27.10.2021 | 18:08
Olga og Ástarflótti: Tvær bækur Bernhards Schlinks
Olga
Ég er að undirbúa mig fyrir bókakvöld en það er búið að vera erfitt að finna tíma til að hittast sem hentar öllum. Mikið erum við þessar fullorðnu konur tímabundnar . Í þetta skipti lásum við tvær bækur eftir Bernharð Schlink, þann sama sem skrifaði Lesarann, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir þó nokkru.
Ég ætla fyrst að tala um Olgu. Þetta er saga konu frá því í byrjun 20. aldar, en um leið er hún saga Þýskalands og saga þriggja stríða. Ég segi þriggja,því þá er meðtalið stríðið við innbyggja Afríku um land.
En fyrst um Olgu sjálfa.
Olga var meðfærilegt barn. Hún bara stóð stillt og prúð og virti hlutina fyrir sér. Fiktaði ekki. Hún missti ung báða foreldra sína og ólst upp hjá ömmu sinni, sem var hörð við hana. Og Olga flutti frá henni um leið og hún gat. Hún var námfús og langaði að fara í háskóla en á þeim tíma var það ekki í boði fyrir konur í Prússlandi, svo hún lærði að verða kennari.
Ástin
Ástin kom snemma til Olgu. Hún varð ástfangin af vini sínum og skólabróður, Herbert, í framhaldsskóla. Þau voru fyrst vinir og sálufélagar. Síðan þróast vinátta þeirra yfir í ást og kynlíf. Hún og þessi vinur hennar, eru ekki af sama sauðahúsi. Hún er alþýðustúlka en hann er af ríku og fínu fólki. Herbert fer samt ekki í háskóla eins og hún hafði gert ráð fyrir. Hann fer í herinn.
Fjarlægðin
Olgu gekk vel að kenna og hafði yndi af því. Hún hélt áfram að elska sinn gamla vin þótt hann væri farinn á vit ævintýra, landvinninga og landkönnunar. Þau skrifuðust á. Alla vega hún honum. Því hluti bókarinnar byggir á slíkum bréfum.
Þjóðin og stríðið
Olgu er lýst sem sterkri og vel gerðri manneskju.Hún tekur þátt í félagsstarfi kennara og kýs krata. Um miðjan aldur veikist hún illa og missir heyrn. Þá þarf hún að hætta kennslu. En hún kunni að sauma. Svo eftir það vann hún fyrir sér með saumaskap. Ég ætla ekki að rekja sögu Olgu og Herberts lengra hér, því eins og ég sagði fyrr í þessum pistli, er höfundurinn kannski fyrst og fremst að segja sögu Þýskalands.
Þessi bók stækkaði heiminn
Ég hélt að ég þekkti talsvert sögu 20. Aldar þó nokkuð en nú bættist við stríð Þjóðverja í Vestur- Afríku. Ef til vill væri réttara að tala um þjóðarmorð þeirra á Hereróum. Þarna hóf maðurinn sem Olga elskaði feril sinn sem hermaður.Þetta er nokkurn veginn landsvæðið þar sem nú er Namibía. Vissi Olga hvað hann var að gera? Eða er ástin raunverulega blind?
Lokaorð
Þessi bók skildi mig eftir með margar ósvaraðar spurningar. Það er gott. Á eftir las ég smásögur eftir sama mann, Ástarflótti. Reyndar fannst mér þær naumast vera smásögur, þær eru svo efnismiklar. Flestar þeirra, ef ekki allar fjalla þær um blekkingaleik manneskjunnar við sjálfa sig þegar hún reynir að svindla ögn á eigin prinsippum sérstaklega þegar kemur að ástinni.
Þökk sé þeim
Höfundur þessara bóka Bernhard Schlink er fæddur 1944. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur starfað sem slíkur.
Þegar ég hef lokið bók, lesið eða hlustað finn ég til þakklætis. Ekki bara til höfundarins heldur líka til allra hinna sem færa mér þær. Það var Elísa Björg Þorsteinsdóttir sem þýddi Olgu. Hún svíkur aldrei. Það var Helga Elínborg Jónsdóttir sem las. Hún bregst Ekki.Hluti bókarinnar var reyndar lesinn af karlmanni. Nafns hans var ekki getið. Það virðist vera einhverjir vankantar á því hjá Hljóðbókasafninu að birta nöfn lesara er þeir eru fleiri en einn.Þetta þarf að laga. Sögurnar í Ástarflótta þýddi Þórarinn Kristjánsson. Þekki hann ekki. Það er Sólveig Hauksdóttir sem les. Sólveig er sérstakur lesari. Þessa bók las hún listavel.
Það verður gaman að spjalla um þessar bækur við stöllur mínar þegar bókakvöldið rennur upp.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 189886
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.