31.12.2019 | 18:31
Ef ég fengi eina ósk
Ef ég fengi eina ósk gefins frá Reykjavíkurborg, væri hún þessi:
Ekki þrengja meira að opnum svæðum í borginni. Ekki skemma Elliðaárdalinn. Það er nefnilega mikil heilsubót fólgin í því að vera úti í náttúrunni.
Þegar lundin þín er hrelld,
þessum hlýddu orðum:
Gakktu við sjó og sittu við eld,
svo kvað völvan forðum.
Myndin er frá fjörunni við Laugarnes, tekin í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2019 | 17:46
Svanafólkið::Kristín Ómarsdóttir
Ein af mínum fyrstu minningum, ef ekki sú allra fyrsta, er þegar pabbi tók mig með á veiðar. Ég hef verið þriggja til fjögurra ára. Ég kunni alveg að haga mér við veiðar. Þegar hann komst í færi við fugl, kom hann sér fyrir við barð eða stein og miðaði. Mitt hlutverk fólst í að vera fyrir aftan og sækja síðan fuglinn. Í þetta tiltekna skipti var það álft. Þær voru reyndar friðaðar, þá sem nú. Engu að síður voru þær skotnar . Okkur krökkunum var sagt að þegja um það við gesti. Sæktu fuglinn sagði pabbi og ég hljóp.Þegar ég gerði mér grein fyrir stærð fuglsins, tók ég um hausinn, setti hálsinn yfir öxlina og reyndi að draga hann á eftir mér til pabba. Ég réði ekki við verkefnið. Þegar pabbi kom svo og sagðist hafa verið að grínast, varð ég sár og reið. Líklega man ég þetta þess vegna.
Mín aðferð við að lesa Svanafólkið
Og hvernig á raunsæiskonan ég, að skilja og skrifa um bók Kristínar Ómarsdóttur? Hún býr til áður óþekktar verur sem eru hvorki svanir né menn eða hvort tveggja. Hún lýsir hugarheimi konu sem sér ekki mun draums og veruleika og er svo ólík mér, finnst mér, sem er jarðbundin og nýt þess.
Auðvitað, nota ég mína aðferð. Ég tek allt bókstaflega og trúi öllu. Þannig nálgast ég veruleika þessarar sögu. Mér finnst hún vera mjög sorgleg. Ég finn fyrir sorg. Ekki síst þegar hún er hvað fyndnust en það er hún oft.
Af og til meðan ég las/hlustaði fannst mér ég ekki vera að lesa bók, heldur skoða myndir. Kristín notar marga liti, sterka liti og smyr þykkt á. Já, líklega eru þetta absúrd myndir hugsa ég, sem veit ekkert um list nema það sem tilfinningin býður mér. Ég hef alltaf hrifist af absúrdisma því hann er í raun afar jarðtengdur, veruleiki sem snúið hefur verið upp á til áherslu.Búin til kleina.
Mér fannst gaman að lesa þessa bók, hún gerist í nálægri framtíð. Yfirvofandi nálægri. Og kemur margt kunnuglega fyrir sjónir. Ég gæti t.d. alveg trúað því að það væri til svona deild eins og lýst er í ráðuneyti. Var síðast í vikunni að uppgötva ráðuneytis deild sem ég vissi ekki um. Hún heitir Umbra og kemur bókinni ekkert við. Þetta er einungis sett inn til fróðleiks.
Aðalpersóna sögunnar, Elísabet Eva Unnar og Rúnarsdóttir, starfar sem sagt hjá leynilegri sérdeild innanríkisráðuneytisins. Verkefni hennar snýst á þessum tíma, þegar hún hittir svanafólkið, um að rannsaka og gera skýrslu um uppistand í borginni. Allt sem við fáum að vita um heim Elísabetar er miðlað til okkar frá henni sjálfri. Elísabet er einstæðingur, missti foreldra sína sem barn og er alin upp af ömmu, sem er einnig látin. Hún á, eða átti bróður og þau halda, eða látast halda, að þau eigi systur. Vinnustaður Elísabetar Evu skipar stóran sess í lífi hennar. Hún á í flóknu sambandi við yfirkonu sína Selmu Mjöll. Fjöldi samstarfsfólks hennar er nefnt til sögunnar.Þótt nöfnin séu mörg er ekki hægt að tala um flókið persónugallerí,líklega ætti hlutverk betur við. Þetta sama á við um lýsingar á svanafólkinu. Ég átti oft í erfiðleikum með að tengja nafn og manneskju og nafn og svaneskju. Mér fannst erfitt að henda reiður á öllum þessum nöfnum og hver væri hvað. Til hvers öll þessi nöfn? Í Íslendingasögunum eru langar ættartölur notaðar til að sýna ættgöfgi og í Sturlungu eru langar upptalningar nafna notaðar til að styrkja trúverðugleika frásagnar. Í Svanafólkinu var nafnasúpan, nær allir hétu að minnsta kosti tveimur nöfnum, nánast eins og kvak.
Það er ekki einfalt að vera svanamanneskja, hún er bæði svanur og maður og auk þess hvort tveggja í senn. Loksins skildi ég þetta með þríeinan Guð,sem er í senn maður, Guð og heilagur andi. Og það var ekki bara svanafólkið sem var margslungið. Vinkonurnar Elísabet Eva og Selma Mjöll brugðu stundum fyrir sig að vera Frankó og Rósa. Kannski ætti ég að taka til baka það sem ég sagði um fátæklegar persónulýsingar.
Það er merkilegt hvað lítil bók getur verið efnismikil. Ég ætla að nefna dæmi:
Fásögnin um útrýmingu gyðjanna er merkileg. Hvernig er hægt að drepa það sem er eilíft er spurt. Svar:Það er gert með því að taka burt, eyðileggja, rýmið þar sem það þrífst. Er hún ekki að vísa þarna til náttúruverndar, hugsa ég. Samtal Elísabetar við Guð er frábært. Margt það besta í þessari bók liggur á milli línanna, já og jafnvel á milli orðanna. Það er eins og bókin sé stráð gullkornum, sem glitra meðan maður les. Hvað eftir annað hugsa ég, þetta ætla ég að muna. Þetta segir mér að það er hægt að lesa hana oft. Ég er búin að lesa hana tvisvar.
Eftirmáli
Í gær fór ég í gönguferð, hugsaði um Svanafólkið og gaf gæsunum misheppnaðan jólabakstur, sem þær kunnu vel að meta. Ég sá þar hundafólk og velti fyrir mér hvort orðið þríeinn ætti líka við það. Loks hugsaði ég um jóaboðið sem ég átti að vera að undirbúa. Datt í hug að álftakjöt gæti verið góður jólamatur. Það er reyndar ekki rétt að tala um að maður hugsi í gönguferðum. Hugsanirnar koma flögrandi til manns.
Gleðileg jól kæru lesendur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2019 | 20:12
Einu sinni var í austri
IÞað er stundum erfitt að samsama sig fólki sem býr við gjörólíkar aðstæðum þeim sem maður þekkir. Ástæðan getur verið sú að það lifir í fjarlægu landi, við annað stjórnarfar eða þjóðskipulag. Við þurfum ekki nema að rýna ó eigin sögu til að undrast breytni forfeðra okkar og mæðra. Það er einmitt það sem gerir Íslendingasögurnar svo heillandi svo ég tali nú ekki um Sturlungu. Oft finnst mér sem mig vanti forsendur til að skilja ákvarðanir og breytni sögupersóna minna. Á sama tíma og ég horfist í augu við þessi vandkvæði, veit ég hversu eftirsóknarvert það er að lesa einmitt þessar bækur, því þær eru líklegastar til að víkka heim minn.
Einu sinni var í austri
Þetta kann að vera undarlegur inngangur að bók sem gerist í samtímanum en hugleiðingar kviknuðu þegar ég var að lesa bókina, Einu sinni var í austri eftir Xiaolu Guo.
Xiaolu(fædd 1973) er uppalin og menntuð í Kína. Hún flyst til Bretlands 2002 og er nú breskur ríkisborgari. Hún er kvikmyndagerðarmaður og rithöfundur. Í þessari bók segir hún frá uppvexti sínum í Kína. Saga hennar er svo fjarlæg mínum reynsluheimi að mér verður ósjálfrátt hugsað til okkar gömlu sögu, þegar börn voru borin út. Hún elst upp við mikla fátækt og það sem verra er, höfnun. Fyrst var hún gefin barnlausum hjónum sem skiluðu barninu til baka. Líklega vegna eigin fátæktar. Eftir það ólst hún upp hjá föðurforeldrum til sex ára aldurs. Nú kann það að hljóma vel að alast upp hjá afa og ömmu en í hennar tilviki var amman veik og afinn bilaður maður sem beitti konu sína ofbeldi og endaði með því að drepa sig. Þá tóku foreldrarnir hana til sín.
Faðir hennar er listamaður og móðir hennar vinnur í silkispunaverksmiðju. Menningarbyltingin hafði verið örlagavaldur í lífi beggja, faðirinn var fórnarlamb, settur í vinnubúðir en móðirin var gerandi, liðsmaður í her Maós.
Í þessari bók rekur Xiaolu ævi sína og um leið einnig sögu þjóðar sinnar.
Þrátt fyrir harðræðið sem hún elst upp við er hún sterk og ákveðin. Hún kemst inn í kvikmyndaskóla í Peking í gegn um strangt samkeppnispróf og menntun á heimsvísu. Það hindrar hana samt ekki í að gerast uppreisnarmaður og virkur gagnrýnandi kerfisins. Loks flytur hún til Bretlands og nú skrifar hún á ensku. Ég ætla ekki að rekja efni þessarar bókar hér og hún sannar fyrir mér hvað ég veit lítið um þetta stóra, fjölmenna ríki. Og eins og ég sagði hér að framan efast ég um forsendur mínar til að skilja.Hvernig getur t.d.móðir slegið á fingur hungraðs barns sem teygir sig eftir kjötbita?
Við lesturinn rifjuðust ósjálfrátt upp fleiri bækur sem ég hef lesið un lífið í Kína.
Villtir svanir segir sögu þriggja kynslóða.Höfundur hennar Jung Chang (fædd 1952)segir eigin sögu, móður sinnar og ömmu.Líf þeirra allra hafði markast af stríðsátökum. Þegar maður les slíkar bækur er maður þakklátur yfir því að að vera Íslendingur.
Ég má til með að bæta við einum kínverskum höfundi sem ég hef hrifist af. Það er Nóbelshöfundurinn Gao Xingjian. Bók hans Fjall andanna. Hún hefur ekki verið þýdd á íslensku (ég las hana á sænsku) og mér finnst hún óviðjafnanleg.
Þessi pistill átti víst að vera um Einu sinni var í austri, sem ég mæli með. Það er svo gagnlegt að kynnast lífi fólks sem er svo ólíkt okkar lífi.
Skilningur á framandi heimi gerir ráð fyrir því að manneskjur séu tifinningalega eins í grunninn, að hjörtum mannanna svipi saman í Súdan og Grímsnesinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2019 | 21:16
Gráskinna; Arngrímur Vidalín
Gráskinna
Mér finnst erfitt að skrifa um þessa bók. Ég sit uppi með tilfinningu um að ég hafi ekki almennilega skilið hana. Hún er þó ekki löng og virðist ekki ekki vera flókin. Bókin er sett saman úr mislöngum köflum sem eru hver um sig afar skýrt dregnir eins og myndir. Kannski er mynd ekki rétta orðið því hver og einn þessara kafla lýsir andrúmslofti, mér finnst ég skynja hitastig, aðallega kulda, lykt, já og líðan.
Aðalpersóna bókarinnar er ungur guðfræðinemi, Jóhannes. Skólaganga hans hefur verið sigurgana, auk þess er hann vinsæll og á stöndugan föður. Hann missti móður sína þegar hann var barn en fjölskylduvinir reyna að bæta honum það upp. Á námsárum sínum á Íslandi á hann í stuttu ástarsambandi við Söru. Lífið hefur ekki leikið við Söru. Hún kemur frá brotnu heimili og hún þarf sjálf að sjá fyrir sér og vinna með námi og styðja við móður sína sem er orðin ósjálfbjarga. Þrátt fyrir velgengni Jóhannesar hefur honum aldrei liðið vel. Hann hefur stöðug haft það á tilfinningunni að hann standist ekki væntingar föður síns. Kannski ætti ég að draga til baka fullyrðinguna að Jóhannes sé aðalpersóna sögunnar, kannski væri réttara að setja föðurinn í það hlutverk, illska hans nær út fyrir gröf og dauða og er jafn erfitt að fyrirkoma honum og Þórólfi bægifæti,forðum. Jóhannes þráir að standast kröfur hans og eina leiðin sem hann sér til þess, er að vinna sig upp, klifra upp metorðastiga háskólans. Að lokum verður þetta algjör þráhyggja um þetta snýst hugur hans í vöku sem og draumi. Og það sem verra er, að lokum skynjar hann ekki mun draums og veruleika. Eftir að sambandi Jóhannesar og Söru lauk, kynnist hann stóru ástinni í lífi sínu. Hann kynnist Tómasi. Þegar Tómas deyr, hann verður fyrir bíl, kennir Jóhannes sjálfum sér um. Fræðimaðurinn Jóhannes veit að í kenningum Lútherskunnar er gengið út frá kraftaverkum og upprisu. Í drengjaleikjum sínum hafði hann hrifist af sögum um uppvakninga og galdra.Í hugarheimi sínum þar sem mörk draums og veruleika eru orðin óskýr, gælir Jóhannes við að kalla Tómas aftur til lífsins .
En ég ætlaði ekki að reyna að endursegja söguþráðinn, heldur tala um það sem mér finnst merkilegast við lesturinn. Það er að þegar ég ætla að raða saman þessum skýru og áhrifamiklu myndunum, var er eins og púslið gengi ekki upp. Er eitthvað sem ég sé ekki, eða er ef til vill framhald og þess vegna púsl afgangs sem tilheyra næstu bók?
Og svo er það e.t.v. vitleysa að halda að allir hlutir tilheyri einu og sama rökfærslukerfi?
Sama dag og ég lauk við lestur Gráskinnu rakst ég inn á bókakynningu Þar var kynnt var bókin Fædros eftir Platon. Þar var fullyrt að bækur Platons væru fullar af þverstæðum. Mér létti.
Hvað sem Platon líður, fannst mér gaman að lesa Gráskinnu Arngríms. Hann hefur næmt auga og á auðvelt með að mála myndir með orðum.
Myndin er af fíkjublaði og vísar ekki til textans
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2019 | 21:29
HELGA SAGA: Auður Styrkársdóttir
HELGA SAGA: Íslendingasaga úr gráa veruleikanum er grípandi bók. Þetta eru minningarbrot höfundar. Hún er að rifja upp hvað það var eiginlega sem gerðist með stóra bróður hennar og hvernig það snerti hana oh fjölskyldu hennar, fjölskyldu þeirra. Bróðir hennar Helgi hafði oft komið sér í vandræði en það kastaði fyrst tólfunum á unglingsárunum. Fjölskyldan hafði verið að vona að þetta myndi eldast af honum, en svo varð þetta bara verra og verra.
Auður skoðar þetta með því að skoða minningarbrot frá uppvextinum. Þannig lýsir hún sjálfri sér, fjölskyldu sinni og Helga. Þetta er lífleg fjölskylda, sem fylgist vel með þjóðmálum og lætur sig varða það sem er að gerast. Fjölskylda sem trúir því að það sé hægt að bæta heiminn og að það sé m.a. Þeirra hlutverk. En þau berjast í bökkum.
Loks kemur að því að Helgi gengur of langt, lögreglan er kölluð til og síðar sjálf læknavísindin. En sumir sjúkdómar eru verri en aðrir. Þeir eru ekki bara að því er virðist óviðráðanlegir, fjölskyldan situr eftir með verkefni sem hún ræður ekki við og það veldur sársauka og getur skaðað hana.
Ég ætla ekki að reyna að endursegja þessa sögu hér, Auður bregður upp myndum frá ólíkum tíma skeiðum og myndirnar eru hrærandi.
Þessi bók segir ekki einungis sögu Helga, hún er ekki síður innlegg í málefni geðfatlaðra. Það slær mig hvað lítið hefur breyst. Það er merkilegt hvað það fylgir mikil blygðun þessum sjúkdómi. Mér verður hugsað til kafla í bók eftur Kundera. Ég man ekki lengur hvað bókin heitir en kaflinn heitir Græni karlinn. Þar slær Kundera því föstu að við skömmumst okkar fyrst og fremst fyrir það sem við ráðum ekki við. Getum ekki að gert. Vegna þess að þar sé komið að mörkum getu okkar sem manneskjum. Ég man eftir því hvað ég varð hrifin þegar ég las kaflann um Græna karlinn í bókinni sem ég man ekki nafnið á.
Ég trúi samt og vona að við getum unnið hug á þessar blygðunarsemi og lært að ræða um og takast á við andleg veikindi til jafns við líkamleg veikindi.
Ég trúi því að það sé hægt að bæta heiminn og ég efast ekki.
Saga Helga er góð bók, hún fjallar ekki bara um hann, hún fjallar ekki síður um duglega fjölskyldu sem tekst á við allt of erfitt verkefni. Og hún fjallar um sorg. Mikla sorg sem ekki má tala um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2019 | 18:32
Múttan: Frönsk glæpasaga
Múttan
Ég var ekki búin að lesa langt í Múttan, bók Hannelore Cayre, þegar ég var viss um að þetta væri góð bók. Ég hef hvergi séð trúarbrögðum auðhyggju betur lýst. Aðalpersóna bókarinnar Patience Portefeux 53 ára gömul ekkja, lýsir viðhorfi foreldra sinna til peninga svona:
Svindlararnir,foreldrar mínir, elskuðu peninga af öllu hjarta, ekki á sama hátt og manni þykir vænt um dauðan hlut sem falinn er inn í peningaskáp eða á bankareikningi. Nei, þau elskuðu þá eins og lifandi gáfaða veru sem getur skapað og drepið og er fær um að fjölga sér. Í þeirra augum voru peningar stórkostlegur örlagavaldur sem greindi hið fagra frá því ljóta og aumingjann frá þeim sem náð hefur árangri. Peningar voru aðalatriðið, samnefnari fyrir allt sem hægt var að kaupa í heimi þar sem allt var falt.
Foeldrar Patience Portefeux höfðu misst allt sitt. Móðir hennar, austurrískur Gyðingur, og faðirinn frá franska Túnis. Þau höfðu bæði tapað heimalandi sínu og voru í raun flóttamenn horfinna menningarheima.
Patience Portefeux ber þeim ekki vel söguna sem uppalendum. Hún átti í raun erfiða æsku, þangað til faðir hennar kaupir inn á heimilið húsþræl frá Túnis og hann kennir henni allt, þar með talda arabísku.
Þegar hún missir manninn frá tveimur dætrum, fær vinnu við að þýða samskipti grunaðra eiturlyfjasala fyrir lögregluna sem fer fyrst og fremst fram í gegnum smáskilaboð. Hún fær lúsarlaun og þar sem hún þarf einnig að borga hjúkrunarheimili fyrir móður sína, grípur hún tækifæri feginshendi þegar það kemur upp í hendurnar á henni að gerast dópsali.
Þetta er ekki löng bók, tekur einungis tæpar 5 stundir í hlustun en hún er innihaldsrík. Lesandinn fræðist um margt, starf lögreglunnar, ástandið í málefnum gamals og veiks fólks og um peningaþvætti. Ég kynnist líka annarri París en þeirri sem ég þekkti áðður, bæði persónulega og úr fjölmiðlum.
Þetta er bók að mínu skapi. Persónur eru vel dregnar og ekki stuðst við klisjur. Það eina sem skemmir fyrir, er að heimurinn sem lýst er, er síður en svo aðlaðandi og aðalpersónan, okkar snjalla Patience Portefeux hefur ekki nein áform uppi um að bæta hann.
Myndin er af pistlahöfundi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2019 | 20:36
Qaanaaq, glæpasaga
Qaanaaq
Bókin Qaanaaq eftir Mo Malö er glæpasaga sem gerist á Grænlandi.
Þrír erlendir verkamenn hafa verið myrtir og grænlensk yfirvöld leita liðsinnis danskra yfirvalda um aðstoð. Þau senda Qaanaaq lögregluforingja á staðinn. Frásögnin snýst um rannsókn hans og sjónarhornið er oftast hans, þó er brugðið upp myndum sem eru nánast eins og viðbótarheimildir til að vinna út frá.
Morðin líkjast í fljótu bragði því að ísbjörn hafi verið að verki. Líkin eru sundurtætt og lifrin fjarlægð. Sérfræðingur um hegðun hvítabjarna telur þó mjög litlar líkur á því að svo sé, nánast ómögulegt. En hver er líklegur til að vilja skaða starfsemi olíuvinnslufyrirtækisins, þar sem hinir myrtu unnu? Það koma margir til greina.
Það liggja margir undir grun
Auðvitað eru náttúruverndarsinnar ofarlega á blaði. Auk þeirra gæti verknaðurinn tengst grænlenskum þjóðernissinnum eða grænlenskri pólitík. Samkeppnisaðilar olíurisans kæmi til greina, auðvitað. Allt þarf að skoða. Og þegar í ljós kemur að spilling hefur smeygt
sér inn á æðstu stöðum, er í reynd engum að treysta.
Aðalpersónan
Qaanaaq er grænlenskrar ættar, uppalinn í Danmörku, ættleiddur og man ekkert frá bernsku sinni og hefur ekki haft áhuga á vita um uppruna sinn. Hann er fyrst og fremst Dani. En í leit sinni að morðingja, læðist fortíðin og uppruninn aftan að honum.
Þetta er löng og efnismikil bók. Spennan er mikil og rannsóknin tekur marga króka og villist inn í blindgötur. Þó hafði ég allan tímann á tilfinningunni að höfundur vildi annað og meira en að skila frá sér spennandi reifara. Mér fannst sem bókinni væri ætlað að vera innlegg umhverfisumræðu dagsins í dag. Og það er hún líklega. Ég ætla ekki að fara nánar út í það eða að rekja efni bókarinnar frekar.
En mér féll ekki bókin. Var þó lengi að játa það fyrir sjálfri mér, því bókin er þýdd af Friðriki Rafnssyni og þýðingin styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Friðrik er vanur að þýða góða höfunda.
Auðvitað kallar þessi skoðun mín á rökstuðning, þótt það sé með bækur eins og fólk, næstum ómögulegt að rökstyðja hvers vegna manni geðjast að því og hvers vegna ekki.
Það sem mér féll ekki
Mér fannst persónusköpun í bókinni léleg. Aðalpersónan Qaanaaq er þar engin undantekning, hann er eins og lögreglumaður úr fyrri bók, sem maður hefur enn ekki lesið. Og af því við kynnumst Grænlandi og Grænlendingum aðallega frá sjónarhorni hans, skiptir persóna hans enn meira máli. Mér finnst allt of mikið af neikvæðum lýsingum á fólki og fyrirbærum. Kona situr á tali við forljótan Kínverja og meira að segja ljósastaurarnir eru ljótir.
Bækur hafa ekki þörf fyrir höfunda sína
Þegar ég hóf lestur bókarinnar, hélt ég að hún væri eftir Dana eða Grænlending, mér fannst að nafnið Mo Malö gæti alveg verið danskt. Nú veit ég að á bak við nafnið leynist franskur höfundur, Frédéric Mars og bókin er skrifuð á frönsku. Hann er sagður hafa skrifað nokkrar bækur undir mismunandi nöfnum. Það er haft eftir honum að bækur þarfnist ekki höfunda. Þarna er ég alls ekki sammála, en viðurkenni að Íslendingasögurnar hafa þó plumað sig ágætlega án höfunda. En mikið hafa menn leitað. Í flestum tilvikum stýrir þekking manns á höfundi upplifun og ánægju af bóklestri. Það skapast traust.
Það leynir sér ekki að höfundur Qaanaaq hafi viðað að sér miklum fróðleik og sett sig vel inn í málefni Grænlands. Hann víkur að sögunni, bregður fyrir sig grænlenskum orðum og útskýrir hugmyndafræði á bak við orð og orðatiltæki og segir frá trúarhugmyndum Inúíta. Þrátt fyrir allt þetta gerist ekki sá galdur sem oftast gerst sjálfkrafa þegar ég les góða bók. Ég trúi ekki hverju orði.
Og það sem verra er, hef ég samviskubit eins og það sé mér að kenna.
Þetta litla sem ég segi um höfundinn, er sótt á netið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 33
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar