Arnaldur Indriðason deyr: Bragi Páll Sigurðarsom

E095F9EB-4F56-406F-B956-4C13E23CCE05 Arnaldur  Indriðason deyr

Ég hef aldrei lesið neitt eftir Braga Pál Sigurðarson og vissi því ekki hvers var að vænta þegar ég hóf að lesa/hlusta á bók hans um Dauða Arnaldar Indriðasonar. Ég var nokkra stund að átta mig á efni hennar og las hana því tvisvar.

Efni bókarinnar

Það má segja að tónninn sé sleginn í fyrsta kaflanum er þar segir af sjónvarpsþætti Gísla Marteins (sem hann kallar Gillamalla). Þarna ræðir GM við frægt og mikilvægt fólk og það er slegið á létta strengi.

Bókin fjallar um Ugga Óðinsson, sem vill vera rithöfundur og hefur gefið út nokkrar bækur á eigin kostnað af því ekkert forlag vill gefa þær út.  Hann er kynntur til sögunnar þegar hann og Heba kona  hans takast á um það, hvort litli drengurinn þeirra, eigi að fara á spítala vegna mikils sótthita. Hann hindrar hana í að fara með drenginn á sjúkrahús en hún gefst ekki upp og laumast burt með drenginn þegar pabbinn er sofnaður. Uggi leitar þau svo uppi  á spítalanum og reynir að fjarlægja barnið á ofbeldisfullan hátt. Síðar kemur í ljós að drengurinn hefur fengið varanlegan heilaskaða. Konan yfirgefur hann og tekur drenginn með sér.

Orsök alls þessa er að  Uggi er ekki  bara rithöfundur,hann er líka  kenningasmiður.

Helstu kenningar:

Náttúran er svo voldug að líkaminn læknar sig sjálfur ef hann er látinn í friði.

Yfirvöld níðast á fólki.

Fjölmiðlar og valdastéttin í landinu hampa slæmum rithöfundum  á kostnað góðra. Og þeir, slæmu höfundarnir,  vaxa eins og arfi og kæfa   þannig  þroska þjóðarinnar .

Þetta var það helsta.

Eina ráðið til að bjarga þjóðinni er að uppræta illgresið og það ætlar Uggi sjálfur að gera. Hann er búinn að semja áætlun. Og þar er Arnaldur efstur á lista.  En þar lætur hann ekki staðar numið.

Þetta er spennandi bók þótt allir lesendur viti hver sé morðinginn,en það er ráðgáta hvers vegna  lögreglan er svo vitlaus, að hún fattar ekki hvað er að gerast, þrátt fyrir að morðinginn skilji viljandi eftir fjölda ábendinga. Auk þess hefur hann játað sekt sína fyrir blaðakonunni Friðborgu, en hún er skólasystir  hans. Hún er reyndar eina viti borna manneskja bókarinnar.  

Þetta var nokkurn veginn söguþráðurinn.

Frásagnarmátinn

Flestar sögupersónurnar, ef ekki allar, eiga sér fyrirmyndir sem auðvelt er að þekkja. Þær eru ýmist undir eigin nafni eða nöfnum er lítillega breytt, þó ekki meira en svo að þær eru auðþekktar út frá hlutverki og lýsingu.

Það sem einkennir þessa bók síðast en ekki síst er sóðalegt orðfæri. Ég hef hvergi, hvorki í bók eða raunveruleika séð eins mikið samansafn af klámyrðum og sóðalegum lýsingum. Ég býst við að höfundurinn taki þetta sem hrós, ef hann af tilviljun les þetta. En þetta er ekki hrós, ég er bara hissa. Helst dettur mér í hug að þetta eigi að hneyksla , ganga fram af fólki. En það getur varla verið, því sá tími er löngu liðinn að það sé hægt að ganga fram af fólki með klámyrðum og sóðalegum lýsingum á líkamsvessum. Þetta veit ég sem er gömul kona sem man tímana tvenna. Ég veit að ég er líklega  ekki í lesendamarkhópi þessa höfundar en hver er markhópurinn?  Trúlega á þetta bara að vera fyndið.

Ég vil benda væntanlegum lesendum á, að það er nauðsynlegt að lesa bókina til enda. Auðvitað er alltaf mikilvægt að lesa bækur til enda. En í þessari bók sér maður bókina í nýju ljósi við bókarlok .

endingu

Ætla að enda þessi skrif með vísu Bólu – Hjálmars:

Víða til þess vott ég fann

Þótt venjist oftar hinu,

að Guð á margan gimstein þann,

sem glóir í mannssorpinu.


Bærinn brennur:Síðasta aftakan á Íslandi

4666BE2F-2051-4296-BD48-41731E98E9F1Bærinn brennur:Síðasta aftakan á Íslandi

eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur

Inngangur

Lesandi bóka er misvel undir það búinn að meðtaka innihald bóka ,setja innihaldið í rétt samhengi, skilja þær. Mér fannst t.d. erfitt að skilja bókina Uppljómun í eðalplómutrénu eftir Azar Shokoofeh, sem gerist í Íran, þar sem ég þekki lítið til. Ég nefni þessa bók sem dæmi af því ég þurfti að hafa talsvert fyrir því að skilja hana  en gafst ekki upp af því mér fannst bókin góð en afar sérstök.

 

Í tilviki bókarinnar , Bærinn brennur, var þessu öfugt farið. Ég hafði lesið heil ósköp um morðin á Illugastöðum, ég þekkti staðhætti og hafði átt góð samtöl við fróða menn. Bækurnar sem ég hafði lesið voru: Enginn má undan líta eftir Guðlaug Guðmundsson, Yfirvaldið eftir Þorgeir Þorgeirsson og bók áströlsku konunnar, Hannah Kent, Náðarstund. Auk þess hef ég lesið fræðilega grein eftir Helgu Kress. Greinin fjallar um orðið skamma, sem kemur hvað eftir annað fyrir í framburði í vitaleiðslum um málið. Ég átti mörg samtöl við alþýðufræðikonuna Elínborgu Jónsdóttur frá Másstöðum í Vatnsdal (fædd 1921 dáin 2007). Hún sagði m.a. að á hennar heimili hefði verið bannað að tala um þessi mál. Það var of viðkvæmt. Fórnarlambið Natan og gerendurnir Agnes og Friðrik tengdust öll fjölskyldu hennar.

Bærinn brennur

Ég hlakkaði því til aða sjá efnistök Þórunnar.

Ég held ég hafi lesið allar bækur hennar og veit að hún svíkur ekki.

Í inngangi bókarinnar greinir Þórunn frá því að hún sé í raun að skrifa bókina fyrir Eggert Þór Bernharðsson, prófessor,  mann sinn, sem nú er látinn. Fyrir dauða sinn hafði hann safnað gögnum um þetta mál. Hann gat rakið ættir sínar til fórnarlambsins Natans. Hann hafði ætlað Þórunni að gera bók um málið. Þegar Þórunn hófst svo handa notaði hún þetta efni jafnframt eigin rann sóknum.

Hvernig er svo bókin?

Þetta er fjörlega skrifuð bók og að því leyti óvenjuleg að höfundur nánast lýsir því yfir að hún sé skrifuð til að hreinsa mannorð Natans. Hann hafi verið órétti beittur. Ekki bara drepinn, heldur hafi seinni tíma menn svert mannorð hans vegna einhverskonar óra sem sprottnar séu af undarlegum hugmyndum um um rétt og rangt. Auðvitað segir hún þetta ekki svona. Þetta eru mín orð. En Þórunn fetar sig í gegnum hauga af málskjölum og þjóðlegum fróðleik svo sem rit Gísla Konráðssonar og Jóns Espólíns. Af og til kallar hún Eggert heitinn fram á vettvanginn, hvað hefði Eggert sagt? Stundum grípur hún sjálf inn í söguna.

Niðurstaða Þórunnar er í stuttu máli  þessi:

 Auðvitað var Natan ekki gallalaus en hann hafði sterka menntaþrá og var góður læknir. Gerendurnir voru aftur á móti knúnir áfram af öfund  og dæmalausri græðgi, grimmd og mannvonsku. Björn sýslumaður Blöndal fær líka góða einkunn.

Niðurstaða

Það er bæði gaman og fróðlegt að lesa þessa bók. Textinn er spriklandi góður. Það er erfitt að lýsa því hvernig Þórunn skrifar. Hún lætur heimildirnar, sem er miklar, tala. Sjálf stendur hún til hliðar og kemur með athugasemdir, á það til að ávarpa heimildamenn. Þetta er skemmtilegt. Stundum notar hún kveðskap til að fanga tíðarandann. Húnvetningar þessa tíma voru miklir hagyrðingar. Auðvitað voru gerendurnir sekir út frá lögum þessa tíma og lögum dagsins í dag. En hvaðan kom þeim þessi hugsun um að það mætti stela frá hinum ríku og jafnvel drepa þá? Og það virðist sem að það hafi ekki bara hafa verið, gerendurnir sem litu þannig á verknaðinn, því þeir áttu sér hóp stuðningsmanna. Það voru alla vega margir sem vildu ekki vitna gegn þeim. En hvaðan komu þessar hugmyndir til Húnvetninga á fyrri hluta 19. aldar? Ég held sjálf að þær hafi legið í loftinu. Sunnan vindar þýðir.  Upplýsingarstefnan og franska stjórnarbyltingin var farin að vinna sitt verk. Morðinginn Friðrik túlkaði boðskapinn á sinn hátt. Hann var ekki orðinn tvítugur og   hvatvís var hann.  

Öðru vísi lestur

 Ég hef í raun ekki lesið þessa bók í bókstaflegum skilningi, ég hef hlustað. Það er Þórunn Hjartardóttir sem les. Hún les ljómandi vel. En bókin er til hér á heimilinu  og ég skoðaði hana í tæki sem nýtist mér til að gaumgæfa bækur.

Þetta er falleg bók og í henni eru bæði kort og myndir. Með þessa bók í höndunum kemur auðveldlega upp söknuður. Ég sakna þess að geta ekki lesið. En ég vík söknuðinum til hliðar, það sem gildir er að horfa á það sem maður getur. Ekki það sem maður getur ekki. Þakklætið gerir manni líka gott. Það er gott að geta hlustað. Og ég er þakklát lesurum fyrir góðan lestur og auðvitað er ég þakklát höfundi fyrir þessa frábæru bók. 


Yrsa Sigurðardóttir: Lok, lok og læs

16E1B187-9458-4766-B3E5-3DF602B707CF
Áramót með Yrsu

Ég var ekki fyrr búin að lesa og skrifa um Ellina (Cicero) en ég varð illa haldin af kvölum í hægri mjöðm. Hækjurnar  voru sóttar í geymsluna til að ég gæti staulast um. Næturnar voru verstar. Ég ályktaði að nú riði á ekkert nema að sökkva mér í krassandi lestur. Eitthvað krassandi.

Bók Yrsu Sigurðardóttur, Lok, lok og læs, varð fyrir valinu.

Lok, lok og læs er hrollvekja. Hún byrjar á að segja frá áhyggjum bónda í Hvalfirðinum sem fer heim til nágranna sinna af því hann hefur ekki séð til þeirra í marga daga. Þetta er moldrík fjölskylda sem er nýflutt í sveitina en hafði áður búið um skeið í Ameríku.  Aðkoman er vægast sagt hræðileg. Lögreglan á Vesturlandi er kölluð til og síðan morðdeild lögreglunnar í Reykjavík. Mér skemmtilegt að sjá að Lögregluteymi ð á Vesturlandi  var fengið að láni úr Akranesglæpasögum Evu Bjargar Ægisdóttur. Góð

 samvinna. Í bókinni skiptast á frásagnir um hvað lögreglan er að fást við og frásagnir úr lífi fórnarlambanna meðan allt lék lyndi. Eða þannig. Þetta er allt hið óhuggulegasta, m.a. að Yrsa hikar ekki við að nota börn sem fórnarlömb. Yrsa er reyndar snillingur í að lýsa börnum. Umhverfið þarna í Hvalfirðinum er líka nöturlegt, útigangshross , blóðmerar, híma svangar og kaldar undir húsvegg.

Ástæðan fyrir því að ég kaus að lesa Yrsu í þetta skipti voru liðverkir (slíkir verkir fylgja gjarnan háum aldri). Nú get ég vottað að bóki

 n virkaði betur en flestar pillur.

 

Lónsöræfin að vetrarlagi

Í fyrra vetur las/hlustaði ég á bókina Bráðin. Hún gerist í Lónsöræfum að vetrarlagi. Þessi bók  var eiginlega enn hryllilegri. Og síðast liðið  sumar lá leiðin austur eins og svo oft áður. Ég ræddi við ferðafélaga mína að það gæti verið forvitnilegt að skoða vettvang sögunnar. Lónsöræfi komu ekki til mála (vorum ekki á fjallabíl) en Stokksnesið var inn á alfaraleið. En þegar þangað var komið reyndist vera hlið sem kostaði 2000 krónur að opna. Ég og ferðafélagar mínir vorum öll á móti veggjöldum og snerum frá. Svo ég á enn eftir að skoða Stokkinn sem Stokksnes er kennt við en hann kemur á örlagafullan hátt við sögu í Bráðinni.

Lokaorð

Ég hef um langt skeið haft gaman af sakamálasögum en lengi framan af setti ég spurningarmerki við hryllingssögur. Mér fannst það  öfugsnúið, að ég þessi friðsemdarkona, sem má ekkert aumt sjá, ástundaði slíkan lestur. Þrátt fyrir þessa hugmynd, fordóma, freistaðist ég af og til, til að lesa hrollvekjandi bækur. Og svo eru skilin á milli bókaflokka oft óljós. Það góða við að lesa sakamálasögur og hryllingssögur er að maður veit að þetta er allt í þykjustunni. Erfiðast er að lesa sannar sögur og hlusta á fréttir. Ég er löngu hætt að forðast að lesa um hrylling. Það sem mestu máli skiptir er að bókin sé vel skrifuð. Ég treysti Yrsu óhikað.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2022
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 10
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 84
  • Frá upphafi: 190481

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband