Ekki bara blóð sviti og tár. Frásagnir kvenna úr stríði

image

Nú hef ég lokið við að lesa bók Nóbelsverðlaunahafans Svetlana Aleksijevitsj, Kriget har inget kvinnligt ansikte og ég veit ekki hvað ég á að gera við það sem ég hef verið að lesa. Á eg bara að gleyma því og láta eins og það hafi aldrei gerst eða sé ýkjur eða uppspuni athyglissjúkra kvenna. Reynsla þessara kvenna passar hvergi inn í reynsluheim minn. Sem betur fer, hef ég enga reynslu af stríði. Eiga þessar minningar eitthvað erindi við mig?

Bókin byggir á endurminningum fjölda sovétskra kvenna sem tóku þátt í stríðinu, sem hluti af herliði eða í liði andspyrnuhreyfingarinnar (Partisana). Rætur þessarar bókar liggja í viðtölum (1978-2004) sem höfundurinn tók sem blaðamaður við hundruð kvenna. Hún skrifaði hjá sér og tók viðtölin upp á segulbönd. Að lokum fór hún í gegnum þetta mikla safn upplýsinga og fann búta þar sem henni fannst sem krisalliseraðist ný sýn, nýr sannleikur um stríðið. Hún hafði áður gert bók út frá sama efni sem var ritskoðuð. Eftir fall Sovétríkjanna tók hún enn fleiri viðtöl og skrifaði nýja bók.

Hér er líklega rétt að skjóta inn að Svetlana er fædd 1948 og alin upp sem Sovétborgari. Hún er fædd í Úkraníu, alin upp í Hvíta Rússlandi, dóttir úkranskrar móður og Hvítrússa. Andrúmsloftið var mettað af eftirköstum stríðsins. Fókus frásagnanna var á fórnina, hetjuskapinn og sigurinn. Sögubækurnar greindu frá vígstöðunni, tækjum, tólum og tölulegum upplýsingum um fjölda fallinna og særðra. Sigur stríðsins var blóm í hnappagat Stalíns.

Í stríðsmenningu kvennanna var fjallað um aðra vídd stríðsins ef svo mætti segja. Þær  sögðu  frá hverdagslegum hlutum eins og mat, fatnað og sárabindum. Reyndar er oftast talað um skort á öllu þessu. Þær tala um lús, skít og nauðganir. Þær tala um óþol sitt gagnvart rauða litnum efir allt blóðið og hvernig þær töluðu við deyjandi hermenn. Þær sögðu ástin mín þótt þær hefðu aldrei séð þá fyrr. Þessar frásagnir eru á persónulegum nótum, konurnar tala um hversu þær söknuðu mæðra sinna og um flétturnar sem voru klipptar af þeim um leið og þær tala um framlag sitt til að vinna sigur. Um leið greina sumar frá "hinu stríðinu", stríðinu sem Stalín átti við þjóð sína. Margar segja frá því, fögnuðinum þegar sigur hafði unnist, þá skutu hermennirnir upp í loftið. Þeir fengu áminningu frá yfirmanni vegna sóunar á verðmætum. Það hvarflaði ekki að þeim að það þyrfti nokkurn tíma framar að nota skotvopn. Stríðið var svo hræðilegt að þeir héldu að fólk hefði lært. 

Margar af viðmælendum Svetlönu fóru kornungar í stríðið og þær beinlínist sóttust eftir því að vera sendar í fremstu víglínu. Margar þeirra fóru beint frá prófborðinu, þær fóru hópum saman, sjálfviljugar, stúlkur enn á barnsaldri, sem aldrei höfðu áður farið að heiman. Þessar stúlkur eru orðnar gamlar konur, þegar viðtölin eru tekin og stríðið situr í þeim. Margar tala um að þær hafi aldrei getað unnið úr þessum harmleik. Mér fannst merkilegt að sjá að nokkrar töluðu um að ljóð eða tónlist hefðu hjálpað sér. Konurnar voru skaðaðar af stríðinu en samt voru þær stoltar af að hafa barist.  En hér ætla ég að láta staðar numið að segja frá efni þessa stórvirkis.

Í upphafi bókarinnar segir höfundur frá því hvað henni gekk til þegar hún var að semja hana. Hún vildi ekki bara draga hlut kvennanna sem börðust, innst inni vonaðist hún til, að myndin sem konurnar drógu upp af stríðinu (sem var önnur en karlanna) gæti stuðlað að því að fólk sæi ljótleika og grimmd í stað hetjudáða og tækju afstöðu gegn hernaðarhyggju. 

Ég er ánægð að ég hélt það út að lesa þessa bók, hún er stórvirki hvort sem á að dæma út frá bókmenntafræði, sagnfræði, pólitík  eða sem framlags til blaðamennsku. Ég vona að hún verði þýdd á íslensku. Þótt stríðið sé langt að baki, eru önnur stríð og við þurfum að hafa kjark til að  horfa og sjá. 

Myndin er tekin af lágmynd í Treptow í Berlín, en þar voru greftraðar líkamsleifar 5000 sovétskra hermanna. Ég kann ekki að túlka þessa mynd en ímynda mér að hún eigi að tákna hetjudáðir partisana


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 187294

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband