Á nótttinni er allt blóð svart


D19BC4E6-5115-43CB-BB2B-BAC1A3F0ADCDÁ nóttinni er allt blóð svart
eftir David Diop er ein besta bók sem ég hef lengi lesið. En það er ekki áreynslulaust að lesa hana, því hún segir frá svo skelfilegum hlutum að maður vill helst ekki vita að þeir séu til. Á erfitt með að meðtaka þá, því þeir kollvarpa hugmyndum okkar um heiminn. Bókin segir frá stríði. Dags daglega heyrum við talað um stríð eins og einhvers konar keppni, þar sem eðlilegt er að fara eftir leikreglum, dómarinn fylgist með og blæs í flautuna þegar reglur eru brotnar og veifar spjaldi sem allir skilja og eru tilbúnir til að taka mark á. Í rauninni er  ekkert skylt með stríði og íþróttum. Þjóðir hafa að vísu reynt að koma sér upp leikreglum en þær eru þverbrotnar og virtar að vettugi þegar á reynir. Sigurvegari fer oftast með hlutverk dómara.

Sannleikskornið í þessari sögu

Í heimsstyrjöldinni fyrri, vildu Frakkar styrkja stöðu sína með því að fá unga menn  frá Vestur Afríku, Senegal, til liðs við sig. Sagt er að þeim hafi verið ætlað að hræða andstæðinga með útliti sínu og villimannslegri framkomu.  Þeim var fengin sveðja, auk riffils til að berjast með. Sagan segir frá einum þessara ungu manna, Alfa Ndiaye. Þegar hann var tvítugur lét hann skrá sig í herinn ásamt vini sínum og uppeldisbróður.Þannig vildu þeir öðlast frama. Þeirra beið skotgrafahernaður á Vesturvígstöðvunum.  Þegar vinur hans særist alvarlega, var ristur á hol með iðrun úti, situr Alfa hjá honum meðan hann er að deyja. Hann veður vitni að þjáningum hans en treystir sér ekki til að verða við bón hans um að hjálpa honum til að deyja, stytta kvalastríðið hans. En hann hét því að hefna hans. Hann ákveður að gera það með því að láta óvinina kveljast á sama hátt og vinur hans gerði. Í raun brjálast hann.

Erich Maria Remarque hefur lýst skotgrafalífinu á óviðjafnanlegan hátt í bók sinni Ekkert að frétta á Vesturvígstöðvunum og sú bók kemur því upp í hugann við þennan lestur. Sú bók er um bláeygu óvinina, sem þeir félagar voru að berjast við. (þetta var útúrdúr).

Félagar Alfa og og höfuðsmaðurinn, yfirmaður hans, vissu hvað Alfa aðhafðist, hann kom alltaf til baka með afskorna hönd sem sigurtákn. Í fyrstu þrjú skiptin hrósuðu þeir honum fyrir hetjuskap. Eftir það sniðgengu þeir hann. Þegar hann hafði átta sinnum hefnt sín með því að misþyrma  óvinum, var hann sendur á geðsjúkrahús. En bókin er ekki bara um stríð, hún fjallar líka um lífið í Senegal og uppvöxt hans,fólkið hans og vininn sem hann missti og vildi hefna. En fyrst og fremst fjallar þessi bók um geggjun stríðsins

Frásagnarmátinn 

En það er ekki bara efni bókarinnar sem gerir hana sérstaka, heldur frásagnarmátinn. Hann er alveg sérstakur og hrífur mann með sér. Stundum eins og ljóð, sundum eins og romsa eða þula. Og oft miklar endurtekningar. Trúlega er aldrei hægt að segja hvað gerir texta að skáldskap. En það er göldrum líkast.

Um höfundinnn

David Diap (fæddur 1966) höfundur þessarar bókar er  Senegal-Franskur. Hann er fæddur í Frakklandi og uppalinn í Senegal til 18 ára aldurs. Eftir það fer hann til náms í Frakklandi og lærir bókmenntir. Hann býr nú í Pau í Suður-Frakklandi þar sem hann kennir og vinnur að rannsóknum á frönsku og bókmenntum 18. aldar. Þessi bók kom út 2018. Hún hefur fengið fjölda verðlauna.

Þýðingin

Það er mikill fengur að hafa fengið þessa bók þýdda á íslensku. Það er Ásdís R. Magnúsdóttir sem þýðir hana og ég er sannfærð um að þýðingin er góð því hún talar bæði til vitsmuna og hjarta. Árni Blandon les bókina, hann er vanur og traustur lesari.

Angústúra

Það er Angústúra sem gefur bókina út. Þetta forlag á þakkir skilið, því alveg síðan það kom á bókamarkaðinnn, er greinilegt að það vill stækka heiminn. 

Myndin tengist ekki efninu. Hún var tekin á Seyðisfirði fyrir nokkrum árum.  


Blaðalestur

718880C2-365B-4FDF-9E0B-94ECF54BBB69Blaðalestur

Um nokkurt skeið hef ég ekki lesið blöð. Ég get ekki sagt að það hafi verið mér þungbært miðað við annað sem ég hef farið á mis við vegna sjónskerðingar minnar. En þó?

Nú hef ég fengið hjálpartæki sem gerir mér kleyft að lesa texta. Það er hægt að stækka upp heilar eða hálfar síður. Hingað til hef ég einungis   notað tækið  til að lesa ljóð, þau henta vel því stuttar línur er eitt af því sem gerir texta læsilegan. Nú  datt mér í hug að ég ætti aftur að hefja blaðalestur, svo ég ákvað að reyna.

Fyrst var að æfa mig, gera tilraun. Fyrir valinu varð Helgarútgáfa Fréttablaðsins  10. september.

Æfingin

Þegar dagblöð eru lesin með hjálp stækkarans, þarf maður að taka blaðið í sundur og  brjóta það síðan í hæfilegar einingar til að leggja undir stækkarann. Þannig fær maður nokkurn veginn yfirsýn yfir hálfa síðu í senn. En Fréttablaðið er að magninu til myndir og aftur myndir plús  auglýsingar. Ég ákvað að sleppa auglýsingunum alveg. Þannig slapp ég við  að skoða fjöldann allan af síðum.

Hvað gaf þetta mér svo?

Í þessu blaði voru nokkrar frásagnir eða viðtöl við einstaklinga sem sögðu frá lífi sínu eða  lífsreynslu sem það hafði orðið fyrir. Ég þori næstum ekki að segja það, að ég sneiði yfirleitt hjá slíkum viðtölum. Ég vil að blöð fjalli um pólitík, aflabrögð, stöðu krónunnar og ef til vill náttúruhamfarir og heyskap. Í þetta skipti lét ég mig hafa þð að lesa þessar fréttir af fólki, því ég var að æfa mig. Það glaðnaði þó yfir mér þegar röðin kom að frásögn um Britney Spears. Hún er undantekning frá reglunni að lesa ekki um einstaklinga.  Því fylgir saga.

Á hjólaverkstæðinu.

Ég er afar illa að mér um frægt fólk sem gerir það gott í tónlistarbransanum. Ég hef þurft að þola háð fyrir þetta heima fyrir þar sem fjölskylda mín er afar vel að sér um allt sem þetta varðar. Allt límist inn.

Fyrir nokkrum árum þ
urfti ég að láta gera við reiðhjólið mitt, Meðan ég beið þarna á hjólaverkstæðinu eftir að borga, rek ég augun í umslag sem hengt var á vegg. Á því  stóð: Söfnum fyrir Britney Spears. Það virtist sem að það hefði þegar safnast þó nokkuð  fé, því umslagið  virtist troðfullt. Ég spurði viðgerðarmanninn hver" þessi kona væri.  Hann sagði mér í fáum orðum deili á henni og hvaða órétt hún þyrfti að þola. Þetta sagði hann án þess að skensa mig. Fyrir það var ég þakklát. Líklega sá hann sem var að ég var bara illa upplýst gömul kona. Í frásögninni um Britney Spears  í Fréttablaðinu núna, var sagt frá áralöngum erfiðum veikindum og frelsissviptingu tónlistarkonunnar. Þetta virðist þó ganga skár hjá henni núna, því hún er á fullu að sinna list sinni.

Til baka í lestrar-æfinguna. Annað sem vakti athygli mína var afar vönduð mynd af Karli II Bretakonungi eftir Gunnar. Það fylgir því aukaerfiði að skoða myndir, því þá þarf að breyta stillingu á græjunni. Fyrir neðan myndina af Karli var grein eftir Sif Sigmarsdóttur, sú grein hafði farið fram hjá mér við fyrstu yfirferð í gegnum blaðið. Í greininni fjallar Sif um ógnina sem stafar af flokkum sem gæla við nasisma. Sporin hræða.

Lokaorð

Þessi lestraræfing gerði mér gott. Mér fannst hann vera skref í áttina að því að vera virkur og ábyrgur þjóðfélagsþegn. En ég var búin að gleyma hvað blöð eru sóðaleg, ég varð alveg svört um hendurnar og þurfti að nota bæði sápu og bursta til að ná því af mér. þetta sem ég segi hém ég segi hér er ekk nein úttekt á Fréttablaðinu, þetta var einubgis tiltaun mín til að ná tökum á því að nota nýtt hjalpartæki. 


Er fólk hætt að lesa Pearl S. Buck ?

0F12344F-42A1-49A5-9909-9EEA3BB52B27
Pearl S. Buck

Stundum langar mig að lesa langar bækur. Langar bækur gera manni kleyft að komast inn  í framandi heim og dvelja með áður ókunnugu fólki dögum saman. Í leit minni að slíkri, rakst ég á Pearl S. Buck. Ég hef aldrei lesið bók eftir hana, en þekkti til hennar frá því bók eða bækur eftir hana voru lesnar í útvarpið. Það var á þeim tíma sem ég hafði ekki eða þóttist ekki hafa tíma til að setjast niður og hlusta á bóklestur í útvarpinu.

Hver Var hún?

Pearl S. Buck er bandarískur rithöfundur fædd 1892 og dáin 1973. Hún var fædd í Bandaríkjunum en alin upp í Kína frá því hún var fjögurra mánaða.  Foreldrar hennar voru trúboðar. Hún fékk háskólamenntun sína í Bandaríkjunum en fluttist síðan aftur til Kína, þar sem hún vann með manni sínum John Lossing Buck. Þau giftust 1917 en hjónabandið var ekki farsælt og þau skildu 1935 þann sama dag giftist hún útgefanda sínum Richard John Wash. Þetta voru umbrotasamir tímar í Kína sem lauk með byltingu, þ.e. yfirtöku kommúnista 1948. Um allt þetta og meira til skrifar Pearl S. Buck. Hún fékk Pulitzer verðlaunin 1932 og Nóbelsverlaunin 1938.

Ég hef þegar lesið/hlustað á þrjár bækur sem þýddar hafa verið á íslensku: Austan vindar og vestan, Synir trúboðanna og Dætur frú Liang. Og þá eru eftir fyrir mig að lesa: Kvennabúrið; Í huliðsblæ; Í munarheimi; Drekakyn; Gott land og Móðirin. Nú hef ég talið upp þær sögur sem þýddar hafa verið á íslensku, held ég. En kannski eru þær fleiri. En Buck skrifaði óhemjumikið  og margt af því er upplesið og aðgengilegt fyrir mig til að hlusta á frummálinu, ensku.

Það er einkum tvennt sem mér  finnst merkilegt við stöðu Buck hér á Íslandi.

Í fyrsta lagi undrast ég hversu mörg verka hennar hafa verið þýdd, í öðru lagi undrast ég að nafn hennar virðist vera fallið í gleymsku.

Það virðist sem þessi mikla baráttu- og  bókmenntakona sé  svo gott sem horfinn úr umræðunni. Pearl S. Buck tók   nefnilega afstöðu til margra mála sem enn brenna á fólki. Ég tek sem dæmi baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og að bera virðingu fyrir fólki óháð húðlit og uppruna.  Hún taldi  að engin menning væri annarri æðri. Það var meðal annars þess vegna sem hún efaðist um hvort trúboð ætti rétt á sér.  Með því að efast hjó hún nærri sinni eigin fjölskyldu.

Föðurland?

Hún elskaði Kína og fannst það vera sitt raunverulega föðurland og tók nærri sér að geta ekki heimsótt það eftir byltinguna. Í bók sinni, Dætur frú Liang bregður hún upp mynd af því sem henni fannst að byltingarmenn hefðu gert rangt. Það var að hennar mati ekki það sem sneri að yfirtöku eigna hinna ríku, heldur það að bera ekki virðingu fyrir arfleifð sögunnar. Í bókinni Synir trúboðanna lýsir hún lífi tveggja manna sem, eins og hún,voru  uppaldir í Kína   og fóru aftur til gamla landsins. Annar setti sér það sem markmið að verða ríkur. Hann réðist í blaðaútgáfu. Gaf út blöð sem einkenndust af góðum ljósmyndum og stórum fyrirsögnum. Það tókst, hann varð moldríkur. Hinn ungi maðurinn setti sér það markmið að finna ráð til koma algjörlega í veg fyrir hungursneyðir. Það fer ekki milli mála hvor þessara manna fellur höfundi betur.

Lokaorð

Ég ætla að búa í heimi Pearl S. Buck enn um sinn. Bækur hennar eru í senn fræðandi og spennandi.   


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2022
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 190412

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband