Honoré de Balzac

Honoré_de_Balzac_(1842)_Detail

Ég hef lengi vitað að Balzac tilheyrði bókmenntarisum 19. aldar en ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma lesið bók eftir hann.  Nú þegar mér býðst að lesa Ævisögu Balzacs gríp ég tækifærið feginshendi. Ævisaga er betra en ekkert. Og þar að auki er þetta þýðing Sigurjóns Björnssonar vinar míns. 

Ævisagan er eftir Stefan Zweig (1881 – 1942) sem er stórt nafn í bókmenntum 20. aldar. Satt best að segja olli bókin mér  vonbrigðum. Ég hefði þó mátt vita hvers var að vænta, því það er ekki ýkja langt síðan ég las Veröld sem var, en í þeirri bók gekk höfundurinn algerlega fram af mér í eltingaleik sínum við fræg nöfn og kvennahundsun. Ég læt Stean Zweig fara í taugarnar á mér og það bitnar á lestrinum.   Ég veit að hann er barn síns tíma en fyrr má nú vera.

Það er greinilegt að Zweig byggir bók sína á mikilli heimildavinnu enda af miklu að taka. Ég efast ekki  að hann fer rétt með staðreyndir, það eru túlkanir þessara staðreynda sem ég  efast stundum um. En áður en ég segi meira er besta að snúa sér að efni bókarinnar.

Rammi sögunnar er ósköp venjulegur ævisögurammi. Hefst á því að segja frá foreldrum hans og lýkur með dauða hans. Faðirinn er bóndasonur fæddur 1746. Hann hefur unnið sig upp í virðingarstiga þjóðfélagsins með ævintýramennsku og seinna tryggði hann fjárhag sinn með því að giftast vel stæðri stúlku rúmlega þrjátíu árum yngri. Hann var þá fimmtugur og stúlkan 18. Á tiltölulega stuttum tíma eignast hjónin 5 börn. Balzac fæddist 1799 var næst elstur.  Börnin eru eru sett í fóstur hjá mjólkandi fóstru eins og  þá tíðkaðist hjá betri borgurum. Mér finnst óljóst hversu mikið litli drengurinn hafði af foreldrum sínum að segja en 10 ára gamall var hann sendur í heimavistarskóla svo það hefur ekki verið mikið. Faðir hans vildi að hann yrði málafærslumaður en hugur hans stóð til annars.

Hann ætlaði að verða skáld og samdi við foreldra sína um að kosta uppihald sitt í tvö ár, það var tíminn sem hann ætlaði að nota til að sanna að í honum byggi rithöfundur. Niðurstaðan varð þó ekki hughreystandi fyrir unga manninn, því afrakstur erfiðisins var ekki hæfur til útgáfu. En áfram hélt hann, fyrst lengi vel skrifaði hann reifara og ástarsögur undir dulnefnum og komst vel af. Auk þess tók hann sér ýmislegt fyrir hendur. Hann var útgefandi, reyndi fyrir sér í pólitík, var í blaðamennsku og fleira.En það kom að því að hann gaf bækur sínar út undir eigin nafn.Þrátt fyrir rífandi tekjur var Balzac í eilífum fjárkröggum.

Balzac þekkti vel til annarra rithöfunda þessa tíma og lærði töluvert af þeim og fékk ýmislegt lánað. En samkvæmt þessari sögu snerist metnaður hans þó ekki um að skrifa, heldur að verða ríkur og komast í tölu betri borgara, aðalsmanna. Hann var óhemju snobbaður og bætti de við nafn sitt.

Balzac er frægur fyrir vinnutarnir sínar og afköst hans voru ótrúleg. Samkvæmt þessari frásögu Zweigs, skrifaði hann þó ekki af því honum fyndist hann hafa eitthvað fram að færa, heldur af löngun sinni til að verða ríkur. Þörf hans fyrir að verða ríkur og elskaður var drifkrafturinn á bak við snilligáfu hans.

Þessu trúi ég náttúrlega ekki og það fékk mig til að efast um fleira í túlkun Zweigs á persónuleika listamannsins.   

Balzac er lýst sem hégómlegum, klaufalegum  og óaðlaðandi ungum manni. Hann langar að vera elskaður. Hver vill það ekki? Hann laðast að eldri konum og átti í vinasambandi og ástsambandi við konur sem tóku að sér að koma honum til manns. En Balzac þráði að komast inn í raðir tignarfólks og sóttist eftir að ná ástum aðalskonu.Og að lokum tókst honum að kynnast einni slíkri. Eftir margra ára bréfaskipti mælir hann sér mót við aðalskonuna Hanska. Þau hafa aldrei sést og frásögnin af sambandinu minnir mig á sögur sem ég heyri af fólki sem verður ástfangið í gegnum netið. Hún var að vísu gift og þurfti Balzac að bíða. Að lokum giftast þau en Balzac dó skömmu síðar (1850).

Öll frásaga Zweigs er mjög fróðleg, ekki síst lýsingin á lífinu í París. En hvað  í bókinni tilheyrir hugmyndaheimi Balzacs og hvað tilheyrir hugmyndaheimi Zweigs sjálfs? Ég las bókina full efa og ekki bætti úr skák að mér fannst hallað á konur. Auk þessi truflaði mig að bókin er full af frásögum af frægu fólki sem ég veit ekki haus eða hala á, enda ekki vel að mér um franska sögu. Það sem verra er, titlar og bókarheiti eru öll á frönsku.   En Zweig skrifar fyrir menntað fólk síns tíma, sem setur slíkt ekki fyrir sig. Ég vildi að Sigurjón hefði þýtt þetta, en hér fylgir hann sjálfsagt hefð, með því að gera það ekki.

Bókin er að sjálfsögðu vel skrifuð enda Zweig frægur fyrir vandaðan stíl og hún er á góðri og lipurri íslensku. Mér finnst rétt að taka þetta fram úr því ég er búin að vera svona neikvæð. En þar sem ég skrifa um bækur til að glöggva mig á hvað mér finnst um þær, kemst ég ekki hjá því að segja eins og er. Enda á maður hvorki að lúga í sjálfan sig né aðra.

Í bók Zweigs um eru konur ótrúlega fjarstaddar, í þessari bók eru þær þó til staðar en eru vondar, heimskar og/eða hlægilegar. Öll vandræði í lífi Balzacs eru móður hans að kenna. Þannig virðist Balzac sjálfur hafa litið á þetta og Zweig dregur það ekki í efa.  Móðurinni er lýst sem ómerkilegri taugaveiklaði konu jafnvel lauslátri.Það virðist þó vera þessi kona sem stendur á bak við hann alla tíð. Balzac er lýst sem stóru ólánlegu barni. Hann fullorðnaðist  aldrei.

Eftir á að hyggja, hefði verið betra að lesa bókina án femíniskra gleraugna.Ég var í stöðugri vörn fyrir konurnar í bókinni. Var t.d. upptekin af því hvernig það var fyrir móður Bazacs 18. ára gamla  að giftast afgömlum kalli og eignast með honum 5 börn á átta árum. 

Niðurstaðan af lestrinum er þó sú, að bókin kveikir áhuga minn á að kynnast verkum Balzacs, kannski gæti ég útvegað mér bækur hans á tungumálum sem ég ræð við. Það er svo sannarlega nóg af bókum til að lesa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 187120

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband