Sunnudagshugleiðing trúleysingja

Ég man eftir umræðu frá því að ég var barn, um fólk sem var"svo sem ágætis fólk en það borðaði ekki slátur". Mér fannst þetta skrítið. Ekki man ég af hverju þetta barst í tal. Síðar þegar ég var 12 ára gömul, kynntist ég stelpu sem tilheyrði þessu "skrítna fólki", sem ekki borðaði slátur. Við, ég og hún, vorum saman á sundnámskeiði á Fáskrúðsfirði. Í tvær vikur var hún besta vinkona mín. Ég vissi hverra manna hún var en slátur barst aldrei í tal á milli okkar. Mér fannst hún ekkert skrítin og saknaði hennar þegar námskeiðið var á enda. Við vorum úr sitt hvoru byggðarlaginu. Á þessum tíma var samfélagið á Íslandi enn einsleitara en það er nú. 

Síðar (í menntaskóla) voru nemendur með mér í skóla, sem mættu ekki í skólann á laugardögum. Þetta þótti okkur sérviskulegt. Nú er hætt að kenna á laugardögum og það er reyndar ekkert tiltökumál lengur að nemendur sleppi skóla dag og dag. Tímarnir breytast. En eitt hefur þó ekki breyst. Við erum enn jafn óörugg gagnvart trúarsetningum fólks, þ.e.a.s. þegar þær stinga í stúf við okkar eigin.

Ástæðan fyrir því að ég fór að grufla í þessu, er afstaða presta sem vilja ekki gifta samkynhneigt fólk. Þeir túlka trúarbrögð sín á þann veg að samkynheigð sé synd. Það er þeirra trúarsetning. Þetta var í mínum huga fyrst svipað "vandamál" og að sumt fólk borðar ekki slátur, eða svínakjöt.  

Mér finnst, eins og flestum, að við eigum að sýna fólki með siðvenjum ólíkum  okkar umburðarlyndi, svo fremi sem það er ekki að troða á réLttindum annarra. Í fljótu bragði fannst mér að þetta gilti um höfnun prestanna. Þetta væri léttvægt, prestarnir ættu einfaldlega að leysa málið og fá staðgengil.

Þetta var minn misskilningur. Málið er ekki léttvægt. Þarna eru á ferðinni átök innan kirkjunnar. Þjóðkirkjan (hún heitir svo) er ekki búin að gera upp við sig í hvorn fótinn hún á að stíga í mannréttindamálum. Ætti ekki biskup sem höfuð kirkjunnar að láta til sín taka? Í mínum huga væri það nær lagi en að setja lög. Það er ekki hægt að setja lög um samvisku fólks. 

Það skýtur skökku við að ég, guðleysinginn, skuli vera að velta þessu fyrir mér. En ég tilheyri nú þessari þjóð þó ég sé utan Þjóðlirkju. Ég leitast við að láta samvisku mína styðjast við sannfæringu. Það verða trúleysingjar að gera og mér finnst það eðlilegt. Margir halda því fram að trú og sannfæring sé eitt og hið sama.  Ég er því ósammála og gruna hvern þann, sem slíkt segir um hugsanaleti. Í báðum tilvikum, hver svo sem rökstuðningurinn er, er samviskan stjórntæki einstaklingsins. Það sem allt ræðst af. Trúað fólk syndgar, við trúleysingjar gerum mistök. 

Höfnun prestanna á að vinna embættisverk sín er alvarlegt mál, ef þeir hafa með því sært tilfinningar fólks sem til þeirra leitar.  Það ætti að vera á ábyrgð yfirmanns þeirra að bregðast við því.

Þetta mál snýst ekki um svínakjöt, búrkur, slátur eða um tímasetningu hvíldardagsins. 

Þetta er mannréttindamál svo lengi sem rétturinn til að gifta er í höndum trúfélaga og lífsskoðunarhópa. 

Giftum okkur hjá dómara. Ég hef aldrei heyrt um að samviskan veltist fyrir þeim. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Höfnun prestanna á að vinna embættisverk er alvarlegt mál"

Ekki hvarflar að mér að bera blak af prestunum og ég segi eins og þú, ég guðleysinginn ætti svo sem ekki að vera að velta þessu fyrir mér. En ef við lítum nú bara á þetta sem embættisverk þá held ég að flestir embættismenn hafi staðið frammi fyrir verki sem þeir einhverra hluta vegna treystu sér ekki til að vinna og var þá fenginn annar í hans stað. Og ég get ekki ímyndað mér að nokkurn langi til að prestur sem er andvígur hjónavígslunni fremji verknaðinn. Held að allt venjulegt fólk vilji heldur hafa prest sem stæði með sér.  Sé prestur andvígur þá liggi beinast við að leita til annars.

Guðrún Hallgrímsdóttir (IP-tala skráð) 27.9.2015 kl. 23:03

2 identicon

Sæl Bergþóra, hér verð ég að vera þér ósammála og sammála Guðrúnu. Ef prestur ( samvisku sinnar vegna ) vill ekki gefa saman samkynhneigt par, þá verður það svo að vera, því eins og þú skrifar "Ég leitast við að láta samvisku mína styðjast við sannfæringu." Ef það stangast á við sannfæringu og samvisku prests þá verður svo að vera. Ég spyr; Hver vill láta prest framkvæma starf sitt tilneyddan gegn eigin samvisku '

Kjartan (IP-tala skráð) 28.9.2015 kl. 11:36

3 identicon

Ef að læknir vill ekki taka á móti svörtum einstaklingum, eða kennari vill ekki kenna rauðhærðum börnum, eigum við þá að lúta til "samviskufrelsi þeirra?" Ég spyr: hver vill láta lækni eða kennara framkvæma starf sitt tilneyddan gegn eigin samvisku?
Það á ekki að leyfa heimsku fordómafullu fólki að komast upp með svona, sérstaklega ekki þar sem við erum að borga ofurlaunin þeirra. Ef að manneskja getur ekki unnið vinnuna sína að sökum ógeðslegu fordóma sinna, þá á að reka þá manneskju.

Grétar Örn Axelsson (IP-tala skráð) 28.9.2015 kl. 14:05

4 identicon

Takk fyrir að lesa pistilinn og takk fyrir allar athugasendirnar. Ég ætlast ekki til að fólk sé sammála, þaðan af síður að það sé sammála mér. En mér finnst undarlegt að þjóðkirkjan sjálf taki ekki á þessu máli, henni hefur verðið falið ákveðið verkefni. 

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 28.9.2015 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband