
Nú er ég komin til baka úr árlegri ferð minni austur í Breiðdal. Við fórum austur sunnan jökla og til baka norðurleiðina. Við tókum okkur góðan tíma í ferðina því auk dvalarinnar í Breiðdal gistum við eina nótt í Skaptafelli, eina á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal í frábæru svefnpokaplássi með morgunverði og aðgangi að sundlaug. Loks gistum við á tjaldstæðinu á Húsavík þar sem við gengum upp á fjallið sem gnæfir yfir bæinn. Það er ekki amalegt að vera á ferðalagi í því frábæra veðri sem verið hefur. Ég hef aldrei sé meira af heyböggum á ævi minni. Hjá mér var þessi ferð blómaskoðunarferð. Ég hef sett mér það fyrir að læra sem flest blóm sem tilheyra íslensku flórunni. Þau eru alls ekki nema 470 (sbr. Ágúst Bjarnason) svo það ætti að vera gjörlegt. Mér finnst vera mest fjölbreytni og fegurð blóma á Austurlandi. Það þarf ekki nema að fylgjast með litadýrðinni í vegkantinum til að komast að þeirri niðurstöðu þó ég mæli ekki með því. Það er betra að fara í lautaferð eða fjallgöngu. Blómin á myndinni eru brenninetlur sem spretta í bæjarrústum í Húsey en þaðan var Jenný Sigurðardóttir skólasystir mín. Blessuð sé minning hennar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.