12.10.2021 | 15:25
Slétt og brugðið: Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Útkoma bókarinnar, Slétt og brugðið eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur árið 2021 hafði farið fram hjá mér.
Það var nafnið á bókinni sem vakti áhuga minn, ég hélt að bókin fjallaði um prjónaskap. Fljótlega sá ég þó að svo var ekki, en ákvað samt að lesa hana. Bókin fjallar um konur á miðjum aldri. Þær hafa hist í saumaklúbbi síðan í menntaskóla. Þegar þessi saga hefst, hafa þær ákveðið að breyta inntaki klúbbsins, sleppa handavinnunni. Í stað þess ætla þær að kynna sér gyðjur, sækja til þeirra kraft og fyrirmyndir.
Þótt konurnar séu sex í klúbbnum, snýst frásagan einkum um tvær þeirra, Freyju og Eddu. Þær eru báðar lærðar hjúkrunarfræðingar. En nú, eftir að hafa bætt við sig námi, vinnur önnur á fæðingardeild en hin á líknardeild .
Lesandinn fær þannig lítillega að kynnast upphafi og endalokum lífsins. Það er Freyja sem er aðalpersóna. Við fáum líka að kynnast Eddu vinkonu hennar, en hinir klúbbfélagarnir eru meira í bakgrunni.
Gyðjur
Það er Linda sem fær hugmyndina um að kynna sér gyðjur. Henni finnst hún vera stödd á flæðiskeri, henni hefur verið sagt upp en hún hefur verið blaðamaður til margra ára. Hún heldur því fram að konum vanti fyrirmyndir í lífinu og þær þyrftu á styrk að halda.
Þetta er sem sagt kvennabók, jafnvel bók fyrir stelpur. Frásögnin er létt og leikandi. Oft fyndin, jafnvel meinhæðin.
Þetta er bók um framgang og samskipti og um vináttu. Ég hefði gjarnan viljað að höfundurinn hefði farið dýpra í gyðjufræðin en auðvitað get ég gert það sjálf seinna.
Að lestri loknum kynnti ég mér hvort fleiri bækur væru til innlesnar eftir Árelíu Eydísi og fann tvær, Söru og Á réttri hillu: Leiðin til meiri hamingju í lífi og starfi. Auðvitað er ég búin að lesa þær báðar. Þegar ég var búin með Á réttri hillu, sem er bók um hagnýta sáifræði og sjálfsrækt, rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað er þetta hún Árelía sem ég hef verið á námskeiðum hjá, meðan ég var enn á vinnumarkaði og var að fylgjast með því sem var efst á baugi í stjórnendafræðum. Af hverju fattaði ég þetta ekki strax? Og svo. Breytir það einhverju? Nei, líklega ekki og ef einhverju þá er það bara til hins betra. Gallinn er bara sá að líklega er ég vaxin upp úr svona bókum.
Árelía hefur sem sagt skrifað fleiri, fleiri bækur. Ein þeirra heitir, Sterkari í seinni hálfleik og er flokkuð sem sjálfstyrkingarbók. Bók fyrir mig og fólk á mínum aldri (ég er að verða áttræð) gæti heitið, Sterkust í framlengingu. Kannski skrifar Áróra einhvern tíma slíka bók. Ekki veitir af.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 189886
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.