24.11.2021 | 23:40
Tvær barnabækur: Gerður Kristný: Heimspeki pönksins
Þegar ég vil endurræsa barnið í mér, les ég gjarnan barnabækur. Í þetta skipti las ég tvær bækur eftir Gerði Kristnýju, Iðunn og afi pönk og Meira pönk, meiri hamingja. Þær eru báðar komnar inn á Hljóðbókasafn Íslands. Safnið mitt. Gerður les þær sjálf, hún er afbragðs lesari.
Bókin er um Iðunni, vinkonur hennar, fjölskyldu og nágranna. Afinn, sem er eilífðarpönkari, fer með stórt hlutverk.
Í fyrri bókinni hverfist söguþráðurinn um þegar nýja hjólið hennar sem hún fékk í afmælisgjöf týnist. Sú seinni segir frá því þegar Iðunni langar svo mikið á útihátíðina í Krækiberjadrekahalagili. Gerður er snillingur í að búa til löng samsett orð. Þegar mamma Iðunnar vildi ekki leyfa henni að fara, fékk hún að slá upp tjaldi í garðinum og halda þar sína útihátíð. Henni lauk þó með slíkum hætti að mamma hennar féllst á að þau færu öll á hátíðina í Krækiberjadrekahalagili.
Það sem einkennir þessar bækur
Það sem einkennir þessar bækur er hugarflug og uppátæki aðalpersónunnar,Iðunnar. Hún er sögumaður og minnir mig í senn á Emil í Kattholti og bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna. Um leið er hún allt öðru vísi.
Ég sagði frá því í byrjun að mig hefði langað til að ná til barnsins í mér til að uppfæra sálina. Það tókst ekki. Að sjálfsögðu. Barnið sem ég var er afar ólíkt Iðunni. Ég upplifði mig frá upphafi minnis míns sem mikilvægt hjól í framleiðsluvél sjálfþurftarbúskaparins. Já, og kunni því vel. Mér finnst þó merkilega gaman að fylgjast með hugmyndum og uppátækjum Iðunnar og er tilbúin að hlaða því inn til viðbótar við mitt áttræða barnasjálf (ég er að vísu bara 79 ára og 11 mánaða svo ég geri eins og börnin.). En það sem mér fannst allra allra skemmtilegast við lestur þessara bóka, var að Gerður Kristný með sinn fágaða og tæra texta skyldi vera að skrifa um pönk.
Enn vantar mig myndirnar
Myndirnar sem eru í bókinni gat ég ekki nýtt mér af því að ég hlusta í stað þess að lesa. Ég veit að myndirnar eru gerðar af Halldóri Baldurssyni, hann bregst ekki. Ég kem til með að kaupa eða fá bækurnar að láni. Ég get nefnilega enn skoðað myndir, þótt lestrarleiknin hafi yfirgefið mig.
Draumurinn
Nóttina eftir að ég las fyrri bókina, dreymdi mig draum sem ég mundi glöggt þegar ég vaknaði. En yfirleitt man ég ekki drauma. Mér fannst sem ég væri að hlusta á umfjöllun um bækur. Þar sagði höfundur frá því að öll börn sem læsu bókina sjálf, fengju sælgæti, sem verðlaun. Þau væru hluti af bókakaupunum.
Draumurinn var svo raunverulegur að strax þegar ég vaknaði fór ég að hugsa um hvernig þetta væri framkvæmanlegt!
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 189886
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.