25.3.2021 | 17:37
Eldarnir: Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Ég veit ekki hvernig eldgosið sem kennt er við Geldingadali endar, hinsvegar veit ég hvernig bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur um eldana lýkur. En vegna þeirra sem enn hafa ekki lesið þá bók, ætla ég ekki að ljóstra því upp hér.
Eru spennubækur hættulegar
Það er stundum haft á orði, ef bók er spennandi, að lesandi geti naumast lagt hana frá sér. Þetta á við mig og lestur/hlustun mína á Eldunum. Ég get ekki vanið mig af því að tala um lestur, þótt ég geti nú orðið ekki lengur lesið. En það er lán í óláni að hafa aðgang að Hljóðbókasafni Íslands. Það var Sunna Björk Þórarinsdóttir sem las bókina. Hún gerði þaðð afbragðsvel. Takk Sunna. Þetta er fyrsta bókin sem ég hef raunverulega lesið/hlustað á í einni lotu. Hún tekur um það bil 9 klukkustundir í hlustun. Ég lauk henni klukkan 5 að morgni. Gosið hófst sama dag.
Ég var byrjuð að horfa á séra Bown í sjónvarpinu, en enn með hugann við bókina. Þegar tilkynningin kom um gos kom á skjáinn, var ég nokkra stund að átta mig á því, að þetta gos var í raunheimi. Nú hafa liðið nokkrir dagar og enn er bókin jafn ofarlega í huga mér og gosið.
Allt er svo líkt. Meira að segja Milan yfirlögregluþjónn er næstum eins og Víðir.
Náttúruöflin
Þessi saga fjallar um náttúruöflin sem við búum við og
þau sem búa í okkur.
Aðalpersóna sögunnar er Anna Arnardóttir. Hún hefur klifið alla þá tinda sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er prófessor í eldfjallafræðum og forstöðumaður Jarðvísindastofnunar. Hún á gæflyndan mann og elskuleg börn. Og fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í stóru einbýlishúsi og heimaskrifstofan er dásamleg.
Fortíð
Anna á sér óvenjulega fortíð. Hún er alin upp af föður sínum, sem hún dáir. Móðir hennar sem er bókmenntakona, hafnaði henni. Líklega er réttara að orða það sem svo, að hún réði ekki við móðurhlutverkið. Anna tekur áhuga á jarðvísindum og eldgosum í arf eftir föður sinn.
Gos undan Reykjanesi
Eldgosið í þessari sögu hófst í sjó út af Reykjanesi. Það orsakar mikla ösku og flugvöllurinn er lokaður. Vegagerðin lætur veghefla hreinsa ösku af vegum. Nú fer tveimur sögum fram samtímis (þessi setning er fengin að láni úr Heimskringlu). Anna sinnir starfi sínu sem vísindakona og hlutverki sínu sem eiginkona og móðir. En það virðist vera einhver glufa í hjónabandinu og þar ryðst ástin inn. Anna reynir að takast á við ástina innra með sér með sinni aðferð. Skoða hana vísindalega. En hún ræður ekki við hana frekar en jarðeldana.
Ég verð að játa að ég hafði meira gaman af fræðilega hluta þessarar bókar, þ.e. þeim sem fjallar um jarðvísindi. Hann er snilldarlega vel skrifaður. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki upplagt að nota hann sem kennsluefni. Ég hafði lúmskt gaman af kerfislega hluta frásagnarinnar. Fannst engu líkara en þarna væri sönn saga á ferðinni,saga um smá núning milli vísinda- og valdamanna. Vísindakonan Anna undrast afstöðu okkar Íslendinga til eldfjalla. Í útlömdum óttast menn eldfjöll og hata þau. Á Íslandi er fólk stolt af eldfjöllum okkar og skírir börnin sín eftir þeim.
Persónulýsingar Sigríðar eru knappar, eins og mynd sem dregin er í fáum dráttum. Mér finnst samt eins og ég gæti þekkt persónur hennar á götu eða á sjónvarpsskjánum. (Ég veit t.d. alveg hver forsætisráðherrann úr Eyland er)
Það er vandi að lýsa góðri bók. En ég reyni þó. Í þessari bók fer allt saman, tónninn sem er sleginn er nýr og ferskur, stíllinn fær mann til að elska íslenskuna enn meir. Auk þessa er bókin bæði fyndin og fræðandi.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.