Hvernig líður ömmu þinni?

IMG_3201

Hvernig líður ömmu þinni?Í gamla daga þegar ég fór á bæi og hitti fólk, var ég oft spurð þessarar spurningar. Amma bjó heima hjá okkur og tekin að reskjast. Þó yngri en ég er núna. Ég var alltaf í vandræðum með að svara þessu. Amma talaði ekki mikið um líðan sína en ég vissi að hún var með líkþorn á tveimur tám og blóðþrýstingurinn var of hár. Læknirinn hafði ráðlegt henni að passa mataræðið. Vildi fólk fá að vita um þetta? Hún er hress, sagði ég. Heim komin sagði ég ömmu að þessi eða hinn hefði spurt um líðan hennar. Ég held að henni hafi þótt vænt um að fólk hugsaði til hennar.

Nú er öldin önnur. Leiðari Fréttablaðsins í dag ber yfirskriftina: Lyfjuð þjóð. Leiðarinn fjallar um óhóflega lyfjanotkun Íslendinga. Við skerum okkur úr. Það koma alltaf til svona rokur. Fjölmiðlar hneykslast.

Ég virði fyrir mér meðalaskjóðuna mína. Síðast þegar ég fór til læknis og bar mig upp við hann, talaði hann um að það þyrfti að verkjastilla mig. Ég hafði ekki heyrt þetta orðalag áður. Og nú tek ég þrjár tegundir af verkjalyfjum og ég er ekki einu sinni komin inn á biðlistann sem líklega bíður mín.

Eftir að hafa lesið Fréttablaðið tók ég mér góða stund með að athuga tölfræði Landlæknisembættisins um biðlista. Þeir eru margir, næstum eins margir og sjúkdómarnir sem  ég kann nafn á. Biðlistinn sem ég fer væntanlega á segir mér að miðjugildið fyrir bið þar sé 37 vikur. Er þetta gott, vont eða ásættanlegt. Ég veit það ekki. Ég veit að margir eru mikið meira veikir en ég. Það bætir ekki líðan mína neitt, gerir mig bara hrygga.

Og ég velti fyrir mér hvort lyfjanotkunin í landinu tengist ekki á einhvern hátt bið fólks á biðlistum. Er ekki líklegt að fólk verði kvíðið, þunglynt og að það sofi illa? Í leiðaranum, Lyfjuð þjóð talar leiðarahöfundur um að oft geti sálfræðiviðtöl eða  meðferð komið að gagni. Hann nefnir sem dæmi atferlismeðferð. Ég veit að það er rétt en hér er vinna sálfræðinga ekki styrkt af sjúkrakerfinu. Hún er því of dýr fyrir marga sjúklinga. Pillur eru ódýrari.

Ekki veit ég hvort ömmu börnin mín eru nokkurn tíma spurð, Hvernig líður ömmu þinni eða hverju þau myndu svara. Kannski myndu þau segja hún er hress ef hún er með hækjurnar. Það sem fólk spyr um núna er: Fer ekki að koma að ömmu þinni á biðlistanum? Að minnsta kosti er ég oft spurð og það er eins og það sé mér að kenna að ég hef bara ekki hugmynd um það.

Myndin er af kaffikvörn ömmu minnar og staukur undan kaffibæti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband