Hrollköld lesning: Sigríður Hagalín og Hildur Knútsdóttir

Þegar ég hafði kvatt Balzac ákvað ég að velja mér lesefni sem reyndi ekki eins mikið á. Bók Agöthu Christie , Myrkraverk á Styles – setri,  varð fyrir valinu.  Agata olli mér ekki vonbrigðum frekar en venjulega en ég ætla ekki að fjalla um hana nú, heldur bækurnar sem ég las í framhaldinu.

 

EylandEyland

Ég hef ekki enn komist yfir að lesa nýjustu bækurnar, því mér finnst svo gaman að lesa gamlar bækur.  En ég lifi í nútíðinni og ákvað að lesa nýja bók eftir höfund sem ég þekki ekki, Eyland eftir Sigríði Hagalín. Bókin gerist í nálægri framtíð, þegar samband Íslands við önnur lönd hefur rofnað. Enginn veit hvers vegna og stjórnvöld hafa tekið þá afstöðu að það sé affarasælast að fyrir þjóðina að vera ekki allt of mikið að velta þessu fyrir sér. Það væri betra að nýta kraftana til að  læra að lifa við ástandið og um fram allt að fara eftir fyrirmælum stjórnvala.

Lesandi fylgist með þróun mála á þessu einangraða eylandi í gegnum nokkrar vel dregnar lykilpersónur, Hjalta, Maríu og börnin hennar tvö Margréti og Elís. Forsætisráðherrann, Elín einnig lykilmanneskja. Hún hefur tekið við í forföllum forsætisráðherra, sem var staddur erlendis þegar landið einangraðist. Oft er eins og Elín tali út frá handriti sem við þekkjum úr pólitísku lífi okkar Íslendinga. Setningarnar sem hún segir eru eins og teknar úr munni annarra forsætisráðherra sem við þekkjum.

Það má segja að þrír þrír þræðir sögunnar  séu  raktir samtímis: Ástarsaga Hjalta  og Maríu, þroskasaga Margrétar og stóra sagan um hvernig allt breytist þegar landið einangrast. Það er ótrúlega auðvelt að fylgjast með þessu og höfundi tekst að byggja upp óhugnað  og spennu.

Sagan er í senn ógnvænleg og sorgleg. Það sem veldur því að hún snertir innstu hjartarætur, er að höfundi tekst að feta slóð sem liggur svo nærri því sem er eðlilegt, sjálfsagt og við þekkjum vel.  Ég trúi hverju orði. Já svona gæti þetta gerst, einmitt svona myndi það vera ef við værum ein eftir. Tilfinningin sem situr eftir er ísmeygilegur ótti, sorg og vanmáttur. Varnarleysi.

Bókin er meistaralega skrifuð bæði hvað varðar uppbyggingu og orðfæri. Innskotin með fróðleik og sögulegu efni gerðu sitt gagn. Hún gat meira að segja gert mér til hæfis þegar kom að því að lýsa búskap og dýrahaldi, en ég er afskaplega viðkvæm fyrir hvernig farið er með slíkt. Voðalegasti kafli sögunnar fjallaði um endanlega lausn útlendingavandans. Ég veit af hverju.

 

Vetrarhorkur_72Vetrarfrí og Vetrarhörkur

Þegar ég hafði lokið lestrinum fannst mér liggja beint við að lesa tvær barnabækur, Vetrarfrí og Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur. Önnur kom út í fyrra og hin fyrir síðustu jól. Ég hafði heyrt Hildi lesa upp úr þeim á bókakynningu og vissi nokkuð um hvers var að vænta.

Ég var enn með hroll í sálinni eftir að hafa lesið Eyland og sjálfrátt bar ég bækurnar saman. Hafi ég átt von á því að Hildur gæfi einhver barnaafslátt á hryllingi   fór ég vill vegar.

Í Vetrarfrí og Vetrarhörkur hafa geimverur ráðist á okkar litla land. Þessar geimverur eru mannætur. Þær virðast ekki vilja borða lifandi bráð, þess vegna kála þær fólkinu fyrst með því að dreifa eitri,  fólk fær uppköst, síðan deyr það. Aðeins örfáir komast undan og um þá er bókin. Það kvarnast úr þessum litla hóp  og óhugnaðurinn og spennan magnast.

Sagan hefst á því að lýsa lífi og hugmyndum Bergljótar, unglingsstúlku í Vesturbæ Reykjavíkur. Veröld hennar er ekki stór, hún snýst um vinkonurnar og strákinn sem hún er skotin í . Og svo hugsar hún auðvitað um fjölskylduna sem hún er greinilega talsvert gagnrýnin á. Fjölskylda,  Bergljót, Bragi bróðir hennar og pabbi þeirra Þórbergur fara saman í sumarhús á Arnarstapa, öll nema móðirin, Sigrún, sem þurfti að vinna. Bergljót er miður sín út af því að missa af skólaballi. þar hefði hún getað hitt strákinn sem átti hug hennar. Hún er reið út í pabba sinn og vil refsa honum. Hún situr ein eftir í sófanum þegar pabbinn fer út með Braga bróður hennar. Hún er í fýlu. En þá gerðist það sem enginn gat séð fyrir.

Ég dvalist sjálf í sumarhúsi á Arnarstapa í fyrra sumar svo þessi fyrsti vettvangur atburða í sögunni er aafar lifandi, ég sé þetta allt fyrir mér. Sófann, leikvöllinn og útsýnið út um gluggann. Kannski voru þau í sama sumarhúsi.

Og þá er ég komin að því sem er galdur allra heppnaðra sagna, maður trúir þeim. Já svona var þetta segir maður við sjálfan sig  og kinkar kolli. Hildur er snilldarsögumaður. Frásögnin er rík af vel dregnum vettvangslýsingum, góðum samtölum og hugsunum sem snerta mann. Aldrei er slakað á spennunni ekki einu sinni í lokakaflanum. Það gæti alveg verið þörf fyrir aðra bók. Og þrátt fyrir þennan í meira lagi alvarlega söguþráð er bókin meira að segja fyndin. Ég verð að koma því að, að uppáhaldspersónan mín í sögunni er Víkingur geimveruáhugamaður. Það kemur honum ekkert á óvart. „Sagði ég ekki“ sagði Víkingur.

Af og til velti ég því fyrir mér hvernig börn taki þessu öllu saman. Ég hugga mig við að líklega taki þau þetta ekki eins nærri sér og ég, því þau skilji ekki óhugnaðinn eins bókstaflega. Ég veit að það eru breyttir tímar þar sem netið og margmiðlun bíður fram fjölbreytt efn með limlestingum, morðum og stríðsógnum í leikformi fyrir börn. Börn eru umkringd skelfingu, sprengjurnar verða stærri og öflugri hvort sem er í fréttefninu eða skemmtiefninu. En þarna í þessari bók er efnið  sótt inn í þeirra hverdag, þá svíður. Þá dugir hvorki herðing né forherðing.

Eins og fyrr sagði, ber ég bækur Sigríðar og Hildar saman í huga mér. Ég veit ekki hvor höfundurinn hreyfir meir við mér og kannski eru efnistökin ekki svo ólík. Maður skynjar glöggt að sama alvaran býr þarna að baki. Það er eins og þær vilji brýna okkur, láta okkur skynja hvers virði lífið er. Þetta ómerkilega líf okkar.

Loks velti ég því fyrir mér hvað það hafa komið út margar góðar bækur fyrir síðustu jól. Og kannski leynast enn perlur því ég á nokkrar eftir ólesnar.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband