25.3.2022 | 21:13
Pollýanna
Núna hef ég hafið lestur/hlustun á bók Guðna Elíssonar, Ljósgildran. Þetta eru tvær bækur, sem taka 15:10 + 14:09 klukkustundir í upplestri. Það er Margrét Örnólfsdóttir sem les.
Þegar ráðist er í svo stórt verkefni, þarf áætlun. Ég hafði hugsað mér að taka eina til tvær klukkustundir á dag og lesa eitthvað annað og léttara efni við hliðina. Strax á öðrum lestrardegi kom hliðarbókin upp í hendurnar á mér. Höfundur segir frá heimsókn Pollýönnu til landsins. Í Ljósgildrunni er oft vísað til bóka. Oftast þekki ég þær en Polllýönnu hafði ég ekki lesið, svo ég ákvað að taka hana sem hliðarbók. Þessi pistill minn er um Pollýönnu.
Bókin um stelpuhnokkann með þessu óvenjulega nafni kom út hér á Íslandi 1945. Hún er þýdd af Freysteini Gunnarssyni menntafrömuði, þeim sama sem þýddi Litlu gulu hænuna.
Þegar ég hóf lestur Pollýönnu hélt ég að Freysteinn hefði verið að þýða nýútkomna bók. Af hverju voru notaðir hestvagnar? Kannski þyrfti að spara bensín út af stríðinu. Viðmiðunarrammi minn var rangur. En þegar ég loks gáði að því hvenær hún kom út í heimalandinu, gekk allt upp.Bókin kom út í Bandaríkjunum 1913.
Sagan fjallar um litla munaðarlausa stúlku sem komið er fyrir hjá frænku sinni Pollý. Hún er ekkert fyrir börn en vill gera skyldu sína. Hún er ísköld. En Pollýanna sem hefur þurft að takast á við foreldramissi og fátækt hefur lært að það er hægt að gera allt þolanlegra með því að horfa á björtu hliðarnar. Hún kallar þetta leik og kennir hann öllum sem hún umgengst. Nema frænkunni.
Reyndar vissi ég nokkurn veginn um hvað bókin snerist, efni hennar kemur svo oft fyrir í umræðu. Ég hélt að bókin væri væmin. En það er hún ekki, hún er skemmtileg.
Eftir lesturinn reyndi ég að lesa mér til um höfundinn, Elenor H. Porter, fylltist ég undrun. Porter er fædd 1868 og eftir hana liggur fjöldi bóka. Hvernig gat þessi koma rambað á hjálpleg ráð fyrir fólk í vanda, sem færustu sálfræðingar hafa fundið eftir áratuga rannsóknir?
Þetta var um Pollýönnu, þ.e.á.s. Fyrri bókina af tveimur. Ég er ekki búinn að ákveða hvot ég les þá seinni, sem segir frá ungu stúlkunni Pollýönnu.
Myndin af blóminu var tekin í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2022 | 13:53
Stuldur: Ann-Helén Laestadius
Hljóðbókasafn Íslands (Blindrabókasafnið) er safnið mitt og það er síður en svo að mig vanti lestrarefni. Það hlaðast upp bækur sem mig langar til að lesa.
Síðasta bókin sem ég las er Stuldur eftir Ann-Helen Laestadius. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir hana. Ég sé það þegar ég les mér til um hana að þetta sé fyrsta fullorðinsbókin hennar. Hún fékk Augustpriset 2016 (fyrir barnabók) og 2021 var hún valin besta bók ársins í Svíþjóð.
Stuldur
Stuldur fjallar um átök milli samískra Hreindýrabænda og nágranna þeirra í litlu þorpi lengst upp í Norður-Svíþjóð. Hvað eftir annað er stolið frá þeim dýrum. Í hvert skipti er málið kært en lögreglan hundsar kærurnar og ber ýmsu við.
Aðalpersóna sögunnar er Elsa, níu ára dóttir hreindýrabónda. Þetta er kraftmikil og dugleg stúlka, full af áhuga á búskapnum. Hún hefur fengið eigið mark og síðastliðið vor var henni gefinn hreinkálfur. Bókin hefst á því að segja frá því þegar hún fer ein og sjálf á skíðum í vetrarhaga hjarðarinnar og kemur að honum dauðum. Hún sér manninn sem skaut og þekkir hann. Hann gengur ógnandi að henni og segir að ef hún kjafti frá, muni hann drepa hana. Og hún verður logandi hrædd. Eftir þetta verður Elsa eins og annað barn og hefur áhyggjur af því að hún sé að svíkja með því að þegja, málið hvílir þungt á henni. Í framhaldi af þessu fær lesandinn að kynnast fjölskyldu hennar og fólkinu í þorpinu.
Í seinni hluta bókarinnar er Elsa búin að ljúka námi í framhaldsskóla og kemur til baka í þorpið til að hjálpa til með hreinana, hún fær líka vinnu við skólann sem afleysingakennari. Hún er ekki lengur lítil og hrædd, heldur full af baráttuhug. Vill berjast fyrir réttindum síns fólks.
Þetta er fróðleg bók, sérstaklega um lífið á þessum norðlægu slóðum. Hún er ekki síður góð vegna þess hversu vel hún lýsir því hvernig það er að tilheyra minni hluta hópi sem flestum finnst að eigi að aðlaga sig eða hverfa. Ég finn mikið til með þessu fólki. Hreindýrabúskapurinn tengist í huga mér ósjálfrátt íslenskum fjárbúskap sem á nú undir högg að sækja. En til baka til bókarinnar. Lögreglan á svo sannarlega eftir að rannsaka hreindýrastuldinn. Það kemur ekki til af góðu, bókin sem byrjar sem barnabók veður í lokin glæpasaga.
Höfundur þessarar bókar segir að efni bókarinnar sé sótt til raunverulegra atburða og dregur engan dul á að bókin er hugsuð sem innlegg í réttindabaráttu Sama.
Liza Marklund, útúrdúr
Það fór ekki hjá því að mér yrði hugsað til bókarinnar Heimskautsbaugur eftir Lízu Marklund sem ég er nýbúin að lesa. Bókin er frásaga um bókaklúbb 5 stúlkna og samskiptum þeirra.í þeirra litla hópi ríkir öfund og umburðarleysi.
Bók kallar á bók
Þegar lestri bókarinnar var lokið rifjaðist upp nafn á annarri bók, Eldum björn eftir Mikael Niemi. Hún gerist einnig á slóðum Sama. Aðalpersóna þeirrar bókar er presturinn og náttúruvísindamaðurinn Lars Laestadius (1800 til 1861 ). Stórmerkilegur maður.
Það er ekki amalegt að hafa góðan tíma og látið eftir sér að ferðast bók úr bók.
Bæði Stuldur og Eldum Björn eru þýddar af Ísaki Harðarsyni þ
Arnaldur Sigurðsson tók myndina af hreindýrumum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2022 | 17:45
Eyjan hans Ingólfs: Ásgeir Jónsson
Stundum er gott að hvíla sig á skáldverkum og lesa/hlusta á ljóð eða fræðibækur í staðinn.
Ég var komin ríflega miðja leið að lesa Segulfjarðar bækur Hallgríms Helgasonar þegar mér fannst ég þyrfti að staldra við, lesa eitthvað átakaminna. Það var góð ákvörðun. Hélt ég.
Eyjan hans Ingólfs
Fyrir valinu varð bók Ásgeirs Jónsonar, Eyjan hans Ingólfs. Þessi pistill er um þá bók.
Framan að hélt ég að Ásgeir ætlaði eingöngu að fara troðnar slóðir, bók hans var nánast eins og kærkomin upprifjun á Íslandssögu Jónasar frá Hriflu. Hann vitnar til ýmissa gerða af Íslendingabók og Landnámu og bregður upp mynd af stöðu mála í norðanverðri Evrópu á þeim tíma. Þegar ég var farin að hugsa þetta kann ég nú allt saman komu rúsínurnar pylsuenda þessarar bókar í ljós. Þar á ég við þegar Ásgeir túlkar þessar gömlu sögur táknrænt.
Hann ber sögnina um Ingólf og Hjörleif saman við aðrar sögur um bræður eða fóstbræður, þar sem annar er drepinn eða verður að víkja. Sem dæmi um þetta eru Kain og Abel, Romulus og Remus . Auk þess vitnaði hann til bræðrapara sem mér voru ekki eins kunnug. Það var ekki síður gaman að hlusta á samburð á dúfum Nóa og hröfnum Hrafna-Flóka.
Höfundur gerir góða grein fyrir byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum. Varðandi þá byggð, naut ég þess að hafa fyrir skömmu lesið bækur Vilborgar Davíðsdóttur um telpukornið og síðar konuna Auði sem átti eftir að verða landnámsmaður í Dölum vestur.
Hver á hvað?
Þegar ég hóf lestur bókarinnar var mér kunnugt um að Bergsveinn Birgisson hefði kvartað undan því að Ásgeir notaði efni frá honum án þess að geta heimilda. Ég hélt að ég gæti leitt þessa deilu hjá mér, ég er ekki fræðimaður, les bara til að njóta. En ég er vel kunnug bók Bergsveins, Leitinni að svarta víkingnum, sem kom út 2016 og ég las mér til mikillar ánægju. Við lestur bókar Ásgeirs blasa hvarvetna við hugmyndir sem Bergsveinn setti fram í sinni bók.
Mér þykir leitt að verða vitni að þessari deilu.
Af hverju biðst Ásgeir ekki einfaldlega afsökunar og þakkar fyrir sig?
Myndin er af póstkorti með friðardúfunni eftir Picasso.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 0
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 66
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar