28.11.2022 | 18:52
Millibilsmaður: Hermann Stefánsson
Millibilsmaður
Bókin Millibilsmaður eftir Hermann Stefánsson er í senn skemmtileg og spennandi. Ég lauk við hana klukkan 3 að nóttu. Gat ekki hætt. Nú, þegar ég er án allra skuldbindinga finnst mér gott að láta það eftir mér að gleyma mér yfir bókum. Sagan segir frá ungum læknishjónum í upphafi 20. aldar. Þetta er söguleg skáldsaga. Höfundur greinir frá þessu í stuttum formálsorðum. Jafnframt lætur hann þess getið að aðalpersónan, Jannes eigi ýmislegt sameiginlegt með Guðmundi Hannessyni langafa hans. Ég ímynda mér svo að sama gildi um Mekkín,konu læknisins. Guðmund kallar höfundur Jannes. Persónur sögunnar eru meira og minna landsþekktar persónur sem heita ýmist eigin nöfnum eða nöfn eru brengluð. Ég geri mér ekki grein fyrir hvað ræður.
Vísindi og trú
Læknirinn er menntaður og hugsar sem vísindamaður. Hann vill ekki bara þekkja kvillana, hann vill skilja hvernig þeir tengjast samfélaginu þar sem þeir þrífast í. Læknirinn og kona hans vinna náið saman en þau hugsa ólíkt. Hann vill ekki láta skíra börnin. Honum finnst það beinlínis ljótt, því skírninni er ætlað að hreinsa þau af erfðasyndinni. Það er ljótt að klína svona löguðu á börn. Hann hugsar eins og ég og Helgi Hóseasson sveitungi minn. Konu hans Mekkín finnst rétt að fylgja hefðinni og skíra börnin. Kannski er hún trúuð, hugsar hann.
Læknisfræðin byggir á vísindalegri hugsun og hann hefur tamið sér að hugsa þannig. Það þarf að vera hægt að sanna eða afsanna.
Fjölbreytt efni
Efni bókarinnar er fjölbreytt. Jannes hefur áhuga á svo mörgu. Auk læknastarfsins lætur hann sig varða umhverfismál og pólitík. Svo stendur hann í húsbyggingu og kennir læknisfræði. Hann hefur áhuga á fólki og blandar geði við hvern sem er. Frásagan um samskipti hans við utangarðsfólkið Zakkarías og Konkordíu er til marks um það. Og kveðskapur Konkordíu er glæsilegur.
Spíritismi
Í Reykjavík þessa tíma blómstrar spíritismi. Hluti af menntaðri borgarastéttinni lítur á spíritisma sem svar trúaðra við vísindahyggjunni. Þeir vildu á þann hátt sanna trú sína, með því að gægjast inn í annan heim. Þetta eru ólíkir hugmyndaheimar sem takast á. Miðilsfundir eru vísindaleg sönnun á framhaldslífi. Hugsa þeir.
Um leið er tekist á um stöðu Íslands gagnvart Danmörku.
Ólíkir hugmyndaheimar
Í þessari bók er sagt frá væringum á milli þessara hópa. Fyrir mér er þetta kunnuglegt. Þegar ég var barn, fann ég bók sem gaman var að glugga í. Þetta var tímaritið Dvöl. Pabbi hafði meira að segja bundið hana inn. Þar var fjallað um Spíritisma og það voru meira að segja myndir.
Þegar fortíðin lifnar við
Það var gaman að lesa þessa bók, það var eins og að vera stödd þarna. Mér fannst það merkilegt, því ég man ekki betur en að tímabilið upp úr 19-hundruð, væri leiðinlegasti kaflinn í Íslandssögunni á sínum tíma.
Hljóðbókin
Ég móttók bókina sem hljóðbók. Það er Árni Blandon sem les. Mér fellur vel lestur hans. En bókin sjálf er til hér á heimilinu. Hún er afar falleg. Innábrot kápunnar er blómum skreytt og mér varð hugsað til Mekkín, skyldi þetta vera hennar handverk? Ég efast reyndar um það en í bókinni er sagt frá því þegar hún mitt í öllum erlinum á fjölmennu heimili, dundar við að mála blóm.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 72
- Frá upphafi: 188989
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það stendur með smáu letri bak við titilsíðu að málverkið ER eftir Mekkín Karólínu, konu læknisins. Ég er byrjuð á bókinni og líst vel á. Ég hef lesið bækur Einars H. Kvaran og finnst þetta er einmitt áhugavert þess vegna.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 1.12.2022 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.