Klefi nr. 6: Ferðalag með Síberíulestinni til Ulan Bator: Rosa Liksom

Bókin klefi nr 6 varð fyrir valinu í bókaklúbbnum. Við erum að reyna að færa út sjóndeildarhringinn og lesa um það sem við þekkjum ekki.

Bókin segir frá ungri konu, nemanda sem tekur sér far með Síberíulestinni til Úlan Bator í Mongólíu. Hún er í bókinni kölluð stúlkan. Við fáum fljótlega að vita að hún er finnsk og stundar nám í Moskvu. Hún hefur pantað sér far, klefanúmerið er 6 en hún veit ekki hver eða hverjir verða með henni í klefa. Um það fær hún engu ráðið. Það kemur í ljós að það er miðaldra karlmaður, Rússi á leið í byggingarvinnu. 

Við kynnumst þessum tveimur persónum i þessa þrönga rými í gegnum samskipti þeirra og samskiptaleysi. Hann talar, hún dvelur í sínum hugarheimi og rifjar upp líf sitt og hugur hennar leitar stöðugt uppi vanda sem hún stendur frammi fyrir. Ferðafélaginn, Maðurinn, er orðljótur drykkjusvoli fullur kvenfyrirlitningar. Þvílíkt orðfæri. Og svo drekkur hann vodka út í eitt og er reyndar einnig afar vel nestaður. Mér var óskiljanlegt hvernig stúlkan afbar að vera í návist hans.

Bókin segir reyndar ekki bara sögu þessara klefafélaga heldur líka sögu Sovétríkjanna. Og svo málar hún myndir af landslaginu, borgunum og þorpunum sem lestin brunar um og við fáum einnig að skynja veðrið, myrkrið og stjörnuhimininn.  

Mér fannst erfitt að lesa þessa bók vegna grófyrðanna og sóðaskaparins, hvernig á maður að halda áfram að umgangast slíkt, jafnvel þótt það sé í bók? En bókin var spennandi, því höfundur hafði lag á að láta svo lítið í té um þetta fólk að maður beið stöðugt eftir því að fá skýringar á hegðun þess. Af hverju var stúlkan að fara í þessa ferð? Hver var þessi maður eiginlega? 

Eins og ég sagði í upphafi var það bókaklúbburinn sem valdi þessa bók. Því kom það mér á óvart þegar ég komst að því að ég hafði fleiri en eina tengingu inn í efni hennar. Á áttunda áratugnum  (1972) fóru tvö pör og ein telpa á útmánuðum í ævintýralega ferð um Pólland. Við gistum aðalleg á farfuglaheimilum og ólöglegum heimagistingum nema einu sinni splæstum við á okkur hóteldvöl og ekki af verra taginu. Við fengum sex manna herbergi á fínu skíðahóteli í Zakkopane. Pólsk hjón deildu því með okkur. Um kvöldið tóku þau fram vin, brauð og osta og sögðu okkur að þau vildu hafa mikið við af því þau væru í brúðkaupsferðalagi. Þeim fannst ekkert óeðlilegt að deila með okkur herbergi, þessa nótt og sögðu að þannig gerði maður i þeirra landi. Hin tenging mín við ferðalag stúlkunnar með Síberíulestinni var að sonur minn fór þessa sömu leið um miðjan vetur fyrir nokkrum árum reyndar bara til Burjatiu. Ég var afskaplega kvíðin út af þessu ferðalagi og hélt honum yrði kalt og varð afar fegin þegar hann sendi mynd í tölvupósti þar sem hann var í vígalegum frakka með volduga loðhúfu.

Sigurður Karlsson þýðir þessa bók og textinn er mjög læsilegur, víða næstum ljóðrænn. Þannig hugsaði stúlkan. Aftur á móti undraðist maður margsinnis hvað Sigurður kunni fyrir sér í grófyrðum, þessi prúði maður, en hann þurfti svo sannarlega á þeim að halda til að koma til skila einræðum Mannsins, ferðafélaga stúlkunnar.

Það var merkilegt að lesa þessa bók og hún skilur eftir margar spurningar. Ég hlakka til að ræða hana við stöllur mínar í klúbbnum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fór þessa leið, reyndar frá Danmörku og að Japanshafi (og sigldi yfir það) fyrir mörgum árum. Ætla að skrifa um það.

Guðrún Ægisdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2014 kl. 02:43

2 identicon

Það hefur verið ævintýri.,Fékkstu jafn ,,ljarnyrtan" klefafélaga?

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 187434

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband