Vatnsdæla: Fyrirheitna landið

4F6CF178-EA18-471D-B9F9-6689ABF9D808

Vatnsdæla

Góðar bækur les maður oft. Þegar ég var búin að eta mig metta af jólabókaflóðs-bókunum, fannst mér röðin vera komin að Vatnsdælu. Ég hef ekki lesið hana síðan ég bjó í Húnaþingi. Þá gat ég líka glöggvað mig á staðháttum sögunnar. Þ.s.a.s. þeim sem gerast á Íslandi. Upphafskaflar sögunnar gerast í Noregi eins og í flestum Íslendingasögum. Í Vatnsdælu er þessi aðdragandi óvenjulangur og skemmtilegur.Í þessum kafla er m.a. sagt frá því, af hverju Ingimundur Þorsteinsson flytur til Íslands. Í tilviki margra Íslendinga, var ástæða þess að menn yfirgáfu ættland sitt og námu land á Íslandi sú, að þeir voru að flýja harðræði Haraldar hárfagra. En það átti ekki við um Ingimund, hann var búinn að koma sér innundir hjá konungi og framtíðin var björt. Þá koma til sögunnar  fjölkunnugir finnar sem réðu í framtíð hans. Þeir sögðu að örlög hans yrðu þau að hann flytti til Íslands og þeir sáu meira að segja hvar hann myndi setjast að. Það má ekki rugla þessum finnum saman við þá sem við köllum Finna í dag, þetta voru menn sem

voru skyggnir á framtíð manna.

Ingimundur hlýðir spá finnanna og býr sig til ferðar í samráði við konung sinn. Hann siglir til Borgarfjarðar og býr vetrarlangt hjá Grími vini sínum á Hvanneyri. Því næst fer hann og allt hans lið  landleiðina norður. Ég ætla ekki að lýsa þeirri ferð í smáatriðum en Ingimundur var duglegur  að finna nöfn á landslagið. Hann þurfti aftur að hafa vetursetu áður en hann fann fyrirheitna landið.

Ég á erfitt með að sjá þetta ferðalag fyrir mér en finnst að það minni á eyðimerkurgöngu Mósesar í Biblíunni, þegar hann leiddi brottför Gyðinga frá Egyptalandi til þeirra

fyrirheitna  lands.

Þegar Ingimundur og hans fólk voru komin þangað sem við í dag köllum Vatnsdal, var Ingimundur farinn að þekkja sig út frá spásögn finnanna. Og þegar leiðin liggur örlítið upp með Vatnsdalsá ávarpar konan hann og segir:“Hér mun ek dvöl eiga nokkra því ég kenni mér sóttar.“ Ingimundur svaraði. “Verði það að góðu.“ Ekkert segir af fæðingunni en konan, Vígdís, ól þar dóttur. Faðir hennar Ingimundur nefndi hana Þórdísi, það var hlutverk feðra að nefna börn.

Mér hefur einhvern tíma verið sagt, að þetta sé fyrsta saga af fæðingu barns á Íslandi. Vesturhúnvetningar hafa reist stein til minningar um þetta atvik og plantað skógi. Þar heitir Vígdísarlundur. Fallegur staður fyrir ferðamenn til að skoða á ferðalögum.

Ingimundur fann bæjarstæði sitt og reisti þar bæ sinn og hof. Hann nefndi bæinn að Hofi og heitir svo enn.

Það var ekki ætlun mín að endursegja Vatnsdælu, enda ærið verk, ástæða þess að ég settist við tölvuna var,  að við þennan lestur nú, fannst mér Vatndæla ótrúlega margorð. Persónur sem eitthvað kveður að halda langar ræður. Ég hafði aldrei tekið eftir þessu við fyrri lestra sögunnar og fór að reyna að rifja upp hvort svo væri enn hjá núverandi Húnvetningum. Tala þeir meira en aðrir? Hefur þetta verið rannsakað?

Endurlestur er alltaf nýr lestur

Það skemmtilega við að lesa bækur oft er að maður sér þær alltaf upp á nýtt, finnur nýjan fróðleik.

Í þetta skipti tók ég t.d. eftir því að það var talið  eðlilegt og gagnlegt að nota vísur sem mælieiningu á tímalengd. Þetta var fyrir tína klukku og vasaúra. Þetta gerir Þorsteinn Ingimundarson þegar hann biður smalamann sinn að banka upp á hjá Hrolleifi og Ljótu móður hans að Ási. Hvað urðu þetta margar vísur, segir hann, þangað til komið var til dyra? Þær voru 12 svaraði smalinn. 12 vísna tímalengd var nógu langur tími til að koma við göldrum. Nú hef ég prófað að nota þessa mælieiningu þegar ég bíð eftir strætó, en finn mig ekki alveg í því. Kannski líkar fólki ekki við sönginn minn.

Vatnsdæla er góð bók til að lesa oft. Frásagan litast af því sem yrði kallað töfraraunsæi nú til dags. Auk þess örlar á spírandi friðarboðskap. Það er verst hvað menn halda það lítið út að vera friðsamir. Það er svo stutt í heift og hefnd.

Að lokum

Þegar ég í morgun var að leita mér að stuttermabol til að klæðast í, kom allt í einu upp í hendurnar á mér svartur bolur sem ég keypti á Blönduósi fyrir nokkrum árum. Hann er með mynd af Ingimundi og sýnir hann þar sem hann ber heim húnana tvo, þá sem hann gaf síðan  Haraldi vini sínum hárfagra.

Hér líkur vangaveltum mínum um Vatnsdælu.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leikskólinn við Helgamagrastræti ber nafnið Hólmasól, í höfuðið á Þorbjörgu hólmasól sem var fyrsta barnið sem fæddist í Eyjafirði eftir því sem Landnáma segir. Þorbjörg hólmasól var barn Helga magra og Þórunnar hyrnu, en leikskólinn stendur við götur sem nefndar eru eftir þeim. - Ekki veit ég hvor sagan er eldri.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 12.2.2022 kl. 16:54

2 identicon

Ein lítil athugasemd.

Ég er nokkuð viss um að lundurinn heiti Þórdísarlundur, en ekki Vigdísarlundur.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 12.2.2022 kl. 20:09

3 identicon

Gaman að heyra uTam leikskólann Hólmasól,veit ekki hvort þetta hafi verið rannsakað.

Takk líka fyrir Þórdísarlund. Var einmitt að velta fyrir mér hvort væri rétt en nennti ekki að tékka. 
Það er gaman að fá svona athugasemdir.

kveðeja

Bergþóra

Bergthora Gisladóttir (IP-tala skráð) 12.2.2022 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 190327

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband