Óttar Guðmundsson: Sturlunga geðlæknisins

3D66DC25-CA44-4138-8918-33BAB3F2831E
Endalaust púsluspil

Ein af jólabókunum í ár er Sturlunga geðlæknis eftir Óttar Guðmundsson. Þótt ég fresti  því oft að lesa jólabækurnar, jafnvel til næstu jóla, gat ég ekki á mér setið þegar ég sá að Óttar Guðmundsson var búinn að geðgreina allar helstu söguhetjur Sturlungu.En fyrst ætla ég að tala um mig og Sturlungu. Ég er með áráttu fyrir Sturlungu og hef pælt í gegnum hana hvað eftir annað og hef nú komist að því að Sturlunga er eins og sjálf lífsgátan, ég get ekki leitt hana hjá mér, þótt ég viti að það finnst ekkert svar. Hún er eins og endalaust púsluspil sem maður gefst ekki upp á, þótt mann gruni að það vanti e.t.v. eitt og eitt púsl. Ég var örlítið smeyk um að Óttar væri að grínast með þetta uppáhald mitt en komst fljótlega að því, að bók hans er skrifuð af mikilli alvöru. En allri alvöru fylgir nokkuð grín, þannig á  það líka að vera.

Bók Óttars

Efnistök Óttars eru framúrskarandi. Fyrst gerir hann grein fyrir því helsta sem maður þarf að vita um Sturlungu til að skilja hvað hann er að tala um. Síðan gerir  hann grein fyrir hvað felst í geðgreiningum. Loks fjallar hann um muninn á  Sturlungu og öðrum Íslendingasögum. Þetta gerir hann í ótrúlega stuttu máli en nær þó að draga fram aðalatriði. Þetta var góð upprifjun fyrir mig og vonandi nægilegur grunnur fyrir þá, sem lesa bókina án þess að þekkja  Sturlungu fyrir.

Meginefni bókarinnar fjallar svo um þekktar persónur og þá hefur hann sama háttinn á, að hann kynnir þær hverja fyrir sig og talar um hvaða hlutverki þær gegna í sögunni og þá væntanlega líka í sinni samtíð, því meginhluti Sturlungu er samtímaheimild. Loks gerir Óttar grein fyrir hverjum og einum út frá viðmiðum geðlækninga dagsins í dag. Bókin í heild er skemmtileg upprifjun á Sturlungu.

Geðheilsa og stríðsástand

Það var gaman að skoða bókina út frá þessu sjónarmiði. Hljóta ekki menn sem víla ekki fyrir sér að ræna, drepa og limlesta fólk að vera á einhvern hátt brjálaðir? En Óttar segir jafnframt að það hafi ríkt stríðsástand á Sturlungaöld. Þannig hef ég líka skilið Sturlungu. En hvort er á undan stríðið eða vondir menn. Þetta er eins og spurningin um hænuna og eggið. Tilgangslaus spurning.

Hvaðan kemur grimmdin?

Þótt Óttar sé ekki beinlínis að fjalla um það, finnst mér það liggja ljóst fyrir í bók hans. Grimmdin og voðaverkin sem eru framin orsakast fyrst og fremst af eltingaleiknum um auð og völd. Hégómleiki  og dramb koma  einnig við sögu í einstaka tilfellum.

Að  lokum

Þótt Sturlunga sé fyrst og fremst bók um karla fyrir karla koma konur við sögu, þótt þær fái minna pláss. Já Sturlunga er breið saga sem fjallar um höfðingja, konur, börn og alþýðu. Óttar gerir vel grein fyrir stöðu kvenna á Sturlungaöld og veltir fyrir sér uppeldisaðstæðum barna.

Þannig dregur hann fram heildarmynd þessa róstusömu tíma.

Ég var sem sagt mjög ánægð með bókina í heild og ekki dregur hún úr Sturlunguáráttu minni. Ég var ekki fyrr búin með hana þegar ég smellti á bók Sverris Jakobssonar, Auðnaróðal, en þar fjallar Sverrir um samfélagsbreytingar á tímum Sturlunga.

Eitt af því góða við að lesa Sturlungu og bækur henni tengdar, er að maður verður svo þakklátur fyrir hvað allt er miklu betra nú en þá. Að kóvíittímum meðtöldum.

Ég mæli með bók Óttars, hún er bæði vel skrifuð og af mikilli þekkingu á efninu.


Hilduleikur: Hlín Agnarsdóttir

41353823-72DD-4455-A9E6-0DC9FBEB8388

Hvað er betra á farsóttartímum en að lesa  kolsvarta dystópíu ? Þá getum við ornað okkur við að til  eru enn verri tímar en kóvítið. Distópía er andstæðan við útópíu, en hvort tveggja eru þetta erlend orð sem hentugt er að grípa til þegar verið er að lýsa því sem er best eða verst allra heima.

Hilda er eldri borgari og búin að missa manninn og aðra dóttur sína, hin býr erlendis. Sonurinn hefur komið sonarhlutverki sínu yfir á konu sína, svo ekki íþyngja börnin.  Hún hefur ráðið sér húshjálp til að létta undir með sér og til að lesa með sér ljóð. Húshjálpin ber nafnið Bragi Austan. Það er hann sem segir söguna að hluta. Hilda býr í blokk í Ljósheimum og ætlar að una þar við ljóðalestur og minningar þar til yfir líkur. En það er hægara sagt en gert. Ríkisstjórnin hefur framselt þjónustu við eldri borgara til einkafyrirtækisins Futura Eterna. Fyrirtækið  hefur um leið fengið umtalsvert vald til að hlutast til um hvernig skjólstæðingar þess haga lífi sínu.Þessu fylgir að Futura hefur tekið að sér að greina hvað er best fyrir hvern og einn og hvenær er tímabært að  deyja. Það er t.d. alls ekki ætlast til að gömul kona búi ein í 137 fermetra íbúð. Gamla fólkinu stendur til boða sérhæft úrræði, svokallaðar ellikúpur.  Ef skjólstæðingar Futura Eterna  þrjóskast við, þurfa þeir að borga refsiskatt eftir fjölda umfram fermetra. Það hefur verið reiknað út að 12 fermetrar nægja þeim sem komnir eru á aflifunaraldur. En  aflifunaraldur er eitt af fjölmörgum orðum sem eru notuð af fyrirtækinu . En

Hilda er engan veginn sátt við  hugmyndafræði Futura Eterna og þegar  stofnunin tekur af henni völdin á ögurstundu er henni nóg boðið. Málið varðar vin hennar sem hefur mjaðagrindarbrotnað. Futura Eterna flokkar hann og telur lítið vit í að leggja á hann  erfiða lækningu og velur honum líknandi dauða.  

Mótmæli Hildu eru sterk.   Hún fórnar því eina sem hún enn á.  

Þótt þessi saga dragi upp dökka mynd af framtíð sem gæti verið rétt handan við hornið, er gaman að lesa hana. Það kemur til af því hvað Hlín skrifar góðan texta og af því að  hún er hnyttin og lúmskt fyndin. Auk þess rúmar hún mikla alvöru.

Það er Ásdís Thoroddsen sem les. Hún er ein af mínum uppáhalds lesurum.

Eftirþanki

Ég yrði ekki hissa þótt næsta bók Hlínar yrði ljóðabók. 

 


Hundalíf: Theobald og Þráinn Bertelsson

0B1DCB0B-1E37-475A-A333-90434355B4A0

Ekki veit ég hvernig þessi bók flokkast á bókasöfnum en í bókasafninu sem ég nota, Hljóðbókasafni  Íslands, eru hverri bók gefin efnisorð. Ég kíki gjarnan á þau þegar ég er að velja mér bók.    

Efnisorð Hundlífs eru:

Fyndni

Hundar

Íslenskar bókmenntir

Örsögur.

Sagan segir frá gönguferðum manns og hunds, þetta eru Þráinn og Theobald.  Þráinn er maður af norrænu kyni en Thobald er franskur bolabítur.  Þessi litla bók segir frá samtölum þeirra  í  gönguferðum í nágrenni Hafnarfjarðar. Það er Þráinn sem færir samtöl þeirra í orð, því Theobald orðar ekki hugsanir sínar. Ef ég hefði átt að velja efnisorð fyrir þessa bók, hefði heimspekileg umræða verið fyrsta efnisorðið. Ljóð hefði ef til vill líka fengið að fljóta með.  Ég sá strax mikla líkingu með samræðum þeirra félaga og  þeirri umræðuhefð sem kennd er við Sókrates. Mál eru krufin með því að spyrja spurninga. Nemandi spyr og Sókrates svarar með nýrri spurningu.Mér sýnist Þráinn og Theobald skiptast á um að vera Sókrates. Auðvitað finnst mér mest koma til hugmynda Theóbalds enda er sjónarhorn hans nýtt og um margt ólíkt því sem ég þekki úr mannheimum.

Um bóklestur minn.

Í jólabókaflóðinu kýs ég alltaf að vera með bland í poka. Í fyrsta lagi nýjar bækur til að vinna á stabba ólesinna bóka, í öðru lagi gamlar bækur sem ég þekki vel til að uppgötva eitthvað nýtt, sem hefur farið fram hjá mér, í þriðja lagi andlegar bækur, oftast ljóð. Eitthvað sem orkar beint á tilfinningar og smeygir sér fram hjá allri rökhugsun. Þannig er Hundalíf.

lokum

Ég er sjálf mikil útivistarkona, geng eða hjóla  hvern dag. Mér finnst þessa daga sem  ég hef verið að lesa Hundalíf að ég hafi gengið tvöfalt. Mér finnst sem sagt, að ég hafi á mínum ferðum, líka verið að ganga með þeim félögum í Hafnarfirði og hlýtt á tal þeirra.

Það er Sigurður Skúlason sem les bókina fyrir mig, hann gerir það listavel.    


Síðasta barnið: Guðmundur S. Brynjólfsson

 

8FDB015D-695E-4DE4-B7E1-B76D3B9AB364
Síðasta barnið

Nú hefur Guðmundur  S. Brynjólfsson lokið við síðustu bók sína í trílógíunni um sýslumannshjónin á Eyrarbakka, þau Eyjólf og Önnu. Sögurnar   gerast á í upphafi 20. aldar. Hún ber nafnið  Síðasta barnið. Tvær fyrri bækurnar hétu; Eitraða barnið og Þögla barnið. Það er best fyrir lesendur að lesa þær allar og í réttri röð. Þannig njóta menn best framvindu sögunnar í heild. Allar  segja þær frá lífi sýslumannshjónanna Eyjólfs og Önnu. Eyjólfur er veiklunda en velmeinandi  en Anna er heilsteypt og dæmalaust röggsöm. Í fyrstu bókinni var sagt frá fyrstu kynnum þeirra en ég skyldi ekki þá og því síður nú, hvað þessi glæsilega og gáfaða stúlka sá við manninn.

En ég ætla að reyna að halda mig við síðustu bókina. Nú er illmennið Kár Ketilsson komið til baka frá Englandi, fullur af hatri og staðráðinn í að hefna sín á sýslumannshjónunum.  Í fyrstu bókinni tókst þeim  að góma hann fyrir hrottalega nauðgun en honum tókst þá að sleppa.            

Kár er búinn að vera hjá lýtalækni í Englandi til að láta gera sig óþekkjanlegan. Hann er nú afskræmdur og enn ógeðslegri en áður, þótt vart væri á það bætandi. Við þessa sögu kemur einnig enskur maður, Harrington lávarður, en hann hafði hitt Kár í London meðan á Englandsdvöl hans stóð.

Ég ætla ekki hér að rekja efni bókarinnar, það kynni að skemma lestur fyrir þeim sem hafa enn ekki lesið bókina, en langar að telja upp hvað það er sem mér finnst höfundur bókanna gera sérstaklega vel. Það gerir mér gott að skoða bókina í því ljósi.


Þá er fyrst að telja eða tala um hvað Guðmundi tekst að draga fram það sem vekur hjá manni ógeð, svo sem vonska og ljótleiki. Því næst finnst mér hann vera meistari í að lýsa náttúrunni. Honum er einkar lagið að lýsa veðurfari, veðrabrigðum og færð. Hann er snillingur í að nota, ljós og skugga. Síðast en ekki síst finnst mér hann skapa lifandi og eftirminnilegar persónur. Ég nefni sem dæmi sýslumannshjónin, Harrington lávarð, Eyrúnu, alþýðukonuna sem fóstraði Önnu sýslumannsfrú. Lýsing hans á Eyrúnu er hrein perla. Loks langar mig að nefna lýsingu hans á drengnum Snorra. Hún er svo tær að mér finnst eins og ég myndi þekkja hann á götu ef ég mætti honum.  Ég ætla að stoppa þessa upptalningu hér, því það er of margt upp að telja. Þar að auki býr hann til skemmtilegar og eftirminnilegar týpur.  

En það sem einkennir þessa bók umfram allt er að þetta er ekki bara saga um glæpi og aldarfar, þetta er fyrst og fremst saga um líf og dauða. Um harm og  von.

 Ef bókin væri málverk, væri það málað í sterkum litum og ég sé söguna frekar fyrir mér sem teiknimynd en kvikmynd. Það sem Guðmundur gerir þó  allra best er, hvernig hann lýsir lífinu við upphaf 20. aldar. Hjá háum og lágum.

Vangaveltur  um  illskuna

Eini efinn sem ég sit með eftir lestur bókarinnar, er hvernig hann lýsir glæpamanninum. Hann er djöfull, illskan sjálf. Ég hef tilhneigingu til að leitast við  að dæma gjörðir manna frekar en manninn sjálfan. Og vona síðan í lengstu lög að eitthvað gott leynist með hverjum manni.  En þessar vangaveltur snúast trúlega frekar um heimspekilegar og/eða trúarlegar hugmyndir en um bókmenntalega hugsun.  En Kár Ketilsson er vissulega sterkur fulltrúi hins illa og á vel heima í glæpasögu sem máluð er í sterkum litum.

Höfundur les söguna sjálfur og gerir það frábærlega vel.


Hansdætur: Benný Sif Ísleifsdóttir

A7E9D84C-11D1-4CA1-B05B-01E1186F9FEBHansdætur

Það er nokkur tími umliðinn síðan ég skrifaði síðasta bókapistil en ég  er ekki hætt að lesa. Ég veit ekki hvað kemur yfir mig þegar bókaflóðið skellur á í aðdraganda jóla, ég fer í algjöran baklás og á í erfiðleikum með að lesa nýjar og spennandi bækur. Þess í stað les ég gamlar bækur sem ég  þekki og treysti. Nú hef ég þegar lesið Eyrbyggju og Laxdælu og hafið lestur á Sturlungu. Meira um þessar góðu bækur síðar.

En ég  er samt búin að lesa/hlusta á nokkrar nýjar. Þar á meðal er bókin Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur. Ég hef ekki lesið neitt eftir hana áður en veit að þetta er ekki fyrsta bókin hennar. Sagan Hansdætur er látin gerast í sjávarþorpi á Vestfjörðum í upphafi 20. aldar. Þar segir frá lífsbaráttu fjölskyldu.  Fjölskyldumóðirin  hefur eignast þrjú börn með þremur mönnum. Elsta barnið er drengur sem farinn er að vinna fyrir sér en dæturnar tvær Sella og Gratíana eru enn krakkar. Í fjölskyldunni er líka amma barnanna.

Þegar sagan hefst er fjölskyldan að flytja búferlum, úr saggafullum vistarverum, vart íbúðarhæfum í þokkaleg húsakynni í eigu móðurbróður barnanna. Hann er ritstjóri bæjarblaðsins. Ástæðan  fyrir því að hann býður systur sinni að búa hjá sér er fyrst og fremst sú að eiginkona hans er veik og getur ekki sinnt um sjálfa sig hvað þá um  mann og börn.

Aðalpersóna bókarinnar er Grataína. Hún er full sjálfstrausts og tekur ekki mark á ríkjandi hugmyndum um stéttaskiptingu eða stöðu kvenna. Hún hrífst af móðurbróður sínum og fær meira að segja að aðstoða hann í vinnunni við blaðið.

Ég ætla ekki að rekja söguna lengra hér,  enda er það ekki söguþráðurinn sem hrífur mig  mest þegar ég les þessa bók, heldur hvernig sagan er sögð. Benný Sif er góð í að lýsa innra lífi, hugarheimi aðalpersónu sinnar, Gratíönu. Og hún leikur sér með orð.

 Mér verður hugsað til annarra rithöfunda sem fjallað hafa um upphaf 20. aldar, þeir eru fjölmargir. Og stórir. Ég hika við að nefna nöfn. Mér finnst þó að ég geti fullyrt að Hansdætur minna meira á Önnu í Grænuhlíð en Sölku Völku eða 100 kíló af sólskini.

Það var gaman að lesa þessa bók og vona að það verði framhald. Og er reyndar næsta viss um það. Það er ekki hægt  að skilja svona við söguhetjur sínar. Í algjörri  óvissu.

Höfundurinn les bókina sjálf inn sem hljóðbók og gerir það vel.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Des. 2020
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband