18.6.2023 | 14:09
Ferð til Skotlands og Orkneyja
Það hefur orðið nokkur dráttur á því að ég skrifi blogg, ég veit ekki hversvegna. En það gerir mér gott að skrifa, og einstaka les þetta.En nú hef ég þó frá einhverju að segja.
Ég hef verið á ferðalagi um Skotland
og Orkneyjar, verið á slóðum Auðar djúpúðgu.
Ferðin hófst, ef svo mætti segja á Flugvellinum í Glasgow en þar tók á móti okkur rúta og þrír fararstjórar. Síðan var ekið norður Skotland.
Skotland er fallegt, meira að segja út um bílglugga. Þar skiptast á vötn, skógar, dalir og fjöll. Landið á sér merka sögu, Snorri fararstjóri okkar fræddi okkur um hana á leiðinni norður. Saga norrænna manna er aðeins hluti af henni. Þá sögu er m.a. að finna í Orkneyingasögu, sem ég hef enn ekki lesið til fulls. Lokakaflinn í Njálu gerist einnig þar, því þangað fer Kári eftir brennuna. Við skoðuðum hrundar hallir og eina fallega höll sem er til sýnis fyrir ferðamenn. Auk þess fengum við að sjá eitt almúga- hús, tilgátuhús, sem var gert eftir hugmyndum um húskost fyrri tíma. Mér fannst það minna um margt á okkar eigin torfbæi. Miðað við húsakostinn gæti ég hugsað mér að höfðingjarnir þar um slóðir hafi verið ríkari og fátæklingarnir enn fátækari en hér gerðist. Mér fannst hallir og hallarrústir bera þess vott.
Orkneyjar
Orkneyjarferjan skilaði okkur út í Orkneyjar eins og til stóð. Sú sigling minnti mig á Akraborgina fyrrum, sem ég sigldi oft með til að stytta mér akstur, þegar ég bjó í Borgarnesi.
Orkneyjar gætu alveg eins heitið Flatey, því hún rís ekki hátt úr sjó. Hún er skóglaus og því afar ólík hinu græna Skotlandi. Við fengum leiðsögn um hana og skoðuðum m.a. uppréttar steinhellur. Þessar minjar minntu mig á minjar
sem ég skoðaði eitt sinn í Svíþjóð, Aalisstenar. Þarna var líka að finna enn eldri minjar. Þ.e.a.s. frá steinöld. Mér þóttu þær ekki síður áhugaverðar. Merkilegast fannst mér þó að skoða Magnúsarkirkjuna í Kirkwall. Þetta er heljarinnar mannvirki. Bygging hennar hófst 1137. Hún var reist til minningar un Magnús Jarl Erlendsson, sem er nú helgur maður með yfirlýsingu frá páfa.
Hvenær lýkur ferð?
Við lok ferðar tókst mér að verða mér út um slæma kvefpest eða flensu. Þurfti því að hafa hægt um mig, þvert á vilja minn. Því á ferðalögum verður ævinlega til langur listi um það sem ég ætla að gera þegar ég kem heim. Þetta varð til þess að ég vann óvenju vel úr ferðalaginu. Fann mér bækur sem ég hlustaði á. Það sem mér fannst nýtast mér best, var bók um Orkneyjaferð, Í kjölfar jarla og víkinga eftir Þorgrím Gestsson. Skemmtileg bók.
Lokaorð
Nú er sú bók búin og pestin á förum. Eftir sit ég og rifja upp ferðalagið og kemst að því, að slíka ferð gæti ég vel hugsað mér að fara aftur. Þá myndi ég skoða betur búskaparhætti og þá sérstaklega dýrin, sem ég sá aðeins tilsýndar í þessari ferð. Og gefa mér tíma til að fara í söfn.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.