Gísli Gunnarsson : Minning

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49
Ég fékk fréttina um andlát Gísla Gunnarssonar frænda míns og vinar í fyrra dag. Ég verð að játa, að þrátt fyrir að hafa fylgst með með baráttu hans við erfiða sjúkdóma, ar ég alls ekki undir það búin. Við áttum svo margt órætt.

Ég kynnist Gísla þegar við vorum bæði ung, hann nýkominn úr námi í Skotlandi og ég í Háskóla. Þegar hann vissi hverra manna ég var, kynnti hann mig fyrir fjölskyldu sinni en mæður okkar voru systkinabörn, af Krossgerðisættinni, eins og sagt var. Eftir það þróaðist með okkur ævilangur vinskapur. Ég var nokkra stund að átta mig á þessum sérkennilega frænda mínum. Það var eiginlega sama hvar maður bar niður, eftir að hafa rætt  við Gísla, sá maður málið frá nýrri hlið. Við tengdumst sem sagt ekki bara  gegnum Krossgerðisættina, við áttum sameiginleg áhugamál sem sneru að pólitík og félagsmálum og fleiru. Við vorum bæði vinstri sinnuð og litum á okkur sem sósíalista. Gísli kafaði þó dýpra en flestir í mínum vinahópi. Það var menntandi að hlusta á hann kryfja mál. Gísli átti það til að vera nokkuð langorður  en hann tók það ekki illa upp við mig þótt ég bæði hann um að stytta mál sitt. Svona lagað geta bara vinir gert.  Eins og ég vék að áðan, var skilgreining Gísla á hvað væri pólitík bæði djúp og víð. Hann vann t.d. stórvirki þegar hann af tilviljun tók það upp hjá sjálfum sér að rannsaka frelsissviptingu ungra stúlkna. Það sem ýtti við honum var að einn nemandi hans  kom að máli við hann vegna vinkonu sinnar sem hafði verið tekin úr umferð. Gísli ákvað að kynna sér málið og tók viðtöl við stúlkur sem höfðu verið teknar úr umferð.  Það fyrsta sem hann tók eftir var að það var allt annað sem var lagt til grund vallar frelsissviptingu stráka og stelpna. Afskiptasemi Gísla var misjafnlega tekið enda var hann langt á undan sinni samtíð.  Þetta mál gekk undir nafninu Bjargsmálið.

 Þegar við Gísli kynntumst vann hann sem kennari í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og bjó enn í heimahúsum,   þegar hann hleypti heimdraganum blöstu við mál til að kryfja. Hann fór á  kaf í húsnæðis- og byggingarmál. Og þegar hann hóf að reka sitt eigið heimili fór hann á kaf í neytendamálin og endurreisti Neitendafélagið sem var í djúpri lægð. Ég man eftir löngum samtölum um verð á þvottaefni og klósettpappír. Þegar Gísli kynntist stúlkunni sem átti eftir að verða konan hans, hittumst við sjaldnar. Ráðahagurinn gladdi mig  mig mikið enda þekkti ég Sigríði Sigurbjörnsdóttur

 frá því við vorum skólasystur á Eiðum, og þar sem hún hafði orð á sér að vera rösk   og drífandi. Hún var í verknámsdeild og ég öfundaði hana og stöllur hennar af handavinnunni , sem ég varð að afsala mér að læra, þegar ég valdi landsprófsdeild.

Þótt fundahald okkar Gísla ætti eftir að gisna eftir að hann festi ráð sitt hélst vinátta okkar óbreytt. Við Erling áttum eftir að heimsækja hann bæði til Kaupmannahafnar þegar hann dvaldi í Jónshúsi og til Lundar  á tímunum sem hann var að vinna að doktorsritgerð  sinni í    hagsögu. Seinna meir bar fundum okkar oftast saman í Friðarhúsinu en þar átti hann marga vini og félaga.

Þessi fátæklega upprifjun á gömlum vinskap er til komin af þörf minni til að kveðja vin. Ég sagði í upphafi máls míns að ég hefði ekki verið undir brottför  hans búin. En eftir þessa stuttu upprifjun finn ég að Gísli er ekki farinn. Það er svo margt sem minnir mig á hann og ég á eftir að eiga við hann mörg innri samtöl.

   

Að lokum langar mig og Erling  til að votta Sigríði hans og dætrum hans, Birnu, Málfríði og Ingileif hluttekningu. Gísli sonur minn bað einnig fyrir kveðjur.


Ástin á dögum kólerunnar;

 

6AE5C29A-8DB3-471D-9231-E8104EC67299
Ástin á dögum kólerunnar

Ég geri mikið að því að endurlesa bækur, sem mér finnast góðar. Margar bækur les ég oft. Nú þótti mér við hæfi að lesa Ástin á dögum kólerunnar eftir Gabriel Garcia Marquez (1927 til 2014). Það skemmtilega við að endurlesa bækur er að það er eins og hver lestur færi manni nýja bók. En í raun er það maður sjálfur sem hefur breyst. Með því  að skoða breytingar sem maður telur  að hafi orðið á bókinni, sér maður eigin umbreytingu.

Þegar ég las Ástir á dögum kólerunnar á sínum tíma, líklega 1986, árið sem bókin kom út á íslensku í þýðingu Guðbergs. Í minningunni  var sagan lýsing á litríku lífi í framandi landi. Afar exótísk. Ég mundi best eftir unga lækninum sem hafði numið í París og kom til baka sem eldhugi. Ekki bara í   heilbrigðismálum, hann var á kafi í skipulagsmálum, listum og pólitík. Í mínum huga var hann aðalpersóna sögunnar og ég hafði alveg gleymt furðufuglinum Flórentino Ariza sem ég sé nú að á trúlega að vera aðalpersóna  bókarinnar.Mér til afsökunar get ég sagt að þessi saga breiðir úr sér og hún hefur að geyma margar hliðarsögur og vel dregnar persónur.

 

Sagan gerist á árunum 1870 til 1930 í Kartagena í Kólumbíu. Ungur maður Flórentino Ariza verður ástfanginn af skólastúlkunni Fermina Daza. Faðir hennar setur sig upp á móti sambandi þeirra en  þau skrifast á með leynd.Síðar verður ungi læknirinn Juvenal Urbino heillaður af Fermina, sömu stúlkunni sem þá var orðin gjafvaxta.Merkilegt orð, gjafvaxta. Hann biður hennar og hún tekur honum eftir nokkurt hik. Þau lifa í farsælu hjónabandi í 50 ár en þá ferst hann af slysförum. Flórentino hefur alla tíð beðið eftir þessu augnabliki, hann er enn gagntekinn af æskuástinni sinni. En það hefur ekki hindrað hann í því að njóta ásta með öðrum konum. Líklega á hér betur við að tala um kynlíf en ást.

Það er þessi hluti bókarinnar sem ég hef annað hvort skautað yfir eða einfaldlega sleppt. Kannski lauk ég aldrei bókinni, sem er ekki líkt mér því ég hef lengi haft það fyrir reglu að klára bækur, jafnvel þótt mér leiðist þær. Auðvitað hafði ég óskaplega mikið að gera á þessum árum, útivinnandi með þrjú börn á skólaaldri. Ég veit ekki hvort ég er að leita skýringa eða bara afsaka mig.

Ástæðan fyrir vangaveltum mínum er, að ef svona lagað kæmi út í dag, myndi það kalla á umræðu  og e.t.v. ámæli églíka    (me too)kvenna og karla. Konur eru leiktæki og það er líka barnið America, sem er  skjólstæðingur Flórentinos, sem hann misnotar. America sviptir sig síðan lífi. Öllu þessu hafði ég gleymt.

Nú er ég ekki að halda því fram að Ástin á dögum kólerunnar, sé vond bók, þaðan af síður að hún sé ekki sönn, þótt það hafi fest við þessa og fleiri höfunda að verk þeirra einkennist af töfraraunsæi. Þvert á móti. Mér finnst bókin góð og ég trúi hverju orði. Svona hefur þetta eflaust verið og er enn. En höfundur sem lýsir slíku háttalagi gagnrýnislaust væri ólíklegur til að vera heiðraður með Nóbelsverðlaununum. Gabriel Garcia Marques fékk þau reyndar nokkru áður en bókin kom út (1982).

Auðvitað valdi ég að lesa þessa bók nú út af efninu og það olli mér vissum vonbrigðum að ekki skuli vera meira fjallað um þennan sjúkdóm. Að vísu bregður honum oft fyrir í sögunni og læknirinn hefur miklar áhyggjur af sorp- ogfráveitumálum borgarinnar.     Það var búið að uppgötva hver var orsök sjúkdómsins (1854)og það hefur minn góði læknir vitað.

Það var sem sagt bæði þarft og gefandi að endurlesa þessa bók og ef Guð lofar mun ég lesa hana fljótlega aftur.


Þögla barnið : Guðmundur S. Brynjólfsson

20170913_174054Þögla barnið

Þögla barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson er framhald af bókinni   Eitraða barnið sem kom út fyrir tveimur árum. Persónurnar eru þær sömu oghafa lítið breyst. Eyjólfur   Jónsson sýslumaður dettur enn í það og frestunarárátta hans er jafn óþolandi.    Anna Bjarnadóttir kona hans er enn  jafn þolinmóð og glögg á hvað gera þarf. En þá voru aðrir tímar. Hún ber gæfu til að leiða hann og styðja á braut sem hún hefur valið. Í dag væri þetta líklega flokkað sem meðvirkni.  Skúrkurinn Kár Ketilsson er sami óþverrinn.

En sögusviðið er annað. Fyrri bókin gerist á Eyrarbakka og þar í kring, þessi gerist á Vatnsleysuströnd því þar er þriggja ára óupplýst morð. Allir þykjast þó vita hver er hinn seki en það þarf að rannsaka það og rétta síðan. Sýslumaður Gullbringusýslu er vanhæfur og  Eyjólfur er kallaður til.

Ég ætla ekki að rekja þráð sögunnar lengra, því það gæti skemmt lesturinn fyrir væntanlegum lesendum. En mig langar að tala um það sem  mér finnst vera aðall þessarar sögu, en það er lýsing höfundar á Vatnleysuströnd í byrjun 20. aldar. Byggðarlagið bókstaflega lifnar við.

Þegar ég hitti stöllur mínar í bókaklúbbnum, sagði ég þeim frá bókinni og lagði til að  við skyldum lesa hana saman og fara síðan í vettvangsferð með leiðsögn. Ég sé fyrir mér að við gætum reynt að finna kotin, skoða fjárborgina og Kálfatjarnarkirkju. Mikið hlakka ég til. Ég á ekki von á að covid19 breyti neinu um þetta.  Vonandi.

Lokaorð

Ég er nokkuð viss um að það á eftir að koma út ein bók enn. En það er ekkert sem segir að þær gætu ekki orðið fleiri.

Loka – lokaorð

Það er höfundur sjálfur sem les. Hverjum væri betur treystandi?


Jósefínubók: Jósefína Meulengracht Dietrich

AD382408-4B87-4388-9F54-DD117AC37E85
Að lesa ljóð og lausavísur

 

Það var Jósefína sem enn og aftur sannaði fyrir mér að það er eitthvað  heillandi við ljóð í bundnu máli. Eitthvað illskýranlegt og hrífandi. Maður finnur fyrir því í skrokknum og fer allur að iða. Þetta er líkt og að hlusta á tónlist sem sendir kaldan straum upp eftir hryggnum  á manni. Kaldan en samt notalegan. Mér hefur verið óljúft að játa  fyrir sjálfri mér, að kveðskapur með  rími og höfuðstöfum gefa mér eitthvað sérstakt . Ég vil ekki vera gamaldags, ég vil vera í takt við tímann. En auðvitað á maður  ekki að meta gæði bundins máls á kostnað óbundins, eða öfugt. Það er eins og að bera saman epli og appelsínur.

Þegar ég stóð frammi fyrir  því að þurfa að hlusta á Heimskringlu í stað þess að lesa, saknaði ég þess, að kvæðin skyldu ekki vera lesin með skýringum á réttum stað í efninu einsog gert er í öllum góðum fornritaútgáfum. Ég kvartaði.

En til baka til Jósefínu. Hún er,  fyrir þá sem ekki þekkja til, ljóðmælt læða og  heitir fullu nafni Jósefína Meulengracht Dietrich. Nú hefur komið út eftir hana bók sem hefur að geyma 100 ljóð og lausavísur. Bókin kom út  hjá bókaútgáfunni Sæmundi 2019 en hefur nýlega verið lesinn inn sem hljóðbók. Lesari er Sunna Björk Þórarinsdóttir.  Hún les listavel.  Það var gaman að hlýða á þessa bók, ekki síst vegna þess að mér finnst kattareðlið skína allstaðar í gegn . Ljóðin eru lúmskt fyndin og höfundur nálgast efniviðinn með mýkt kattarins. En hvað er það sem liggur Jósefínu á hjarta? Það er fjölmargt. Bókin skiptist í 19 mislanga kafla, sem  of langt yrði upp að telja. Það er betra að birta dæmi til að gefa einhverja hugmynd um efnisvalið.

Á bókarkápu stendur:

Ég hef á flóknum fræðum tök

og fléttað get með liprum klóm

hulda þræði, hinstu rök

og heimsins mesta leyndardóm.

Í formála segir:

Margt er ljúft að lesa hér

ljóðagerðin skemmtir þér

-brennur roð og rennur smér –

rómi þýðum hjala,

gulri kisu gaman finnst að mala.

 

Vísa 7 í sjálfævisögulega kaflanum  er svona:

 

Við skólanám , lestur – ég lýg ekki að þér-

og lærdóm ég þarf ekki að strita,

því alvaldið malar í eyrun á mér

allt sem mig langar að vita.   


Í kaflanum Matvæli og lífsbjörg er þessi litla vísa:

Berin eru  fuglafóður

og fuglar gleðja svangan kött.

(En kött að éta er, guð minn góður,

gersamlega út í hött.)

Mjólk kemur svo oft við sögu í ljóðum Jósefínu að það væri óvitlaust fyrir kúabændur að gera við hana auglýsingasamning til framtíðar. Mjólkin er til  dæmis sett á stall með öðrum gúrme jólamat í þessari vísu:

Jólakalkún, jólanaut, jólamjólk í krúsina,

jólaostinn, jólagraut, jólatréð og músina.

 

Ástæðan fyrir því að ég nefni Jósefínubók í sömu andrá og Heimskringlu, er að hún er ekkert að hika við dýrt rím og flóknar kenningar.Í  7. kafla sem ber nafnið Dýrar vísur er þessa vísu að finna:

Víst er slyng á vísnaþingi

vafin kynngi rófan mín,

ljóðin hringhend  

lengi syngi

læðan yngis Jósefín.

 

Kafli 10  ber yfirskriftina Sorgarljóð og harmatölur.  Mér finnst fara vel á því að enda þennan pistil á ljóði sem vísar beint inn í það sem kallað er fordæmalaust ástand okkar tíma :

Nú er kreppa og eymdarár,

illa vært í landi

úfinn jökull öskugrár

eldi spýr og sandi

með ýlfri ljótu úti stár

óláns tíkarfjandi

um allar jarðir ógn og fár

eiga hund í bandi.

Ef ég ætti að segja eitthvað gagnrýnisvert, að lokum, um skáldskap  Jósefínu, þá er það fyrst og fremst það, hvað hún er sjálflæg og skortir stundum samkennd. En það er nú einu sinni eðli katta og ef til vill sumra listamanna.


Sagan af Saur: Dæmisaga?

7B0E6AD5-114A-47EE-B046-89391949D79C
Í Heimskringlu er á einum stað sagt frá Eysteini illa Upplendingakonungi sem herjaði á Þrændur og sigraði. Hann bauð þeim að velja sér yfirvald og bauð þeim  að velja á milli Þóris faxa, þræls hans eða hundsins Saurs. Þeir völdu hundinn af því þeir töldu að það væri vænlegra, þannig gætu þeir ráðið meiru um eigin hag. Í hundinn settu þeir þriggja manna vit dubbuðu hann upp með silfuról og gáfu eigin  konunglega  bústað. Ef færð varð saurug báru hirðmenn hann á herðum sér yfir svaðið. Hann gat gelt til tveggja  orða og talað það þriðja. Hundurinn Saur (í Heimskringlu er stöðugt verið að segja frá því hvernig kóngar deyi) var rifinn á hol af úlfum þegar hann vildi vernda hjörð sína.

Þetta er lausleg endursögn á einni af þessum litlu sögum í Heimskringlu sem maður skilur ekki en ímyndar sér að sé gömul fyndni.

En í gær eða fyrradag þegar ég var að horfa á fréttirnar hrökk ég við. Mér fannst ég allt í einu greina dulinn sannleik í þessari undarlegu sögn.

Það var verið að sjónvarpa frá fréttamannafundi karlangans sem Bandaríkjamenn hafa kosið yfir sig og hann var að tala um lyf og kóvíd 19. Ég segi karlangann af því ábyrgðin er náttúrlega ekki hans, heldur hinna sem kusu hann til ábyrgðar. Var hugmynd þeirra e.t.v sú að þannig gætu ÞEIR ráðið meiru?

Myndin er af Heimskringlu. 


Heimskringla ; Að velja sér hliðarverruleika

C8355C58-EA4F-4A28-B740-09BAE2B4CBCF
Kringla heimsins

Aldrei á ævi minni hef ég heyrt eins mikla umræðu um heilsufar og líðan fólks eins og þessa síðustu daga.   Í minni sveit tíðkaðist lítt umræða um heilsufar og líðan mannfólks aftur á móti var mikið rætt um sauðfjársjúkdóma og varnir gegn þeim.

Nú er öldin önnur og eins gott. Ég viðurkenni nauðsyn þessarar umræðu og er þakklát þeim sem stýra sóttvörnum  í landinu enda sjálf í áhættuhópi.

En það koma stundir þegar mig langar í fréttir af einhverju allt öðru. Ég verð  yfir mig  þreytt og langar burt, inn í heim, þar sem ríkja aðrar áherslur. 

Nú dugir bara þykk bók með miklum hasar hugsa ég, er  ekki kominn tími á að rifja upp Heimskringlu?   

Já Heimskringla er svo sannarlega annar heimur. Ekki betri heimur, engan veginn, en ég þarf bara ekki að hafa áhyggjur  af því sem er að gerast. Ég er á öruggum stað, fortíðin nær ekki til mín.

 Fyrir þá sem ekki þekkja Heimskringlu er hún safn norrænna konungasagna allt frá dögum Óðins. Bókin er verk Snorra Sturlusonar. Heimildir hans eru einkum kvæði  og er víða vitnað til þeirra í bókinni.

Heimskringla er ein af þessum bókum sem verður ný við hvern lestur. Hugarástand lesanda hefur áhrif á sjónarhornið og fókusinn.  Það er ekki val heldur gerist  ósjálfrátt.

Í þetta skipti beindist athygli mín að líðan fólksins.

Það er auðvelt  að sjá kosti eigin samtíðar borið saman við veröldina sem lýst er í Heimskringlu.  Þvílík grimmd. Og hvílík sóun.

Allt í einu var ég farin að rýna í gildismatið  sem kemur fram í  Heimskringlu. 

Hvað er líkt okkar tíma og hvað er ólíkt? Ættir og sambönd voru  mikilvæg. Hefur það breyst? Líkamlegt atgervi og hreysti voru eftirsóknarverðir mannkostir.  Það er oft vikið að útliti fólks því til hróss. Það er líka hrósvert að vera vel máli farinn. En ekki er allt sem sýnist.  Þrátt fyrir mikilvægi ættar tíðkuðust bræðravíg. Hvað eftir annað kemur fram að það þótti ekkert tiltökumál að ganga á bak orða sinna. Oft er sagt frá rausnarlegum heimboðum sem lauk á því að gestir voru brenndir inni.  Það er engu líkara en að mönnum leyfist hvað eina til að ota sínum tota. Græða.  Víkingaferðirnar eru af sama meiði. Þeim er lýst nánast eins og sporti eða veiðiferð. Menn brugðu sér sumarlangt til útlanda til að ræna og drepa. Samkennd og friðsemd er ekki hátt skrifuð á tímum Heimskringlu. Mér varð oft hugsað til Snorra. Hvað fannst honum, kristnum manninum? Eða var hann að reyna að ganga fram af lesendum.  

Í Breiðdalnum þar sem ég ólst upp var merk kona, Þorbjörg R. Pálsdóttir. Hún var víðlesin og fylgdist vel með. En hún gaf lítið fyrir Íslendingasögurnar, sagði að þær væru svo ljótar.  Hún sagði að hún væri mótfallin dýrkun manna á bardögum og hetjuskap. Ég tók mikið mark á Þorbjörgu og hugsa oft til hennar þegar ég les þessar sögur en ég hef mætur á fornum fræðum. Mér finnast þessar gömlu sagnir vera eins og gáta, það er svo gaman að lesa á milli línanna og reyna að ráða í það sem er á bak við frásögnina. En Heimskringla er saga um kónga og heldra fólk, hvernig skyldi hinum líða sem vinna og gerir veldi  þeirra mögulegt?

Ég undrast að það skuli vera til fólk sem finnst sæmandi að hrósa sér af illgjörðum frænda okkar og forfeðra .

Hvernig gátu góðir og vel meinandi menn eins og t.d. Ólafur Ragnar stært sig af slíku framferði. Kannski las hann aldrei þessar bækur.

Það væri nær að forsætisráðherra stigi fram og bæðist afsökunar á framferði víkinga.

Ég er sem sagt búin að dvelja í heimi Snorra og Heimskringlu en er nú stigin inn í veruleika dagsins í dag. Þar sem okkur er frjálst að velja  stjórnvöld. Við eigum nú því láni  að fagna að þau hafa kosið að gefa valdið frá sér til sérfræðinga.   En jafnvel vísindin eiga ekki ráð við öllu. Þetta agnarsmáa fyrirbæri smeygir sér inn í líkama okkar til að fremja spellvirki. Á meðan á þessu stendur er best að velja langar bækur og flýja inn í veröld sem er ekki til í raunveruleikanum.

Myndin er af nuddbolta en ekki af veiru. 


Ljóðin tala við mig um mínar tilfinningar

10A8323D-FD55-4C2F-9CFC-7E161DF1E05B
Ég var svo lánsöm að alast upp á þeim tíma þegar það þótti sjálfsagt að láta börn læra ljóð utanbókar. Ég kann enn mörg ljóð og hrafl úr ljóðum sem ég lærði sem barn ýmist af skyldurækni eða vegna þess að mig langaði til þess. Sum komu bara af sjálfu sér eins og lög sem maður lærir af því þau eru oft spiluð. Flest fólkið á bænum  kunni eitthvað af ljóðum og fann sér tækifæri og áheyrendur til að hafa þau yfir. Syngja við verk sín, t.d. við skilvinduna.

Það gerist oft að þessi ljóð hoppa fram, tala til mín og orða fyrir mig það sem ég er að hugsa eða hvernig mér líður. Sjaldnast man ég ljóðin í heild sinni, heldur eina og eina hendingu. Oft verður það til þess að ég rifja upp allt ljóðið. Stundum verð ég pirruð á að muna ekki og er ekki í rónni fyrr enn ég hef flett því upp.   

Ég hef ekki komist upp á lag með að læra óhefðbundin ljóð, þótt mér finnist þau ekki síður gefandi. Held þó að ég kunni eitt,ljóð Ara Jósefssonar sem  heitir Stríð.

Undarlegir eru menn sem ráða fyrir þjóðum.Þeir berjast fyrir föðurland eða fyrir hugsjón og drepa okkur sem eigum ekkert föðurland nema jörðina enga hugsjón nema lífið.

Líklega er ástæðan fyrir því að ég kann einmitt þetta ljóð, að það gefast allt of mörg tilefni til að rifja það upp.

Undanfarna daga og stundum nætur hef ég verið að hlusta á ljóðabók Gyrðis Elíassonar;Hér vex enginn sítrónuviður. Þvílík unun. Það er Hjalti Rögnvaldsson sem les.

Nú að þessum orðum skrifuðum, held ég að ég hafi lært utanbókar nýtt óhefðbundið ljóð. Það heitir Ljóð frá sænsku strandlengjunni.

Ég sé ekki skóginn fyrir siglutrjánum.        

 


Napóleon: Hermann Lindqvist

 
1BDDBFE8-A553-439C-803F-AEA54BFD155FNapóleon

Örfá orð um langa bók

Hver er skýringin á því að friðarsinninn ég, notar 28 stundir af sínum dýrmæta tíma til að lesa um  stríðsmanninn Napóleon? Kannski er skýringin sú að hugur minn var enn staddur í Frakklandi

eftir að ég hafði lesið bók Árna Snævarrs um Paul Gaimard, Þegar  ég rak augun í að það er búið að lesa inn á hljóðbók ævisögu hins nafntogaða Napóleons Bonapartes, sá ég það sem tækifæri til að dvelja lengur á franskri grund.  Bókin er eftir  Svíann Hermann Lindqvist og það er Borgþór Kjærnested sem þýðir hana. En fyrir þá sem ekki vita, tengist konungsætt Svía Napóleon á fleiri en einn veg. Annars vegar í gegnum kjörson hans, son Jósefínu og hins vegar gegnum fjandvin hans Bernadotte sem tók að sér að verða konungur Svía eftir að hafa lengi verið  herforingi í her Napóleons.

Þessi bók fjallar ekki bara um Napóleon, hún er um leið stjórnmálasaga þessara tíma.

Napóleon var fæddur 1769 á Korsíku og dó 1821 á  Sankti  Helenu.  Franska byltingin hófst 1789 (reyndar er nær ómögulegt að tímasetja slíkan atburð) svo Napóleon var tvítugur, herskólagenginn  og kominn í herinn. Á þessum tíma hafði hann fyrst og fremst áhuga á heimalandi sínu, Korsíku og reyndi að komast þar til valda. Það tókst ekki. Ef það hefði tekist, væri mannkynssagan önnur. Napóleon var framfarasinnaður ungur maður, þegar hann var, sem yfirmaður í franska hernum, beðinn um að sverja þjóðinni hollustueið (áður hafði tíðkast að sverja konunginum eið) var ekkert hik á honum.Hagsmunir hans og frami tengdist eftir það hinum svo kölluðu byltingaröflum. Að lokum varð hann hæst ráðandi, fyrst sem konsúll og síðar keisari. En það kom  aldrei sá tími að hann gæti dundað sér við gæluverkefni eins og að bæta skólakerfi, byggja söfn og fegra París. Þó gerði hann allt þetta og meira til.

Aðalsstéttir Evrópu óttuðust afleiðingar frönsku byltingarinnar og þjóðhöfðingjar  álfunnar sameinuðust gegn Frökkum. Tímabil styrjalda sem kenndar eru við Napóleon hófst. Stríð eru voðaleg og bitnuðu  þá eins og nú fyrst og fremst á þeim sem minnst mega sín.

Allt þetta rekur Hermann Lindqvist og hann rekur líka sögu fjölskyldu Napóleons og kvennamál hans, sem var og er reyndar enn sívinsælt efni. Það er greinilegt að höfundur dáist að hetjunni Napóleon og hann kastar hnútum í Englendinga og segir að þeir hafi stöðug reynt að ófrægja hann, kallað hann skrímsli og komið af stað sögu um að hann hafi verið lítill vexti.  Um leið fræðir hann lesandann um að Napóleon hafi verið 169 sentimetrar  á hæð og því hærri en meðaltal hermanna þess tíma.

 

Mér fannst bæði gaman og fræðandi að lesa þessa bók. Lesturinn gaf mér tækifæri til að til að ígrunda hvað það inniber að vera friðarsinni. Öll þessi stríð, allt þetta ofbeldi og öll þessi sóun styrkir sannfæringu mína um að ofbeldi er aldrei lausnin..

Þegar franska byltingin er skoðuð, en flestir eru nú sammála um, að hún hefur beint og óbeint verið fyrirmynd margra sem vilja stuðla að jafnrétti, finnst mér að horft sé fram hjá kraftinum sem bjó í upplýsingarstefnunni. Í mínum huga eru frömuðir hennar hinar sönnu byltingarhetjur. 

Það er aldrei hægt að dæma fólk eða atburði með mælikvarða dagsins í dag, það er svo margt ólíkt. Mér finnst t.d. grimmt að drengurinn Napóleon var sendur í herskóla 10 ára gamall, hann þekkti engan og kunni ekki einu sinni málið sem var talað í landinu, því á Korsíku var talað mál sem líkist í ítölsku. Það var ekki síður grimmt að taka litla drenginn son Napóleons, frá móður sinni Marie-Louise eftir að keisarinn var sigraður. Banna honum að tala frönsku og reyna að heilaþvo hann, þvo burt allar minningar hans um föður sinn.

 

Lokaorð

Ég hlustaði á þessa bók sem hljóðbók af því ég get ekki lengur lesið en ég gat ekki stillt mig um að fá bókina lánaða á bókasafni til að geta handleikið hana. Þetta er doðrantur, 610 síður, og í henni er fjöldi mynda í lit. Ég get enn skoðað myndir mér til gagns og ég dáist að því hvað myndirnar koma vel út í prentun.

Það er mikill fengur í þessari bók, ég vildi að ég hefði haft slíka bók þegar ég var að læra mannkynssögu í gamla daga.


Skammdegislestur: Fjórir krimmar

A7C7314A-EAD6-4708-A5E9-D67CD5E001EEÍ svartasta skammdeginu fannst mér við hæfi að lesa íslenskar glæpasögur en þær höfðu setið á hakanum of lengi.  Líklega síðan í skammdeginu þar áður. Ég las eftirtalda höfunda:

Arnald Indriðason, Yrsu Sigurðardóttur, Lilju Sigurðardóttur og Ragnar Jónasson. Röðin á upptalningunni  er ekki virðingarstigi, heldur tímaröð lesturs. Ég hef verið að reyna að kenna sjálfri mér að hugsa ekki línulega um gæði  bóka, heldur meta hverja bók út frá eigin verðleikum, rétt eins og ég vil hugsa um fólk. Fyrst las ég Tregastein Arnalds.   Arnaldir svíkur ekki  frekar en venjulega. En fljótlega eftir að  ég  var komin inn í bókina fann ég hvað ég er orðin leið á Konráði. Hef reyndar aldrei kunnað að meta hann. Þessi fyrrverandi lögreglumaður situr fastur í eigin fortíð og er bæði svifaseinn og ákvarðanafælinn. Hann þyrfti að fara á námskeið um núvitund. En að öllu gamni slepptu, nýt ég þess að lesa bækur Arnaldar. Hann er svo flinkur að draga  upp mynd af  20. öldinni, ekki síst   hugmyndaheimi  hennar, að það mætti kenna bækurnar sem sagnfræði.  Ráðgátan um  morðið í nútíma  bókarinnar,  leysist að lokum og vissulega tengist það liðnum tíma.

Þögn Yrsu Sigurðardóttur  sækir efni sitt beint í núið íslensks veruleika, enda liggur styrkur Yrsu í að lýsa hverdagslífi fólks og skapa persónur sem eru svo raunverlegar að manni finnst að maður þekki þær eða allavega einhverja sem er mjög lík. Ég þekki Freyju, Huldar, Guðlaug og Línu ekki bara úr fyrri bókum, ég þekki fólk sem er nauðalíkt þeim, já og Baldur líka. Aftur á móti þekki ég engan sem er í líkingu við Erlu. Sem betur fer. Frásagan einkennist af hraða og glæpirnir vekja viðbjóð en blóð og æla koma sér vel við tæknilega rannsókn lögreglu, hvað er betra en DNA?  Það sem mér finnst hrósvert við efnistök Yrsu er að hún sækir efni í gildishlaðna umræðu okkar tíma. Ráðgáta bókarinnar tengist bæði Staðgöngumæðrum og skyldu til bólusetninga. Þessi bók gefur svo raunsanna mynd af íslenskum samtíma að það mætti eflaust nota hana sem sagnfræðilega heimild fyrir næstu kynslóðir. En það sem Yrsa gerir allra allra best eru lúmskt fyndnar lýsingar á hugrenningum fólks. Á eftir Yrsu las ég, Helköld Sól eftir Lilju Sigurðardóttur. Höfuðpersóna sögunnar er hin kraftmikla Áróra. Hún er yngri dóttirin í hjónabandi breskrar konu og íslensks eiginmanns. Systurnar hafa alist upp bæði á Íslandi og Bretlandi. Þegar sagan hefst  er faðirinn látinn, móðirin  býr í heimalandi sínu, yngri dóttirin Áróra býr einnig þar, hún vinnur við að finna týnt fé fyrir þóknun. Upphæð þóknunar ræður hún sjálf. Þegar eldri systirin Ísafold sem býr á Íslandi hverfur, fer hún til Íslands að leita að henni. Áróra minnir á harðsvíraðan einkaspæjara af gamla skólanum , þótt hún gangi ekki með skammbyssu eða lemji fólk. Hún sér Ísland  með gestsauga, sem er bæði skemmtilegt og óþolandi fyrir þau okkur sem sitjum föst í ástkæra föðurlands sjónarhorninu. Það er sumar og henni finnst kalt á Íslandi, af því nafn bókarinnar og henni finnst ekkert til um hinar björtu nætur. Persónusköpun Lilju er skemmtileg. Í stað venjulegs fólks sem við öll teljum okkur þekkja, koma við sögu fólk úr jaðarhópum. Dæmdur svikahrappur  og fjárglæframaður með  ökklaband ; ólöglegur innflytjandi; og  fyrrverandi námshestur með áráttuhegðun. Svo dæmi séu tekin. Mér fannst gefandi að lesa þessa bók.

Síðasta glæpasagan sem ég las til að koma mér í gegnum skammdegiskvíðann var, Hvíti dauði eftir Ragnar Jónasson. Kannski hefur hún goldið þess að vera síðust. Kannski hef ég verið búin að lesa yfir mig af krimmum, því ég átti erfitt með að ná sambandi við söguna.  Ragnar hefur þann hátt á að hann staðsetur sínar sögur í liðnum tíma og í aðstæðum sem hefðu getað verið. Aðal sögusviðið er 2012, ungur afbrotafræðingur er að vinna að lokaritgerð og rannsakar gögn frá berklahæli í nánd Akureyrar frá 1983 en þá létust tveir starfsmenn hælisins með voveiflegum hætti. Þetta er lipurlega skrifuð bók, persónur eru vel mótaðar . Helgi aðalpersónan er tvístígandi, á erfitt með að ákveða sig varðandi starf sem honum býðst hjá lögreglunni  og hvað hann eigi að gera í sínum eigin málum. Hjónabandið er ekki í lagi.

Reyndar veit ég alveg hvað olli því að trúnaðarsamband mitt við söguna rofnaði. Mér fannst lýsingin á starfsemi  hælisins 1983 ótrúverðug. Það voru ekki lengur neinir sjúklingar og ég  gat ekki séð fyrir mér heila deild vinna að því að móta starfsferla. Galdur glæpasagna er að fá fólk til að trúa. Kannski er það galdur allra skáldsagna.

Þetta er nú orðin nokkuð langur lestur og ég á ekki von að nokkur lesi þetta til enda. En ég geri þetta ekki síst  fyrir sjálfa mig. Af því nokkur tími er liðinn frá því að ég las bækurnar, las ég þær allar aftur og það gleðilega gerðist. Þær urðu enn betri. Líka bókin sem ég náði ekki sambandi við. Kannski hefur spilað inn að það var ekki lengur skammdegi.   


Til baka til fortíðar ; Paul Gaimard; Maðurinn sem Ísland elskaði

E4517BF6-2654-41E2-B0E0-C72862132332 

Það er nokkuð um liðið síðan ég hef skrifað um bók. Það er þó ekki vegna þess að ég hafi ekki lesið. Þvert á móti. Það hafa sem sagt hrannast upp bækur sem ég hef ekki skrifað um og ég sit uppi með tilfinninguna að þeim sé ekki fulllokið, að ég hafi ekki gert upp minn hug, að ég hafi ef til vill ekki skilið þær réttum skilningi.Meira um þessar bækur síðar.

Bókin sem ég ætla að fjalla  um hér og nú er að því leyti sérstök, að ég sit föst í henni, losna ekki við hana úr huganum, langar til að dveljast lengur í heiminum sem hún hefur skapað.


Þetta er bók Árna Snævars, Maðurinn sem Ísland elskaði, Paul Gaimard og Íslandsferðir hans 1835-1836.  Hún fjallar um lækninn, vísindamanninn og landkönnuðinn Paul Gaimard. Þetta er í senn sagnfræðibók og bók fyrir almennan lesanda eins og þær gerast bestar. Höfundur notar heimildir og fer í frumgögn í frönskum söfnum og það sem er mikilvægast, setur hann sögu Gaimard í sögulegt samhengi, ekki bara heimssögulegt heldur rifjar hann líka upp og tengir okkar séríslenska samhengi við heimsviðburði. Sagan lifnar við og maður sér fyrir sér þennan snotra Frakka skoða landið okkar og leggja sig fram um að skilja samfélagið, kynnast fólki og landsháttum. 
Reyndar segir Árni Snævarr ekki bara ferðasögu Gaimard á Íslandi, hann rekur sögu hans um heiminn 1817- 1820 og 1826 -1829. Og svo að sjálfsögðu ferðir hans um Norðurlönd með viðkomu í Rússlandi og Prag. 

Það er svo gaman að lesa um 19. Öldina og upplýsingastefnuna, hún er svo full af bjartsýni. Þetta er nokkuð löng bók, 497 blaðsíður. Sjálf (vegna fötlunar minnar) hlustaði ég á hana sem hljóðbók og tekur hún  18 tíma í hlustun. Hjörtur Pálsson les bókina og gerir það frábærlega vel. Eðli málsins samkvæmt inniheldur bókin mörg erlend orð og nöfn, sérstaklega frönsk, sem hann ber fram að hætti þarlendra.

Ástæðan fyrir því að Paul Gaimard er okkur Íslendingum svo kær er trúlega vegna þess að Jónas Hallgrímsson orti til hans kvæði, sem hefst á:

Þú stóðst á Heklutindi hám

og horfðir yfir landið fríða.

Síðar í þessu sama ljóði stendur; Vísindin efla alla dáð, sem eru einkunnarorð Háskóla Íslands. Ég hef einu sinni gengið á Heklu og þar sem ég stóð í sporum hans reyndi ég að fara með slitur úr þessu ljóði.

Árni skrifar um líf og starf þessa mæta manns sem þrátt fyrir merkilegt ævistarf átti ekki fyrir eigin útför. Það voru vinir hans og velunnarar sem sáu til þess að honum var sómi sýndur og þess vegna getum við í dag staðið við gröf hans þar sem hann hvílir í Montparnasse kirkjugarðinum. Ég hef líka staðið þar því fyrir ríflega 20 árum tók ég að mér, ásamt manni mínum að gæta barnabarns í París. Það er lærdómsríkt að ganga um París með barn í kerru. Í einni ferð okkar römbuðum við á leiði Pouls Gaimars. Myndin sem fylgir  var tekin við það tækifæri.

Lokaorð; Lestur þessarar bókar var eins og að ferðast aftur til fortíðar. Hún hefði alveg mátt vera lengri.     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 190333

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband