1.10.2021 | 14:18
Vesalingarnir og Maríukirkjan eftir Victor Hugo
Þegar ég vil gera virkilega vel við mig, kýs ég að lesa langar bækur. Ég hef verið að flytja búferlum og í rótinu sem fylgdi flutningunum ákvað ég að finna mér verulega langa bók. Fyrir valinu urðu fyrstVesalingarnir eftir Victor Hugo og síðan kom Maríukirkjan. Fleira fann ég ekki innlesið eftir þetta mikla skáld. Ég hafði áður, sem unglingur, lesið Maðurinn sem hlær en fann hana nú ekki sem hljóðbók.
Vesalingarnir
Fyrst las ég Vesalingana. Ég hafði ekki lesið hana áður en þekkti til hennar í gegnum kvikmyndir og í gegnum frábæra leiksýningu í Þjóðleikhúsinu byggða á efni hennar.
Fyrst um skáldið
Victor Hugo er franskur, fæddur 1802 og dó 1885. Hann skrifaði ljóð, skáldsögur og leikrit. Auk þess var hann virkur í pólitík. Þetta voru umbrotasamir tímar mikilla atburða og Victor var mitt í hringiðu pólitískra hræringa. Í skáldskap fylgdi hann rómantísku stefnuunni og í pólitík var hann lýðræðissinni. Auðvitað spegla bækurnar pólitískar hugmyndir hans. Í grunninn eru Vesalingarnir æsilegur reifari í fjórum bindum. Fyrstu tvö bindin eru þýdd af Einari H. Kvaran, síðari tvö eru þýdd af Vilhjálmi Þ. Gíslasyni. Þessar þýðingar voru gerðar úr dönsku. Nú hefur Torfi Tulinius yfir farið þýðingarnar, borið þær saman við frumtextann og fært til betri vegar. Torfi hefur einnig skrifað eftirmála. Bókin í heild er 38 klukkustundir og 14 mínútur í hlustun. Sigurður Skúlason las. Hann gerði það vel eins og hann á vanda til.
Vesalingarnir er æsileg frásögn þar sem slegið er á alla strengi mannssálarinnar. Satt best að segja fannst mér oft erfitt að hlusta á lýsingar á neyð og kvöl fólksins. Ekki bætti úr skák vitneskjan um að það er ennþá mikil neyð og það eru enn stundaðar pyndingar á fólki. Ekki góð koddalesning.
Maríukirkjan
Maríukirkjan kom út í Frakklandi 1831. Bókin sem ég var að hlusta á er þýdd af Björgúlfi Ólafssyni og kom fyrst út á Íslandi árið 1945, held ég. Margir þekkja hana undir nafninu Hringjarinn í Notre Dam. Þetta er byggt upp sem söguleg skáldsaga frá 15. öld, sögusviðið er París. Í raun er þetta fyrst og fremst ástarsaga. Saga um vonlausa ást. Afskræmdi krypplingurinn Qvasimodo fellir hug til hinnar undurfögru sígaunastúlku Esmeröldu. Stór hluti sögunnar fer fram í Notre Dam. Auk þess skrifar höfundurinn kafla um skipulag borgarinnar og húsagerðarlist. Victor Hugo var rétt um þrítugt þegar bókin kom út. Þvílík flæðandi mælska. Það er Björgúlfuur Ólafsson sem þýðir þessa bók sem kom út á íslensku 1945, held ég. Það er fúlt að skrifa held ég. En því miður hefur Hljóðbókasafnið ekki nægilegar góðar bókfræðilegar upplýsingar fyrir grúskara eins og mig. Það er Guðmundur Ingi Kristjánsson, hann skilar efninu vel.
En svolítið gat ég lesið mér til, stafað mig í gegnum. Þessi Björgúlfur er ótrúlega spennandi karl. Fæddur 1882 (af kynslóð ömmu minnar). Hann þjálfaði Vestmanney inga í knattspyrnu, var herlæknir í her Hollendinga í Indónesíu, stofnaði Skeljung og var bóndi á Bessastöðum og fleira og fleira. Ég get að sjálfsögðu ekki borið þýðingu hans saman við frumtextann en þessi bók er á flæðandi góðri og gróskumikilli íslensku.
Eftirmáli
Í reynd eru báðar þessar bækur eiginlega ofjarl minn. Til að njóta þeirra til fulls, væri upplagt að lesa þær undir handleiðslu góðs kennara og bókmenntafræðings, t.d. Torfa Túliníusar.
Það er einhver tign yfir löngum efnismiklum bókum. Það er eins og að dvelja í dómkirkju, þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja.
Myndin er af kirkjuklukkunum í Bjarnanesi.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 189886
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.