Rannsóknin: Góð en óhugnanleg skáldsaga

220px-Philippe-Claudel-Il-y-a-longtemps

Það er svo mikið framboð af bókum, að það er alveg óþarfi að lesa nema góðar bækur. Það er nú eitthvað annað en það sem ég bjó við í æsku þegar framboðið var takmarkað og maður las allt það sem að kjafti kom. Það var talsvert til af bókum á heimili mínu og svo höfðum við einnig aðgang að bókasafni hreppsins sem var til húsa á kaupfélagsloftinu í umsjón Baldvins innanbúðarmanns. En allt þetta hrökk ekki til því það var svo sem ekki mikið annað við tímann að gera en lesa þegar ekki þurfti að vinna og á illviðrisdögum þegar ekki var hundi út sigandi. Og það var ýmislegt sem leyndist í hillum og kössum. Eitt það sérstæðasta sem ég las, held ég, var kver, Einvaldsklærnar eftir Einar í Hvalnesi. Hún var skrifuð á mögnuðu máli um samskipti hans og Kaupfélags Austur-Skaftfellinga í hörmulegum veikindum konu hans. Ég var sorgbitin þegar ég las þessa bók enda lauk henni á því að segja frá því að konan dó (minnir mig). Þetta er nú orðinn langur útúrdúr eða inngangur að því sem ég ætlaði að skrifa um en það er bókaval mitt í allsnægtum bókmenntanna þegar ég kom úr sumarfríi. Það biðu mín tveir bókapakkar frá bókaklúbbum (sem maðurinn minn er áskrifandi) auk alls annað sem hafði rekið á fjörur okkar frá bókelskum vinum.

Ég valdi mér bókina Rannsóknin eftir Philippe Claudel. Hún var þynnst (191 síður) og auk þess stóð á forsíðu bókarinnar að Philippe Claudel skipaði sér á bekk með Kafka og Aldous Huxlay. Ég hafði áður lesið eina bók eftir þennan höfund, Í þokunni (2008). Mér þótti sú bók góð. Hún færði mig til baka til tíma fyrri heimstyrjaldar á einhvern sannfærandi hátt sem aðrar bækur (og kvikmyndir) frá þessum tíma hafa ekki gert jafn vel. En til baka til Rannsóknarinnar sem átti að vera umfjöllunarefni hér því nú er ég búin að lesa hana.

Bókin um rannsóknina er í einu orði sagt MARTRÖÐ. Eins og einn langdreginn vondur draumur sem maður undir niðri heldur stöðugt að maður sé að vakna upp af en svo heldur hann áfram. Bókin segir frá Rannsakandanum sem hefur verið úthlutað því verkefni að rannsaka óeðlilega háa sjálfsmorðstíðni í fyrirtæki í ókunnu þorpi og hefst þegar hann er að fara út úr lestinni. Erfiðleikar mannsins hefjast þegar. Hann á í erfiðleikum með að finna hótel og hann á líka í erfiðleikum við að komast þangað. Þegar inn er komið tekur ekki betra við, allt sem mætir honum þar er vægast sagt sérkennilegt og fráhrindandi. Öllu þessu er lýst af mikilli kostgæfni og lesandanum finnst næstum að hann sjái, heyri og finni lyktina ekki síður en söguhetjan, Rannsóknarmaðurinn. Ég hélt að þarna væri bara verið að lýsa byrjunarerfiðleikum manns á ókunnum slóðum í ýkjustíl en ástandið myndi lagast, hann aðlagast og síðan kæmist hin eiginlega saga í gang, frásagan að rannsókninni. Sú hugmynd mín var þó fjarri raunveruleikanum, þ.e. því sem átti eftir að gerast. Vandræði mannsins áttu bara eftir að versna og það sem í fyrstu var hægt að afgreiða sem ýkjur breyttist í fjarstæður. En alla tíð var bókin jafn sannfærandi og það var ekki hægt að leggja hana frá sér frekar en að fara út úr vondum draumi eða martröð.

Eftir að ég hef lagt frá mér bókina hef ég velt fyrir mér efni hennar eða öllu heldur, það hefur sótt að mér. Er þetta ádeila? Eða er höfundurinn einfaldlega að lýsa tilgangsleysi lífsins á jörðinni. Eða er þetta eitthvað enn annað eða allt þetta og fleira til. Eiginlega er mér alveg sama því bókin færði mér eitthvað sem ég þó kann ekki að lýsa. Þetta er sem sagt að mínu mati góð bók því hún gefur mér sömu tilfinningu og bækur sem ég las hér í gamla daga þegar ég vissi ekkert um bókmenntir og bara hreifst með af því ég var ung og móttækileg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband