ekki fara út í það hér.

Lokaorð

Bók eins og þessi ýtir svo sannarlega við manni. Oksanen hefur skarpa sýn og beitta tungu.  Í hvert sinn sem ég les bók eftir hana, eflist trú mín á að standa vörð um mannréttindi, heiðarleika og lýðræði. Reyndar trúi ég líka að það sé mikilvægt að gæta þess, að auðurinn safnist ekki á fárra hendur. Ég held að það sé auðsöfnunin sem leiðir af sér spillingu. Ekki fátæktin.  


Gata mæðranna: Kristín Marja Baldursdóttir

231669EA-F9ED-4D41-9B05-6C359088FCD7
Gata mæðranna.

Gata mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur fjallar um Marin og lífið  í einni götu  á sjöunda áratugnum í Reykjavík, held ég.  Tímasetningin hentar mér vel. Því það var einmitt þá sem ég kom fyrst til Reykjavíkur, ein á báti og þekkti engan. Það var því auðvelt fyrir mig að samsama mig með Marín. Hún kom til Reykjavíkur til að ljúka menntaskóla. Hún hafði   búið hjá foreldrum sínum á Akureyri og verið í skóla þar, þegar ógæfan dundi yfir. Hún missti báða foreldra sína með skömmu millibili. Faðir hennar hafði lengi búið við vanheilsu en unga stúlkan hafði ekki hugmynd um að móðir hennar var líka veik. Móðirin  sem vissi að hún gekk ekki heil til skógar náði þó að ganga frá því að hún skyldi ljúka náminu og búa hjá systur sinni Elísabetu, sem var gift kona í Reykjavík.

Þegar sagan hefst er skólinn því sem næst búinn og Marín vinnur á kvöldin við miðsölu í bíói. Það hafði verið erfitt fyrir hana    að hefja nám í nýjum skóla, vina og vinkonulaus. En svo kynnist hún Kristófer og þau verða perluvinir. Verst er þó að systir hennar er truntuleg við hana. Hún telur eftir sér að hafa hana, er ónotaleg og útásetningarsöm. Auk þess  ætlast hún til þess  að hún vinni vistina af sér, sendist og gangi í húsverkin.  Það kemur m.a. í hennar hlut að gæta strákormanna,Adda og Didda, sona hennar og þvo af þeim þegar þeir  svína sig út og gefa þeim að borða. En henni þykir reyndar vænt um þá og finnst þeir vera eina ljósglætan í lífinu.

Marín er áhugalaus um nám sitt og veit ekkert hvað hún ætlar að verða. Kristófer vinur hennar er löngu búinn að ákveða að verða lögfræðingur og byrjaður að búa sig undir hlutverkið. Hún er ekki skotin í honum og á sér draumaprins, sem býr líka í götunni.

Marin er drátthög og stöðugt að rissa upp myndir. Í dauðu tímunum, á milli sýninga, situr hún og teiknar, lætur sig dreyma. Um leið og hún teiknar, spinnur hún upp fantsíusögur og gleymir sér þangað til viðskiptavinur birtist í miðasölulúgunni og ræskir sig. Þessar frásögur um teikningar Marínar og örsögunum sem fylgja gera þessa bók sérstaka. Það er eins og hún sé myndskreytt.

Systirin Elísabet nauðar stöðugt í Marín að nú að skóla loknum verði hún að útvega sér herbergi og sjá um sig sjálf. Þetta verður til að Marín fer að kynna sér hvort einhvers staðar í götunni sé herbergi til leigu. Hún talar við konurnar, konurnar ráða heimilunum en karlarnir draga björg í bú og ráða öllum stærri ákvörðunum.

Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Samt er tónninn í frásögninni kaldur og oft meinhæðinn. Það er höfundurinn Kristín Marja sem les. Hún gerir það vel og nær einkar vel að skila íroníunni þar sem hún á við. Auk þess skynjaði ég að söguhetjan Marín væri dofin af sorg og full vanmetakenndar.

Þótt gata mæðranna sé friðsemdargata, búa manneskjurnar sem við hana búa, hver yfir sinni sögu, mis áhugverðum. Og sagan sem Marín lifir í, tekur óvænta stefnu. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar hér. Ég vil þó benda kvenréttinda konum og körlum  á, ef einhver skyldi lesa þetta, að sagan er ekki síst heimild um tíðaranda þessara ára. Hún fjallar um  kjör og hugmyndir kvenna. Meira að segja gæðablóðið Kristófer hefur tekið eftir þessu og segir,“Mér finnst eins og konur séu orðnar svo reiðar“.

Líkt og ólíkt

 Áður en ég las Götu mæðranna, las ég Götu bernskunnar eftir Tove Ditlevsen. Ósjálfrátt gerði ég samanburð  í huganum á þessum tveimur bókum. Sumt er líkt, annað ólíkt. Í báðum tilvikum verður gatan eins konar persóna og í báðum tilvikum er stéttaskiptingin lúmskur óvinur, sem ræður örlögum fólks. En það sem er mest sláandi við þennan samanburð er að Gata kvennanna gerist öll á um það bil einu sumri en Gata bernskunnar fjallar um uppvöxt stúlku fram að tvítugu eða þar um bil. En auðvitað er framvinda sagnanna afar ólík.          


Gata bernskunnar: Tove Ditlevsen

11F341B0-FFB3-4A47-AC21-BB6BFC7B4B31
Gata bernskunnar

Þegar ég var að leita að bók Kristínar Marju Baldursdóttur, Gata mæðranna í  bókasafni Hljóðbókasafnsins, kom líka upp bókin Gata bernskunnar. Sú bók er eftir danska rithöfundinn Tove Ditlevsen (1917 – 1976). Ég hafði ekki lesið þá bók en kannaðist við höfundinn frá því að ég lá í dönsku blöðunum alls staðar þar sem ég komst í þau en þessi blöð fundust ekki á mínu heimili. Tove Ditlevsen svaraði aðsendum bréfum lesenda sem leituðu til blaðsins vegna vandamála til að fá ráðgjöf. Mér fannst þessi dálkur afar merkilegur, sérstaklega þetta með vandamálin, problem. Á mínu heimili tíðkaðist ekki að tala um vandamál. Þó þekkti ég orðið.

Á þessum tíma hafði ég ekki hugmynd um að Tove Ditlevsen væri þekktur rithöfundur í Danmörku. Það lærði ég seinna og fyrirvarð mig  fyrir að hafa haldið að hún væri einhvers konar danskur vandamálasérfræðingur.

Ég ákvað að lesa Götu bernskunnar á undan Götu kvennanna og það er hún sem ég ætla að skrifa um í þessum pistli.

Bókin kom út í Danmörku 1943 og íslenskri þýðingu 1972. Bókin byggir á hennar eigin bernsku, ég veit ekki hvort hún flokkast sem sjálfsævisöguleg skáldsaga. Hún fjallar um líf barnsins og síðar unglings á 5. hæð í bakhúsi á Vesturbrú í Kaupmannahöfn á millistríðsárunum. Þetta eru tímar atvinnuleysis og fátæktar en Ester, svo heitir aðalpersónan, er heppin.  Fjölskyldufaðirinn hefur vinnu.Lesandinn fær að kynnast, fjölskyldu, vinum og nágrönnum með augum barnsins. Athyglisgáfa barna er oft skarpari en fullorðinna, þau veita einnig athygli sem látið er ósagt. Ester gengur vel í skóla en foreldrar hennar vilja ekki að hún fari í menntaskóla, mamma hennar vill að hún læri húshald.

Hún byrjar að vinna fyrir sér á pensjónati en gefst upp og fær síðan vinnu sem ritari á skrifstofu. Stéttaskipting

Vegir ástarinnar er oft grýttir. Ekki síst fyrir stúlku sem finnst hún ekki lengur tilheyra eigin stétt. Hún samsamar sig ekki lengur með fjölskyldu sinni. Ester er full vanmetakenndar og loksins þegar hún er búin að finna ástina, skemmir hún sambandið vísvitandi.

Um Tove Ditlevsen

Tove var afkastamikill rithöfundur. Hún skrifaði ljóð, smásögur, skáldsögur og bækur sem byggðar eru á eigin ævi. Mér finnst þetta merkilegt, því líf hennar var enginn dans á rósum. Hún stríddi við erfið veikindi, fyrst áfengisvanda og síðar eiturlyf. Hún þurfi að leggjast inn á geðdeild.

Það var mikið rót á lífi hennar, hún var fjórum sinnum gift og féll fyrir eigin hendi.

Lokaorð

Mér fannst bókin Gata bernskunnar frábær og er ákveðin í að ná mér í fleiri bækur eftir þennan höfund. Ég er svo heppin að tilheyra kynslóðinni sem kann dönsku nægilega vel til að geta lesið/hlustað á danskar bækur á frummálinu.

Næsti pistill verður um Götu mæðranna.      


Yfir bænum heima :Kristín Steinsdóttir

D19BC4E6-5115-43CB-BB2B-BAC1A3F0ADCD

Yfir bænum heima

Við sem erum blind eða sjónskert þurfum oft að bíða lengur eftir bókum en þeir sem geta keypt þær eða fengið þær lánaðar á bókasöfnum. Og ekki eru allar bækur lesnar inn.

Þegar bók Kristínar Steinsdóttur , Yfir bænum heima, kom loksins, tók ég því fagnandi. Kristín er Austfirðingur eins og ég og þess vegna finnst mér ég eiga eitthvað í henni og því sem hún skrifar.

Þessi bók fjallar um hernámið, sambúð hers og þjóðar. Í þessu tilviki sambúð Seyðfirðinga við setuliðið.Kristín byggir þessa sögu á minningum. Hún man ekki sjálf eftir stríðsárunum en elst upp með fólki sem man hernámið og auðvitað hefur hún sjálf unnið sína rannsóknarvinnu nú, þegar hún tekst á við að gera þessa bók.

Við lesendur fáum að kynnast Seyðisfirði stríðsáranna í gegnum fjölskyldu Snjólfs og Rúnu og barna þeirra; dætranna Ástu og Þrúðu og bræðranna Nonna og Ingimundar. Afstaða fólksins er ólík þótt þetta sé samstæð fjölskylda. Snjólfur er krati og vinnur að verkalýðsmálum. Það er kreppa og atvinnuleysi. Þegar vinna gefst er oft gengið fram hjá Snjólfi vegna skoðana hans og Rúna ákveður að taka kostgangara til að reyna að sjá fjölskyldunni borgið. Kostgangarnir og vinafólk fjölskyldunnar víkka enn sjóndeildarhringinn og viðhorfin til stríðsins. Já og síðar til hersins þegar hann kemur í bæinn.Í stað atvinnuleysis er rífandi vinna. Það eru lagðir vegir og byggðir braggar út um allt. Og ef menn hafa skoðun á þessu öllu saman skiptir hún ekki máli, því heimamenn ráða engu. Seyðfirðingum er kennt að lifa við stríðsástand. Þegar flauturnar gjalla eiga þeir að fara niður í kjallara og dúsa þar þangað til hættan er liðin hjá og flauturnar  blása hana af. Þetta reynir á fólk.

Mér fannst merkilegt að lesa þetta, því ég hafði oft lesið um fólk í útlöndum sem þurfti að leita sér skjóls í kjöllurum eða loftvarnarbyrgjum, en aldrei hér.

 

Frásaga þessarar bókar af hernáminu ber keim af fólkinu sem segir söguna. Þetta er ekki saga  mikilla átaka eða spillingar. Auðvitað verður til vinskapur og ástasambönd. En lífið er hverfult á stríðstímum. Bretarnir fara og Bandaríkjamenn koma í staðinn. Mér sýnist sem fólkið á Seyðisfirði sakni Bretanna, þótt Kaninn sé flottari og ríkari.

Lesandi er ekki bara móttökutæki, hann er túlkandi og fyllir jafnvel í eyður ef honum sýnist svo.  

Mér fannst gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Sem Austfirðingur átti ég þegar sem barn mína mynd af Seyðisfirði. Þar var menningarmiðstöð Austfirðinga. Þar höfðu verið gefin út blöð og prentaðar bækur. Föðursystir mín bjó þar en að vísu í sveitinni. Ég fór  í heimsókn  til hennar með ömmu minni með Esju eða Herðubreið. Ég var hissa á því hvað þarna voru margar búðir eða verslanir og skildi ekki á hverju Seyðfirðingar lifðu. Stríðið var víðsfjarri. Fannst mér.

Ég var fimm eða sex ára og logandi hrædd við flugvélar. Börn hlusta þegar fullorðnir tala. Fyrstu minningar mínar, þær allra fyrstu, eru um stríð. Ein lítil minning er um pabba sem var að flá sel í hlaðvarpanum á Streiti. Mér fannst gaman að horfa á og hann var líka duglegur að útskýra allt fyrir mér. Og þá kom flugvél sem lækkaði flugið og mig langaði til að flýja en var alveg máttlaus og gat ekki hreyft mig. Pabbi hélt áfram að flá selinn og nú útskýrði hann að nú væri líklega best að láta eins og ekkert sé. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að lesa bók Kristínar.

Mér fannst bókin góð því hún nær að grípa hvernig stríðið snerti líf venjulegs fólks. Þetta er aldarfarslýsing stríðsáranna.  

Myndin er frá Seyðisfirði, tekin í sumar.
 


Lestur er að yfirtaka líf mitt og það er ljúft

C0A2CB7E-8708-4CC7-8E51-2AECDE5AA4A8

Um þessar mundir er lestur að yfirtaka líf mitt. Það er ljúft. Enda hvað get ég annað gert? Komin á eftirlaun og hef ekki annað að sýsla en stöku heimilisstörf. Kuldinn er í þann veginn að taka útivistina frá mér.

Ég les margar bækur samhliða. Í fyrsta lagi er það Sturlunga, sem ég lít á sem eilífðarpúsluspil og til þess að létta undir með mér að raða henni saman gríp ég í að lesa Auðnaróðal Sverris Jakobssonar. Og ekki í fyrsta skipti. Auk þess hlusta ég  á kvöldsöguna, Egill Skallagrímsson.

Undursamleg bók

Fyrir þó nokkru heyrði ég þátt um  rithöfundinn  Romain Rolland (1866 – 1944) og bók hans Jóhann Kristófer. Ég fletti honum upp á Hljóðbókasafninu og og hann finnst þar. Þetta eru margar og nokkuð langar bækur. Íslenska þýðingin er í 5 bókum.  Sú fyrsta, sem ég hef hafið lestur á, tekur 18,05 klst. í hlustun. Ég ákvað að lesa/hlusta hálftíma á dag  í henni.   Lauslega áætlað tekur þetta  þá u.þ.b. árið.

Það sem m.a. laðaði mig að þessari bók, var að þýðandinn af fyrstu þrem bókunum, er Þórarinn Björnsson, gamli skólameistarinn minn. Hann þýddi líka Litla prinsinn.  Tvær síðari bækurnar þýddi Sigfús Daðason.

Tvær heimsstyrjaldir

Bækurnar komu út í Frakklandi á áunum 1904 til 1912. Á Íslandi komu þær út á árunum 1947 til 1967. Það eru sem sagt tvær heimsstyrjaldir á milli.

Þótt ég sé ekki langt komin, finnst mér ég geta fullyrt að þetta sé  dásamleg lesning.

Stundum finnst mér eins og ég þurfi að réttlæta allan þennan lestur. Líklega gamall draugur frá uppvaxtarárunum þegar jafnvel heyrðist talað um krakka sem læsu sér til óbóta.  

Nú á kóvíttímum, þegar ég kemst ekki neitt og hef ekkert að gera, tek ég lestur sem verkefni.

Langar bækur heilla mig.

Nú gæti virst að bækur friðarsinnans Romain Rollands rími ekki alveg við vígaferlin í Sturlungu og hetjuskapinn í Egilssögu. Vissulega ekki. En samhliða lestur á þessum bókum og á bók Rollands fær mig til að álykta, að okkur Íslendingum hafi farið fram. Við erum friðsamari. En það er best að álykta varlega. Við erum í hernaðarbanda lagi sem býr yfir stórvirkari vopnum en Egill kallinn, hvað þá Sturlungar sem notuðu að mér sýnist einkum grjót og íkveikjur.

Nýju bækurnar

En ég les ekki bara gamlar bækur. Nýju bækurnar lokka.  Auk þess er ég samviskusamur lesandi og finnst næstum skylda að fylgjast með því sem er að koma út. Í næsta pistli  langar mig til að segja frá nýjum bókum sem hafa hrifið mig.

 

  


Ótti markmannsins við vítaspyrnu:Peter Handke

217A2B66-44AE-48AA-8832-BA2BA15CDC44
Ótti markmannsins   við vítaspyrnu

Þessi titill á bók  er í raun einn mest sláandi bókartitill sem ég man eftir. Bókin er eftir Austurríkismanninn Peter Handke,  (fæddur 1942 ), sem fékk Nóbelsverðlaun 2019.  Hún kom út á þýsku 1970.

Verðlaun gera gagn

 Fyrir verðlaunin og þá miklu umræðu sem kom í kjölfarið vissi ég lítið sem ekkert um þennan rithöfund en hann er umdeildur fyrir skoðanir sem hann hefur sett fram um stríðið á Balkanskaga. Síðan þá hef ég lesið/hlustað á þrjár bækur hans.

Það er nokkuð um liðið síðan ég lauk lestrinum. Það tekur mislangan tíma að melta bækur og sumar bækur þarf að lesa oftar ei einu sinni til að fá botn í þær. Mér fannst bókin minna mig á einhverja aðra bók sem ég hafði lesið áður og var ekki í rónni fyrr en ég hafði fundið út, hver sú bók var. Vík að því síðar.

En fyrst um Ótta markmannsins Þýðingin er eftir vin minn  Franz Gíslason (fæddur  1935 dó 2006). Hún kom út hér 2020.  Ekki veit ég hvenær Franz vann að þessari  þýðingu en það er Jón Bjarni  Atlason sem býr þýðinguna til prentunnar og semur ítarlegan eftirmála.

Um hvað er bókin?

Sagan segir frá byggingarverkamanninum og fyrrverandi markverði, Bloch. Hún hefst þegar hann  mætir til  vinnu og yfirgefur síðan vinustaðinn fullviss um að honum hafi verið sagt upp.  En svo var ekki.  Sagan er í raun ein löng frásaga af hugsunum Blochs og því sem hann tekur sér fyrir hendur á ráfi hans, fyrst um heimaborg sína og síðan um landamæraþorp. Í fyrstu fannst mér þetta bara óvenjunákvæm og hlutlæg frásögn um hugarheim manns. Síðan áttaði ég mig á því,  að ekki var  allt með felldu. Það sem virtist vera nákvæm og hlutlæg  lýsing var frásaga um sjúkan hug. Sjúkan mann. Eftir að mér varð það ljóst, breyttist lestur minn, athygli mín beindist að innri rökræðu mannsins og hvernig þessi innri rökræða leiddi hann afvega.  Því er m.a. lýst nákvæmlega hvernig hann drepur konu. Það er næstum eins og ekkert hafi gerst. Þó veit hann fullkomlega hvað hann gerði. Þótt þetta sé vissulega saga um mann í geðrofi, held ég ekki að það sé eingöngu það sem vakir fyrir  höfundi. Hann er ekki bara að segja frá ástandi geðveiks manns. Hann er að rannsaka tungumálið og hvernig það  nýtist manninum og tengsl tungumálsins við hugsun. Hugsar tungumálið að einhverju leyti fyrir okkur? Nú finn ég að ég næ ekki utan  um það sem mig langar til að segja. En þótt það geti virst óskemmtilegt að fylgja sjúkum manni eftir í rugli hans, tekst  höfundi að segja þessa sögu á þann hátt að bókin heldur í mann. Er undarlega spennandi.

Á hvern minnti sagan?

Til að finna það út notaði ég útilokunaraðferðina, það var auðvelt, vegna þess að ég hef ekki lesið svo margar bækur á þýsku. Sagan heitir; Og sagði ekki eitt einasta orð eftir Heinrich  Böll. Böll fékk Nóbelsverðlaunin 1967.

Auðvitað las ég þá bók líka til að sannreyna hvort og þá hvernig hún væri lík bók Handkes. Og auðvitað er hún allt öðru vísi en þó liggur einhver þráður á milli. Það sem er fyrst og fremst líkt með þessum tveim höfundum er tilfinningin sem maður fær meðan á lestrinum stendur.

Lokaorð

Báðar þessar bækur eru gefandi og eftirminnilegar.

Ég veit að von er á þýðingu á  einni bók í viðbót eftir Peter Handke og hlakka til að lesa hana.


Tíkin eftir Pilar Quintana

3F680DA3-C5E1-45AB-902C-620722CFA06A
Tíkin eftir Pilar Quintana

 Ég veit ekki hvernig er best að lýsa þessari bók. Mér leið eins og ég væri sjálf  nýflutt í þorp á landsbyggðinni, þar sem ætlast væri til að ég  vissi allt sem máli skipti… og gæti bjargað mér. En það getur náttúrlega enginn.  Í Tíkinni er mér, lesandanum, dembt óviðbúnum  inn í  atburðarás sem ég kann ekki að túlka.  Smám saman kynnist maður fólki og aðstæðum.  En þó aldrei nógu mikið til að  finnast maður tilheyri.Það tekur þrjár kynslóðir.

Þessi saga hefst á samtali. Konan sem afgreiðir á barnum segir Damaris að hún hafi misst tíkina sína frá 1o hvolpum.

Damaris

Á yfirborðinu er þessi saga um Damaris en í rauninni er hún um  líf í  smáþorpi og um náttúruna.  Þessi náttúra  er full af lífi og  grósku,  dauða og rotnun. Hún er svo ólík okkar náttúru, að á tímabili   efaðist ég um eigin forsendur til að skilja. Þorpið hennar Damaris er í fjarlægri heimsálfu í landi sem  sjaldan er fjallað um í fréttum og þá helst í sambandi við kaup á fíkniefnum.   

Damaris tekur að sér einn af  móðurlausu hvolpunum. Hann er svo lítill að hann er enn blindur og kann ekki að lepja. Þetta er tík, móðirin hefur drepist út af því að éta eitur.

Eiginmaður Damaris, Rogelio,  er veiðimaður og þau eru  barnlaus. Damaris hefur ekki tekist að verða ófrísk þótt hún hafi reynt öll þau ráð sem barnlausu fólki standa til boða þar um slóðir. Hún þráir að verða móðir.  Hún annast því hvolpinn af mikilli ástúð og gefur honum nafnið sem hún hafði ætlað stúlkunni sem hún aldrei eignaðist.

Þorpið í sögunni er á Kyrrahafsströnd Kólombíu. Öðru megin  er strönd og haf á hinn veginn er frumskógur.

Við upphaf sögunnar, þegar Damaris tekur tíkina í fóstur er hún kona sem er að reyna að sætta sig við barnleysið. En í þessu gróskumikla  landi í jaðri frumskógarins trúir fólk því ekki, að nokkur kona kjósi sér eða sé sátt við barnleysi.

Áður

Lesandinn fær að vita sögu  Damaris í  bútum, jafnframt því sem sögunni vindur fram.Ef Damaris væri af okkar slóðum, myndum við tala um að hún hafi átt erfiða æsku. Hún er barn einstæðrar móður(pabbinn hljóp frá móðurinni , þegar von var á barni). Móðirin vinnur í næstu borg,  kemur henni fyrir hjá systur sinni og borgar með henni  þegar peningarnir endast.  Móðirin deyr af slysförum þegar telpan er að verða 15 ára.  Damaris heldur áfram að vera í fóstri  hjá frænku sinni.  En 17 ára kynntist hún Rogelio og þau flytja saman.

Enn áður

Þegar Damaris er á áttunda ári verður hún fyrir áfalli sem hún jafnar sig aldrei á. Hún er að leika sér við vin sinn og jafnaldra, son ríka fólksins í þorpinu.  Þau eru í leik sem hann kallar  LANDKÖNNUNARLEIÐANGUR.  Þegar þau koma að hafinu langaði hann að bleyta á sér tærnar í sjónum.  En aldan tók hann.  Það sem gerði áfallið enn verra var að henni var kennt um slysið. Fósturfaðir hennar  barði hana daglega þangað til líkið fannst. Foreldrar litla drengsins yfirgáfu húsið eftir slysið. Hún var sorgmædd.  Seinna tóku Damaris og maður hennar að sér að sjá um húsið og fengu að búa í íbúð húsvarðar.

Það sem gerir þessa bók svo einstaka er að um leið og við fáum að vita talsvert um líf Damaris, fáum við að kynnast ættingjum   hennar, nágrönnum og lífinu í þessu litla þorpi.  

Mér finnst að ég viti heilmikið meira um þetta fjarlæga land eftir lestur  þessarar litlu bókar, þótt þar sé ekki minnst á eiturlyfjabaróna.

Máttur náttúruaflanna umlykur tilvist mannsins. Á stígnum í skóginum fléttast rætur trjánna saman og krónur þeirra lokast yfir höfði manns.  Stundum er eins og maður og náttúra renni saman í eitt. Ríka fólkið notar ál, asbest og gerviefni í húsin sín til að forða þeim frá því að verða náttúrunni að bráð.

Lokaorð

Ég finn að mér tekst ekki nógu vel að lýsa þessari góðu bók, hvað þá skýra hvers vegna mér finnst hún vera ein besta bók sem ég hef lesið. Ég gefst upp enda er besta leiðin fyrir þig lesandi minn að lesa bókina sjálfur.

Höfundur bókarinnar  Pilar Quintana (fædd 1972) sló í gegn með þessari bók og er margveðlaunuð. Það er Jón Hallur Stefánsson sem þýðir hana á íslensku. Hann skrifar líka eftirmála og segir frá höfundi. Ég er full þakklætis. Olga Guðrún Árnadóttir les bókina fyrir Hljóðbókasafnið og gerir það vel eins og henni er lagið.


Líkami okkar, þeirra vígvöllur: Christina Lamb

3D66DC25-CA44-4138-8918-33BAB3F2831E
Líkami okkar,  þeirra vígvöllur

Ég hélt að ég hefði fylgst þokkalega vel með heimsfréttum en komst að því að ég vissi ósköp lítið. En það var ekki bara við  mig að sakast, það var svo margt sem ekki hafði komist í fréttir, stundum af því að fréttamönnum þótti það ekki fréttnæmt, stundum af því að það var of hroðalegt til að segja það.

Christina Lamb er breskur blaðamaður sem nú hefur skrifað bók um hvernig nauðgunum er skipulega beitt í stríði til að skaða baráttuþrek andstæðingsins með því að nauðga konum og stúlkubörnum. Þannig tekst þeim ekki bara að eyðileggja líf kvennanna, þeim tekst einnig að brjóta niður samstöðu fjölskyldna og vina. Þetta er hægt að gera af því kynlíf kvenna er svo hlaðið tabúum að það er ekki hægt að tala um það. Lamb nefnir sem dæmi  í bók  sinni fjölda tilvika þar sem nauðganir eru ekki nefndar á nafn þegar samið er um skaðabætur í lok styrjalda. Fyrir konurnar eru nauðganir verri en dauðinn. Fórnarlömbin eru skilin eftir helsærð með harm sinn og skömmina, sem fylgir því að hafa verið nauðgað.

Þótt búið sé að setja inn í alþjóðlega lagatexta að nauðgun sé glæpur… hefur ekki enn verið felldur einn einasti dómur.

Fórnarlömb styrjalda

Lamb  er reyndur blaðamaður. Í Írakstríðinu tók hún eftir að félagar hennar í blaðamanna  stétt vísuðu aldrei til kvenna varðandi heimildir. Ekki     ein einasta frétt var höfð eftir konu. Það var eins og þær væru ekki til. Síðan þá  hefur hún einbeitt sér að því að skoða afleiðingar styrjalda á  líf fólks, frekar en að fylgjast með því hvað er að gerast á vígvellinum eða  hver vann hverja orrustu. Saga stríða fjallar um karlmenn og er skrifuð af karlmönnum. Það hefur hvergi verið reistur minnisvarði með nöfnum kvennanna sem var nauðgað.

Í þessari bók kemur höfundur víða við. Hún tekur viðtöl við fjölda kvenna.   Hún talar við Jasídakonur sem hefur tekist að flýja ógnarstríð Ísis.   Hún hittir þær í yfirfullum flóttamannabúðum á  eynni Leros og enn aðrar í Þýskalandi.  Þar var tekið á móti stórum hópi kvenna sem voru greinilega veikar eftir áföll sem þær höfðu orðið fyrir og horft upp á.

Lamb heimsækir flóttamannabúðir Róhingja í Bangladesh og fær að vita að Róhingjar eru svo vanir því að reynt sé  að útrýma þeim, að þeir áttu orð í tungumálinu sínu sem þýðir þjóðarmorð. Lamb heimsækir Nígeríu í tvígang og hittir mæður skólastúlknanna sem var rænt. Hún bregður upp mynd af því sem virðist vonlaust ástand, annars vegar spillt stjórnvöld og hins vegar hryðjuverkasamtökin  Boku Haram.

Höfundur veltir hvað eftir annað fyrir sér eðli illskunnar án þess að komast að niðurstöðu. Á einum stað veltir hún fyrir sér hvort „stríðsmenningin“ yrði betri ef fleiri konur væru hermenn. Ég gef lítið fyrir þessar pælingar. Mér finnst nær að ræða hvernig menn, karlar jafn sem konur, geti lært að lifa án hernaðar.  

Hvað græði ég á því að segja sögu mína?

Spurði ein stúlkan blaðamanninn áður en hún gaf kost á viðtali. Kannski getur það orðið til þess að aðrar stúlkur sleppa við að upplifa það sama og þú, var svar blaðakonunnar Christina Lamb. Og akkúrat þetta er hugmynd hennar á bak við við þessa mögnuðu bók. Og það er líka hugmynd mín þegar ég segi ykkur frá henni. Mér finnst að okkur beri skylda til að setja okkur inn í hvað stríð þýðir í raunveruleikanum. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita hvað flóttafólkið er að flýja og gera okkur grein fyrir því hvers konar líf bíður þess í flóttamannabúðunum.

Mér finnst þessi bók góð vegna þess að hún dregur upp heillega mynd af því sem fréttir láta oft ósagt. Hún skilur mikið eftir, eitt af því er þakklæti fyrir að búa ekki við stríð.

Titill bókarinnar, Líkami okkar,  þeirra  vígvöllur, segir í hnotskurn efni bókarinnar. Hann er hafður beint eftir einum viðmælanda.

Það sem gerir þessa bók eftirminnilega og hrífandi eru viðtölin við konurnar. Kannski ætti ég frekar að segja stelpurnar því margir viðmælendur hennar eru kornungar stúlkur. Fyrir mig er þetta eftirminnilegasta bók ársins. Mig langar til að sem flestir lesi hana  því hún miðlar mikilvægri  þekkingu sem  skiptir máli. Mér finnst hún eiga sérstakt erindi  til allra sem tengjast utanríkismálum og pólitík. Þannig á hún líka erindi til okkar sem kjósum fólk til forystu og viljum að Ísland sé stefnumótandi land í verkefninu að  bæta heiminn.  

 

 

 


Óttar Guðmundsson: Sturlunga geðlæknisins

3D66DC25-CA44-4138-8918-33BAB3F2831E
Endalaust púsluspil

Ein af jólabókunum í ár er Sturlunga geðlæknis eftir Óttar Guðmundsson. Þótt ég fresti  því oft að lesa jólabækurnar, jafnvel til næstu jóla, gat ég ekki á mér setið þegar ég sá að Óttar Guðmundsson var búinn að geðgreina allar helstu söguhetjur Sturlungu.En fyrst ætla ég að tala um mig og Sturlungu. Ég er með áráttu fyrir Sturlungu og hef pælt í gegnum hana hvað eftir annað og hef nú komist að því að Sturlunga er eins og sjálf lífsgátan, ég get ekki leitt hana hjá mér, þótt ég viti að það finnst ekkert svar. Hún er eins og endalaust púsluspil sem maður gefst ekki upp á, þótt mann gruni að það vanti e.t.v. eitt og eitt púsl. Ég var örlítið smeyk um að Óttar væri að grínast með þetta uppáhald mitt en komst fljótlega að því, að bók hans er skrifuð af mikilli alvöru. En allri alvöru fylgir nokkuð grín, þannig á  það líka að vera.

Bók Óttars

Efnistök Óttars eru framúrskarandi. Fyrst gerir hann grein fyrir því helsta sem maður þarf að vita um Sturlungu til að skilja hvað hann er að tala um. Síðan gerir  hann grein fyrir hvað felst í geðgreiningum. Loks fjallar hann um muninn á  Sturlungu og öðrum Íslendingasögum. Þetta gerir hann í ótrúlega stuttu máli en nær þó að draga fram aðalatriði. Þetta var góð upprifjun fyrir mig og vonandi nægilegur grunnur fyrir þá, sem lesa bókina án þess að þekkja  Sturlungu fyrir.

Meginefni bókarinnar fjallar svo um þekktar persónur og þá hefur hann sama háttinn á, að hann kynnir þær hverja fyrir sig og talar um hvaða hlutverki þær gegna í sögunni og þá væntanlega líka í sinni samtíð, því meginhluti Sturlungu er samtímaheimild. Loks gerir Óttar grein fyrir hverjum og einum út frá viðmiðum geðlækninga dagsins í dag. Bókin í heild er skemmtileg upprifjun á Sturlungu.

Geðheilsa og stríðsástand

Það var gaman að skoða bókina út frá þessu sjónarmiði. Hljóta ekki menn sem víla ekki fyrir sér að ræna, drepa og limlesta fólk að vera á einhvern hátt brjálaðir? En Óttar segir jafnframt að það hafi ríkt stríðsástand á Sturlungaöld. Þannig hef ég líka skilið Sturlungu. En hvort er á undan stríðið eða vondir menn. Þetta er eins og spurningin um hænuna og eggið. Tilgangslaus spurning.

Hvaðan kemur grimmdin?

Þótt Óttar sé ekki beinlínis að fjalla um það, finnst mér það liggja ljóst fyrir í bók hans. Grimmdin og voðaverkin sem eru framin orsakast fyrst og fremst af eltingaleiknum um auð og völd. Hégómleiki  og dramb koma  einnig við sögu í einstaka tilfellum.

Að  lokum

Þótt Sturlunga sé fyrst og fremst bók um karla fyrir karla koma konur við sögu, þótt þær fái minna pláss. Já Sturlunga er breið saga sem fjallar um höfðingja, konur, börn og alþýðu. Óttar gerir vel grein fyrir stöðu kvenna á Sturlungaöld og veltir fyrir sér uppeldisaðstæðum barna.

Þannig dregur hann fram heildarmynd þessa róstusömu tíma.

Ég var sem sagt mjög ánægð með bókina í heild og ekki dregur hún úr Sturlunguáráttu minni. Ég var ekki fyrr búin með hana þegar ég smellti á bók Sverris Jakobssonar, Auðnaróðal, en þar fjallar Sverrir um samfélagsbreytingar á tímum Sturlunga.

Eitt af því góða við að lesa Sturlungu og bækur henni tengdar, er að maður verður svo þakklátur fyrir hvað allt er miklu betra nú en þá. Að kóvíittímum meðtöldum.

Ég mæli með bók Óttars, hún er bæði vel skrifuð og af mikilli þekkingu á efninu.


Hilduleikur: Hlín Agnarsdóttir

41353823-72DD-4455-A9E6-0DC9FBEB8388

Hvað er betra á farsóttartímum en að lesa  kolsvarta dystópíu ? Þá getum við ornað okkur við að til  eru enn verri tímar en kóvítið. Distópía er andstæðan við útópíu, en hvort tveggja eru þetta erlend orð sem hentugt er að grípa til þegar verið er að lýsa því sem er best eða verst allra heima.

Hilda er eldri borgari og búin að missa manninn og aðra dóttur sína, hin býr erlendis. Sonurinn hefur komið sonarhlutverki sínu yfir á konu sína, svo ekki íþyngja börnin.  Hún hefur ráðið sér húshjálp til að létta undir með sér og til að lesa með sér ljóð. Húshjálpin ber nafnið Bragi Austan. Það er hann sem segir söguna að hluta. Hilda býr í blokk í Ljósheimum og ætlar að una þar við ljóðalestur og minningar þar til yfir líkur. En það er hægara sagt en gert. Ríkisstjórnin hefur framselt þjónustu við eldri borgara til einkafyrirtækisins Futura Eterna. Fyrirtækið  hefur um leið fengið umtalsvert vald til að hlutast til um hvernig skjólstæðingar þess haga lífi sínu.Þessu fylgir að Futura hefur tekið að sér að greina hvað er best fyrir hvern og einn og hvenær er tímabært að  deyja. Það er t.d. alls ekki ætlast til að gömul kona búi ein í 137 fermetra íbúð. Gamla fólkinu stendur til boða sérhæft úrræði, svokallaðar ellikúpur.  Ef skjólstæðingar Futura Eterna  þrjóskast við, þurfa þeir að borga refsiskatt eftir fjölda umfram fermetra. Það hefur verið reiknað út að 12 fermetrar nægja þeim sem komnir eru á aflifunaraldur. En  aflifunaraldur er eitt af fjölmörgum orðum sem eru notuð af fyrirtækinu . En

Hilda er engan veginn sátt við  hugmyndafræði Futura Eterna og þegar  stofnunin tekur af henni völdin á ögurstundu er henni nóg boðið. Málið varðar vin hennar sem hefur mjaðagrindarbrotnað. Futura Eterna flokkar hann og telur lítið vit í að leggja á hann  erfiða lækningu og velur honum líknandi dauða.  

Mótmæli Hildu eru sterk.   Hún fórnar því eina sem hún enn á.  

Þótt þessi saga dragi upp dökka mynd af framtíð sem gæti verið rétt handan við hornið, er gaman að lesa hana. Það kemur til af því hvað Hlín skrifar góðan texta og af því að  hún er hnyttin og lúmskt fyndin. Auk þess rúmar hún mikla alvöru.

Það er Ásdís Thoroddsen sem les. Hún er ein af mínum uppáhalds lesurum.

Eftirþanki

Ég yrði ekki hissa þótt næsta bók Hlínar yrði ljóðabók. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 189891

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband