Om man ännu finns:Rose Lagercrantz:Lítil bók um mikil örlög

Í bókinni OM MAN ÄNNU FINNS segir Rose Lagercrantz frá síðustu dögum móður sinnar. Gamla konan á ekki afturkvæmt á heimili sitt eftir beinbrot. Dótturinni, sem heimsækir hana og dvelur hjá henni löngum stundum á hjúkrunarheimilinu, finnst erfitt að horfa upp á hvernig hún hefur tapað lífslönguninni og visnar brott. Hún hugsar um heiminn sem heiminn sem hverfur með henni. Móðirin, Ella, er gyðingur og ein af þeim sem lifði af. Reyndar eru báðir foreldrar hennar gyðingar sem höfnuðu í Svíþjóð. Þau vilja eða geta ekki talað um það sem gerðist svo dóttirin verður að sætta sig við að alast upp i sögulausu umhverfi og það sem hún veit á hún erfitt með að útskýra. Hvernig á hún að koma því til skila að móðir hennar sé eiginlega rúmensk eða ungversk og pabbinn frá Prag og það sé þess vegna töluð þýska á heimilinu? smátt og smátt púslar hún saman sögu foreldra sinna með því að spyrja og með því að hlusta á ættingjana sem lifa enn.  

Leit Rose Lagercrantz minnir um margt að leit ættleits barns að uppruna sínum. Hún er í raun að leita að sjálfri sér. Samtímis stendur hún frammi fyrir ógninni af fallvaltleikanum, það voru svo margir sem dóu og og foreldrar hennar voru svo nærri því að hljóta sömu örlög. Móðir hennar lýsir því hvað eftir annað yfir að hún sé ekki viss um að hún sé til. Ættingjarnir, þeir sem sluppu, búa víðs vegar um heiminn, þeir eru flóttafólk, þeir munu aldrei snúa heim. Rose leggur sig eftir að halda sambandi við þessa ættingja, þannig fær hún söguna og þannig verður hún húm. 

Þetta og margt fleira leitar á huga höfundar um leið og hún fylgist með móður sinni bíða dauðans. Um leið hugsar hún um eigin hamingju því hún hefur átt gott, verndað og ríkt líf. 

Það er merkileg tilviljun að rekast á þessa bók rétt um leið og ég var að ljúka bók Þórunnar Erlu og Valdimsrsdóttur, þar sem hún er í raun að fylgja móður sinni síðasta spölinn. Báðar eru þær (finnst mér) að leita svara við sömu spurningunni: Hver er ég? Eða er spurningin hvernig varð ég, ég? Þórunn með frændgarðinn allt í kring um sig en Rose Lagercrantz með stórar eyður. Mér verður hugsað til fólksins míns sem er farið. Er kannski komið að mér að setja eitthvað á blað?

 


Stúlka með maga:Þórunn Erlu Valdimarsdóttir

Hef lokið við að lesa bók Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur en er enn á valdi sögunnar. Ég er meira að segja búin að draga fram fyrri bók höfundar, Stúlka með fingur, sem mig grunaði að tengdist efninu og komst að því að sá grunur reyndist vera réttur.

Stúlka með maga er skrýtin bók, hún er engu lík. Í henni er urmull af fólki, ég hafði heyrt af þessu frá öðrum og grunaði að Þórunn væri hér að nýta sér forna hefð ættartala sem ég veit af reynslu að enginn skyldi hundsa, því annars nær hann aldrei utan um efni og átök frásagnarinnar. Ég lagði mig því  eftir nöfnum og bjó mér í huganum til töflur um skyldleika.  Það reyndist mér vel. En það var ekki bara þetta sem gerði bókina sérstaka heldur ekki síður hitt, að sögumaður talar stöðugt til okkar í núinu (svona inn á milli) og kemur með athugasemdir, sem ekki eru alltaf auðskiljanlegar. Ég þurfti stundum að staldra við og lesa endurlesa. Oft hló ég. Þetta fannst mér gaman.

En þetta var erfið bók því hún er saga margra kynslóða og fer fram og til baka í tíma og maður þurfti stöðugt að gæta að á hvaða öld maður var staddur, á hvaða stað og hvernig tengist nú aftur þessi persóna sögumanni. En það var samt ekki þetta sem truflaði mig mest, heldur var það hvað ég átti erfitt með að ríghalda í það að sögumaðurinn er eða á að vera móðir Þórunnar en ekki hún sjálf (höfundurinn). Rödd Þórunnar og tungutak hljómaði svo sterkt inn í höfði mér að ég gleymdi mér. En lesandinn þarf að muna að það er móðirin, veik af krabba og sem segir sögu sína um leið og hún er að sætta sig voðaleg örlög sín og gera upp líf sitt.

Mér fannst þetta góð bók, þótt ég þyrfti talsvert fyrir henni að hafa. Ég velti fyrir mér hvernig höfundur hafði hugsað hana. Mér fannst hún vera eins og teppi ofið úr garni af ólikum toga, sumt var í sauðalitunum, annað glitraði og sumstaðar grillti í perlur sem voru ofnar inn í voðina.

Ég veit að ég er hreint ekki hlutlaus í dómum mínum um þessa bók. Hún gerist að stórum hluta í sveit og þar finn ég mig heimakomna, velkomna. Og hún fjallar mikið um fólk á Snæfellsnesi og þar þekki ég mig líka vel, þar voru heimkynni afa og ömmu drengjanna minna og þar var þeirra frændgarður. Ég gat ekki stillt mig um að fá lánaða bók með sveitalýsingum á Eyja- og Miklaholtshreppi. Þar segir af ,,mínu" fólki í Borgarholti. Í þessari bók er notað stafrófið til að halda reiður á systkinahópnum og upptalningunni lýkur á S (broddstafir ekki meðtaldir). Afi sögumanns Stúlka með maga (langafi Þórunnat) ólst upp í Borgarholti en það var fyrir tíma Þórðar og  Sesselju afa og ömmu drengjanna minna. En þetta var útúrdúr (en alveg í anda Þórunnar). 

Mér finnsy Þórunn vera að leitast við að svara spurningunni, hver er ég og hvernig varð ég ég. Eða er það mamma hennar sem er að hugsa þetta?

Ég vona að það sé ljóst að mér fannst mikið í þessa bók spunnið og að hún verðskuldaði tímann sem fór í að lesa hana og erfiðið. 


Klefi nr. 6: Ferðalag með Síberíulestinni til Ulan Bator: Rosa Liksom

Bókin klefi nr 6 varð fyrir valinu í bókaklúbbnum. Við erum að reyna að færa út sjóndeildarhringinn og lesa um það sem við þekkjum ekki.

Bókin segir frá ungri konu, nemanda sem tekur sér far með Síberíulestinni til Úlan Bator í Mongólíu. Hún er í bókinni kölluð stúlkan. Við fáum fljótlega að vita að hún er finnsk og stundar nám í Moskvu. Hún hefur pantað sér far, klefanúmerið er 6 en hún veit ekki hver eða hverjir verða með henni í klefa. Um það fær hún engu ráðið. Það kemur í ljós að það er miðaldra karlmaður, Rússi á leið í byggingarvinnu. 

Við kynnumst þessum tveimur persónum i þessa þrönga rými í gegnum samskipti þeirra og samskiptaleysi. Hann talar, hún dvelur í sínum hugarheimi og rifjar upp líf sitt og hugur hennar leitar stöðugt uppi vanda sem hún stendur frammi fyrir. Ferðafélaginn, Maðurinn, er orðljótur drykkjusvoli fullur kvenfyrirlitningar. Þvílíkt orðfæri. Og svo drekkur hann vodka út í eitt og er reyndar einnig afar vel nestaður. Mér var óskiljanlegt hvernig stúlkan afbar að vera í návist hans.

Bókin segir reyndar ekki bara sögu þessara klefafélaga heldur líka sögu Sovétríkjanna. Og svo málar hún myndir af landslaginu, borgunum og þorpunum sem lestin brunar um og við fáum einnig að skynja veðrið, myrkrið og stjörnuhimininn.  

Mér fannst erfitt að lesa þessa bók vegna grófyrðanna og sóðaskaparins, hvernig á maður að halda áfram að umgangast slíkt, jafnvel þótt það sé í bók? En bókin var spennandi, því höfundur hafði lag á að láta svo lítið í té um þetta fólk að maður beið stöðugt eftir því að fá skýringar á hegðun þess. Af hverju var stúlkan að fara í þessa ferð? Hver var þessi maður eiginlega? 

Eins og ég sagði í upphafi var það bókaklúbburinn sem valdi þessa bók. Því kom það mér á óvart þegar ég komst að því að ég hafði fleiri en eina tengingu inn í efni hennar. Á áttunda áratugnum  (1972) fóru tvö pör og ein telpa á útmánuðum í ævintýralega ferð um Pólland. Við gistum aðalleg á farfuglaheimilum og ólöglegum heimagistingum nema einu sinni splæstum við á okkur hóteldvöl og ekki af verra taginu. Við fengum sex manna herbergi á fínu skíðahóteli í Zakkopane. Pólsk hjón deildu því með okkur. Um kvöldið tóku þau fram vin, brauð og osta og sögðu okkur að þau vildu hafa mikið við af því þau væru í brúðkaupsferðalagi. Þeim fannst ekkert óeðlilegt að deila með okkur herbergi, þessa nótt og sögðu að þannig gerði maður i þeirra landi. Hin tenging mín við ferðalag stúlkunnar með Síberíulestinni var að sonur minn fór þessa sömu leið um miðjan vetur fyrir nokkrum árum reyndar bara til Burjatiu. Ég var afskaplega kvíðin út af þessu ferðalagi og hélt honum yrði kalt og varð afar fegin þegar hann sendi mynd í tölvupósti þar sem hann var í vígalegum frakka með volduga loðhúfu.

Sigurður Karlsson þýðir þessa bók og textinn er mjög læsilegur, víða næstum ljóðrænn. Þannig hugsaði stúlkan. Aftur á móti undraðist maður margsinnis hvað Sigurður kunni fyrir sér í grófyrðum, þessi prúði maður, en hann þurfti svo sannarlega á þeim að halda til að koma til skila einræðum Mannsins, ferðafélaga stúlkunnar.

Það var merkilegt að lesa þessa bók og hún skilur eftir margar spurningar. Ég hlakka til að ræða hana við stöllur mínar í klúbbnum. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2014
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 187241

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband