Krefjandi fjölskylda

image

Það var 16. mars sem ég hóf lestur Karamazovbræðranna eftir Dostojevskí, síðan hefur þessi fyrirferðarmikla fjölskylda og fylgifiskar búið hjá mér. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hleypi þeim inn, ég las bókina fyrst í Svíþjóð á áttunda áratugnum og síðar þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur þegar hún kom út 1991.

Eiginlega er ekki rétt, í þetta skipti, að tala um lestur. Því ég hlusta. Sjónin er að versna hjá mér og þá má líta á það sem lán í óláni, að þá fær maður aðgang að Hljóðbókasafni Íslands. En ég ætla ekki að ræða meira um ólanið hér, heldur um lánið og svo auðvitað um Karamazovana sem liggja mér framarlega á tungu. Þeir eru fyrirferðarmiklir. 

Það er öðru vísi að hlusta á bækur en að lesa þær. Þegar maður les, túlkar maður textann sjálfur og skapar söguna sem maður les með höfundi, þegar maður hlustar er kominn milliliður sem milli mín og textans. Það skiptir því miklu máli hvernig hann kemur sögunni til skila, hann túlkar. Ég hefði kosið að ég þyrfti ekki á þessum túlk að halda og les því oft bækur með stækkunargleri að vopni frekar en sætta mig við lélegan eða geldan lestur.

Í þetta skipti hafði ég heppnina með mér, því bókin er lesin af Sigurði Skúlasyni og hann les listavel. Bókin tekur u.þ.b. 36 tíma í lestri og hún er ekkert léttmeti. Hvort sem það er Sigurði að þakka eða kenna, fór ég allt í einu að hugsa um Bræðurna Karamazov sem glæpasögu, krimma. Réttarhöldin bera af öðrum glæpasöguréttarhöldum sem ég hef lesið. Já, það eru mörg matarholan á Karamazov. 

Jafnframt því að lesa þessa bók, get ég ekki stillt mig um að lesa mér til um höfundinn, Dostojevskí (f. 1821 d. 1881). Hann var merkilegur maður og líf hans var óvenjulegt miðað við skáld þessa tíma, held ég. Kannski er bölvuð vitleysa að segja svona, því hver og ein ævi er einstök.Ég fæ ekki betur séð en Dostojevskí gæði allar persónurnar einkennum frá sjálfum sér. Ég fór fyrst að hugsa um þetta út frá bræðrunum. Hinn lífsþyrsti svallari Dmítri hafði verið í hernum, menntamaðurinn Ívan, var gagnrýninn raunvísindamaður og hinn blíðlyndi Alexei, var á kafi í guðfræðilegri heimspeki. Launbróðirinn, Smerdjakov sem aldrei var tekinn inn í hópinn, var flogaveikur. Og það er næstum sama hvaða persóna er skoðuð, öllum persónum leggur hann til eitthvað sem hann á sjálfur til og gjörþekkir.

Ég kem til með að ljúka þessari bók í dag en ég á ekki von á að það breyti miklu í bráð. Þetta fólk á eftir að ílendast hér á heimilinu.

Verði svo og verði svo. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 187200

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband