26.10.2020 | 11:51
Jaan Kross: Vitfirringur keisarans
Daglega fylgist ég með nýjum bókum sem bætast við á Hljóðbókasafni Íslands, Blindrabókasafninu. Ein af bókunum sem bættist við nýlega er Vitfirringur keisarans eftir Jaan Kross.
Oftast bætast nýjar bækur við safnið en allt í einu birtist bók sem er frá 2002.
Hún er þýdd af Hirti Pálssyni og það er hann sjálfur sem les.
Langt ferðalag
Þetta líst mér á, hugsa ég, og vel hana sem næstu bók.
Vitfirringur keisarans er löng bók (20 klukkustundir í hlustun). Hún er eftir eistneska rithöfundinn Jaan Kross (fæddur 1920, dó 2007). Hún kom út í heimalandi hans 1978 og á Íslandi 2002.
Þetta er söguleg skáldsaga sem gerist í Eistlandi á fyrri hluta 19.aldar. Landsvæðið sem nú er Eistland heyrir þá undir Rússakeisara. Sagan segir frá ungum aðalsmanni Timo Brock, sem tekur hlutverk sitt sem eiðsvarinn trúnaðarmaður keisarans svo alvarlega, að honum finnst hann þurfa að segja honum sannleikann. Þ.e. hvað hann telur að sé best fyrir fólkið í landinu. Höfundur leggur frásöguna í munn Jakobs, sem er mágur herra Timo Brocks. Hann og systir hans Eva koma úr bændastétt. Á þessum tíma var fáheyrt að aðalsmenn kvæntust bóndadætrum enda voru bændur enn í ánauð og ekki sjálfs sín ráðandi.
Keisarinn launar unga aðalsmanninum hreinskilnina með því að halda honum í níu ára fangelsi. Skyldi það vera tilviljun að það er nokkurn veginn jafn langur tími og höfundur þessarar bókar þurfti sjálfur að afplána í fangelsum Sovét? Fyrst í Tallin og síðar í Gúlakbúðum í Vorkúta.
Að lesa þessa bók er meira en lestur. Það er eins og að fara i rannsóknarleiðangur til framandi lands. Stundum finnst mér að það hefði verið betra að hafa einhvern með mér. Kannski á ég eftir að fara á þessar slóðir þegar smithættan verður minni. Og þá ferð myndi ég ekki fara ein. Það er gott að láta sig dreyma.
En aftur til Jaan Kross. Útgáfa þessarar miklu bókar fór fram hjá mér á sínum tíma, enda enn að vinna og að reyna að standa mig. Mér finnst því mikill fengur í að rekast á hana núna. Og auðvitað kom þýðingin of seint fyrir okkur Íslendinga, því þá var áhugi manna minni hér en meðan Eistland var enn fórnarlamb.
En það er ekki neinn vafi á að boðskapur þessarar bókar vísar út fyrir efni hennar. Það er sorglegt að þurfta að horfast í augu við að það er enginn skortur á einvöldum og harðstjórum í henni veröld.
Sjálfsagt hafið þið mörg hver,lesendur mínir, lesið bókina þegar hún kom út á sínum tíma en ég mæli með henni fyrir ykkur hin. Það er eitthvað alveg sérstakt við að lesa langar bækur. Það er örlítið eins og að búa á svæðinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2020 | 11:57
Sendiboðinn: Yoko Tawada
Bókin, sem ég var að lesa/hlusta á heitir Sendiboðinn og er eftir Yoko Tawada (fædd í Japan 1960)
Ég hef aðeins velt því fyrir mér að létta mér lund, á erfiðum tímum og lesa léttar og ljúfar bækur. Engu að síður hef ég sjaldan eða aldrei lesið jafn margar bækur sem fjalla um erfiðleika og vonleysi. Já og bækur sem þarf virkilega að hafa fyrir til að geta skilið þær. En ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með neina þeirra því mikið fæst ekki fyrir lítið þegar kemur að bóklestri.
Ástæðan fyrir því að ég valdi Sendiboðann eftir Yoko Tawada, var fyrst og fremst sú að hún er gefin út af Angústúru. Bækur frá Angústúru þarf maður að lesa, því þær eiga við mann erindi . Ég hafði ekki kynnt mér efni hennar og þekkti ekki höfundinn. En eftir að ég var komin dálítið inn í efnið, sá ég að hér er á ferðinni saga sem gerist í náinni framtíð. Aðstæður í heiminum hafa breyst.
Gamall maður Yoshiro annast langafabarn sitt, drenginn Mumei. Sagan gerist í Japan og landið er einangrað og fjölmargt sem við höfum litið á sem sjálfsögð þægindi er ekki lengur til staðar. Sími og sjónvarp eru ekki lengur í boði. Sama á við um öll heimilistæki
nema ísskápa. Þeir eru snúrulausir og knúnir sólarorku.Dýrin eru líka flest horfin. Það er reyndar hægt að leigja sér hund til að fara með í göngutúr. Sömuleiðis hefur gróður jarðar tekið miklum breytingum. Gamli maðurinn, Yoshiro, sem annast Mumei, er fullur sektarkenndar,
hann telur að umhverfisbreytingar séu hans kynslóð að kenna. Yngsta kynslóðin þekkir ekkert annað líf. En þau eru líkamlega fötluð og veik og þroskast ekki eðlilega. Ég las þessa bók til enda og fannst ástandið eðlileg afleiðing af því lífi sem við lifum. Auðvitað hrynur lífríkið, ef við höldum áfram að menga jörðina jafn mikið og við gerum í dag, hugsaaði ég. Og ég get ekki séð að neitt sé að breytast til batnaðar, hugsa ég áfram. Sakbitin eins og langafinn Yoshiro.
Í lok bókarinnar er eftirmáli sem segir frá höfundi og tilurð bókarinnar. Þar kemur fram að efni hennar vísar sérstaklega til þess sem hefur verið að gerast í Japan. Og þó fyrst og fremst til kjarnorkuslyssins sem varð 11. mars 2011 í Fukushima. Mér fannst fróðlegt að lesa eftirmálann. Auðvitað er gott að skilja bækur réttum skilningi.
En mér fannst engu að síður gott að fá þessar útskýringar ekki fyrr en í bókarlok, því það varð til þessa að tók efnið meira til mín. Bókin fékk breiðari skírskotun. Allt lífríki jarðarinnar er í hættu.
Lokaorð
Það var gaman að lesa þessa bók, þrátt fyrir ónotalegan boðskap hennar. Ég naut þess að lesa hana, fann ekki til kvíða þrátt fyrir hroðalega framtíðarsýn. Vesalings jörðin. Ég held að ástæðan sé að bókin er svo skemmtilega skrifuð, höfundur leikur sér með merkingu orða og með hugmyndir. Það er ekki síður ánægjulegt að samskipti fólksins í sögunni eru jákvæð. Langafinn er elskulegur kall, drengurinn Mumei er sömuleiðis vænn drengur. Það er hægt að tárast yfir hlutskipti hans.
Tvennt í viðbót.
Það er Sólveig Hauksdóttir sem les bókina og hún skilar því verkefni vel. Það er vandaverk, því þrátt fyrir allar áhyggjurnar af framtíð heimsins, sem bókin vekur, er hún fyndin.
Hitt sem ég ætlaði að minnast á er að þýðingin hlýtur að vera góð, það er svo mikil kúnst að koma orðaleikjum til skila af einu tungumáli yfir á annað.
Það hefur ein bók komið út áður eftir þennan höfund. Hún heitir Etýður í snjó og kom út 2018 í þýðingu Elísu Bjargar. Mig vantar svo sannarlega ekki lesefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2020 | 16:42
Peter Handke: Óskabarn ógæfunnar
Það er ekki allt slæmt við kóvít. Ég hef t.d. aldrei lesið meira af góðum bókum.
Nú hef ég lokið við að lesa/hlusta á bókina Óskabarn ógæfunnar eftir nóbelsverðlaunahafann Peter Handke og ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa henni. Óttast að það sé ekki á mínu valdi.En reyni samt.
Þetta er stutt bók, tekur rúmlega 2 tíma í hlustun. Það er Sigurður Skúlason sem les, hann er frábær lesari.
Ógæfusama konan, sem titillinn vísar til, er María, móðir Handkes. Hún er nýlátin, tók líf sitt ríflega fimmtug. Höfundur segir að hann langi til að skrifa um hana, enginn þekkti hana betur en ég, segir hann. En hann er um leið að skrifa um sjálfan sig, líf þeirra blandast saman. Og um leið veltir hann fyrir sér hvernig hægt sé að fjalla um þetta efni. Allt í einu er ég farin að hugsa um minningargreinahefð okkar Íslendinga. Í raun er þetta bara löng minningargrein.Löng hreinskilin minningargrein.
Bókin er stutt og ég undrast, hvernig hægt er að segja svo margt og innihaldsríkt í fáum orðum.
Hann lýsir sorginni, dofanum sem heltekur hann. Og hvernig honum líður skást þegar skelfingin tekur yfir, því hún er raunveruleg og sönn.
Hann segir frá afa sínum sem var kominn af fátækum leiguliðum en finnur frelsið, þegar hann eignast jörð og hélt hann gæti aukið frelsi sitt með því að spara og eignast meira til að auka frelsi sitt. Verðbólgan tók sparnaðinn. Hann sér ekki gagnsemi eða frelsi í því að kosta börnin sín til mennta. Og svo kom stríðið og tók sinn toll, tvo syni.
Handke lýsir móður sinni Maríu sem konu án tækifæra.En þetta er ekki bara saga hans og móður hans. Þetta er saga sem lýsir pólitík, stríði og meiri pólitík. Ég hef hvergi séð betur fjallað um hvað var svo hrífandi við nasismann. Þegar móðir hans hlustaði á áróður nasista fannst henni í fyrsta skipti að einhver talaði til hennar og að hún væri eitthvað. Að hún væri hluti af hóp og gæti verið stolt.
Í örfáum orðum segir Handke frá lestri Maríu og samtali þeirra um bækur. Hún bar líf söguhetjanna alltaf saman við sitt eigið líf, eins og bækurnar væru um hana. Mér fannst merkilegt að lesa þetta, því ég hafði einmitt verið að gera þetta sjálf. Peter Handke er jafnaldri minn, fæddur 1942. Ég var að hugsa um að móðir hans hafi verið á aldur við mömmu mína. Ekki hafði hún mikil tækifæri í lífinu, alin upp í stórum barnahóp á heiðarbýli, án samgangna og rafmagns. Og án skólagöngu. Aldrei hugsa ég þó um hana sem konu án tækifæra. Svona róta góðar bækur upp í manni.
Það er merkilegt hvernig höfundi tekst að fjalla um svo margt í lítilli bók. Ég vildi að ég gæti útskýrt það með því að textinn sé knappur. En mér finnst það ekki. Það er bara engu orði ofaukið.
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Peter Handke. Hún er þýdd af Árna Óskarssyni. Auðvitað get ég ekki dæmt um þýðinguna en einhvern veginn finnst mér að hvert orð sé nákvæmlega á réttum stað.
Þetta er ekki fyrsta bókin sem kemur út í íslenskri þýðingu. Áður hefur komið út bókin Barnasaga í þýðingu Péturs Gunnarssonar 1987. Þetta vissi ég ekki en er auðvitað búin að lesa hana. Meira um hana seinna. Það er þegar ég er búin að lesa hana aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2020 | 18:52
Landbúnarráðherra tekur heimspekilegan sprett
Þetta var haft eftir landbúnaðarráðherra í gær:
"Talandi um frelsi sem bændur þrá og hafa að mörgu leyti vegna þess einfaldlega að fólk kýs sér atvinnu, kýs sér búsetu. Það er svona fyrsti kosturinn sem að við getum sagt að fólk hafi frelsi um að velja. Ég held að það sé engin goðgá að ætla það menn kjósi af mörgum ástæðum að stunda sauðfjárbúskap. Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtöl við þau, þar sem þeir segja að þetta er meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu.
Ekki veit ég hvað landbúnaðarráðherra var að hugsa þegar hann lét þessi orð falla í gær á Alþingi.
Er hann kannski nýbúinn að lesa hugleiðingar Tolstojs um bændaánauðina í Rússlandi og hugur hans enn þar? Er hann að vísa til bókarinnar Kúgun kvenna eftir Stuart Mill.? Helmingur bændastéttarinnar eru jú konur.
Nei ég held að hann hafi tekið Lúther á þetta. Maðurinn er frjáls en með leiðsögn frá Guði.
En ef þetta er Lúther og nú satt og rétt hjá Lúther, hvers vegna gildir þetta ekki um annan atvinnurekstur?
Satt best að segja finnst mér eðlilegt að afgreiða þetta sem bull og það á landbúnaðarráðherra ekki að komast upp með. Hann er ekki réttur maður á réttum stað.
Myndin er úr Kverinu sem ég lærði, Veginum eftir Jakob Jónsson. Hún heitir Sáðmaðurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2020 | 16:14
Bölvun múmíunnar: Doktor Ármann Jakobsson
Eftir að hafa lesið/hlustað á bókina Beðið eftir barbörurunum, , fannst mér rétt að velja mér lesefni sem tæki ekki eins mikið á mig. Fyrir valinu varð unglingabók eftir doktor Ármann Jakobsson . Bölvun múmíunnar; Fyrri hluti; Njósnasveitin og leynisöfnuðurinn QWACHA.
Bókin er kynnt sem unglingabók, söguhetjurnar Júlía, María og Charlie eru enn á skólaaldri (skólinn kemur þó ótrúlega lítið við sögu). Það er Júlía sem segir söguna. Hún býr í fornminjasafni með móður sinni sem vinnur við safnið. Þegar sagan hefst, hefur forn múmía bæst við safnkost egypsku deildarinnar, þ.e. sjálfur Hóremheb ríflega 4000 ára gamall. Múmíunni fylgir sá orðrómur að á henni hvíli bölvun. Að þeir sem gæti hennar verði fyrir slysum, jafnvel dauða. Það er mikið fjallað um múmíuna í fjölmiðlum. Og auðvitað fer ýmislegt að gerast. Auk barnanna koma við sögu starfsmenn safnsins og enn síðar, eftir að undarlegir hlutir fara að gerast, verðir sem eiga að gæta múmíunnar. Það sem mér finnst aðall Ármanns er hvað hann er góður að skapa persónur og hvernig hann speglar samtímann í bókum sínum. Þessi er engin undantekning en það sem gerir hana þó sérstaka, er að sagan gerist ekki á Íslandi, heldur í einhverju öðru Evrópulandi. En auðvitað reynir hugur lesandans að staðsetja hana, það er eðli hugans. Sú sérstaka glíma er óvinnandi og kemur spennu sögunnar ekki við. Ég veit ekki hvort mér finnst það kostur eða ókostur.
Mér fannst þetta bæði spennandi og skemmtileg bók. Hún er líka fróðleg því unglingarnir þrír eru þeirrar gerðar að þau ræða sín á milli um mikilvæga hluti og taka afstöðu.
Auðvitað gerist það sem allir óttast, þessari bók lýkur á að Hóremheb er stolið. En þetta er bara fyrri hluti. Ég veit að seinni hluti er kominn út en
hann er ekki komin á hljóðbók. Ég bíð spennt.
Hvernig vitjar bók lesanda?
Hluti af lestrarupplifun ræðst af því hvernig bókin hittir mann fyrir. Þessi bók hitti vel á mig, það er ekki nema eitt og hálft ár síðan ég var í Egyptalandi og skoðaði fornar rústir, pýramída og konungagrafir. Auk þess sem ég gekk um hið víðáttumikla fornminjasafn Kaíró með leiðsögumanni og fannst það litla sem ég kunni í sögu væri komið í einn graut í höfðinu á mér. Ein múmía er nægur dagsskammtur fyrir mig. Mér fannst merkileg upplifun fyrir mig , komna frá sögueyjunni Íslandi að meðtaka sögu þar sem hugsað er í þúsundum ára.
Myndin er af minjagrip frá Egyptalandi og sýnir hina heilögu scarib-bjöllu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar